Gleymum persónugalleríinu og gáum til hagsmuna: DeCode Genetics er dótturfyrirtæki bandaríska lyfjaframleiðandans Amgen Inc. Amgen er í dag metið á um 130 milljarða bandaríkjadala eða fimmfalda landsframleiðslu Íslands árið 2018. Hlutverk deCode innan samstæðunnar er að færa Amgen upplýsingar úr þeim gögnum sem fyrirtækið aflar meðal almennings á Íslandi. Gögnin – það ert þú, ættartréð, blóðprufan, erfðamengið, sjúkrasagan, spurningalistarnir og allt það – eru eina hráefni fyrirtækisins. Upplýsingarnar sem unnar eru úr þessum gögnum er eina afurð þess. Þær nýtir Amgen til lyfjaþróunar. Afkoma samstæðunnar í heild veltur á tekjum af lyfjasölu, sem Amgen hámarkar, eins og önnur fyrirtæki á sama sviði, með því að tryggja sér einkaleyfi og viðhalda þeim.
Þann 2. apríl sl. tilkynnti Amgen að fyrirtækið hygðist vinna að þróun lyfs við Covid-19 á grundvelli þeirra gagna sem deCode aflar með skimunum á Íslandi: „deCODE Genetics, a subsidiary of Amgen located in Iceland, will provide genetic insights from patients who were previously infected with COVID-19“, sagði þar. Á þeim átta vikum sem síðan eru liðnar hefur gengi Amgen sveiflast upp um eina íslenska landsframleiðslu og svo aftur niður um hálfa, eða þar um bil. Sýnatökur á Íslandi eða leyfisveitingar Persónuverndar eru áreiðanlega ekki stærstu áhrifaþættir á þessar sveiflur enda er rekstur Amgen umsvifamikill og markaðirnir viðsjárverðir. Þó liggur í augum uppi að hér og nú, þegar hagkerfi allra landa heims eru meira eða minna læst inni og bíða þess að komast út, felast umtalsverðir hagsmunir í einmitt þessari lyfjaþróun og þeim gögnum sem hún byggir á. Íslenskt hor á priki hefur með öðrum orðum aldrei verið verðmætara en síðustu mánuði.
Tækifæri
Þann 12. maí birti Kjarninn frétt um að sú hugmynd að „skima alla ferðamenn“ við komu til landsins væri komin frá forstjóra deCode. Í ítarlegri undirfyrirsögn mátti lesa að það hafi verið „forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem kom með þá hugmynd á fundi með stýrihópi um afnám ferðatakmarkana að skima alla sem komi til landsins. Þannig er hægt að opna aftur landamæri Íslands“. Þar var vísað til þá nýbirtrar skýrslu stýrihóps um afnám ferðatakmarkana. Þetta frumkvæði forstjórans var ekki allsendis óvænt, þar sem hann hafði áður viðrað möguleika af þessum toga, bæði við ráðamenn og við allan almenning. Í beinni útsendingu þann 24. apríl, til dæmis, hvatti hann ráðherra ferðamála eindregið til að laða ferðamenn aftur til landsins. Hann sagði, meðal annars:
„Hvernig væri að við auglýstum okkar land sem það land sem að tók á þessum faraldri þannig að fólkið í landinu var tiltölulega öruggt? Og með því að gera fólkið í landinu öruggt, þá getum við gert ferðamennina örugga á sama hátt. Ég held að í því felist býsna gott tækifæri. Spurningin er bara: hvernig útfærum við þetta? Hvernig sérðu um að hleypa mönnum inn í landið – prófarðu þá alla, prófarðu þá fyrir veirunni? Leitarðu að mótefnum í þeim, og svo framvegis og svo framvegis. Býðurðu þeim upp á eitthvað tækifæri til þess að láta sér líða eins og þeir séu öruggari en heima hjá sér?“
Í samræmi við tillögu forstjóra deCode skipaði ríkisstjórnin verkefnisstjórn, sem skilaði loks, mánudaginn 25. maí, „skýrslu um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum“. Að óbreyttu ræður Landspítalinn ekki við verkefnið, segir í skýrslunni, og þarf aðstoð. Daginn eftir var skýrslan birt almenningi og það sama kvöld birtist heilbrigðisráðherra í viðtalsþætti Ríkisútvarpsins. Þáttastjórnandi innti ráðherrann eftir viðbrögðum við þessari stöðu, að Landspítalinn ráði ekki við sýnatökur í fyrirhuguðu magni. Ráðherra svaraði því til að „það þurfi að ráðast í einhvers konar samkomulag við, væntanlega, deCode sem að hefur þá yfir þeirri greiningargetu að ráða sem þarf til þess að brúa þetta bil …“ Innt eftir því, nánar tiltekið, hvort hún ætti við að samið yrði við deCode um að „vinna úr þessum sýnum“ svaraði ráðherrann játandi:
