Að fela grímur

05.3.2020 ~ 6 mín

Ekki snerta mig og ég skal ekki snerta þig.

Ég ímynda mér að allir gangi gegnum tvö sameig­in­leg augna­blik við þá uppgötvun að við stöndum frammi fyrir faraldri: í fyrsta lagi það sem einhver hefur nefnt OMG-augna­blikið. Kannski þarf ekki að fjöl­yrða frekar um það: manni bregður, þetta kemur aftan að okkur öllum, við vorum ekki að reikna með þessu. Í öðru lagi, hins vegar, fylgir því tilfærsla á sjón­ar­hóli, augna­blik tvö í ferli furð­unnar kannski: að mæta hvers­dags­legum kring­um­stæðum sem upplifun á forgengi­leika. Að sækja sér pítsu og horf­ast í augu við að eftir nokkra daga, vikur, einhvern tíma, verður það kannski ekki lengur í boði. Hversu lengi sem það varir: starfs­fólkið verður heima, pítseríur þykja hættu­legar. Eða bóka­söfn, bíó, kaffi­hús, strætó. Í hverju sem hvers­dags­leiki þinn er fólg­inn. Auðvitað er ekki víst að neinu af þessu verði lokað á Íslandi, en mögu­leik­inn er skyndi­lega raun­hæfur. Það gæti gerst, á næst­unni. Þetta er þá sameig­in­lega augna­blik nr. 2: uppgötv­unin, frammi fyrir nær hverju sem er, að líka þetta gæti bráðum farið úr skorðum.

Sameig­in­legu augna­blikin eru eða verða áreið­an­lega fleiri. Enn erum við, miðað við spár sérfræð­inga, snemma í þessu ferli, eða þess­ari fram­vindu, hvað sem það svo reyn­ist vera.


Á miðviku­dag, 4. mars 2020, gaf land­læknir ferl­inu nafn, þegar hún sagði:

„Þetta er bara stríð og núna erum við að verj­ast innrás“.

Þetta var hluti af svari hennar við spurn­ingum hlust­enda í morg­un­þætti á Rás 2, en var endur­tekið í hádeg­is­fréttum. Þetta er bara stríð. Núna erum við að verj­ast innrás.

Hér og nú virð­ist ekki ástæða til að óttast illvilja í garð smit­aðra í krafti þess­arar stríðs­yf­ir­lýs­ingar. Meðal annars vegna þess að á Íslandi virð­ast fyrstu smit­ber­arnir vera innfæddir af efri millistétt, og smit­uð­ust við hið allra eðli­leg­asta athæfi stétt­ar­innar, skíða­ferð í Ölpunum. Ásak­anir heyr­ast svosem, kannski aðal­lega í garð þeirra sem reyna að komast hjá sótt­kví. En eins og þegar hefur verið bent á væri víða talað um hópinn á annan veg ef hann væri utangarðs í samfé­lag­inu, ef fyrstu smit hefðu komið upp í súpu­eld­húsi, í blokk, meðal flótta­fólks, þó ekki væri nema meðal erlendra ferðamanna.

Lýðfræði faraldra ræður öllu um hvernig tekist er á við þá. Framan af virð­ist útbreiðsla farald­urs­ins lýðræð­is­leg, smit­leið­irnar virð­ast ekki bundnar hátt­erni tiltek­inna stétta eða hópa: í Íran eru 23 þing­menn á meðal þeirra 3.000 sem hér og nú hafa greinst með veiruna. Má tala um lán í óláni í þessu samhengi? Ég þori ekki að full­yrða hvort, á hvaða tíma­punkti eða í hvaða ríki, nokkur land­læknir lýsti yfir stríði á hendur HIV-veirunni, en það var í öllu falli ekki á fyrstu tveimur mánuðum eftir að hún gerði vart við sig í heiminum.

Þetta er ekki sjálf­gefið líkinga­mál, að vísa til stríðs­átaka. Saga slíkra líkinga á þessu sviði er þó löng, og þannig lærðum við líklega flest um ónæmis­kerfi okkar sjálfra: hvítu blóð­kornin berj­ast við innrás­arliðið og kveða það í kútinn. En þetta er í öllu falli óvenju­legur hern­aður. Ef við erum andstæð­ingur veirunnar þá erum við líka vígvöll­ur­inn sem við berj­umst á. Og þegar við veikj­umst verðum við um leið okkar eigin andstæð­ingur: veirur gera ekki neitt einar sér, ekki fyrr en þær komast í réttan hýsil, þá taka þær að starfa með því að gera frumur hýsils­ins, í þessu tilfelli frumur okkar eigin líkama, að fjöl­föld­un­ar­vélum fyrir sjálfar sig. Þær breyta okkur í verk­smiðj­urnar sínar. Það er eitt­hvað sérstak­lega bíræfið og nastí við þetta, en allt að því fagurt líka, þetta er svo skringi­legt, svo furðu­legt að svona vítis­vélar séu yfir­leitt til. Af hverju gera þær þetta? Af því bara. Þannig er það.

