„Önnur lönd“ er aðeins orðalag sem við beitum til að skýra hvaðan ferðamennirnir koma. Enginn veit hvaðan þeir koma. Við vitum bara að umheimurinn er ekki til. (Nema Kanarí. Kanarí er til, þar er Klörubar.)
—Mætti ætla af meðfylgjandi skjáskoti af forsíðu RUV.is, frá 3. maí 2020. Þetta er auðvitað bara stakt skjáskot, og athugasemdin ekki sanngjörn að því leyti að stundum ber víst á erlendum fréttum í íslenskum fjölmiðlum.
En þar sem ég er ekki rannsóknarstofnun og verð að sætta mig við afar takmörkuð gögn, þá má samt gera sér þetta að leik, taka eitt skjáskot til skoðunar eins og það segi stærri sögu. Hvað segir þetta skjáskot af forsíðu RUV.is um fréttamat á fréttastofu lögreglustöðvarinnar? Ég set kannski fram leiðandi spurningu: hvað vantar – fleira en umheiminn – í þessar fyrirsagnir?
Lítum yfir þetta. Í skjáskotinu birtast níu fréttir. Aðalfréttin: Ég held að þetta sé fyrsta ávarp Katrínar Jakobsdóttur í tilefni af faraldrinum og mér finnst það forvitnilegt – hvort sem ríkisstjórnin hefur keypt sér ráðgjöf um almannatengsl gegnum faraldurinn eða er fagið svona í blóð borið, þá steig forsætisráðherra ekki fram með þessum hætti fyrr en hún gat fært okkur góðu fréttirnar. Vondar fréttir koma frá sérfræðingum, ríkisstjórnin færir birtu og yl. Og forsetinn er með, flutti ávarp á fundi almannavarna, og virðist hafa verið á aðeins trúarlegri nótum. Tvær fréttir eru þannig beinn áróður frá æðstu embættum. Ég segi það ekki þeim til háðungar, þetta er bara lýsing: opinská ætlun ráðamanna hér er að veita yfirstandandi atburðum merkingu sem við getum sameinast um.
Ein frétt enn færir skilaboð frá stjórnvöldum, en í skýrari boðhætti: „Hvað má 4. maí?“. Þar er sagt frá innihaldi reglugerðar sem tekur gildi nú á miðnætti, gefin út af heilbrigðisráðuneytinu, um skerðingar fundafrelsis og ferðafrelsis. Þetta er með öðrum orðum tilkynning frekar en frétt, segir okkur ekki hvað hefur gerst þarna úti, heldur hvað við eigum að gera á næstunni.
Tvær fréttir er að finna af íþróttum sem ekki fara fram – íslenskum íþróttamönnum sem ekki stunda íþrótt sína um þessar mundir og þykja þær báðar brýnni, ef marka má þessa uppröðun, en nokkur einasta frétt af því sem þó raunverulega á sér stað í öðrum löndum. Önnur þeirra hefur auðvitað aðra vídd, hvað indælt er að lifa í íslenskri sveit, frekar einfaldur þjóðernisáróður eða innri landkynning, ef svo má segja.
Fréttin um tjöldin er frétt af einhverju sem gæti gerst innanlands á næstu vikum eða mánuðum. Þessi skildagatíð byggir á bjartsýni um ferðagleði Íslendinga innanlands og er því líka eins konar innri landkynning, eins og fréttin um gangandi vegfarendur, faraldursspuni, það er leit að jákvæðu hliðinni á havaríinu sem hefur verið óstöðvandi árátta í flestum fjölmiðlum frá því að faraldursins varð fyrst vart á landinu.
Þá sýnist mér ég hafa talið alls sjö fyrirsagnir og eftir standa tvær: Barátta flugfélaganna upp á líf og dauða er knöpp fréttaskýring um hversu erfitt er að reka flugfélag í heimsfaraldri. Loks er greint frá andláti konu af völdum faraldursins og viðtali við eftirlifandi eiginmann hennar.
Síðasti efnisliðurinn er ekki borinn fram sem frétt, heldur er þetta tilkynning um umfjöllun í menningar- og magasín-þættinum Lestin. Þessi þáttur á þó eitt sameiginlegt með fréttum, í hefðbundnum skilningi: að þar er sagt frá einhverju sem gerðist, hvern það henti, hvar, hvenær og hvernig. Það sama má líka segja um umfjöllunina um flugfélögin: eitthvað gerðist og hér segjum við aðeins frá því.
Ekkert slíkt er hins vegar inntakið í hinum sjö efnisþáttunum. Spuni, áróður, tilkynningar, óstundaðar íþróttir, enn ófarin ferðalög. Sjö af níu – gerum þetta faglega og segjum: 78% þeirra efnisatriða á forsíðu RÚV sem virðast fréttir hafa það þó ekki að megininntaki að einhvers staðar hafi eitthvað gerst.
Það sem vantar í fréttirnar eru með öðrum orðum ekki bara önnur lönd, eða meintur umheimur, heldur, sýnist mér, atvik og atburðir yfirleitt. Þarna er fengist við eitthvað annað.
En gögnin eru takmörkuð, mögulega hending ein, skekkjumörkin gríðarleg. Sunnudagur og það allt. Mögulega leit þetta allt öðruvísi út í gær, kannski lítur þetta öðruvísi út á morgun. Ég leyfi mér að halda því fram að frekari rannsókna sé þörf.
(Færslan birtist fyrst á bandaríska samfélagsmiðlinum Facebook.com.)