„Það er það sem að, í raun og veru, verkefnisstjórnin leggur til. Og það er augljóst að það er enginn annar aðili sem getur komið þar að. Þannig að það er eitt af því sem þarf núna að taka afstöðu til, hvernig því yrði fyrirkomið.“
Allt virtist þetta í nokkru samræmi við það sem á undan hafði farið, nema þá kannski að ráðherrann skyldi láta í veðri vaka að sú hugmynd að leita til deCode væri nýtilkomin. Næsta kvöld birtist forstjóri deCode í sama viðtalsþætti, til að leiðrétta þann misskilning að allt léki í lyndi, fyrirtækið myndi að óbreyttu ekki taka þátt í skimun ferðafólks og opnun landamæranna:
„Við ætlum ekki að koma að þessari skimun ef hún verður unnin undir stjórn heilbrigðismálaráðuneytisins, vegna þess að samskipti okkar við það ráðuneyti eru á þann veg að við treystum okkur ekki til þess.“
Vogarafl
Nú var þetta í annað sinn á skömmum tíma sem forstjóri deCode beitir vogarafli fyrirtækisins með nákvæmlega þessum hætti, þ.e. beitir lykilstöðu þess í viðureign landsins við heimsfaraldur til að fara fram á undirgefni stjórnvalda. Fyrra tilefnið var að Persónuvernd og Vísindasiðanefnd höfðu í hyggju að sinna lögbundnum hlutverkum sínum, sem forstjórinn sagði að gæti orðið hraðahindrun í vegi fyrirtækisins (eða eitthvað í þá veru, ég man það ekki orðrétt). Við endurflutning þessa leikþáttar nú á miðvikudagskvöld virtist svolítil þreyta á sviðinu, uppfærslan orðinn þynnri, spyrill og gestur báðir flissandi á köflum, eins og forstjórinn tæki varla mark á rullunni sjálfur, og ætlaðist enn síður til þess af öðrum. En þarna var hann nú samt, þetta sagði hann – og fékk sínu framgengt: eins og Persónuvernd og Vísindasiðanefnd var áður vikið úr vegi steig í þetta sinn sjálft Heilbrigðisráðuneytið til hliðar, daginn eftir útsendingu.
Spyrjum þá: í þágu hvaða hagsmuna? Forstjórinn nefndi tvær ástæður fyrir því að hann vildi ekki starfa með heilbrigðisráðherra. Fyrst tilgreindi hann að ráðherrann hafi ekki þakkað starfsfólki fyrirtækisins nógsamlega fyrir vel unnin störf. Þegar þáttastjórnandi spurði hvort það væri ekki óþarflega barnalegt viðbragð nefndi forstjórinn hina ástæðuna, sem frekar virðist tilefni til að taka alvarlega, að því leyti sem hún virðist geta átt sterkari tengsl við efnislega hagsmuni fyrirtækisins. Forstjórinn sagði mikilvægt að fyrirtækið ráði ferð við framkvæmd sýnatökunnar, að hún verði á forsendum fyrirtækisins en ekki opinberra aðila:
„Ástæðan fyrir því að þetta gekk vel er sú að við unnum þetta á okkar forsendum. Við tókum inn í þetta okkar þekkingu, okkar getu, okkar skilning og okkar dugnað. Nú er verið að setja saman aðferð eða nálgun til þess að skima sem að við stjórnum ekki. Og við einfaldlega treystum ekki þessu fólki sem Svandís er búin að velja til þess að búa til þessa aðferð. Ef við hefðum verið beðin um að sjá um þetta, skipuleggja þetta, þá horfir þetta mál allt öðruvísi við. … Þetta hefur ekki með hrós að gera. Þetta hefur með það að gera hvernig er staðið að verkefninu. Það er að segja, að til þess að við viljum setja fingraför okkar á þetta verkefni, þá verður að vinna það vel. Það verður að vinna það samkvæmt okkar forsendum.“
Krafa Vigdísar
Fimmtudaginn 28. maí, nokkrum klukkustundum eftir að ríkisstjórnin varð við kröfu fyrirtækisins og tilkynnti að Heilbrigðisráðuneytið myndi ekki stýra framkvæmd veiruskimunar á landamærunum, hélt deCode upplýsingafund um Covid-19. Á fundinum nefndi forstjórinn að fyrirtækið ynni nú að þróun mótefnis við sjúkdómnum í samstarfi við teymi í British Columbia í Kanada, og hefði orðið nokkuð ágengt í því starfi. Sennilegt er að þar vísi hann til rannsóknarstofu Amgen Canada, sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun mótefna. Lyfja- og líftækniiðnaðurinn einkennist af fyrirheitum og þó að forstjórinn segist vongóður er sannarlega ekki víst að úr þessu þróunarstarfi verði lyf. En ef svo fer, ef allt fer á besta veg og aðgangur deCode að veirusýnum og öðrum gögnum á Íslandi gerir Amgen kleift að framleiða lyf við pestinni, hvernig yrði þá með það farið? Hverjir myndu, þegar upp er staðið, njóta góðs af frjálsum framlögum Íslendinga til fyrirtækisins?
