Skyndiárásar-kjarnorkukafbáturinn USS Indiana er mættur í landhelgina, til þátttöku í kafbátaheræfingu NATO, Dynamic Mongoose, sem er nú haldin á Íslandi og hófst í dag, 29. júní 2020. Kjarnorkuknúna flugmóðurskipið USS Roosevelt er líka mætt. Og þrettán önnur stórvirk árásarapparöt.
Landið er auðvitað dysfunctional núna eins og gerist þegar sólin skín og hitinn fer yfir 15 gráður. Við tækjum ekki eftir heimsendi þó að hann hóstaði framan í okkur. Ég er samt að spá í að fullyrða svolítið.
Ég er að spá í að fullyrða að hvað sem líður fagurgala – eða bara væli – stjórnvalda um mikilvægi íslenskrar tungu, löggjöf um hana, jafnvel stjórnarskrárákvæði, þá séu sömu stjórnvöld helsti skaðvaldur tungunnar, með því að gera hana ónýta sem vettvang raunverulegs samtals, grafa undan getu hennar til að merkja upp veröldina sem við lifum í, hvenær sem af því má hafa örlítinn ávinning, kaupa sér örlítinn frið. Að þýða nuclear warfare sem kafbátaeftirlit er aðeins eitt, lítið dæmi sem ratar á fjörur okkar í dag, þegar Ísland hýsir æfingu NATO í þessum hernaði sem íslensk stjórnvöld hér kalla eftirlit. Norrænt samstarf er annað hugtak sem í auknum mæli er beitt sem rósamáli yfir vígvæðingu. Grínlaust. Upplýsingaöflun í löggæslutilgangi er beitt í lagatexta um leyniþjónustustarfsemi Ríkislögreglustjóra – öll þessi orð eru til þess gerð að við getum ekki beitt þeim, að þau rati ekki á raunveruleikann.
Og það eru fleiri leiðir til að taka tungumálið úr sambandi, gera það irrelevant. Þegar manntjón verður vegna viðvarandi, kerfisbundinnar vanrækslu á réttindum erlends verkafólks en forsætisráðherra fagnar sigri fótboltaliðs í öðru landi áður en hún lætur frá sér orð um þennan viðburð – þá tekur hún fyrst og fremst afstöðu gegn virði mannslífa í tilfelli valinna hópa. En með því að kjósa heldur orð sem skipta ekki máli en þau sem gætu gert það tekur hún um leið afstöðu gegn tungumálinu, getu þess til að varða sameiginlega tilveru okkar.
Stjórnvöld nota orð til að breiða yfir veruleikann frekar en mæta honum.
Og við sitjum eftir í tungumáli, með samskiptafærni, á sama róli og Teletubbies. Eina leiðin til að henda reiður, ekki bara á því sem gerist utan landsteinanna, heldur á landinu sjálfu, er að bera sig eftir textum á öðrum tungumálum. Hugleysi stjórnvalda til að standa við gjörðir sínar og stefnu er áreiðanlega ekki eina orsök þess en nokkuð drjúgur áhrifaþáttur.
Er ég að spá í að fullyrða.