Saga tveggja Simma

12.2.2020 ~ 4 mín

Mér hefur þótt forvitni­leg fyrir­litn­ingin sem stuðn­ings­fólk núver­andi stjórn­ar­flokka sýnir Sigmundi Davíð Gunn­laugs­syni, vitandi jafn vel og við hin að ekkert gefur til kynna, svo dæmi sé tekið, að Sigmundur sé óheið­ar­legri maður en núver­andi fjár­mála­ráð­herra. Hvað gerði Sigmundur af sér í huga þeirra?

Þessi spurn­ing rifj­að­ist upp fyrir mér nú á þriðju­dag þegar annar Simmi tók til máls, Sigmar Vilhjálms­son, þekktur fyrir hress­leika. Hress gaur sem útskýrir í útvarps­við­tali hvers vegna verka­lýðs­bar­átta er nú bæði óþörf og fáránleg:

„Það hefur aldrei verið meiri stöð­ug­leiki, nei kaup­máttur eins og síðast­liðin þrjú ár. Þið finnið það bara sjálfir á ykkar skinni, það finna það bara allir á sínu skinni. Þú hefur farið oftar út, þú ert líklega búinn að endur­nýja bílinn.“

Simmi hressi er áreið­an­lega ekki bara að bulla. Þetta blasir senni­lega við honum: þaðan sem hann horfir má ætla að ríki góðæri eins langt og augað eygir, allan hring­inn. Og það á hann að nokkru leyti Simma fúla að þakka.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vann kosn­ingar út á loforð um að vinir Simma gætu endur­nýjað bílinn sinn og farið oftar út. Það var vorið 2013, einu kjör­tíma­bili eftir hrun – vinir Simma höfðu þá ekki endur­nýjað bílinn og varla farið út, að heita má, í fjögur, fimm ár. Og Sigmundur Davíð stóð við þetta loforð. Ári eftir kosn­ingar tók þingið til umræðu frum­varp til laga um „leið­rétt­ingu verð­tryggðra fast­eigna­veð­lána“. Leið­rétt­ing­una. Innan við tveimur mánuðum síðar voru lögin samþykkt, um miðjan maí 2014. Í kjöl­farið bauðst greið­endum fast­eignalána, það er eigendum húsnæðis, að sækja um sína Leið­rétt­ingu. Vetur­inn þar á eftir birt­ust útreikn­ingar um hverjir fengju hvað og skömmu síðar var summan, Leið­rétt­ingin, milli­færð úr ríkissjóði. 

Árið 2017 birtu stjórn­völd átta blað­síðna skýrslu um hvernig til tókst. Ritstjórn Kjarn­ans dró fram nokkrar lykil­stærðir úr skýrsl­unni. Alls voru 72,2 millj­arðar króna milli­færðir úr ríkis­sjóði til eigenda fast­eigna. 86% þeirrar fjár­hæðar rann til tekju­hærri helm­ings lands­manna. Eftir stóðu 14% til tekju­lægri helm­ings­ins. Það er að segja: tekju­hærri helm­ingur lands­manna fékk sexfalt meiri pening, á mann, í vasann, úr ríkis­sjóði en tekju­lægri helm­ing­ur­inn. (Og tekju­lægsta tíundin? Hver veit.)

„Þeir sem voru „leið­rétt­ir“ fengu því bæði að borða kök­una og eiga hana. Þ.e. þeir fengu skaða­bætur úr rík­is­sjóði fyrir tjón sem þeir urðu ekki fyr­ir, og njóta síðan mik­illar hækk­unar á fast­eigna­verð sem orðið hefur á síð­ustu árum, meðal ann­ars vegna leið­rétt­ing­ar­inn­ar. Þessi hópur hefur hagn­ast gríð­ar­lega vegna Leiðréttingarinnar“

skrif­aði Þórður Snær – og hélt áfram:

„Eftir sitja þeir sem eiga lítið eða ekk­ert og þeir sem hafa mjög lágar tekj­ur. Aðstæður þeirra hafa versnað mjög á und­an­förnum árum. Leigu­verð hefur hækkað um 60 pró­sent frá byrjun árs 2011 og fram­boð á þeim mark­aði er nán­ast ekk­ert, vegna þess að hluti íbúða sem voru þar áður er í útleigu til ferða­manna og hinn hlut­inn er í eigu aðila sem græða bæði á hækk­andi leigu­verði og hækk­andi eignarverði.“

Fleira kom til en Leið­rétt­ingin var áreið­an­lega afdrifa­rík­asta, staka ákvörð­unin sem stjórn­völd eftir­hruns­ár­anna tóku til að færa dreggjar hruns­ins yfir á fólkið sem enginn þurfti þaðan í frá að hlusta á. 72 millj­arðar eru nýti­legt fé. Þeir voru ekki nýttir til reisa spít­ala, hlú að eldri borg­urum, hækka bætur, þjóð­nýta Gamma eða rann­saka einka­væð­ingu bank­anna. Þá hefðu líka vinir Simma þurft að safna lengur fyrir næsta bíl. 

Fyrir Leið­rétt­ingu voru hérumbil allir í einhverju klandri, einhverju basli, svolítið stúrnir. Eftir Leið­rétt­ingu er nógu gaman hjá nógu mörgum til að hunsa hina, eða smána þegar heyr­ist til þeirra: þeir eru öfund­sjúkir, þær eru alltaf eitt­hvað að væla, þau eru siðlaus, hlaup­ast undan ábyrgð suður í lönd og níðast þar á heima­mönnum með því að kaupa ferska tómata.

Snilldin við hress­ingu Simma fúla fólst í stærð­fræði­lega nákvæmu póli­tísku innsæi: það þarf natni til að sjá hversu mörgum þyrfti að hleypa í þýfið til að samstaða mynd­að­ist um að halda því – en skipta góss­inu um leið þannig upp að krítískur massi fengi í það minnsta tilfinn­an­legt hlass af kass. Krítískur massi, að meðtöldum þing­mönnum hinna flokkanna. 

Sigmundur Davíð misreikn­aði sig aðeins um eitt: hann bjóst við þakk­læti. Hann sá ekki fyrir að fólkið sem hann færði þessa líka hress­ingu myndi fyrir­líta hann einmitt vegna þess að hann deildi með þeim þýfinu. Þetta hefði hann þó átt að skilja enda snýst fýla þeirra út í hann, einmitt eins og Leið­rétt­ingin sjálf, um að borða kökuna og eiga hana. Hin hressu sögðu já, takk. Fegin. En þau grettu sig um leið, til að halda sjálfs­virð­ing­unni, og héldu fyrir nefið. Nú þegar pakkið gerir vart við sig, tekju­tí­und­irnar sem aldrei endur­nýja bílinn, þá finna hin hressu til ákveð­ins viðbjóðs eða fyrir­litn­ingar. Allt sem þau eiga er undir því komið að bera ekki kennsl á hvar þessi tilfinn­ing á uppruna sinn, að hverju hún beinist.