Ekki koma við

04.3.2020 ~ 6 mín

Þessi fjar­lægð, nú þegar: að fólk skuli ekki snert­ast, það er ekki heils­ast með handa­bandi, alls ekki faðm­ast, hvað þá kyss­ast – helst ekki snerta neitt það sem aðrir, ókunn­ugir hafa snert, ekki nema þvo sér ræki­lega um hend­urnar í kjöl­farið. Hvað þýðir það fyrir samfé­lag – fyrir mann­kyn, eins og staðan er – að skera svona í hvers­dags­lega, sameig­in­lega, líkam­lega tilveru okkar? Hvaða tilgangi hefur öll þessi snert­ing þjónað og hvað kemur í stað hennar?

Á Íslandi segir læknir og lögga að ástandið vari næstu mánuði. Bresk stjórn­völd kynntu sama dag aðgerða­áætlun sem miðast við að alls muni allt að 80% íbúa lands­ins verða fyrir smiti, og á hápunkti farald­urs­ins verði allt að 20% vinnu­afls í land­inu frá störfum, í veik­inda­fríi eða sótt­kví. Staðan þar virð­ist annars svipuð stöð­unni á Íslandi. Sótt­kví á fyrir okkur að liggja.

Dánar­tíðnin verður ekki eins og í spænsku veik­inni, segja þau. Marg­falt lægri en af verstu plágum mann­kyns­sög­unnar, þó marg­falt hærri en af flensu. Börn eru ekki í hættu, ungt fólk varla, fólk deyr aðeins frá miðjum aldri og upp úr, á lífeyris­aldri er fólk í veru­legri hættu. Fólk á lífeyris­aldri er hugs­an­lega eina fólkið sem á það bein­línis inni að fá að lifa aðeins, eftir að verja ævinni í að safna fyrir meintum rétt­indum, nokkrum árum án óþarfra þján­inga. Sem píslar­laus­ustum árum og sem flestum. En ég ætla ekki að staldra þar núna, ekki við andlátin sem eru alltaf í eintölu, jafn­vel í plágu, að því leyti að fráfall er alltaf eitt fráfall, einn harmur, ein sorg (kannski hef ég rangt fyrir mér, kannski hef ég engan skiln­ing á svona ástandi fyrr en það dynur yfir, en þess þá heldur læt ég það allt bíða). En allt hitt – hvernig virð­ist þetta fyrir­bæri, Covid-19, kófið, þegar sveigja rýmið sem við lifum og hrær­umst í? 

Póli­tískar hreyf­ingar, mótmæla­hreyf­ingar, mótmæla­sam­komur – hvaða öfl sem beita sér með því að demon­strera, það er koma saman og sýna samtaka­mátt sinn líkam­lega, munu mögu­lega, að einhverju leyti, standa frammi fyrir þeirri stöðu, þegar pestin verður verst, að stofna fólki í allt annars konar hættu með fjöl­mennum samkomum en ætlunin er eða þjónar mark­miðum þeirra. Stjórn­völd gætu að því leyti hér og þar, hugs­an­lega, um hríð eða með hléum, búist við sjald­gæfum friði undan þrýst­ingi af þeim toga. Á sama tíma mun sameig­in­leg athygli okkar að veru­legu leyti bein­ast að þessu eina hugð­ar­efni og mestur þrýst­ingur á ríkin snúast um að leysa þann sameig­in­lega vanda. Stjórn­völd gætu því séð sér leik á borði að gera hvað sem þau kæmust ekki auðveld­lega upp með „undir venju­legum kring­um­stæðum“. Þetta er strúkt­úralt, mögu­leik­inn er til staðar og verður ekki einangr­aður við þá ákvörðun Erdog­ans að opna skyndi­lega fyrir landa­mærin frá Tyrklandi til Evrópu, eða þá ákvörðun hópa í Grikklandi, innan og utan vébanda ríkis­valds­ins, að bregð­ast við því flótta­fólki sem nú ferð­ast þessa leið með grimmu ofbeldi.

Auðvitað eru það ekki aðeins póli­tískir fundir sem munu finna sér annað form, heldur samkomur yfir­leitt, um hríð og víða. Áreið­an­lega ekki allar samkomur á öllum stöðum í öllum heim­inum í einu, en næstu mánuði má gera ráð fyrir því að í fjölda borga hætti fólk, ýmist vegna fyrir­mæla stjórn­valda eða af eigin frum­kvæði, að sækja tónleika, kaffi­hús, bari. Sauma­klúbba, karla­klúbba, allt heila klabbið. Hver og einn hugsi sig tvisvar um og sitji heldur heima, þetta kvöld og næsta og þarnæsta og tugmillj­ónir sitji þannig heima sem annars hefðu hitt aðra. Þess má þá vænta að fjöldi félaga sem starfa á þessum sviðum lendi í nokkrum erfið­leikum. Ég á ekki við ferða­iðn­að­inn, um þann samdrátt er og verður fjallað víða enda varðar hann hluta­bréfa­mark­aði og hagvaxt­ar­tölur, heldur hitt sem heldur samfé­lögum saman, gerir þau að samfé­lögum. Stað­ina þar sem við sjáumst. Þeir víkja í svolitla stund, og í einhverjum tilfellum verður það nógu lengi til að þeir leggi upp laup­ana. Til lengri tíma litið er auðvitað engin ástæða til að örvænta, en það gætu orðið ofsa­legar tilfærslur í þessum rýmum. Hvaða tilfærslur, það veltur þá til dæmis á því hverjir eru best í stakk búnir til að þrauka, kaffi­húsa­keðjur sem gætu náð góðum samn­ingum við kröfu­hafa, eða smæstu fjöl­skyldu­fyr­ir­tækin, horn­búllur heims­ins, með enga yfir­bygg­ingu og engin lán.

