Gljúpa efnið kannski

03.6.2020 ~ 5 mín

Minn­is­blað Sótt­varna­læknis um útfærslu á opnun landa­mær­anna, sem ríkis­stjórnin fund­aði um á þriðju­dag, geymir ekki eina heldur nokkrar tillögur. Ein þeirra er að fólk sem hefur smit­ast af Covid-19 og var greint í tæka tíð til að bera trúverð­ugt vott­orð um veik­indin, verði þareftir frjálst ferða sinna yfir landa­mærin, hind­rana­laust. „Ég lít svo á að einstak­lingur sem hefur fengið stað­festa sýkingu/smit,“ segir í minn­is­blað­inu, „sé ónæmur fyrir endur­sýk­ingu og beri ekki með sér smit. Engar ferða­hömlur þarf því að setja á slíka einstaklinga.“

Sann­anir

Þau sem þegar hafa sýkst af veirunni og lækn­ast yrðu þannig, samkvæmt tillögu Sótt­varna­læknis, eini hópur­inn sem ekki þarf annað hvort að setj­ast í tveggja vikna sótt­kví, við hverja ferð yfir landa­mæri, eða láta stinga sýna­tökup­inna upp í nösina á sér. Ég efast ekki um að tillagan samræm­ist sjón­ar­miðum og mark­miðum sótt­varna, fyrst embættið setur hana fram. Og þó að hún veki athygli mína er ég ekki þar með sjálf­virkt mótfall­inn henni. Þetta hér er ekki þess háttar texti. En á þessu fyrir­komu­lagi eru sann­ar­lega hliðar sem snúast ekki aðeins um sótt­varnir. Þær helstu eru reyndar nefndar stutt­lega í minn­is­blað­inu sjálfu. Fyrst nefnir sótt­varna­læknir mismunun hópa:

„Um þetta hefur ekki verið einhugur og hugmyndir komið fram um að í þessu kunni að felast mismunun“.

Ef ráðstöf­unin gildir aðeins á landa­mærum eins ríkis, í skamma hríð, er það í sjálfu sér ekki alvar­leg mismunun. Það verða engin alda­hvörf við tilfær­ingar á því hversu greið­lega þessi eða hinn kemst í frí til Íslands. En Sótt­varna­læknir segir „líklegt að einstaka lönd muni á næstu miss­erum skil­yrða ferðir til sinna landa með slíkum vott­orðum“. Ef það er tilfellið, ef það verður alþjóð­legt viðmið að forsmit­aðir komist óhindrað yfir landa­mæri en aðrir ekki, þá eru það nokkuð veiga­mikil skil milli hópa, og afstaðin Covid-19 sýking grund­völlur nokk­urra forrétt­inda. Leiðin í frelsið, eða þetta tiltekna frelsi sem við áður þekktum, liggur þá, um hríð, gegnum smitið.

Og það er hinn fyrir­var­inn sem Sótt­varna­læknir nefnir, áhyggjur sem heyrst hafi af hvat­anum sem geti falist í þessu viðmiði, að það „geti jafn­vel leitt til að einstak­lingar sækist í að sýkj­ast af veirunni.“ Fyrir sitt leyti vísar hann þessum áhyggjum á bug með orðunum: „Fyrir þessu eru þó ekki neinar sann­anir.“ Og lengra nær sú umfjöllun ekki í minn­is­blað­inu, enda ekki í verka­hring Sótt­varna­læknis að leggja mat á spurn­ingar um mann­rétt­indi, jöfnuð og slíkt.

Sæfæið

Engar sann­anir liggja fyrir um hegðun fólks í fram­tíð­inni, það er rétt. Eftir sem áður gætum við viljað gefa því gaum hvaða veggir rísa í kringum okkur og hvernig hlið­vörslu um þá verður háttað. Sjálfur er ég jafn heill­aður af því og mér finnst það hroll­vekj­andi, að við sem vorum svikin um flug­bíla og ferðir til Mars fáum þó að upplifa skugga­hliðar vísinda­skáld­skap­ar­ins, martrað­irnar meðal bernsku­draumanna við sjón­varpið: hér í þessu samhengi á ég við þann mögu­leika að greið­asta leiðin til Köben og Kanarí liggi á næst­unni gegnum lífs­hættu­lega veiru­sýk­ingu. Lítið skref fyrir Sótt­varna­lækni en svolítið reffi­legt fall, sýnist manni, fyrir mannkyn.

