Þessi fjarlægð, nú þegar: að fólk skuli ekki snertast, það er ekki heilsast með handabandi, alls ekki faðmast, hvað þá kyssast – helst ekki snerta neitt það sem aðrir, ókunnugir hafa snert, ekki nema þvo sér rækilega um hendurnar í kjölfarið. Hvað þýðir það fyrir samfélag – fyrir mannkyn, eins og staðan er – að skera svona í hversdagslega, sameiginlega, líkamlega tilveru okkar? Hvaða tilgangi hefur öll þessi snerting þjónað og hvað kemur í stað hennar?
Á Íslandi segir læknir og lögga að ástandið vari næstu mánuði. Bresk stjórnvöld kynntu sama dag aðgerðaáætlun sem miðast við að alls muni allt að 80% íbúa landsins verða fyrir smiti, og á hápunkti faraldursins verði allt að 20% vinnuafls í landinu frá störfum, í veikindafríi eða sóttkví. Staðan þar virðist annars svipuð stöðunni á Íslandi. Sóttkví á fyrir okkur að liggja.
Dánartíðnin verður ekki eins og í spænsku veikinni, segja þau. Margfalt lægri en af verstu plágum mannkynssögunnar, þó margfalt hærri en af flensu. Börn eru ekki í hættu, ungt fólk varla, fólk deyr aðeins frá miðjum aldri og upp úr, á lífeyrisaldri er fólk í verulegri hættu. Fólk á lífeyrisaldri er hugsanlega eina fólkið sem á það beinlínis inni að fá að lifa aðeins, eftir að verja ævinni í að safna fyrir meintum réttindum, nokkrum árum án óþarfra þjáninga. Sem píslarlausustum árum og sem flestum. En ég ætla ekki að staldra þar núna, ekki við andlátin sem eru alltaf í eintölu, jafnvel í plágu, að því leyti að fráfall er alltaf eitt fráfall, einn harmur, ein sorg (kannski hef ég rangt fyrir mér, kannski hef ég engan skilning á svona ástandi fyrr en það dynur yfir, en þess þá heldur læt ég það allt bíða). En allt hitt – hvernig virðist þetta fyrirbæri, Covid-19, kófið, þegar sveigja rýmið sem við lifum og hrærumst í?
Pólitískar hreyfingar, mótmælahreyfingar, mótmælasamkomur – hvaða öfl sem beita sér með því að demonstrera, það er koma saman og sýna samtakamátt sinn líkamlega, munu mögulega, að einhverju leyti, standa frammi fyrir þeirri stöðu, þegar pestin verður verst, að stofna fólki í allt annars konar hættu með fjölmennum samkomum en ætlunin er eða þjónar markmiðum þeirra. Stjórnvöld gætu að því leyti hér og þar, hugsanlega, um hríð eða með hléum, búist við sjaldgæfum friði undan þrýstingi af þeim toga. Á sama tíma mun sameiginleg athygli okkar að verulegu leyti beinast að þessu eina hugðarefni og mestur þrýstingur á ríkin snúast um að leysa þann sameiginlega vanda. Stjórnvöld gætu því séð sér leik á borði að gera hvað sem þau kæmust ekki auðveldlega upp með „undir venjulegum kringumstæðum“. Þetta er strúktúralt, möguleikinn er til staðar og verður ekki einangraður við þá ákvörðun Erdogans að opna skyndilega fyrir landamærin frá Tyrklandi til Evrópu, eða þá ákvörðun hópa í Grikklandi, innan og utan vébanda ríkisvaldsins, að bregðast við því flóttafólki sem nú ferðast þessa leið með grimmu ofbeldi.
Auðvitað eru það ekki aðeins pólitískir fundir sem munu finna sér annað form, heldur samkomur yfirleitt, um hríð og víða. Áreiðanlega ekki allar samkomur á öllum stöðum í öllum heiminum í einu, en næstu mánuði má gera ráð fyrir því að í fjölda borga hætti fólk, ýmist vegna fyrirmæla stjórnvalda eða af eigin frumkvæði, að sækja tónleika, kaffihús, bari. Saumaklúbba, karlaklúbba, allt heila klabbið. Hver og einn hugsi sig tvisvar um og sitji heldur heima, þetta kvöld og næsta og þarnæsta og tugmilljónir sitji þannig heima sem annars hefðu hitt aðra. Þess má þá vænta að fjöldi félaga sem starfa á þessum sviðum lendi í nokkrum erfiðleikum. Ég á ekki við ferðaiðnaðinn, um þann samdrátt er og verður fjallað víða enda varðar hann hlutabréfamarkaði og hagvaxtartölur, heldur hitt sem heldur samfélögum saman, gerir þau að samfélögum. Staðina þar sem við sjáumst. Þeir víkja í svolitla stund, og í einhverjum tilfellum verður það nógu lengi til að þeir leggi upp laupana. Til lengri tíma litið er auðvitað engin ástæða til að örvænta, en það gætu orðið ofsalegar tilfærslur í þessum rýmum. Hvaða tilfærslur, það veltur þá til dæmis á því hverjir eru best í stakk búnir til að þrauka, kaffihúsakeðjur sem gætu náð góðum samningum við kröfuhafa, eða smæstu fjölskyldufyrirtækin, hornbúllur heimsins, með enga yfirbyggingu og engin lán.
