„Hvenær linnir þessu tilfinningaklámi? Hvenær fáum við að vera í friði hér úti á þessari eyju í Dumbshafi og höfum aldrei gert neinum neitt mein?“
– spyr prófessor í stjórnmálafræði í tilefni þess að hópur fólks lætur sig það varða hvort stjórnvöld brottvísa 17 ára trans unglingi og foreldrum hans frá landinu.
Sami prófessor kom í heimsókn í stjórnmálafræðiáfanga þegar ég var í menntaskóla, útskýrði fyrir okkur réttlæti markaða og óréttmæti þungunarrofa.
Ég man eftir líkingamálinu sem hann beitti um bæði viðfangsefnin. Það snerist hvort tveggja um eyðieyjar. Til að útskýra mikilvægi frjálsra viðskipta dró prófessorinn upp mynd af tveimur skipbrotsmönnum á eyðieyju. Annar fann kókoshnetu en hinn er einmitt með hníf. Eða hvort annar fann dós og hinn dósaopnara. Það var að minnsta kosti ljóst að þessir tveir tiltölulega lánsömu, frjálsu, skipbrotsmenn gætu haft nokkurt gagn af viðskiptum hvor við annan og best færi á því að þeir settust niður til samningaviðræðna … (það liggur heil Buñuel-kvikmynd í þessari fjarstæðu og eiginlega þyrfti að gera hana).
Hin líkingin snerist líka um eyðieyju. Á raunverulegri eyju í Dumbshafi stóð prófessor og talaði um eyjur eins og þær væru allar snyrtilegur hugarburður eða blekteikningar, með skýrar línur. Og hér kom skýr lína, rökin sem Hannes færði gegn þungunarrofum, við menntaskólanema undir aldamót: á eyju nokkurri eru skipbrotsmenn, einn eða fleiri, hólpnir í bili. Þar hafa þeir í sig og á en þó kannski ekki mikið meir en það. Þá rekur eina manneskju enn á ströndina, allslausa. Jafnvel þó að á eyjunni sé ekki nóg til skiptanna, sagði prófessorinn, jafnvel þó að framtíðin sé óviss, þá ber okkur skylda til að veita nýliðanum viðtöku. Ekki endilega gefa henni með okkur, en leyfa henni þó að vera: undir öllum kringumstæðum væri rangt að varpa annarri manneskju frá okkur, ímynduðu eyjaskeggjunum, aftur út á haf.
Hvenær linnir þessu tilfinningaklámi, hefðum við nemendurnir þá getað spurt, ef við hefðum verið aðeins stálpaðri, stigið betur í lappirnar frammi fyrir prófessorum. Hvaða þvættingslíking er þetta og hvers konar rök eiga að felast í henni?
Þessar eyjar Hannesar hafa skotið upp kollinum hjá mér á seinni árum, í hvert sinn sem ég sé hann viðra afstöðu sína til flóttafólks. Þetta var líkingin sem hann valdi, þetta var afstaðan sem hann lét sem hann hefði, ófrávíkjanlega grundvallarafstaðan, einmitt þegar viðfangsefnið var ekki raunverulegir eyjaskeggjar, ekki raunverulegt aðkomufólk, á raunverulegri eyju, í hinum raunverulegasta raunveruleika.
Sem vekur nokkrar spurningar. Er Hannes Hólmsteinn raunverulega til? Og ef við gefum okkur, rökræðunnar vegna, að svo sé, hvernig færi þá hinn raunverulegi Hannes að ef hann skyldi einn daginn raunverulega hafna á eyðieyju, við annan raunverulegan mann, með ekkert meðferðis nema það eina sem forsjálnin kenndi honum að skilja aldrei við sig, einn raunverulegan dósaopnara?