Ef það spyrðist frá Ungverjalandi, Tyrklandi, Rússlandi eða jafnvel Bandaríkjunum, að þar hefðu stjórnvöld ráðið fyrrverandi lögreglustjóra sem ritstjóra yfir stærsta fjölmiðli landsins, þá þætti inntak fréttarinnar skýrt, það lægi í augum uppi: valdhafar herða tökin á fjölmiðlum. Að velta fyrir sér þýðingu sömu atburðarásar á Íslandi virðist hins vegar mörgum þykja dónaskapur og spyrja hvers hann á að gjalda, þetta annálaða blíðmenni.
Í apríl 2006 átti Dómsmálaráðuneytið í viðræðum við fulltrúa bandarískra stjórnvalda vegna yfirvofandi brottfarar Bandaríkjahers frá Íslandi og lokun herstöðvarinnar á Reykjanesi. Í bandarísku sendiráðsskeytunum sem Wikileaks birti árið 2010 má finna skjöl um þessar viðræður. Í nokkrum skeytum kemur nafn Stefáns Eiríkssonar við sögu, sem þá var yfirmaður ráðuneytisins á sviði löggæslu og dómsmála. Hér verður litið til tveggja þessara skeyta.
Fyrra skeytið ber yfirskriftina „ICELAND: COAST GUARD DIRECTOR SHUT OUT OF POST-NASKEF PLANNING“. Megininntak þess er að Björn Bjarnason, þá dómsmálaráðherra, sniðgangi um þær mundir Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, haldi honum utan við viðræður um framtíðarskipulag gæslunnar og annað tengt. Þar er vitnað í Stefán Eiríksson um ástæður þessarar sniðgöngu og haft eftir honum að endurtekið hafi fulltrúar gæslunnar „vælt“ í fjölmiðlum um að stofnunina skorti búnað og fjárreiður til að valda hlutverki sínu. Vegna slíkra umkvartana og leka hugleiði ráðherrann jafnvel að einkavæða hluta af starfsemi Landhelgisgæslunnar, enda séu verktakafyrirtæki og starfsmenn þeirra þakklátari að fá yfirleitt eitthvað að gera og kvarti því síður eða leki nokkru.
Þetta trúnaðarskjal er undirritað af þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carol van Voorst. Viðtakendur þess eru ráðuneyti innanríkisöryggismála (Department of Homeland Security), þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna (National Security Council), varnarmálaráðherra landsins og innanríkisráðherra, höfuðstöðvar NATO og stjórnvöld í Noregi. Skjalinu lýkur á þeirri ábendingu sendiherrans til viðtakenda að réttast sé, um þær mundir, að bera erindi sem varða framtíð varnarmála á Íslandi upp við Stefán Eiríksson:
„Under the circumstances, potential U.S. interlocutors may be wise to route their proposals for ICG reforms through Eiriksson, whose political star seems to be on the rise — or at least not imploding.“
Það var þann 3. apríl 2006. Rúmum þremur vikum síðar, 27. apríl 2006, rekur sendiherrann gang viðræðnanna í öðru skeyti til sömu viðtakenda. Þar birtist aftur nafn Stefáns Eiríkssonar, í eftirfarandi efnisgrein:
„Note: Ministry of Justice Deputy Permanent Secretary Stefan Eiriksson added that Reykjavik wishes to prioritize intelligence cooperation as described by the U.S. side in March and hopes to enhance cooperation between the U.S. and Icelandic Coast Guards. He announced that the National Commissioner of Police and the Icelandic Coast Guard would contact the Embassy in early May to initiate collaboration in these areas as well as on training and non-proliferation activities.“
Með öðrum orðum lagði Stefán Eiríksson áherslu á það í viðræðum Íslands og Bandaríkjanna um framtíðarskipulag varnarmála að áhersla yrði lögð á samstarf landanna í leyniþjónustustarfsemi. („Samstarf milli leyniþjónustustofnana landanna“ væri kannski nærtækari þýðing, en þá þyrfti fyrst að rifja upp hvernig það er aftur allt saman, hvort það heitir að slík stofnun sé starfrækt á Íslandi yfirleitt, hvernig hún varð til, hver stýrir henni, í hvaða augnamiði og svo framvegis …)
Í fyrra skeytinu er hermt að Björn Bjarnason hafi ekki litið á Georg Lárusson sem „team player“. Innifalið er að þannig líti hann hins vegar á Stefán. Skeytin varpa um leið nokkru ljósi á hvers vegna einmitt það að vera góður liðsmaður Björns Bjarnasonar er ekki ótvíræður kostur í fari útvarpsstjóra.
Eftir að Stefán var ráðinn í nýja djobbið, nú á dögunum, hefur mörgum semsagt þótt ósanngjarnt að honum sé yfirleitt borið það á brýn að hafa áður verið lögreglustjóri. Þeir spyrja hvort batnandi mönnum sé ekki best að lifa, hvort endurhæfing sé óhugsandi, og virðast þá líta á störf Stefáns við velferðarsvið Reykjavíkurborgar sem eins lags betrunarvist. Upplýsingarnar sem blaðamenn Wikileaks miðluðu um hlutverk hans innan Dómsmálaráðuneytisins færa okkur um leið prófstein á endurhæfingarstarfið í ráðhúsinu: ef fréttastofa RÚV miðlar á næstunni áður óbirtum trúnaðargögnum um samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði leyniþjónustustarfsemi, má líta á það sem vísbendingu um að ritstjórinn Stefán veiti trúnaði fréttamiðils við almenning forgang fram yfir trúnað liðsmanns við yfirboðara.
En ef ekki, hvað er þá minna ískyggilegt við að fyrrverandi lögreglustjóri stýri stærsta fjölmiðil Íslands en ef þú fréttir af sömu tilhögun í öðru landi?