Í gær, þriðjudaginn 12. maí, kynnti ríkisstjórnin áform um að opna landamæri, falla frá skyldusóttkví komufarþega og markaðssetja íslenska ferðaþjónustu fyrir 1,5 milljarð króna á erlendum mörkuðum. Landkynning verður það, ekki landfæling. Gott og vel.
Daginn áður sagðist sóttvarnarlæknir myndu leggja það til að skyldusóttkví allra komufarþega yrði framlengd að minnsta kosti til 15. júní. En hann er vitaskuld ekki einráður um stefnu stjórnvalda. Tillögurnar sem kynntar voru í Þjóðmenningarhúsinu eiga ekki uppruna sinn innan almannavarna, heldur ferðaþjónustunnar: vinnuhópur skipaður tveimur fulltrúum ferðaþjónustunnar, ásamt einum lögfræðingi Heilbrigðisráðuneytisins, ráðfærði sig við tíu stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu, skilaði tillögum þeirra til starfshóps ráðuneytisstjóra, sem bar þær áfram til ráðherranna, sem kynntu þær loks í Þjóðmenningarhúsinu á þriðjudag.
Sóttvarnarlæknir mælti með sóttkvíum ekki skemur en til 15. júní, ríkisstjórnin svarar að þeim verði aflétt ekki síðar 15. júní. Það virðist þá óhætt að reikna með að fyrirkomulagið breytist þann 15. júní.
En breytist hvernig, nákvæmlega? Þetta er snúið mál. Ein hlið á því eru alþjóðlega skuldbindingar. Íslensk stjórnvöld virðast nú öllu kokhraustari í garð veirunnar en stjórnvöld samstarfslanda. Í skýrslu ráðuneytisstjóranna eru, í því samhengi, viðraðar nokkrar áhyggjur af Schengen-samstarfinu, sem gæti sett opnun Íslands skorður.
Fyrir pest snerust áhyggjur af Schengen einkum um að bandalagið gerði Ísland of opið fyrir aðkomufólki. Nú er öldin önnur, nú er heimsfaraldur, og stjórnsýslan hefur áhyggjur af því að samstarfið gæti aftrað fólki för til landsins. Ef Ísland heimilar lendingar frá Bandaríkjunum og Kína á meðan ytri landamæri Schnengen-svæðisins eru annars lokuð vegna sóttvarna, segir starfshópurinn að landið gæti „verið tekið út fyrir sviga í næstu pólitísku ákvörðun um framlengingu á þessari lokun og samstaðan þá náð til lokunar fyrir flug frá Íslandi“.
Með öðrum orðum: ef Ísland opnar smitleið frá umheiminum gæti Schengen lokað á Ísland. Sem væri bagalegt, að skilja má, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna.
En stjórnsýslan hugsar í lausnum og leggur til þessa hér:
„Sú leið sem helst virðast koma til greina til að afstýra því að þessi staða komi upp felst í því að halda uppi brottfarareftirliti á innri landamærunum og setja skilyrði sem fælist t.d. í því að til að mega fara frá Íslandi og áfram til meginlandsins þyrftu borgarar þriðja ríkis að sýna fram á samfellda dvöl á Íslandi í tvær vikur.“
Tvær vikur – ég sé ekki betur en hér sé tekið mið af tímalengd sóttkvíar eftir ferðalög í nær öllum samstarfslöndum okkar um þessar mundir.
Þannig má í það minnsta líta tillöguna frá tveimur sjónarhólum. Já, hér innanlands má kannski segja að þann 15. júní verði sóttkvíarskyldu komufarþega til landsins aflétt. En ef tillögum starfshópsins er fylgt til hlítar er ef til vill skýrara að orða það sem svo að þann 15. júní útvíkki sóttkvíin, Ísland allt verði þá að sóttkví Schengen-svæðisins.
Ef. Hver veit. Sem viðskiptahugmynd gæti þetta gengið upp. Lúxussóttkvíin Ísland gæti orðið eftirsótt. Í samkeppni við aðrar sóttkvíar hefur landið forskot sem nemur 103.000 ferkílómetrum. Og önnur Evrópuríki gætu gripið boðið fegins hendi, að útvista þessari áhættu til hálftómrar eyju á Atlantshafi.