„Við sem þjóð ættum að fá að njóta veiruleysis aðeins lengur“ voru lokaorð Bryndísar Sigurðardóttur, smitsjúkdómalæknis við Landspítalann, í erindi sem hún flutti á málþinginu Út úr kófinu í hátíðarsal HÍ í á miðvikudag.
„Ekki rétta leiðin enda falskt öryggi“
Bryndís sagði í erindi sínu að prófin sem beitt er við skimun veiti of margar falskar niðurstöður, bæði jákvæðar og neikvæðar, til að víst sé að mikill ávinningur yrði af greiningu einkennalausra ferðamanna við landamærin. Margir muni „sleppa í gegn með falskt, neikvætt próf“, það sé „óhjákvæmilegt og mun gerast hvort sem við skimum eða ekki“. Bryndís sagði:
„Óljóst er hvort ávinningur sé af þeirri gríðarlegu vinnu sem fer í að útfæra þetta verkefni. Til þess að finna, að ég tel, örfáa einstaklinga með jákvætt sýni. Og það er í raun umhugsunarvert að enginn hafi sett spurningamerki opinberlega við þessar hugmyndir, komið með vísindaleg rök gegn hópskimun einkennalausra hraustra ferðamanna“
Bryndís sagði afar líklegt að „strax við fyrstu vél, allavega fyrsta daginn“ muni greinast smit meðal farþega. Þegar það gerist „þá stefnir í að Landspítalinn fari fljótlega aftur á neyðarstig. Og við verðum enn og aftur að sætta okkur við takmarkanir, skerðingu á þjónustu og breytta forgangsröðun.“ Hún hvatti stjórnvöld til að endurskoða áform sín um að skima alla einkennalausa ferðamenn, skoða „kostnaðarhagkvæmni þessarar tilraunar, sem er það sem þetta er, en einnig gögn um takmarkaða getu þessara prófa til að útiloka sýkingu, ofan á þá staðreynd að margir jákvæðir en einkennalausir eru alveg eins líklegir til að vera með gamla sýkingu, sem er yfirstaðin.“
Hún sagði landið öruggt núna, „í raun laust við smit, Covid-safe“ og spurði hvort ekki væri ráð „að halda því aðeins lengur fyrir okkur sjálf,“ leyfa „útilegur, útihátíðir, tónleika, fertugsafmæli, eða fimmtugs, brúðkaup og jarðarfarir innan landsteinanna“.
„Þið hugsið um sóttvarnir og látið okkur um hitt“
Gylfi Zoega, hagfræðingur, lagði í reynd hliðstæða áherslu í sínu erindi, frá sjónarhóli sinnar greinar: „Hagkerfið mun ná sér á strik þótt ekki komi fjöldi ferðamanna, svo fremi sem annar faraldur kemur ekki í haust,“ stóð á glærum hans. Þar stóð líka: „Góður árangur í sóttvörnum í vor hefur skapað almannagæði sem bæta lífskjör og örva hagvöxt.“
Gylfi lagði áherslu á mikilvægi þess að sýna varkárni vegna óvissunnar framundan:
„Við skilyrði óvissu þá er mikilvægt að taka smá skref. VIð vitum ekki hver framtíðin er. Veiran gæti orðið skæðari, dáið út eða hvað. Þá myndi maður segja: taka fá skref, opna hægt, setja stopp ef eitthvað slæmt kemur fyrir, vitandi það að þetta hagkerfi mun ná sér á strik, lífskjörin hérna eru bara mjög góð.“
Í fyrirspurnum að loknu erindinu beindi Gylfi máli sínu sérstaklega til Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, sem sat þá meðal áheyrenda, og sagði:
„Það sem að þetta land, eins og við vorum að tala um áðan, býr að, af því að ykkur tókst svo vel upp í vor, þá eru þetta eins konar samfélagsleg gæði, að geta búið hérna og lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi. Og kostnaðurinn við þessar sóttvarnir í vor, miðað við það sem við erum að sjá í hinum löndunum, var mjög lítill. Það er að segja, efnahagslegur kostnaður af farsóttinni hérna stafar aðallega af því að það er farsótt í heiminum og þessir erlendu ferðamenn koma ekki hingað. … En kostnaður efnahagslífsins af innlendum sóttvörnum var miklu minni hér, held ég, en annars staðar. Því fólk var ekki lokað heima hjá sér. Og miklu stærri hluti atvinnulífsins hélt áfram. Svo þá, ef þú ert að plana næsta vetur, þá skiptir máli að reyna að varðveita þessi samfélagslegu gæði sem við höfum hérna. … Og hafa þessa samræðu, þannig að þið séuð ekki að hugsa um efnahagsþættina. Þið hugsið um sóttvarnir og látið okkur um hitt. Og svo vinnum við saman. Að þið séuð ekki að taka sénsa af því að þið haldið að allt efnahagslífið sé að fara á hliðina. Fyrst að eiga samtal um það.“
Hver græðir?
Málflutningur Bryndísar og Gylfa var afar skýr. Sama verður því miður ekki sagt um mál sóttvarnalæknis, sem flutti fyrsta erindi málþingsins. Í þetta sinn, á þessum vettvangi, birtist þar ekki sá varkári vísindamaður sem við höfum mátt venjast á upplýsingafundum Almannavarna, heldur maður með söluræðu. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, flutti síðasta erindi málþingsins. Þar talaði hún á almennum nótum um áskoranir faraldursins en svaraði ekki þeirri gagnrýni sem kom fram í erindum Bryndísar og Gylfa.
Ef smitsjúkdómalæknar segja áform stjórnvalda ekki þjóna heilbrigðismarkmiðum, og ef hagfræðingar segja þau varla þjóna hagrænum markmiðum heldur, hvaða markmiðum þjóna þau þá, þessi tilteknu áform um þessa tilteknu útfærslu, á þessum tiltekna tímapunkti?