Undir lok febrúar las ég á vefmiðli lækna­rits­ins Lancet stutta umfjöllun um sálræn áhrif sótt­kvíar á fólk og hvernig haga megi málum til að lágmarka álagið sem slík einangrun veldur. Í stystu máli er í grein­inni fyrst lögð áhersla á mikil­vægi þess að fólki sé gert kleift að halda tengslum við sitt nærsam­fé­lag. Sem praktískt séð þýðir, segja lækn­arnir, að tryggja að allir hafi hleðslu­tæki fyrir símana sína. Að því sögðu leggja höfundar áherslu á sjálfræði hvers og eins, eða tilfinn­ingu fyrir sjálfræði: að fólk sé beðið um að fara í sótt­kví, frekar en því sé skipað, taki ákvörðun um að fram­fylgja beiðn­inni sjálft og upplifi þannig merk­ingu í athæf­inu, að þau séu að leggja eitt­hvað af mörkum, gera eitt­hvað sem skipti máli.

Á síðustu árum hefur mér stundum sýnst heim­ur­inn sem við lifum í, eða hvernig við lifum í honum, tekið að mótast af vísinda­skáld­skap, bæði geim­ferða­myndum og sögum af tíma­ferða­lögum, á tvennan hátt: í fyrsta lagi, að þó að við höfum upp til hópa ekki yfir­gefið jörð­ina, bókstaf­lega, þá eigum við í vaxandi mæli samskipti gegnum þau tæki og með þeim hætti sem við neydd­umst til ef við værum í geim­ferða­lagi, það er gegnum nettengda skjái. Við ferð­uð­umst ekki um óravídd­irnar en sköp­uðum fjar­lægð­irnar fyrir því – ef mann langar að orða það drama­tískt. Í öðru lagi, að þó að við ferð­umst í reynd ekki um tímann, eða ekki nema í hefð­bundna átt, þá fari vaxandi sú krafa að við umgöng­umst umhverfi okkar á sama hátt og Marty McFly/Michael J. Fox þurfti að umgang­ast fortíð­ina á tíma­ferða­lögum sínum, og gæta þess helst að hrófla ekki við neinu. Þetta er áreið­an­lega ekki alveg sann­gjarnt mat á liðnum árum, eða birt­ist í það minnsta sem ýkjur, nú þegar stefnir í að við gefum veru­lega í á báðum sviðum: eigum helst aðeins samskipti úr fjarska, hvert okkar lokað af í klefa með fjar­skipta­tæki; og að við snertum helst ekkert þarna úti, snertum ekki hvert annað, snertum ekki hluti, látum sem minnst fyrir okkur fara. Þetta hafa verið atómiser­andi tímar – sundr­andi? 2020 gæti orðið meira sundr­andi fyrir hvers­dags­lega tilveru okkar en nokk­urt ár til þessa.

Á sama tíma er engu logið um hitt að stöndum frammi fyrir sameig­in­legri vá. Tegundin. Allur skar­inn. Við gerðum það auðvitað fyrir, hnatt­hlýnun er sann­ar­lega ekki einka­mál eða stað­bundið, en þrátt fyrir að vera ekki bara yfir­vof­andi heldur þegar sýni­leg þróun og katast­róf­ísk, þá hefur hún ekki birst sem svona bráður, aðkallandi vandi, þó ekki væri nema í þeim einfalda skiln­ingi að svona hefur ekki verið brugð­ist við: í engu landi hafa lögregla og land­læknir haldið daglega blaða­manna­fundi um hnatt­hlýnun. Að því leyti ber plágan með sér mögu­leik­ann á að reyn­ast sameinandi. 

Samein­andi og sundr­andi. Sameinuð og sundruð stöndum vér hrap­andi. Í Banda­ríkj­unum blasir nú við einhverjum hversu aðkallandi það er að koma á lagg­irnar sameig­in­legu heil­brigð­is­trygg­inga­kerfi. Aðrir kjósa að bæta lækna­grímum í dósasúpu- og byssusafnið sitt. Í Þýskalandi, daginn eftir að fyrsta smitið greind­ist í Berlín, ganga myndir um samfé­lags­miðla úr stór­mörk­uðum þar sem þvögur fólks rudd­ust inn við opnun og hömstr­uðu – hvað? Pasta, já, það hvarf úr einhverjum hillum. Og Twitter-notendur bentu á að allur betri klósett­papp­ír­inn hefði horfið úr hill­unum, þessi mjúki þriggja laga, en nóg verið eftir af þeim lakari.