Stjórn­endur ferða­fyr­ir­tækja ræddu saman, finnst þú ættir að taka stærri sénsa, spyrja „eða ertu skræfa?“

17.5.2020 ~ 8 mín

Sund­laugar opna, barir opna, takmörk á samkomum eru rýmkuð, undir vissum aðstæðum má slaka á 2ja metra regl­unni, og svo fram­vegis. Þetta eru allt tilslak­anir sem sótt­varna­læknir hefur lagt til við heil­brigð­is­ráð­herra. Enn ríkir neyð­arstig almanna­varna, þetta alls­herj­ar­frávik frá venju­legum gangi mála, tíma­bundið afnám ýmissa rétt­inda, en yfir Íslandi vofir ekki sama ógn nú og gerði í mars. Sótt­varna­læknir hefur ekki aðeins lagt til rýmk­anir innan­lands, einnig að Færeyjar og Græn­land verði tekin af lista yfir há-áhættu­svæði, fólk geti ferð­ast þaðan sótt­kví­ar­laust, og að hin frjáls­legri gerð sótt­kvíar, svonefnd „sótt­kví B“ skuli standa fagfólki í kvik­mynda­gerð, vísinda­starfi, íþróttum og á öðrum völdum sviðum til boða.

fella niður kröfu um sótt­kví ferða­langa yfir­leitt, frá og með 15. júní, er hins vegar ekki gert að tillögu Sótt­varna­læknis, Almanna­varna, lækna eða yfir­leitt nokk­urra sérfræð­inga á heil­brigð­is­sviði. Sú tillaga varð til, samkvæmt opin­berum gögnum, með innra eintali ferða­þjón­ust­unnar sjálfrar.

Samtal ferða­þjón­ust­unnar við sjálfa sig

Ferlið að baki þeirri tillögu lítur svona út: stýri­hópur ráðu­neyt­is­stjóra skip­aði þriggja manna vinnu­hóp. Í þeim vinnu­hópi sátu:

  1. Guðmundur Daði Rúnars­son, fram­kvæmda­stjóri hjá ISAVIA,
  2. Skarp­héð­inn B. Stein­ars­son, ferða­mála­stjóri, og
  3. lögfræð­ingur úr heil­brigð­is­ráðu­neyt­inu, Sigurður Kári Árnason.

Með öðrum orðum eru tveir af þremur meðlimum vinnu­hóps­ins tals­menn ferða­þjón­ust­unnar. Sá hópur skil­aði skýrslu til ráðu­neyt­is­stjór­anna. Í skýrsl­unni eru nefndir þeir viðmæl­endur sem vinnu­hóp­ur­inn fékk sér til ráðgjafar, eftirfarandi:

  1. Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Samtaka ferðaþjónustunnar;
  2. Styrmir Þór Braga­son, fram­kvæmda­stjóri Arctic Adventures;
  3. Ásberg Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Nordic Visitor;
  4. Davíð Torfi Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Íslandshótela;
  5. Eva María Lange, fram­kvæmda­stjóri Pink Iceland;
  6. Pétur Óskars­son,
  7. Einar Hansen Tómasson,
  8. Sigríður Dögg Guðmunds­dóttir og
  9. Karl Guðmunds­son, öll fjögur frá Íslandsstofu;
  10. Hilmar Sigurðs­son, forstjóri Saga film.

Allir ráðgjafar vinnu­hóps­ins eru, með öðrum orðum, tals­menn útflutn­ings­greina. Af þessum tíu ráðgjöfum eru fimm stjórn­endur í ferða­þjón­ustu, einn stjórn­andi kvik­mynda­vers og loks fjórir full­trúar Íslands­stofu, auglýs­inga­stofu hins opin­bera, sem samræmir mark­aðs­starf ferða­þjón­ust­unnar.1

Fjar­vera Sóttvarnalæknis

Vinnu­hóp­ur­inn skilar skýrslu sinni til ráðu­neyt­is­stjór­anna, sem tóku einnig við minn­is­blaði frá fjár­mála­ráðu­neyt­inu. Með skýrsl­unni sem stýri­hóp­ur­inn loks skilar til ráðherra fylgja engin önnur skrif­leg gögn. Þar kemur þó fram að stýri­hóp­ur­inn, þ.e. ráðu­neyt­is­stjór­arnir sjálfir, hafi, á fimm form­legum fundum, átt ýmis samtöl, meðal annars við þríeyki Almanna­varna, Land­lækni, Sótt­varna­lækni og full­trúa Ríkis­lög­reglu­stjóra, auk forstjóra fyrir­tæk­is­ins deCODE genetics. Nú virð­ist það nokkuð traust­vekj­andi, að stýri­hóp­ur­inn hafi þó rætt við Land­lækni og Sóttvarnalækni.

