Banvæn pest, banvænn veirusjúkdómur – síðasti heimsfaraldur hófst upp úr 1980. Og hliðstæðurnar milli HIV og kórónaveirunnar eru forvitnilegar – ég meina ekki veirufræðilega, sem ég hef auðvitað ekki hundsvit á, og ég á ekki einu sinni við sjúkdómana sem veirurnar valda, heldur spurningar sem vakna andspænis þeim, um hvað ber að gera. Þetta eru persónulegar spurningar og samfélagslegar og snúast að verulegu leyti um áhættu og áhættustýringu. Bæði einkalegu spurningarnar og þær samfélagslegu hafa snertiflöt við spurningar um rétt og rangt – en aðeins ákvarðanir samfélags, til dæmis á vegum ríkja, vekja spurningar um réttlæti í pólitísku og efnahagslegu samhengi.
Þegar er ljóst af tölfræði ótal landa sem eru nógu fjölmenn til að fást við tölfræði að veikindi og andlát af völdum pestarinnar skiptast víðast hvar afar ójafnt, í beinu samhengi við stétt og stöðu (Ísland er einhvern veginn alltaf á mörkunum að geta fengist við tölfræði yfirleitt, hér eru aldrei 4% látinna reykingamenn heldur bara Siggi sonur hans Kalla, hann náttúrulega reykti eins og strompur …). Víðast á Vesturlöndum hafa fátækir reynst í umtalsvert meiri hættu en efnafólk, innflytjendur í meiri hættu en innfæddir, svartir í meiri hættu en hvítir – þetta á, að breyttu breytanda, jafnt við í Svíþjóð, í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Það væri þá enn ein hliðin á málinu sem má líkja við stríðsrekstur: þau rök hafa verið flutt fyrir herskyldu, í löndum sem halda heri, að það dragi úr fýsn ráðamanna til að hefja stríð ef synir og dætur þeirra sjálfra eru jafn líkleg til að standa á víglínunni og synir og dætur almúgafólks.
Erfingjar Samherja eiga hægara um vik að gæta að sínum „einstaklingsbundnu sýkingavörnum“ en flest fólk í umönnunarstörfum. Afsakið: allt fólk í umönnunarstörfum. Erfingjar Samherja ferðast ekki með strætó. Svo dæmi sé tekið.
Það fyrsta til að gæta að, á meðan pestin geisar, er að ráðamenn taki ekki ákvarðanir á kostnað tekjulægri hópa, fátækra eða jaðarsettra, í þágu efnameiri og betur stæðra. Það er hið viðvarandi pólitíska verkefni en það verður sérstaklega aðkallandi í aðstæðum þar sem slíkar ákvarðanir varða líf og dauða hér og nú. Í nokkuð veigamiklum skilningi er enginn róttækari ójöfnuður til en skilin milli lífs og dauða.
Nú, eftir að fyrsta kafla glímunnar við veiruna er lokið, eins og sóttvarnarlæknir orðar það, og nýr kafli tekur við, mögulega erfiðari, eins og hann hefur líka sagt, stöndum við frammi fyrir vegasalti þar sem mannslíf verða metin til fjár. Þeir sem eiga auðveldast með að tryggja sínar einstaklingsbundnu sýkingavarnir munu leggja sig fram um að þrýsta verði annarra mannslífa niður. Og það er enginn að fara að þrýsta á móti nema við sjálf.
Fólkið með bestu einstaklingsbundnu sýkingavarnirnar hefur líka greiðastan aðgang að eyrum stjórnvalda. Ef aðdragandi ákvarðana fer fram með hvísli eigum við ekki séns. Við þurfum að draga samtalið fram, við þurfum að krefjast þess að það eigi sér stað fyrir opnum tjöldum, að allar forsendur fyrir ákvörðunum stjórnvalda í þessu samhengi komi fram. Að viðmiðið sé fullkomið gagnsæi. Þá nægir ekki að sóttvarnarlæknir segist ætla að útskýra heildarmyndina fyrir þeim læknum sem eru áhyggjufyllstir – hann þarf að útskýra þessa heildarmynd fyrir okkur. Okkur ber að krefja hann og önnur stjórnvöld í landinu um það.