Heims­mark­aðs­verð á hugarró

11.5.2020 ~ 5 mín

Pestin gerði okkur öll fátæk­ari. Margt sem okkur hefur þótt verð­mæt­ast er skyndi­lega utan seil­ingar, ýmist hættu­legt eða bannað. Að faðma vin, sitja á bar, ferð­ast milli landa: hættu­legt eða bannað. Bjóða í mat, fara í bíó, sækja tónleika. Það þarf ekki að telja það upp. Allt sem veitir flestu fólki mesta ánægju. Ef það eru ýkjur eru þær ekki veru­legar. Þú mátt fara í klipp­ingu – núna. Svo lengi sem smittíðnin er lág. Þetta eru félags­leg gæði, allt, snúast um samneyti og saman­burð við aðra. Rósirnar sem Helen Todd krafð­ist þegar hún sagði verka­konur þurfa bæði brauð og rósir. Peningar eru verð­mætir að því gefnu að þeim megi skipta fyrir þetta.

Og nú, þetta vor, hvarf það allt eins og hendi væri veifað. Já, aftur, það eru ýkjur. En ekki stórkostlegar.

Þessu mun linna, auðvitað, ástandið er ekki varan­legt, leys­ingar jafn­vel hafnar. Víðast eru þó yfir­völd enn á brems­unni. Í Þýskalandi nota stjórn­völd einmitt þá mynd: eftir víðtækt útgöngu­bann hefur verið liðkað til í land­inu en Merkel segist tilbúin að grípa í neyð­ar­hemil, ef smittíðnin R fer yfir 1, kalla alla aftur inn. Í Bretlandi útskýrði Boris John­son svipað kerfi nú á sunnu­dag, kort­lagt í fimm, lituðum hættu­stigum: þið eigið að fara í vinn­una og megið fara út að leika, segir hann, þó ekki við ókunn­uga, og aðeins svo lengi sem R er undir 1. Ef R fer yfir 1 og pest­ar­mæl­ir­inn segir að ástandið sé appel­sínu­gult, þá verða allir kall­aðir inn aftur. Og á Íslandi var liðkað til þann 4. maí en almanna­varnir fylgj­ast með, tilbúnar að grípa inn í þegar vart verður við hópsmit eða önnur hættu­merki. Þegar, segir sótt­varn­ar­læknir, ekki ef.

Í dag, mánu­dag­inn 11. maí 2020, er runn­inn upp 70. dagur neyð­arstigs almanna­varna á land­inu. Enn hef ég ekki einu sinni heyrt getgátur um hvenær því verður aflýst. Á meðan það varir – ekki bara form­legt neyð­ar­ástand, heldur bæði tilefnið og viðbragðið, ógnin af pest­inni og vald­heim­ild­irnar sem stjórn­völd beita – á meðan það að fá um frjálst höfuð strokið er ekki talið réttur heldur heim­ild og aftur­kall­an­leg þegar þarft þykir – þá erum við öll fátæk­ari en við vorum fyrir pest. Óháð kaup­mætti, verð­bólgu, gengi gjald­miðla, atvinnu­leysi – þó að þar stæði allt í blóma værum við þessu fátæk­ari. Það má jafn­vel halda fyrri ýkjum til streitu, draga fram skörpu línurnar, og segja: alveg óháð tekjum þínum er allt sem þér þótti best í gær utan seil­ingar í dag og verður morg­undag­ana alla, allt fram á hinn daginn sem enginn veit enn hvenær rennur upp.

Sem er óvenju­legt ástand. Og hún leitar á þig, þessi spurn­ing: Ef Bjarni Ben kemst hvorki til Flórída né Feneyja, hvorki á barinn né í rækt­ina, hvað getur hann þá yfir­leitt gert við sína peninga, hér og nú, sem þú getur ekki gert við þína?

Ég veit ekki svarið en ég get ímyndað mér eitt. Ég held að hugs­an­lega geti Bjarni keypt sér svolitla hugarró. Öryggistilfinningu.

Öryggi er hérumbil jafn eftir­sótt vara og súrefni og við kjör­að­stæður má búast við sömu ofgnótt af hvoru tveggja. Örygg­is­skort­ur­inn, þurrk­ur­inn sem skall á okkur, var bæði mikill og hraður. Ef loft­hjúpur jarðar tæmd­ist í einni svipan myndi eftir­spurn eftir súrefniskútum aukast. Ég veit fátt um einka­hagi fjár­mála­ráð­herra en helstu lífs­gæðin sem hann og stéttsystkin hans hafa nú efni á en þú kannski ekki, gæti verið af þeim toga. Eins konar öryggis­kútar. Ákveðin öryggis­kennd. Að afmarka reiti þar sem þau fá um frjálst höfuð strokið, geta látið eins og þau lifi enn í gærdeg­inum, þó ekki sé nema um stundarsakir. 