Þegar nánar er að gáð virð­ist þó aðkoma þess­ara embætta að tillögu­gerð­inni hafa verið lítil. Þannig segir í undirkafla um „Sótt­varna­ráð­staf­anir sem þarf að grípa til í flugi og sigl­ingum og við landa­mæri, þegar tekið verður á móti ferða­mönnum að nýju“, að full­trúum þriggja ráðu­neyta hafi verið falið að taka þetta til skoð­unar, „til hvaða sótt­varna­ráð­staf­ana þurfi að grípa … í flugi og sigl­ingum og við landa­mæri þegar tekið verður á móti ferða­mönnum að nýju“. Þar eru talin nöfn þriggja karla og loks bætt við:

„Gert var ráð fyrir beinni þátt­töku sótt­varna­læknis í vinnu hóps­ins sem reynd­ist ekki mögu­legt en hann hefur hins vegar komið með tilteknar ábend­ingar um drög að niður­stöðu hóps­ins sem horft hefur verið til.“

Nú kemur ekki fram í skýrsl­unni hvers vegna Sótt­varna­lækni „reynd­ist ekki mögu­legt“ að starfa í þessum hópi, sem virð­ist þó liggja æði nærri hans starfs­sviði og helsta viðfangs­efni um þessar mundir. Hvað sem veldur virð­ast samskipti Þórólfs Guðna­sonar og þeirra sem mótuðu þessa stefnu vera takmörkuð. Um það eru fleiri skýrar vísbend­ingar. Þannig má í skýrsl­unni sem þriggja manna vinnu­hóp­ur­inn skil­aði ráðu­neyt­is­stjór­unum lesa:

„Samkvæmt upplýs­ingum frá sótt­varna­lækni, bæði því sem komið hefur fram í fjöl­miðlum og samtölum við starfs­mann embætt­is­ins, er ekki líklegt að unnt verði að taka mörg ríki af list­anum yfir hááhættu­svæði í bráð.“

– Það er að segja, upplýs­ingar frá embætti Sótt­varna­læknis hefur vinnu­hóp­ur­inn úr fjöl­miðlum og frá almennu starfs­fólki embætt­is­ins, en ekki frá sótt­varna­lækni sjálfum.

Óhjá­kvæmi­legt virð­ist að skoða þessa fjar­veru sótt­varna­læknis í ljósi ýmissa ummæla hans frá því að ríkis­stjórnin kynnti áform sín um aflétt­ingu sótt­kvíar við landa­mærin, þar sem honum virð­ist annt um að fjar­lægja embætti sitt þess­ari ráðstöfun. Ljóst er að opin­ber­lega andmælir hann áformunum ekki. Hann gætir þó vand­lega að því að þau séu ekki álitin hans eigin. „Þetta verk­efni er á forræði ríkis­stjórn­ar­innar,“ tók hann fram á blaða­manna­fundi Almanna­varna þann 15. maí. Svar við spurn­ingu blaða­manns á sama fundi hóf hann á að endur­taka sama fyrir­vara: „Þetta er vinna á forræði ríkis­stjórn­ar­innar. Það er ekki Sótt­varna­læknir sem er með forræði í þess­ari vinnu.“ Og svo framvegis.

Eina vísbend­ingu má finna í skila­bréfi ráðu­neyt­is­stjór­anna um að Almanna­varnir hafi átt einhverja aðkomu að tillögu­gerð­inni. Þar er þó ekki greint á milli full­trúa embætta Land­læknis, Sótt­varna­læknis og Ríkis­lög­reglu­stjóra: „Í samtölum við sótt­varna­lækni, full­trúa lögreglu og land­læknis (þríeykið) komu fram sjón­ar­mið um að skyn­sam­legt gæti verið …“ Umfram það að gefa grænt ljós, segja ekki blákalt nei, er afstöðu Sótt­varn­ar­læknis eða Land­læknis, út af fyrir sig, ekki að finna í skjalinu.

Fjar­vera heilbrigðiskerfisins

Í skila­bréfi ráðu­neyt­is­stjór­anna er vissu­lega kafli um heil­brigðis­kerfið. Eða fyrir­sögn, að minnsta kosti. Kafl­inn „Heil­brigðis­kerfið“ er undir 150 orð að lengd, umtals­vert styttri en þessi færsla hér og heldur þunn fjar­vist­ar­sönnun sjálfs sín.

Kafl­inn „Þarfir ferða­þjón­ust­unnar“ er yfir 20 sinnum lengri, nær 3.200 orð.

Með öðrum orðum eru, í helsta vinn­u­gagn­inu að baki þeim áformum stjórn­valda að liðka fyrir ferða­mennsku umfram öll önnur lönd, í miðjum heims­far­aldri, fáar vísbend­ingar um að þar hafi verið horft sérstak­lega til heil­brigð­is­mála. Það virð­ist í nokkru samræmi við fjar­veru Sótt­varna­læknis og Land­læknis frá starf­inu að baki.