Undir lok febrúar las ég á vefmiðli læknaritsins Lancet stutta umfjöllun um sálræn áhrif sóttkvíar á fólk og hvernig haga megi málum til að lágmarka álagið sem slík einangrun veldur. Í stystu máli er í greininni fyrst lögð áhersla á mikilvægi þess að fólki sé gert kleift að halda tengslum við sitt nærsamfélag. Sem praktískt séð þýðir, segja læknarnir, að tryggja að allir hafi hleðslutæki fyrir símana sína. Að því sögðu leggja höfundar áherslu á sjálfræði hvers og eins, eða tilfinningu fyrir sjálfræði: að fólk sé beðið um að fara í sóttkví, frekar en því sé skipað, taki ákvörðun um að framfylgja beiðninni sjálft og upplifi þannig merkingu í athæfinu, að þau séu að leggja eitthvað af mörkum, gera eitthvað sem skipti máli.
Á síðustu árum hefur mér stundum sýnst heimurinn sem við lifum í, eða hvernig við lifum í honum, tekið að mótast af vísindaskáldskap, bæði geimferðamyndum og sögum af tímaferðalögum, á tvennan hátt: í fyrsta lagi, að þó að við höfum upp til hópa ekki yfirgefið jörðina, bókstaflega, þá eigum við í vaxandi mæli samskipti gegnum þau tæki og með þeim hætti sem við neyddumst til ef við værum í geimferðalagi, það er gegnum nettengda skjái. Við ferðuðumst ekki um óravíddirnar en sköpuðum fjarlægðirnar fyrir því – ef mann langar að orða það dramatískt. Í öðru lagi, að þó að við ferðumst í reynd ekki um tímann, eða ekki nema í hefðbundna átt, þá fari vaxandi sú krafa að við umgöngumst umhverfi okkar á sama hátt og Marty McFly/Michael J. Fox þurfti að umgangast fortíðina á tímaferðalögum sínum, og gæta þess helst að hrófla ekki við neinu. Þetta er áreiðanlega ekki alveg sanngjarnt mat á liðnum árum, eða birtist í það minnsta sem ýkjur, nú þegar stefnir í að við gefum verulega í á báðum sviðum: eigum helst aðeins samskipti úr fjarska, hvert okkar lokað af í klefa með fjarskiptatæki; og að við snertum helst ekkert þarna úti, snertum ekki hvert annað, snertum ekki hluti, látum sem minnst fyrir okkur fara. Þetta hafa verið atómiserandi tímar – sundrandi? 2020 gæti orðið meira sundrandi fyrir hversdagslega tilveru okkar en nokkurt ár til þessa.
Á sama tíma er engu logið um hitt að stöndum frammi fyrir sameiginlegri vá. Tegundin. Allur skarinn. Við gerðum það auðvitað fyrir, hnatthlýnun er sannarlega ekki einkamál eða staðbundið, en þrátt fyrir að vera ekki bara yfirvofandi heldur þegar sýnileg þróun og katastrófísk, þá hefur hún ekki birst sem svona bráður, aðkallandi vandi, þó ekki væri nema í þeim einfalda skilningi að svona hefur ekki verið brugðist við: í engu landi hafa lögregla og landlæknir haldið daglega blaðamannafundi um hnatthlýnun. Að því leyti ber plágan með sér möguleikann á að reynast sameinandi.
Sameinandi og sundrandi. Sameinuð og sundruð stöndum vér hrapandi. Í Bandaríkjunum blasir nú við einhverjum hversu aðkallandi það er að koma á laggirnar sameiginlegu heilbrigðistryggingakerfi. Aðrir kjósa að bæta læknagrímum í dósasúpu- og byssusafnið sitt. Í Þýskalandi, daginn eftir að fyrsta smitið greindist í Berlín, ganga myndir um samfélagsmiðla úr stórmörkuðum þar sem þvögur fólks ruddust inn við opnun og hömstruðu – hvað? Pasta, já, það hvarf úr einhverjum hillum. Og Twitter-notendur bentu á að allur betri klósettpappírinn hefði horfið úr hillunum, þessi mjúki þriggja laga, en nóg verið eftir af þeim lakari.