Sundlaugar opna, barir opna, takmörk á samkomum eru rýmkuð, undir vissum aðstæðum má slaka á 2ja metra reglunni, og svo framvegis. Þetta eru allt tilslakanir sem sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra. Enn ríkir neyðarstig almannavarna, þetta allsherjarfrávik frá venjulegum gangi mála, tímabundið afnám ýmissa réttinda, en yfir Íslandi vofir ekki sama ógn nú og gerði í mars. Sóttvarnalæknir hefur ekki aðeins lagt til rýmkanir innanlands, einnig að Færeyjar og Grænland verði tekin af lista yfir há-áhættusvæði, fólk geti ferðast þaðan sóttkvíarlaust, og að hin frjálslegri gerð sóttkvíar, svonefnd „sóttkví B“ skuli standa fagfólki í kvikmyndagerð, vísindastarfi, íþróttum og á öðrum völdum sviðum til boða.
Að fella niður kröfu um sóttkví ferðalanga yfirleitt, frá og með 15. júní, er hins vegar ekki gert að tillögu Sóttvarnalæknis, Almannavarna, lækna eða yfirleitt nokkurra sérfræðinga á heilbrigðissviði. Sú tillaga varð til, samkvæmt opinberum gögnum, með innra eintali ferðaþjónustunnar sjálfrar.
Samtal ferðaþjónustunnar við sjálfa sig
Ferlið að baki þeirri tillögu lítur svona út: stýrihópur ráðuneytisstjóra skipaði þriggja manna vinnuhóp. Í þeim vinnuhópi sátu:
- Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri hjá ISAVIA,
- Skarphéðinn B. Steinarsson, ferðamálastjóri, og
- lögfræðingur úr heilbrigðisráðuneytinu, Sigurður Kári Árnason.
Með öðrum orðum eru tveir af þremur meðlimum vinnuhópsins talsmenn ferðaþjónustunnar. Sá hópur skilaði skýrslu til ráðuneytisstjóranna. Í skýrslunni eru nefndir þeir viðmælendur sem vinnuhópurinn fékk sér til ráðgjafar, eftirfarandi:
- Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar;
- Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Arctic Adventures;
- Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor;
- Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela;
- Eva María Lange, framkvæmdastjóri Pink Iceland;
- Pétur Óskarsson,
- Einar Hansen Tómasson,
- Sigríður Dögg Guðmundsdóttir og
- Karl Guðmundsson, öll fjögur frá Íslandsstofu;
- Hilmar Sigurðsson, forstjóri Saga film.
Allir ráðgjafar vinnuhópsins eru, með öðrum orðum, talsmenn útflutningsgreina. Af þessum tíu ráðgjöfum eru fimm stjórnendur í ferðaþjónustu, einn stjórnandi kvikmyndavers og loks fjórir fulltrúar Íslandsstofu, auglýsingastofu hins opinbera, sem samræmir markaðsstarf ferðaþjónustunnar.1
Fjarvera Sóttvarnalæknis
Vinnuhópurinn skilar skýrslu sinni til ráðuneytisstjóranna, sem tóku einnig við minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu. Með skýrslunni sem stýrihópurinn loks skilar til ráðherra fylgja engin önnur skrifleg gögn. Þar kemur þó fram að stýrihópurinn, þ.e. ráðuneytisstjórarnir sjálfir, hafi, á fimm formlegum fundum, átt ýmis samtöl, meðal annars við þríeyki Almannavarna, Landlækni, Sóttvarnalækni og fulltrúa Ríkislögreglustjóra, auk forstjóra fyrirtækisins deCODE genetics. Nú virðist það nokkuð traustvekjandi, að stýrihópurinn hafi þó rætt við Landlækni og Sóttvarnalækni.
