Minnisblað Sóttvarnalæknis um útfærslu á opnun landamæranna, sem ríkisstjórnin fundaði um á þriðjudag, geymir ekki eina heldur nokkrar tillögur. Ein þeirra er að fólk sem hefur smitast af Covid-19 og var greint í tæka tíð til að bera trúverðugt vottorð um veikindin, verði þareftir frjálst ferða sinna yfir landamærin, hindranalaust. „Ég lít svo á að einstaklingur sem hefur fengið staðfesta sýkingu/smit,“ segir í minnisblaðinu, „sé ónæmur fyrir endursýkingu og beri ekki með sér smit. Engar ferðahömlur þarf því að setja á slíka einstaklinga.“
Sannanir
Þau sem þegar hafa sýkst af veirunni og læknast yrðu þannig, samkvæmt tillögu Sóttvarnalæknis, eini hópurinn sem ekki þarf annað hvort að setjast í tveggja vikna sóttkví, við hverja ferð yfir landamæri, eða láta stinga sýnatökupinna upp í nösina á sér. Ég efast ekki um að tillagan samræmist sjónarmiðum og markmiðum sóttvarna, fyrst embættið setur hana fram. Og þó að hún veki athygli mína er ég ekki þar með sjálfvirkt mótfallinn henni. Þetta hér er ekki þess háttar texti. En á þessu fyrirkomulagi eru sannarlega hliðar sem snúast ekki aðeins um sóttvarnir. Þær helstu eru reyndar nefndar stuttlega í minnisblaðinu sjálfu. Fyrst nefnir sóttvarnalæknir mismunun hópa:
„Um þetta hefur ekki verið einhugur og hugmyndir komið fram um að í þessu kunni að felast mismunun“.
Ef ráðstöfunin gildir aðeins á landamærum eins ríkis, í skamma hríð, er það í sjálfu sér ekki alvarleg mismunun. Það verða engin aldahvörf við tilfæringar á því hversu greiðlega þessi eða hinn kemst í frí til Íslands. En Sóttvarnalæknir segir „líklegt að einstaka lönd muni á næstu misserum skilyrða ferðir til sinna landa með slíkum vottorðum“. Ef það er tilfellið, ef það verður alþjóðlegt viðmið að forsmitaðir komist óhindrað yfir landamæri en aðrir ekki, þá eru það nokkuð veigamikil skil milli hópa, og afstaðin Covid-19 sýking grundvöllur nokkurra forréttinda. Leiðin í frelsið, eða þetta tiltekna frelsi sem við áður þekktum, liggur þá, um hríð, gegnum smitið.
Og það er hinn fyrirvarinn sem Sóttvarnalæknir nefnir, áhyggjur sem heyrst hafi af hvatanum sem geti falist í þessu viðmiði, að það „geti jafnvel leitt til að einstaklingar sækist í að sýkjast af veirunni.“ Fyrir sitt leyti vísar hann þessum áhyggjum á bug með orðunum: „Fyrir þessu eru þó ekki neinar sannanir.“ Og lengra nær sú umfjöllun ekki í minnisblaðinu, enda ekki í verkahring Sóttvarnalæknis að leggja mat á spurningar um mannréttindi, jöfnuð og slíkt.
Sæfæið
Engar sannanir liggja fyrir um hegðun fólks í framtíðinni, það er rétt. Eftir sem áður gætum við viljað gefa því gaum hvaða veggir rísa í kringum okkur og hvernig hliðvörslu um þá verður háttað. Sjálfur er ég jafn heillaður af því og mér finnst það hrollvekjandi, að við sem vorum svikin um flugbíla og ferðir til Mars fáum þó að upplifa skuggahliðar vísindaskáldskaparins, martraðirnar meðal bernskudraumanna við sjónvarpið: hér í þessu samhengi á ég við þann möguleika að greiðasta leiðin til Köben og Kanarí liggi á næstunni gegnum lífshættulega veirusýkingu. Lítið skref fyrir Sóttvarnalækni en svolítið reffilegt fall, sýnist manni, fyrir mannkyn.
Að hagsmunir einstaklinga séu, að einu og öðru leyti, andstæðir hagsmunum samfélags er auðvitað ekkert nýtt. Hermann Stefánsson varð samferða hlustendum Víðsjár á Rás 1 gegnum kófið. Hann flutti sinn síðasta kófpistil á mánudaginn var, pistilinn „Við“. Þar leggur Hermann meðal annars fram þá kenningu að vestræn stjórnvöld „hefðu ekki gripið til svona mikilla ráðstafana í kófinu ef ekki hefði komið til loftslagsuggurinn sem fyrir var“.
Ýmsir hafa velt fyrir sér tengslum þessara ógna og sumir haldið því fram að viðureignin við pestina standi gagnvart hamfarahlýnun eins og spænska borgarastyrjöldin gagnvart síðari heimsstyrjöldinni: kófið sé upphitun þar sem línurnar eru lagðar, grundvallaratriðunum stillt upp, og veigamiklu spurningarnar birtast um stundarsakir á afmarkaðri vettvangi en bíður þeirra handan við hornið. Eða kannski var það Hermann sem sagði þetta líka, ég náði ekki að skima alla pistlana til að gá. Andspænis báðum ógnum jafnt, veirunni og veðrinu, er ein veigamesta spurningin ef til vill einmitt að hvaða leyti við tökumst á við vandann saman og að hvaða leyti samstaðan víkur fyrir hagsmunum einstakra persóna, hópa, ríkja, heimshluta eða stétta.
Veggirnir og við
Það sem ég vildi fara er þetta: Sú hugmynd, eða sú rökvísi, að það geti orðið í hag ungra hreystimenna að sýkjast og greiða þannig leið sína gegnum alla nýreistu veggina virðist ekki alveg óskyld rökvísi nýju veggjanna í Texas, sem Hermann nefnir í lokapistli kófsins:
„Það þarf að hefjast handa við að byggja hinn feiknarmikla vegg sem til stendur að reisa í Texas, 100 kílómetra steinsteypt og járnbent ferlíki sem mun gegna því hlutverki að verja helstu olíuvinnslustöðvar landsins fyrir hækkandi sjávarmáli af völdum loftslagsbreytinga, áður en olíuvinnslustöðvarnar sökkva í hafið; bandarískir skattgreiðendur eiga að greiða fyrir þennan múr. Það á sem sé að vernda orsakirnar fyrir afleiðingunum.“
En það renna á mig tvær grímur þessa dagana, jafnharðan og mér dettur eitthvað í hug eða ég set það niður á skjá. Við viljum gæta okkar á ýkjunum, gera ekki úlfalda úr mýflugum. Að reisa vegg um olíuvinnslustöð til að verja hana fyrir sjávarmáli sem hækkar einmitt vegna starfsemi olíuvinnslustöðva á kannski ekkert skylt við að reisa veggi á landamærunum, til að verja fólk fyrir pest sem breiðist svo út vegna þeirra sem leita eftir smiti til að komast gegnum hliðin. Því kannski er enginn á þeim buxunum. Eða rétt svo varla til, hlutföllin öll önnur, freistnivandinn hverfandi. Kannski hefur þetta smáatriði í tillögum Sóttvarnalæknis, ferðafrelsi forsýktra, engar afleiðingar fyrir aðra en þá örfáu lukkunnar pamfíla sem í nokkra mánuði komast þarmeð heldur greiðar í hvalaskoðun og jöklaferð en aðrir. Fyrir því eru engar sannanir.