Ímyndum okkur prófessor með dósaopnara

18.2.2020 ~ 2 mín

„Hvenær linnir þessu tilfinn­ingaklámi? Hvenær fáum við að vera í friði hér úti á þess­ari eyju í Dumbs­hafi og höfum aldrei gert neinum neitt mein?“

spyr prófessor í stjórn­mála­fræði í tilefni þess að hópur fólks lætur sig það varða hvort stjórn­völd brott­vísa 17 ára trans unglingi og foreldrum hans frá landinu.

Sami prófessor kom í heim­sókn í stjórn­mála­fræði­áfanga þegar ég var í mennta­skóla, útskýrði fyrir okkur rétt­læti mark­aða og órétt­mæti þungunarrofa.

Ég man eftir líkinga­mál­inu sem hann beitti um bæði viðfangs­efnin. Það sner­ist hvort tveggja um eyðieyjar. Til að útskýra mikil­vægi frjálsra viðskipta dró prófess­or­inn upp mynd af tveimur skip­brots­mönnum á eyðieyju. Annar fann kókos­hnetu en hinn er einmitt með hníf. Eða hvort annar fann dós og hinn dósa­opn­ara. Það var að minnsta kosti ljóst að þessir tveir tiltölu­lega lánsömu, frjálsu, skip­brots­menn gætu haft nokk­urt gagn af viðskiptum hvor við annan og best færi á því að þeir sett­ust niður til samn­inga­við­ræðna … (það liggur heil Buñuel-kvik­mynd í þess­ari fjar­stæðu og eigin­lega þyrfti að gera hana).

Hin líkingin sner­ist líka um eyðieyju. Á raun­veru­legri eyju í Dumbs­hafi stóð prófessor og talaði um eyjur eins og þær væru allar snyrti­legur hugar­burður eða blekteikn­ingar, með skýrar línur. Og hér kom skýr lína, rökin sem Hannes færði gegn þung­un­ar­rofum, við mennta­skóla­nema undir alda­mót: á eyju nokk­urri eru skip­brots­menn, einn eða fleiri, hólpnir í bili. Þar hafa þeir í sig og á en þó kannski ekki mikið meir en það. Þá rekur eina mann­eskju enn á strönd­ina, alls­lausa. Jafn­vel þó að á eyjunni sé ekki nóg til skipt­anna, sagði prófess­or­inn, jafn­vel þó að fram­tíðin sé óviss, þá ber okkur skylda til að veita nýlið­anum viðtöku. Ekki endi­lega gefa henni með okkur, en leyfa henni þó að vera: undir öllum kring­um­stæðum væri rangt að varpa annarri mann­eskju frá okkur, ímynd­uðu eyja­skeggj­unum, aftur út á haf.

Hvenær linnir þessu tilfinn­ingaklámi, hefðum við nemend­urnir þá getað spurt, ef við hefðum verið aðeins stálp­aðri, stigið betur í lapp­irnar frammi fyrir prófess­orum. Hvaða þvætt­ings­lík­ing er þetta og hvers konar rök eiga að felast í henni?

Þessar eyjar Hann­esar hafa skotið upp koll­inum hjá mér á seinni árum, í hvert sinn sem ég sé hann viðra afstöðu sína til flótta­fólks. Þetta var líkingin sem hann valdi, þetta var afstaðan sem hann lét sem hann hefði, ófrá­víkj­an­lega grund­vall­arafstaðan, einmitt þegar viðfangs­efnið var ekki raun­veru­legir eyja­skeggjar, ekki raun­veru­legt aðkomu­fólk, á raun­veru­legri eyju, í hinum raun­veru­leg­asta raunveruleika.

Sem vekur nokkrar spurn­ingar. Er Hannes Hólm­steinn raun­veru­lega til? Og ef við gefum okkur, rökræð­unnar vegna, að svo sé, hvernig færi þá hinn raun­veru­legi Hannes að ef hann skyldi einn daginn raun­veru­lega hafna á eyðieyju, við annan raun­veru­legan mann, með ekkert meðferðis nema það eina sem forsjálnin kenndi honum að skilja aldrei við sig, einn raun­veru­legan dósaopnara?