Þegar nánar er að gáð virðist þó aðkoma þessara embætta að tillögugerðinni hafa verið lítil. Þannig segir í undirkafla um „Sóttvarnaráðstafanir sem þarf að grípa til í flugi og siglingum og við landamæri, þegar tekið verður á móti ferðamönnum að nýju“, að fulltrúum þriggja ráðuneyta hafi verið falið að taka þetta til skoðunar, „til hvaða sóttvarnaráðstafana þurfi að grípa … í flugi og siglingum og við landamæri þegar tekið verður á móti ferðamönnum að nýju“. Þar eru talin nöfn þriggja karla og loks bætt við:
„Gert var ráð fyrir beinni þátttöku sóttvarnalæknis í vinnu hópsins sem reyndist ekki mögulegt en hann hefur hins vegar komið með tilteknar ábendingar um drög að niðurstöðu hópsins sem horft hefur verið til.“
Nú kemur ekki fram í skýrslunni hvers vegna Sóttvarnalækni „reyndist ekki mögulegt“ að starfa í þessum hópi, sem virðist þó liggja æði nærri hans starfssviði og helsta viðfangsefni um þessar mundir. Hvað sem veldur virðast samskipti Þórólfs Guðnasonar og þeirra sem mótuðu þessa stefnu vera takmörkuð. Um það eru fleiri skýrar vísbendingar. Þannig má í skýrslunni sem þriggja manna vinnuhópurinn skilaði ráðuneytisstjórunum lesa:
„Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni, bæði því sem komið hefur fram í fjölmiðlum og samtölum við starfsmann embættisins, er ekki líklegt að unnt verði að taka mörg ríki af listanum yfir hááhættusvæði í bráð.“
– Það er að segja, upplýsingar frá embætti Sóttvarnalæknis hefur vinnuhópurinn úr fjölmiðlum og frá almennu starfsfólki embættisins, en ekki frá sóttvarnalækni sjálfum.
Óhjákvæmilegt virðist að skoða þessa fjarveru sóttvarnalæknis í ljósi ýmissa ummæla hans frá því að ríkisstjórnin kynnti áform sín um afléttingu sóttkvíar við landamærin, þar sem honum virðist annt um að fjarlægja embætti sitt þessari ráðstöfun. Ljóst er að opinberlega andmælir hann áformunum ekki. Hann gætir þó vandlega að því að þau séu ekki álitin hans eigin. „Þetta verkefni er á forræði ríkisstjórnarinnar,“ tók hann fram á blaðamannafundi Almannavarna þann 15. maí. Svar við spurningu blaðamanns á sama fundi hóf hann á að endurtaka sama fyrirvara: „Þetta er vinna á forræði ríkisstjórnarinnar. Það er ekki Sóttvarnalæknir sem er með forræði í þessari vinnu.“ Og svo framvegis.
Eina vísbendingu má finna í skilabréfi ráðuneytisstjóranna um að Almannavarnir hafi átt einhverja aðkomu að tillögugerðinni. Þar er þó ekki greint á milli fulltrúa embætta Landlæknis, Sóttvarnalæknis og Ríkislögreglustjóra: „Í samtölum við sóttvarnalækni, fulltrúa lögreglu og landlæknis (þríeykið) komu fram sjónarmið um að skynsamlegt gæti verið …“ Umfram það að gefa grænt ljós, segja ekki blákalt nei, er afstöðu Sóttvarnarlæknis eða Landlæknis, út af fyrir sig, ekki að finna í skjalinu.
Fjarvera heilbrigðiskerfisins
Í skilabréfi ráðuneytisstjóranna er vissulega kafli um heilbrigðiskerfið. Eða fyrirsögn, að minnsta kosti. Kaflinn „Heilbrigðiskerfið“ er undir 150 orð að lengd, umtalsvert styttri en þessi færsla hér og heldur þunn fjarvistarsönnun sjálfs sín.
Kaflinn „Þarfir ferðaþjónustunnar“ er yfir 20 sinnum lengri, nær 3.200 orð.
Með öðrum orðum eru, í helsta vinnugagninu að baki þeim áformum stjórnvalda að liðka fyrir ferðamennsku umfram öll önnur lönd, í miðjum heimsfaraldri, fáar vísbendingar um að þar hafi verið horft sérstaklega til heilbrigðismála. Það virðist í nokkru samræmi við fjarveru Sóttvarnalæknis og Landlæknis frá starfinu að baki.
Fjórir valkostir og einn í gríni
Í skilabréfi ráðuneytisstjóranna til ríkisstjórnarinnar eru loks lagðir fram fimm valkostir.
Sá fyrsti er að halda til streitu kröfu um tveggja vikna sóttkví, almennt, en fjölga þeim hópum sem byðist svokölluð B‑sóttkví eða hreyfanleg sóttkví, það er að fara um í einangruðum hópum.