Að hags­munir einstak­linga séu, að einu og öðru leyti, andstæðir hags­munum samfé­lags er auðvitað ekkert nýtt. Hermann Stef­áns­son varð samferða hlust­endum Víðsjár á Rás 1 gegnum kófið. Hann flutti sinn síðasta kófp­istil á mánu­dag­inn var, pist­il­inn „Við“. Þar leggur Hermann meðal annars fram þá kenn­ingu að vest­ræn stjórn­völd „hefðu ekki gripið til svona mikilla ráðstaf­ana í kófinu ef ekki hefði komið til lofts­lagsugg­ur­inn sem fyrir var“.

Ýmsir hafa velt fyrir sér tengslum þess­ara ógna og sumir haldið því fram að viður­eignin við pest­ina standi gagn­vart hamfara­hlýnun eins og spænska borg­ara­styrj­öldin gagn­vart síðari heims­styrj­öld­inni: kófið sé upphitun þar sem línurnar eru lagðar, grund­vall­ar­at­rið­unum stillt upp, og veiga­miklu spurn­ing­arnar birt­ast um stund­ar­sakir á afmark­aðri vett­vangi en bíður þeirra handan við hornið. Eða kannski var það Hermann sem sagði þetta líka, ég náði ekki að skima alla pistl­ana til að gá. Andspænis báðum ógnum jafnt, veirunni og veðr­inu, er ein veiga­mesta spurn­ingin ef til vill einmitt að hvaða leyti við tökumst á við vand­ann saman og að hvaða leyti samstaðan víkur fyrir hags­munum einstakra persóna, hópa, ríkja, heims­hluta eða stétta.

Vegg­irnir og við

Það sem ég vildi fara er þetta: Sú hugmynd, eða sú rökvísi, að það geti orðið í hag ungra hreysti­menna að sýkj­ast og greiða þannig leið sína gegnum alla nýreistu vegg­ina virð­ist ekki alveg óskyld rökvísi nýju veggj­anna í Texas, sem Hermann nefnir í lokap­istli kófsins:

„Það þarf að hefjast handa við að byggja hinn feikn­ar­mikla vegg sem til stendur að reisa í Texas, 100 kíló­metra stein­steypt og járn­bent ferlíki sem mun gegna því hlut­verki að verja helstu olíu­vinnslu­stöðvar lands­ins fyrir hækk­andi sjáv­ar­máli af völdum lofts­lags­breyt­inga, áður en olíu­vinnslu­stöðv­arnar sökkva í hafið; banda­rískir skatt­greið­endur eiga að greiða fyrir þennan múr. Það á sem sé að vernda orsak­irnar fyrir afleiðingunum.“

En það renna á mig tvær grímur þessa dagana, jafn­harðan og mér dettur eitt­hvað í hug eða ég set það niður á skjá. Við viljum gæta okkar á ýkjunum, gera ekki úlfalda úr mýflugum. Að reisa vegg um olíu­vinnslu­stöð til að verja hana fyrir sjáv­ar­máli sem hækkar einmitt vegna starf­semi olíu­vinnslu­stöðva á kannski ekkert skylt við að reisa veggi á landa­mær­unum, til að verja fólk fyrir pest sem breið­ist svo út vegna þeirra sem leita eftir smiti til að komast gegnum hliðin. Því kannski er enginn á þeim buxunum. Eða rétt svo varla til, hlut­föllin öll önnur, freistni­vand­inn hverf­andi. Kannski hefur þetta smáat­riði í tillögum Sótt­varna­læknis, ferða­frelsi forsýktra, engar afleið­ingar fyrir aðra en þá örfáu lukk­unnar pamfíla sem í nokkra mánuði komast þarmeð heldur greiðar í hvala­skoðun og jökla­ferð en aðrir. Fyrir því eru engar sannanir.