Berlinale. Á leiðinni inn á hátíðarsvæðið gekk ég framhjá fólki sem stóð með borða til að andmæla yfirvofandi heræfingum NATO, Defender Europe 2020, síðan manni sem rétti mér miða með ákalli um samstöðu með Julian Assange.
Ég hef sótt þessa hátíð nokkuð oft gegnum tíðina og skrifað þaðan fyrir ýmsa miðla – gagnrýni, frásagnir, einhver viðtöl. Fyrir tveimur árum var ég starfandi hjá Kvennablaðinu og tók þá viðtal við tónlistarkonuna M.I.A., sem var þar stödd vegna heimildamyndar um hana sjálfa, sem hún var ekki allskostar sátt við. Það var skemmtilegt. En vegna þess hvað menningarumfjöllun í íslenskum fjölmiðlum er rýr og stopul og skrykkjótt, og vegna þess hvað hún snýst að miklu leyti um Ísland, þá verður efni frá svona hátíðum stundum svolítið, tja, samhengislaust? Eins manns leit að línulegri dagskrá – ef engin samfelld kvikmyndaumfjöllun fer fram í heilu málsamfélagi, ef engin gagnrýnin umræða er til staðar á grundvelli hugmynda, fagurfræði og þeirrar pólitíkur sem ræður fingrum hvers sem tekur upp myndavél, hvaða máli skiptir þá hvort síðasta myndin frá Atom Egoyan stóðst væntingar – eða hver heitir Atom og hvaða væntingar ættum við að hafa til hans yfirleitt? Og hvernig getur það varðað einn eða neinn hvernig samskiptum M.I.U. er háttað við vin sinn, þennan sem gerði heimildamyndina? Ég veit ekki hvernig þetta orkar á lesendur, en hérna lyklaborðsmegin getur manni liðið svolítið kjánalega, og þótt heldur gegnsætt að blaðamanninn langaði bara í bíó, langaði að sjá nokkrar myndir, nýjar myndir, góðar, umdeilanlegar, taka þátt í eða vera allavega vitni að áhugaverðri deilu frá upphafi, heyra höfund mæta spurningum á meðan verkið er ferskt, bera kennsl á bæringar á sviðinu, í myndmiðlinum sjálfum – læra eitthvað, á góðum degi, af þeim sem kunna miklu meira en hann – gera það ekki en hafa í tíu daga heimild upp á vasann til að þykjast vita meira en hann veit um eitthvað sem flestum finnst engu skipta en gæti gert það samt. Eða vera bara örlitla stund í sama herbergi og Bill Murray.
Undanskilið frá samhengisleysinu er Ásgeir H. og Menningarsmyglið. Ásgeir er alvöru menningarblaðamaður og ástríðugagnrýnandi. Gerist áskrifendur. Ég ætla hins vegar bara að halda áfram að tala um sjálfan mig.
Eins og kvikmyndahátíðir séu ekki nógu kvíðavaldandi einar sér, þetta val milli fimm eða tíu eða tuttugu kvikmyndasala frá morgni fram yfir miðnætti, hvernig maður bestar dvölina, hámarkar andlega ávinninginn af augnhimnum sínum, þá bætist að jafnaði við nokkuð brýn þörf á að sannfæra sjálfan sig, ritstjórnir og ímyndaða lesendur um að erindi manns við dagskrána varði að auki annað fólk.
Í ár á ég ekki við þennan vanda að stríða. Ég þarf ekki að hylma yfir eitt eða neitt, ekki láta eins og ferðir mínar um bíósali eigi erindi við nokkurn nema sjálfan mig. Í þetta sinn fer ég um með rammheiðarlegasta blaðamannapassa minn til þessa. Nú starfa ég ekki hjá neinum fjölmiðli og tók það samviskusamlega fram: ég starfa ekki hjá neinum fjölmiðli, sagði ég í beiðni um skráningu á hátíðina, og veit ekki hvort þeir hafa áhuga á þessu efni yfirleitt, en mig langar að mæta. Og ég er með blogg. Ég sagðist sýna því fullan skilning ef hátíðin skyldi hafna þessu óneitanlega rýra boði – en viti menn.
Nú vappa ég um hátíðina og hef engu lofað nema að þegja. Í dag, á fyrsta degi veislunnar, fimmtudaginn 20. febrúar, sá ég eina kvikmynd: Minimata, eftir Aileen Mioko Smith og Eugene Smith, með Johnny Depp í aðalhlutverki. Þegar ég fletti henni upp að kvöldi sé ég að heimsfrumsýning myndarinnar er daginn eftir, föstudaginn 21. febrúar, og það eina sem ég hef lofað er að virða embargo á alla umfjöllun undir þeim kringumstæðum, þ.e. að segja ekki múkk fram að frumsýningu. Það heit mitt held ég fúslega.
Eftir að ég kom heim sá ég að fyrr um daginn var boðað til mínútu þagnar á hátíðinni, til minningar um fórnarlömb árásarinnar í Hanau þennan sama dag. Í frétt á RÚV sá ég myndbandsupptöku af hatursglæp í Kópavogi.