Hagsmunir lyfjafyrirtækja liggja, í grófum dráttum, samsíða hagsmunum almennings að því leyti sem fyrirtækin finna upp á lækningum, en eru andstæð hagsmunum almennings að því leyti sem fyrirtækin takmarka aðgang að þessum sömu úrræðum. Í ljósi fyrri reynslu af slíkum takmörkunum hafa komið fram áhyggjur í heimsfaraldrinum. Þann 14. maí birtist ákall frá 140 þjóðarleiðtogum til ríkja heims um að tryggja að ef og þegar bóluefni uppgötvast verði það framleitt í massavís og standi öllum íbúum allra landa til boða, án endurgjalds. The People’s Vaccine er yfirskrift þessarar baráttu, og mætti einfaldlega þýða sem „bóluefni fyrir alla“. Í ákallinu segir meðal annars:
„Nú er ekki tíminn til að veita hagsmunum auðugustu fyrirtækja og stjórnvalda forgang yfir það að bjarga lífum eða að láta markaðsöflunum eftir þetta risavaxna, siðræna verkefni. Aðgengi að bóluefnum og lækningum sem alþjóðlegum almannagæðum er í þágu alls mannkyns. Við getum ekki leyft einokun, fákeppni og nærsýnni þjóðerniskennd að standa í vegi þess.“
Í ákallinu eru settar fram þrjár kröfur. Sú fyrsta snýst um hugverkasamlag af sama toga og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur undanfarið leitast við að koma á laggirnar: vettvang þar sem rannsóknarstofnanir, háskólar og fyrirtæki á lyfja- og líftæknisviði gætu vikið einkaleyfum til hliðar og deilt sín á milli þeirri þekkingu sem skapast á faraldrinum, greitt götu hvert annars við þróun úrræða og tryggt, þegar upp er staðið, jafnt aðgengi landa heims að hvaða bóluefni eða lyfi sem finnst.
Meðal þeirra 140 þjóðarleiðtoga sem undirrita ákallið um bóluefni fyrir alla má finna íslenskt nafn. Það er þó hvorki nafn Guðna Th. Jóhannessonar né Katrínar Jakobsdóttur heldur Vigdísar Finnbogadóttur.
Amgen hefur ekki, enn sem komið er, boðað þátttöku í neinu samlagi af þessum toga eða tekið undir slíkar kröfur. Þvert á móti hefur bandarískur lyfjaiðnaður, til þessa, staðið vasklega vörð um hagsmuni sína hinu megin við þá víglínu. Síðast nú í maí vann Amgen dómsmál gegn indverskum lyfjaframleiðanda sem hafði framleitt og selt fyrir um 17.000 krónur hvern skammt af carfilzomib, lyfi sem beitt er í meðferð við mergæxli, og Amgen verðleggur á um 200.000 krónur. Dómurinn staðfesti einkaleyfi Amgen, gerði indverska framleiðandanum að hætta framleiðslu og sölu lyfsins og tryggði að Amgen verður einrátt um verð þess á öllum mörkuðum til ársins 2027. Þetta tiltekna mál markaði engin sérstök tímamót í rekstri fyrirtækisins, svona dómsmál eru viðvarandi í rekstri stærri lyfjafyrirtækja, dæmið er aðeins nærtækt vegna þess hvað það er nýlegt.
Að óbreyttu, á meðan fyrirtækið hefur ekki gefið nein önnur fyrirheit, má ætla að hvaða uppgötvun sem Amgen gerir á grundvelli þeirra gagna sem deCode safnar á Íslandi verði bundin einkaleyfum og arðurinn af henni verði tryggður með varðstöðu og verðstýringu af þessum toga.
Eftir lostið
Andspænis lífshættu, manns eigin eða annarra, segir maður já, komi einhver til bjargar, bara já, fellst á skilmálana og skoðar þá betur síðar. Því er skiljanlegt að hvorki stjórnvöld né fjölmiðlar hafi lagt sig fram um að greina milli einkahagsmuna og almennra þegar faraldurinn stóð í hámarki og við vorum öll í hálfgerðu losti. Nú eru 80 dagar við neyðarstig almannavarna að baki. Það markar þáttaskil, að minnsta kosti stund milli stríða. Og næði til aðgreininga.
