Banvænn veirufaraldur. Viðfangsefnið er að miklu leyti aðeins á færi sérfræðinga. Um þá þætti er glórulaust að þykjast vita betur. Um leið varðar málið líf og dauða, og þó að sérfræðingar meti stöðuna taka stjórnmálamenn ákvarðanir um aðgerðir. Ekki um útfærslu á sóttkví, hana hljóta læknar að annast. Og mögulega framselja ráðamenn líka þau völd sem varða ferðafrelsi, fundafrelsi, landamæri og fleira tímabundið til sérfræðinga. Undir þessum kringumstæðum. En aðrar ákvarðanir snúast ekki fyrst og fremst um þekkingu heldur um stefnu, eru með öðrum orðum alfarið pólitískar: hvernig fjármunum er varið og til bjargar hverju. Hvernig almenningur er hvattur til að taka höndum saman og til bjargar hverju.
Áskorunin sem felst í þessari pest snýst að verulegu leyti um þolmörk heilbrigðiskerfa: að þau bresti ekki, í þeim skilningi að of margir veikist of illa á sama tíma. Þá getur fjöldi fólks látið lífið, og enn fleiri borið varanlegt tjón, sem annars hefði mátt koma í veg fyrir. Einhverjir – samfélag eftirlifenda, ráðamenn einir, eða læknar, ef aðrir láta sig það ekki varða – munu þá sitja uppi með siðferðilega byrði sem mér skilst að fylgi annars helst starfsemi sjúkrahúsa í stríðsátökum: að hafa þurft að velja hverjir lifðu og hverjir dóu. Það heitir forgangsröðun. Þó að finna megi dæmi um augljóslega ranga, það er siðferðilega óásættanlega, forgangsröðun – til dæmis að mismuna fólki eftir fjárhag, ætterni eða þjóðerni – þá er erfiðara að sjá hvaða val væri réttmætt. Að útvista slíkum spurningum til heilsuhagfræðinga mun einhverjum þykja freistandi, láta sem þær séu að eðli hagrænar, tæknilegt viðfangsefni, spurning um vandaða kostnaðarvirknigreiningu.
Fyrstu sýnilegu áherslur ráðamanna, umfram það að hefta, síðan tefja, útbreiðslu veirunnar, hafa aftur á móti snúist um að bjarga ferðaþjónustufyrirtækjum. Sem er augljóslega bærilegra viðfangsefni til opinberrar umræðu. En sú áhersla varðar líka líf og dauða, nú þegar allar spurningar um meðferð opinberra fjármuna varða skyndilega líf og dauða. Væri hægt, með skyndi, að snarörva framleiðslu á öndunarvélum fyrir sama fjármagn? Hvað ef ríki heims tækju þar höndum saman? Hversu hratt er hægt að fjölga gjörgæslurýmum? Myndi meika sens að gera tímabundið eignanám á yfirgefnum airbnb-íbúðum og hótelherbergjum til að auka þanþol sjúkrahúsa? Er fræðilega hægt að þjálfa, með flýti, fjölda ólæknismenntaðra í þeim tilteknu handbrögðum sem þörf er á til að halda lífi í þeim sem munu þurfa öndunarvélar eða viðlíka aðhlynningu?
Stöndum við, að einhverju leyti, frammi fyrir veigamiklum spurningum sem snúast ekki um fyrirfram gefin svör og þekkingu sérfræðinga, heldur félagslegt ímyndunarafl: hvað samfélag getur verið, hvernig það getur virkað, hvernig það getur skipulagt sig og hverju það getur þá áorkað? Hversu hratt getum við svarað slíkum spurningum? Hversu vel getum við spurt þeirra?
Ljóst er að þetta er barátta til næstu mánaða, hið minnsta. Ætti strax að undirbúa einhvers konar þegnskylduvinnu til að sjá um dreifingu matvæla þegar stórum hluta íbúa landsins er, í þágu almannaheilla, gert að halda sig heima hjá sér, við misjöfn kjör? Ætti að setja lög sem krefja fyrirtæki á sviði grunnþjónustu um að láta hana af hendi endurgjaldslaust á meðan á krísunni stendur – vatn, rafmagn, hita, net? Mat?
Hvað með spurningar sem þar til í gær hefðu hljómað sem billegur brandari? Eða þar til á morgun? Ef nær öll smit sem greinst hafa hingað til eru innan höfuðborgarsvæðisins, og ef ekkert smit hefur greinst á Vestfjörðum, ætti þá að hindra ferðalög milli landshlutanna, þar til faraldurinn hefur verið kveðinn í kútinn? Hvers vegna ekki? Hvað er svona sérstakt við landamæri ríkja?
Eitt er að velta þessu fyrir sér í eins manns hljóði, annað að ræða það við vini, en ef maður ber svona spurningar fram á almannafæri, hvort er maður þá að sinna þeirri lýðræðislegu skyldu að veita stjórnvöldum aðhald eða þvælast fyrir þeim sem betur vita með heimskuþvaðri? Og þvælast fyrir, hvað þýðir það einu sinni í þessu samhengi? Að ráðherrar fái engan frið til að hugsa fyrir athugasemdum á Facebook? Að mikilvægar ákvarðanir teppist í kommentakerfinu? Eða er svona hættulegt að hafa rangt fyrir sér, að segja eitthvað heimskulegt, er þá vissara að halda sér saman þar til kostnaðarvirknigreiningu er lokið?