Annar valkosturinn sem þeir nefna er sá að fækka ríkjum á lista yfir há-áhættusvæði – sú varfærnislega nálgun, sem sóttvarnalæknir hafði þegar lagt til, virðist valkostur flestra landa í kringum okkur um þessar mundir en myndi, eins og segir í skýrslunni „ekki ná fyrsta kastið til mikilvægustu markaðssvæða eins og Þýskalands, Bretlands og Bandaríkjanna“.
Þriðji valkosturinn er krafa til komufarþega um staðfestingu á Covid-19 prófi erlendis frá. Í skýrslunni er tekið fram að sé hætt við fölsunum, að neikvæð próf séu ekki 100% örugg, og engin ein viðurkennd aðferð í boði, auk þess sem prófin séu ekki aðgengileg hverjum sem er, og því sé erfitt að stóla á þessa leið. 2
Fjórði valkosturinn: Opnun landamæra án sérstakra skilyrða. Eða, einfaldlega, opnun. „Gæti talist áhættusamt við núverandi aðstæður,“ nefna ráðuneytisstjórarnir.
Fimmti valkosturinn er loks sagður skimun við komu til landsins. Í skýrslunni er nefndur sá kostur við þessa nálgun að þar sé ekki gert upp á milli ríkja. Með öðrum orðum: að farþegar frá fyrrnefndum há-áhættusvæðum á við Bandaríkin, Bretland og Þýskaland komast þá greiðar til landsins en ef valin er leið 2. Og það gæti „stuðlað tiltölulega hratt að því að ferðaþjónusta nái sér á strik“.
Öllum tillögum fylgt
Eins og nefnt er í lokaorðum skýrslunnar hafði Sóttvarnarlæknir þá þegar lagt til að stigin yrðu skref innan ramma fyrstu tveggja valkostanna: annars vegar að útvíkka sóttkví B þannig að hún nái til fagfólks á afmörkuðum sviðum, hins vegar að taka tiltekin lönd, nú Færeyjar og Grænland, af lista há-áhættusvæða. Þeim tillögum Sóttvarnarlæknis hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd.
Það sem ráðuneytisstjórarnir gera að tillögu sinni, umfram þetta, á grundvelli samtals ferðaþjónustunnar við sjálfa sig, eru þau nýmæli sem ríkisstjórnin hefur síðan kynnt og hafa vakið mesta athygli erlendra fjölmiðla: að frá og með 15. júní eigi ferðamenn til landsins val um veiruskimun, á landamærunum, í stað sóttkvíar. Það er fimmti valkosturinn á listanum hér að ofan, auk þriðja valkostsins, að taka við erlendum vottorðum um skimun, ef einhver slík reynast ábyggileg.
Með öðrum orðum verða allir valkostirnir virkjaðir ef frá er talinn sá fjórði, sem þeir virðast hafa þarna í einhverju gríni, „Opnun landamæra án sérstakra skilyrða“. Ríkisstjórnin hyggst fylgja tillögum ferðaþjónustunnar í einu og öllu.
Í því ljósi kemur ekki á óvart að læknar séu áhyggjufullir.
↑1 | Að auki vekur athygli að allir fulltrúar vinnuhópsins eru karlar og sama á við um átta af tíu nafngreindum ráðgjöfum hópsins. Í þessu samhengi geta kynjahlutföll skipt nokkru máli um forsendur og niðurstöður, ekki aðeins vegna ólíkrar áhættusækni kynjanna, heldur einnig í ljósi þess að stór hluti álagsins af umönnun viðkvæmra hópa, á meðan faraldurinn geisar, fellur á hefðbundnar kvennastéttir. Sé áætlun vinnuhópsins fylgt er fyrirsjáanlegt að því álagi verði viðhaldið. |
---|---|
↑2 | Ekki aðgengileg hverjum sem er – miðað við markaðssvæðin sem nefnd eru að framan hafa ráðuneytisstjórarnir hér mögulega í huga sama skort og blaðamaður New York Post nefnir í upphafi greinar um opnun Íslands: „It’s hard enough for sick Americans to get a coronavirus test, but over in Iceland they’re giving them away.“ |