Opnun landamæra köllum við það sem nú er í bígerð, þá tilhögun að ferðalangar geti sætt veiruskimun í stað sóttkvíar.1 Þessari tilteknu útfærslu, á þessum tiltekna tímapunkti, fylgir tiltekin áhætta. DeCode er í þeirri oddastöðu að geta dregið verulega úr þeirri áhættu og aukið líkur þess að áform stjórnvalda gangi upp, stórhörmungalaust. Að við höldum bæði í hagkerfi og heilsu. Þessa stöðu virðist fyrirtækið nú tilbúið að færa sér í nyt. Það er viðbúið, þetta söguskeið heitir ekki síðkapítalismi fyrir ekki neitt. Ef, hins vegar, fyrirséð er að áform stjórnvalda um opnun landamæra byggi á samkomulagi við deCode um aðgang fyrirtækisins að gögnum, hvort sem er þeim gögnum sem aflað er með veiruskimun meðal ferðafólks eða öðrum, þá varðar það almannahag að greint sé opinskátt frá því samkomulagi áður en endanleg ákvörðun er tekin og framkvæmdin hefst. Fyrirtækið hefur verið óragt við að setja kjörnum fulltrúum okkar skilyrði og fylgja þeim eftir. Kannski virðist okkur, við nánari athugun, tilefni til að setja skilyrði á móti.
Það er hugsanlegt, þegar við tökum þessi viðskipti til skoðunar, að við sjáum tilefni, og finnum kjark, til að fylgja eftir ákallinu sem Vigdís Finnbogadóttir undirritaði og krefjast skuldbindingar frá Amgen um að hvaða lyf við Covid-19 sem hugsanlega finnst á grundvelli gagnanna frá Íslandi verði gert aðgengilegt öllum, alls staðar.
En kannski ekki.
Kannski sýnist okkur nær lagi að innheimta auðlindagjald fyrir afnot af persónuupplýsingum okkar.
Eða kannski viljum við engin skilyrði setja.
Kannski virðist okkur díllinn nokkuð sanngjarn eins og hann er: deCode segist, það sem af er faraldrinum, hafa lagt fram þriggja milljarða áhættufjármagn í formi eins konar neyðaraðstoðar. Kannski er það hæfilegt endurgjald fyrir sýnin og heimtur Amgen af þeim, ef einhverjar verða.
Og kannski viljum við ekki reikna þetta svona. Kannski finnst okkur það betur hæfa í viðskiptum við bandarísk lyfjafyrirtæki að skiptast á gjöfum við þau: að stundum komum við færandi hendi og fyrirtækið þiggur, stundum gefi það og við þiggjum, öll ásátt um að það væru vondir mannasiðir að telja.
Kannski viljum við reiða okkur á eins konar brauðmolakenningu um útbreiðslu meðferðarúrræða, að hvað sem þau kosta og hverjir sem njóta þeirra fyrst hljóti þau að lokum að rata til sinna.
Við getum haft þetta hvernig sem er. En lýðræðið gerir þá kröfu til okkar að við leitumst við að vita. Vita um hvað er samið, á hvaða forsendum, hvað fer fram í okkar nafni.
Nú þegar við stígum út úr neyðarástandinu og hristum hausinn, aftur í heiminum, þá væru það hughreystandi ummerki um að lýðræðið sé líka aftur komið í samband, að afdrifaríkustu ákvarðanir stjórnvalda hvíli á samþykki almennings, helst upplýstu.2
↑1 | Þessu orðalagi fylgja svolítil ónot. Landamærin voru aldrei alveg lokuð og eftir 15. júní verða þau ekki heldur blátt áfram opin, sbr. frumvarp sem liggur í sömu mund fyrir þinginu um örari brottvísanir hælisleitenda, nýtilkominn „landamæraeftirlitsbíl“ lögreglunnar, o.s.frv. – en eitt í einu. |
---|---|
↑2 | Að þessu sögðu: ég er ekki fjölmiðill og ég starfa ekki við fjölmiðil. Ég er lausamaður á berangri. Þó svo að mér finnist allt sem hér stendur liggja í augum uppi – að þetta sé einföld og jafnvel heldur varfærnisleg, hefðbundin ábending af taginu „follow the money“ – þá hef ég verið óvenju smeykur við að láta hana frá mér. Lái mér hver sem vill en fimmföld landsframleiðsla virðist duga til að eftirlitsstofnanir víki, heilu ráðuneytin liggi í valnum. Fólk hefur fengið á sig mar af minna. Ég vil snúa mér að öðru og geri ekki ráð fyrir að fást frekar við þetta viðfangsefni að sinni, sjálfur. Mér sýnist aftur á móti að það varði okkur, sameiginlega, og muni gera það um hríð. |