Og í því samhengi er kannski óhætt að nefna þriðja augna­blikið sem hvarflar að mér að við göngum öll gegnum: fyrst bregður okkur, síðan hugleiðum við forgengi­leik­inn á pítserí­unni, og þar á eftir – eða um leið eða einhvers staðar í þessu sull­umbulli – vaknar spurn­ingin um ógnina. Um aðra sem ógn við mig, um mig sem ógn við aðra. Að öll séum við mögu­legir ógnvaldar. Það er enn ein tilfærsla á sjón­ar­hóli. Þannig gengur á með jarð­skjálftum í sjón­ar­hól­unum okkar, því hvernig við erum í heiminum.

Augna­blikin eru eða verða líklega fleiri, en hér og nú kann ég ekki að telja nema upp að þremur.


Icelandair sendi tilkynn­ingu til farþega á leið frá borg­inni Verona, þar sem segir meðal annars:

„Áhöfnin mun nota hlífð­ar­búnað um borð … Allir farþegar munu fá hlífð­ar­grímur … að gefnu tilefni viljum við biðla til allra farþega að taka ekki myndir/myndbönd af öðrum farþegum eða áhöfn í þessu flugi.“

Mér þykir þetta mynd­bann forvitni­legt. Hlífð­ar­bún­að­ur­inn er augljós­lega til að vernda farþega og áhöfn — en hvern eða hvað verndar bann við mynda­tökum? Og ef allir eru með grímur hvort eð er …

Auðvitað er hugs­an­legt að einhverjir í þess­ari ferð óttist að þekkj­ast þrátt fyrir grím­urnar, og þá kannski að verða fyrir aðkasti. Þó virð­ist senni­legra að mynd­bannið snúist um hags­muni fyrir­tæk­is­ins sjálfs, Icelandair vilji standa vörð um ímynd sína og telji sýni­lega nálægð vörumerk­is­ins við svona viðbúnað áhættu­sama. Ég vona þó að ljós­mynd­ari verði um borð, helst framúrsk­ar­andi blaða­ljós­mynd­ari, hvort sem er á vegum Icelandair eða annarra, óháð því hvort mynd­irnar birt­ast hér og nú. Þessi tíma­punktur, frávikin, furð­urnar og undar­leg­heitin, eiga ekki að týnast og gleym­ast jafnóðum. Hvert sem ferð­inni reyn­ist heitið verður síðar meir einhvers virði að gæta að vörð­unum á leið­inni, að heim­ildin verði til. Ég held ekki að það þurfi að vera andstætt hags­munum fyrir­tæk­is­ins, farþeg­anna eða áhafn­ar­með­lima – kannski einhver geti komið ábend­ing­unni áleiðis.


Snertu mig ekki var það sem Jesús sagði við Maríu Magða­lenu, samkvæmt Jóhann­es­ar­guð­spjalli, þegar hún bar kennsl á hann eftir upprisuna. Ekki snerta mig væri hvers­dags­legri íslenska. Ekki koma við mig. Þetta augna­blik er mótíf í mynd­list­ar­sög­unni, það hefur verið málað aftur og aftur. Og þetta er líka mótíf innan bókmennta og heim­speki, um það hefur verið skrifað og rætt, aftur og aftur. En frammi fyrir þeirri röð augna­blika sem fylgja faraldr­inum og skekja sjón­ar­hól okkar á tilver­una, tilver­urnar í heim­inum, birt­ist þessi stund milli vinanna Jesú og Maríu líka sem röð stunda, tvö augna­blik hið minnsta. Ferst ber hún kennsl á að maður­inn sem stendur fyrir framan hana er sá sem henni var kær og dó. Það breytir öllu, ummyndar þann sem hún sér fyrir framan sig, stað­inn sem hún stendur á, heim­inn sem hún er í. Bannið sem fylgir beint í kjöl­farið, að mega ekki koma við hann eins og hún átti að venj­ast, hlýtur að gera það líka. Við fyrri uppgötv­un­ina gæti María haldið, eitt andar­tak, að allt sé eins og áður, eins og fyrir dauða hans. En orðin „snertu mig ekki“ leið­rétta það snar­lega: staðan er ekki sú sem þú hélst að hún væri þegar ég var allur, en hún er ekki heldur sú sem hún var áður en ég dó, hún er allt önnur.

Hér berg­málar eitt­hvað sem franski heim­spek­ing­ur­inn Jean-Luc Nancy skrif­aði í bókinni Noli me tang­ere fyrir rúmum áratug síðan. Þessi augna­blik milli vinanna Jesú og Maríu snúa óhjá­kvæmi­lega aftur nú þegar okkur er öllum gert að snert­ast ekki, snert­ast sem minnst, snert­ast varlega. Snerta helst ekki sjálf okkur nema nauð­syn krefji og þvo okkur þá fyrst. Þessar tilfærslur allar, þessi augna­blik þar sem það breyt­ist hvernig við umgöng­umst tilver­una, hafa einhverja snert­ingu við hið heil­aga, hið heil­aga sem hugtak og sem mann­fræði­legt fyrirbæri.