Fjórir valkostir og einn í gríni

Í skila­bréfi ráðu­neyt­is­stjór­anna til ríkis­stjórn­ar­innar eru loks lagðir fram fimm valkostir.

Sá fyrsti er að halda til streitu kröfu um tveggja vikna sótt­kví, almennt, en fjölga þeim hópum sem byðist svokölluð B‑sóttkví eða hreyf­an­leg sótt­kví, það er að fara um í einangr­uðum hópum.

Annar valkost­ur­inn sem þeir nefna er sá að fækka ríkjum á lista yfir há-áhættu­svæði – sú varfærn­is­lega nálgun, sem sótt­varna­læknir hafði þegar lagt til, virð­ist valkostur flestra landa í kringum okkur um þessar mundir en myndi, eins og segir í skýrsl­unni „ekki ná fyrsta kastið til mikil­væg­ustu mark­aðs­svæða eins og Þýska­lands, Bret­lands og Bandaríkjanna“.

Þriðji valkost­ur­inn er krafa til komufar­þega um stað­fest­ingu á Covid-19 prófi erlendis frá. Í skýrsl­unni er tekið fram að sé hætt við föls­unum, að neikvæð próf séu ekki 100% örugg, og engin ein viður­kennd aðferð í boði, auk þess sem prófin séu ekki aðgengi­leg hverjum sem er, og því sé erfitt að stóla á þessa leið. 2

Fjórði valkost­ur­inn: Opnun landa­mæra án sérstakra skil­yrða. Eða, einfald­lega, opnun. „Gæti talist áhættu­samt við núver­andi aðstæður,“ nefna ráðuneytisstjórarnir.

Fimmti valkost­ur­inn er loks sagður skimun við komu til lands­ins. Í skýrsl­unni er nefndur sá kostur við þessa nálgun að þar sé ekki gert upp á milli ríkja. Með öðrum orðum: að farþegar frá fyrr­nefndum há-áhættu­svæðum á við Banda­ríkin, Bret­land og Þýska­land komast þá greiðar til lands­ins en ef valin er leið 2. Og það gæti „stuðlað tiltölu­lega hratt að því að ferða­þjón­usta nái sér á strik“.

Öllum tillögum fylgt

Eins og nefnt er í loka­orðum skýrsl­unnar hafði Sótt­varn­ar­læknir þá þegar lagt til að stigin yrðu skref innan ramma fyrstu tveggja valkost­anna: annars vegar að útvíkka sótt­kví B þannig að hún nái til fagfólks á afmörk­uðum sviðum, hins vegar að taka tiltekin lönd, nú Færeyjar og Græn­land, af lista há-áhættu­svæða. Þeim tillögum Sótt­varn­ar­læknis hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd.

Það sem ráðu­neyt­is­stjór­arnir gera að tillögu sinni, umfram þetta, á grund­velli samtals ferða­þjón­ust­unnar við sjálfa sig, eru þau nýmæli sem ríkis­stjórnin hefur síðan kynnt og hafa vakið mesta athygli erlendra fjöl­miðla: að frá og með 15. júní eigi ferða­menn til lands­ins val um veiru­skimun, á landa­mær­unum, í stað sótt­kvíar. Það er fimmti valkost­ur­inn á list­anum hér að ofan, auk þriðja valkosts­ins, að taka við erlendum vott­orðum um skimun, ef einhver slík reyn­ast ábyggileg.

Með öðrum orðum verða allir valkost­irnir virkj­aðir ef frá er talinn sá fjórði, sem þeir virð­ast hafa þarna í einhverju gríni, „Opnun landa­mæra án sérstakra skil­yrða“. Ríkis­stjórnin hyggst fylgja tillögum ferða­þjón­ust­unnar í einu og öllu.

Í því ljósi kemur ekki á óvart að læknar séu áhyggju­fullir.

References
1 Að auki vekur athygli að allir full­trúar vinnu­hóps­ins eru karlar og sama á við um átta af tíu nafn­greindum ráðgjöfum hóps­ins. Í þessu samhengi geta kynja­hlut­föll skipt nokkru máli um forsendur og niður­stöður, ekki aðeins vegna ólíkrar áhættu­sækni kynj­anna, heldur einnig í ljósi þess að stór hluti álags­ins af umönnun viðkvæmra hópa, á meðan farald­ur­inn geisar, fellur á hefð­bundnar kvenna­stéttir. Sé áætlun vinnu­hóps­ins fylgt er fyrir­sjá­an­legt að því álagi verði viðhaldið.
2 Ekki aðgengi­leg hverjum sem er – miðað við mark­aðs­svæðin sem nefnd eru að framan hafa ráðu­neyt­is­stjór­arnir hér mögu­lega í huga sama skort og blaða­maður New York Post nefnir í upphafi greinar um opnun Íslands: „It’s hard enough for sick Americans to get a corona­virus test, but over in Iceland they’re giving them away.“