Kostn­að­ar­virkni­grein­ing andskotans

15.3.2020 ~ 3 mín

Banvænn veirufar­aldur. Viðfangs­efnið er að miklu leyti aðeins á færi sérfræð­inga. Um þá þætti er glóru­laust að þykj­ast vita betur. Um leið varðar málið líf og dauða, og þó að sérfræð­ingar meti stöð­una taka stjórn­mála­menn ákvarð­anir um aðgerðir. Ekki um útfærslu á sótt­kví, hana hljóta læknar að annast. Og mögu­lega fram­selja ráða­menn líka þau völd sem varða ferða­frelsi, funda­frelsi, landa­mæri og fleira tíma­bundið til sérfræð­inga. Undir þessum kring­um­stæðum. En aðrar ákvarð­anir snúast ekki fyrst og fremst um þekk­ingu heldur um stefnu, eru með öðrum orðum alfarið póli­tískar: hvernig fjár­munum er varið og til bjargar hverju. Hvernig almenn­ingur er hvattur til að taka höndum saman og til bjargar hverju.

Áskor­unin sem felst í þess­ari pest snýst að veru­legu leyti um þolmörk heil­brigðis­kerfa: að þau bresti ekki, í þeim skiln­ingi að of margir veikist of illa á sama tíma. Þá getur fjöldi fólks látið lífið, og enn fleiri borið varan­legt tjón, sem annars hefði mátt koma í veg fyrir. Einhverjir – samfé­lag eftir­lif­enda, ráða­menn einir, eða læknar, ef aðrir láta sig það ekki varða – munu þá sitja uppi með siðferði­lega byrði sem mér skilst að fylgi annars helst starf­semi sjúkra­húsa í stríðs­átökum: að hafa þurft að velja hverjir lifðu og hverjir dóu. Það heitir forgangs­röðun. Þó að finna megi dæmi um augljós­lega ranga, það er siðferði­lega óásætt­an­lega, forgangs­röðun – til dæmis að mismuna fólki eftir fjár­hag, ætterni eða þjóð­erni – þá er erfið­ara að sjá hvaða val væri rétt­mætt. Að útvista slíkum spurn­ingum til heilsu­hag­fræð­inga mun einhverjum þykja freist­andi, láta sem þær séu að eðli hagrænar, tækni­legt viðfangs­efni, spurn­ing um vand­aða kostnaðarvirknigreiningu. 

Fyrstu sýni­legu áherslur ráða­manna, umfram það að hefta, síðan tefja, útbreiðslu veirunnar, hafa aftur á móti snúist um að bjarga ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækjum. Sem er augljós­lega bæri­legra viðfangs­efni til opin­berrar umræðu. En sú áhersla varðar líka líf og dauða, nú þegar allar spurn­ingar um meðferð opin­berra fjár­muna varða skyndi­lega líf og dauða. Væri hægt, með skyndi, að snarörva fram­leiðslu á öndun­ar­vélum fyrir sama fjár­magn? Hvað ef ríki heims tækju þar höndum saman? Hversu hratt er hægt að fjölga gjör­gæslu­rýmum? Myndi meika sens að gera tíma­bundið eigna­nám á yfir­gefnum airbnb-íbúðum og hótel­her­bergjum til að auka þanþol sjúkra­húsa? Er fræði­lega hægt að þjálfa, með flýti, fjölda ólækn­is­mennt­aðra í þeim tilteknu hand­brögðum sem þörf er á til að halda lífi í þeim sem munu þurfa öndun­ar­vélar eða viðlíka aðhlynningu?

Stöndum við, að einhverju leyti, frammi fyrir veiga­miklum spurn­ingum sem snúast ekki um fyrir­fram gefin svör og þekk­ingu sérfræð­inga, heldur félags­legt ímynd­un­ar­afl: hvað samfé­lag getur verið, hvernig það getur virkað, hvernig það getur skipu­lagt sig og hverju það getur þá áorkað? Hversu hratt getum við svarað slíkum spurn­ingum? Hversu vel getum við spurt þeirra?

Ljóst er að þetta er barátta til næstu mánaða, hið minnsta. Ætti strax að undir­búa einhvers konar þegn­skyldu­vinnu til að sjá um dreif­ingu matvæla þegar stórum hluta íbúa lands­ins er, í þágu almanna­heilla, gert að halda sig heima hjá sér, við misjöfn kjör? Ætti að setja lög sem krefja fyrir­tæki á sviði grunn­þjón­ustu um að láta hana af hendi endur­gjalds­laust á meðan á krís­unni stendur – vatn, rafmagn, hita, net? Mat?

Hvað með spurn­ingar sem þar til í gær hefðu hljómað sem bill­egur brand­ari? Eða þar til á morgun? Ef nær öll smit sem greinst hafa hingað til eru innan höfuð­borg­ar­svæð­is­ins, og ef ekkert smit hefur greinst á Vest­fjörðum, ætti þá að hindra ferða­lög milli lands­hlut­anna, þar til farald­ur­inn hefur verið kveð­inn í kútinn? Hvers vegna ekki? Hvað er svona sérstakt við landa­mæri ríkja?

Eitt er að velta þessu fyrir sér í eins manns hljóði, annað að ræða það við vini, en ef maður ber svona spurn­ingar fram á almanna­færi, hvort er maður þá að sinna þeirri lýðræð­is­legu skyldu að veita stjórn­völdum aðhald eða þvæl­ast fyrir þeim sem betur vita með heimsku­þvaðri? Og þvæl­ast fyrir, hvað þýðir það einu sinni í þessu samhengi? Að ráðherrar fái engan frið til að hugsa fyrir athuga­semdum á Face­book? Að mikil­vægar ákvarð­anir tepp­ist í komm­enta­kerf­inu? Eða er svona hættu­legt að hafa rangt fyrir sér, að segja eitt­hvað heimsku­legt, er þá viss­ara að halda sér saman þar til kostn­að­ar­virkni­grein­ingu er lokið?