Mér hefur þótt forvitnileg fyrirlitningin sem stuðningsfólk núverandi stjórnarflokka sýnir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, vitandi jafn vel og við hin að ekkert gefur til kynna, svo dæmi sé tekið, að Sigmundur sé óheiðarlegri maður en núverandi fjármálaráðherra. Hvað gerði Sigmundur af sér í huga þeirra?
Þessi spurning rifjaðist upp fyrir mér nú á þriðjudag þegar annar Simmi tók til máls, Sigmar Vilhjálmsson, þekktur fyrir hressleika. Hress gaur sem útskýrir í útvarpsviðtali hvers vegna verkalýðsbarátta er nú bæði óþörf og fáránleg:
„Það hefur aldrei verið meiri stöðugleiki, nei kaupmáttur eins og síðastliðin þrjú ár. Þið finnið það bara sjálfir á ykkar skinni, það finna það bara allir á sínu skinni. Þú hefur farið oftar út, þú ert líklega búinn að endurnýja bílinn.“
Simmi hressi er áreiðanlega ekki bara að bulla. Þetta blasir sennilega við honum: þaðan sem hann horfir má ætla að ríki góðæri eins langt og augað eygir, allan hringinn. Og það á hann að nokkru leyti Simma fúla að þakka.
Framsóknarflokkurinn vann kosningar út á loforð um að vinir Simma gætu endurnýjað bílinn sinn og farið oftar út. Það var vorið 2013, einu kjörtímabili eftir hrun – vinir Simma höfðu þá ekki endurnýjað bílinn og varla farið út, að heita má, í fjögur, fimm ár. Og Sigmundur Davíð stóð við þetta loforð. Ári eftir kosningar tók þingið til umræðu frumvarp til laga um „leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána“. Leiðréttinguna. Innan við tveimur mánuðum síðar voru lögin samþykkt, um miðjan maí 2014. Í kjölfarið bauðst greiðendum fasteignalána, það er eigendum húsnæðis, að sækja um sína Leiðréttingu. Veturinn þar á eftir birtust útreikningar um hverjir fengju hvað og skömmu síðar var summan, Leiðréttingin, millifærð úr ríkissjóði.
Árið 2017 birtu stjórnvöld átta blaðsíðna skýrslu um hvernig til tókst. Ritstjórn Kjarnans dró fram nokkrar lykilstærðir úr skýrslunni. Alls voru 72,2 milljarðar króna millifærðir úr ríkissjóði til eigenda fasteigna. 86% þeirrar fjárhæðar rann til tekjuhærri helmings landsmanna. Eftir stóðu 14% til tekjulægri helmingsins. Það er að segja: tekjuhærri helmingur landsmanna fékk sexfalt meiri pening, á mann, í vasann, úr ríkissjóði en tekjulægri helmingurinn. (Og tekjulægsta tíundin? Hver veit.)
„Þeir sem voru „leiðréttir“ fengu því bæði að borða kökuna og eiga hana. Þ.e. þeir fengu skaðabætur úr ríkissjóði fyrir tjón sem þeir urðu ekki fyrir, og njóta síðan mikillar hækkunar á fasteignaverð sem orðið hefur á síðustu árum, meðal annars vegna leiðréttingarinnar. Þessi hópur hefur hagnast gríðarlega vegna Leiðréttingarinnar“
skrifaði Þórður Snær – og hélt áfram:
„Eftir sitja þeir sem eiga lítið eða ekkert og þeir sem hafa mjög lágar tekjur. Aðstæður þeirra hafa versnað mjög á undanförnum árum. Leiguverð hefur hækkað um 60 prósent frá byrjun árs 2011 og framboð á þeim markaði er nánast ekkert, vegna þess að hluti íbúða sem voru þar áður er í útleigu til ferðamanna og hinn hlutinn er í eigu aðila sem græða bæði á hækkandi leiguverði og hækkandi eignarverði.“
Fleira kom til en Leiðréttingin var áreiðanlega afdrifaríkasta, staka ákvörðunin sem stjórnvöld eftirhrunsáranna tóku til að færa dreggjar hrunsins yfir á fólkið sem enginn þurfti þaðan í frá að hlusta á. 72 milljarðar eru nýtilegt fé. Þeir voru ekki nýttir til reisa spítala, hlú að eldri borgurum, hækka bætur, þjóðnýta Gamma eða rannsaka einkavæðingu bankanna. Þá hefðu líka vinir Simma þurft að safna lengur fyrir næsta bíl.
Fyrir Leiðréttingu voru hérumbil allir í einhverju klandri, einhverju basli, svolítið stúrnir. Eftir Leiðréttingu er nógu gaman hjá nógu mörgum til að hunsa hina, eða smána þegar heyrist til þeirra: þeir eru öfundsjúkir, þær eru alltaf eitthvað að væla, þau eru siðlaus, hlaupast undan ábyrgð suður í lönd og níðast þar á heimamönnum með því að kaupa ferska tómata.
Snilldin við hressingu Simma fúla fólst í stærðfræðilega nákvæmu pólitísku innsæi: það þarf natni til að sjá hversu mörgum þyrfti að hleypa í þýfið til að samstaða myndaðist um að halda því – en skipta góssinu um leið þannig upp að krítískur massi fengi í það minnsta tilfinnanlegt hlass af kass. Krítískur massi, að meðtöldum þingmönnum hinna flokkanna.
Sigmundur Davíð misreiknaði sig aðeins um eitt: hann bjóst við þakklæti. Hann sá ekki fyrir að fólkið sem hann færði þessa líka hressingu myndi fyrirlíta hann einmitt vegna þess að hann deildi með þeim þýfinu. Þetta hefði hann þó átt að skilja enda snýst fýla þeirra út í hann, einmitt eins og Leiðréttingin sjálf, um að borða kökuna og eiga hana. Hin hressu sögðu já, takk. Fegin. En þau grettu sig um leið, til að halda sjálfsvirðingunni, og héldu fyrir nefið. Nú þegar pakkið gerir vart við sig, tekjutíundirnar sem aldrei endurnýja bílinn, þá finna hin hressu til ákveðins viðbjóðs eða fyrirlitningar. Allt sem þau eiga er undir því komið að bera ekki kennsl á hvar þessi tilfinning á uppruna sinn, að hverju hún beinist.