Ég ímynda mér, á ég við, að hafi nokkrum íslenskum auðmanni láðst það, fram að pest, að festa sér svolitla jörð í dreif­býli, með bæ eða bústað, verönd og potti, og girða þann skika sinn af, þá hafi sá eða sú hin sama nú þegar fært það til betri vegar – eða leiti, að öðrum kosti, logandi ljósi að sínu afdrepi í sveit­inni. Ég geri ráð fyrir að verð á þeim mark­aði hafi nokkuð hækkað síðustu mánuði. Að sá mark­aður, jafn­vel, blómstri.

Það sem var verð­laus ofgnótt í fyrra en dýrmæt munað­ar­vara í dag er að þurfa hvorki að hugsa um handsápu né spritt þó að maður stígi út úr húsi eða inn í það. Mega nudda úr sér stír­urnar, fá um frjálst höfuð strokið. Og óttast ekki að almanna­varnir aftur­kalli með skyndi­legu inngripi frelsið til að bora í nefið. Ég ímynda mér að slíkur innri friður sé þessa dagana eftir­sótt­ari, jafn­vel eftir­sókn­ar­verð­ari, en heims­ins fágæt­ustu orkídeur. Ég ímynda mér að hann finn­ist, í svolitlum mæli, á afgirtum skikum úti í sveit. Og ég ímynda mér að fleiri ímyndi sér það.

Fram yfir síðustu áramót var heim­ur­inn sneisa­fullur af þess­ari sálarró, án þess að við gerðum okkur nokkra grein fyrir því. Við busl­uðum í henni og spreð­uðum henni í vitleysu, enda er hún til þess gerð að sólunda henni. Ef þessi lífs­nauð­syn er nú takmörkuð gæði, jafn­vel munað­ar­varn­ingur, þá getur hugs­ast að vinstrið og verka­lýðs­hreyf­ingin ætti að láta sig skipt­ingu þeirra gæða varða, beint, ekki síður en skipt­ingu fjár­muna. Stétt­ar­fé­lögin huga áreið­an­lega nú þegar að bústöð­unum sínum. Mögu­lega hugleiða lífeyr­is­sjóð­irnir þegar jarða­kaup, og þá ekki aðeins með arðsemi í huga. Og vonandi hefur ASÍ tryggt sér full­trúa í starfs­hópnum sem vinnur nú tillögur til ríkis­stjórn­ar­innar um hvernig skuli útfæra sótt­varnir næstu miss­era. Þær verða víst kynntar á föstudag.

Skipan starfs­hóps­ins sýnist mér svolítið leynd­ar­dóms­full en heyrst hefur að full­trúar ferða­iðn­að­ar­ins njóti þar áheyrnar. Áður en sölu­menn lands­ins bjóða hugarró okkar upp á alþjóða­mörk­uðum gætum við viljað gera þeim ljóst að við skiljum verð­mæti varn­ings­ins. Að við látum hann ekki létt­úð­lega af hendi heldur hyggj­umst við ígrunda og skegg­ræða kosti og galla mögu­leik­anna framundan. Að við hyggj­umst meðal annars taka það til vand­legrar skoð­unar hvort við viljum heldur, að Íslands­stofa ýti úr vör nýju átaki til land­kynn­ingar, ef og þegar þar að kemur, einhverju á við Inspired by Iceland-herferð­ina eftir gosið í Eyja­fjalla­jökli. Hvernig dæmið lítur þá út, í glat­aðri hugarró og græddum eyri. Eða hvort okkur finnst þvert á móti ráðlegra, í þetta sinn, að nýta sama fé og njóta færni sama fagfólks, til land­fæl­ingar­átaks. Hræða ferða­fólk frá land­inu í svolitla stund, virki­lega letja það frá því að koma með leið­inda­sögum og ljótum myndum, breiða það út að hér búi mest­megnis heldur óvið­kunn­an­legt fólk í líflausu umhverfi. Og geta þá einmitt í krafti þess orðspors, áhyggju­lítið ef ekki áhyggju­laust, opnað bæði útidyrnar og landa­mærin. Upp á gátt. Sitigið inn og út úr húsum að vild, og amma og afi með. Fengið í frjálsa nös borað, öll sem eitt, hótinu víðar og lengur en ella. Að við ætlum að skoða þetta aðeins.