Houllebecq segir hana vera banal, hún sé ekki einu sinni kynsjúkdómur. Og muni engu breyta.
Žižek segir þörf á kommúnisma til að díla við áskorun svona pestar, og á við, sýnist mér, að minnsta kosti einhvers konar alþjóðlegan samráðsvettvang með valdheimildir til að leggja ríkjum línurnar.
Agamben segir að allt viðbragð ríkja við veirunni sé ofsaviðbragð, hún sé eiginlega ekki annað en tálbeita sem auðveldi þeim að innleiða nýtt vald í heiminum, nýtt umboð til afskipta og stýringar.
Nina Power hatar að vera lokuð inni – og lái henni hver sem vill, Bretland virðist bæði hafa gengið langt í valdbeitingu vegna veirunnar og mislukkast að gera það af þeirri skilvirkni sem hefði forðað landinu frá hörmungum. Ekki alveg the worst of both worlds, en í áttina.
Sama á við um Bandaríkin, þar sem aðgerðir hafa verið harðar á köflum en ómarkvissar í það heila.
Hvaða aðrar meginlínur hafa birst í hugsun um pestina? Flest þau sem hafa lagt hálsinn á þann höggstokk að byrja að hugsa á meðan allt er í loft upp virðast fara um þokuna eða kófið án afdráttarlausrar eða skýrrar leiðarlínu – og lái þeim hver sem vill. Að halda í band og halda settu striki hjálpar þér ef til vill áleiðis út úr þokunni – en ef þú vilt sjá þokuna sjálfa er ef til vill heldur ráð að staldra við. Hvað liggur okkur á?
Þú getur séð hana en það er erfiðara að henda reiður á henni.
Zizek og Agamben birtust snemma sem andstæðir pólar að þessu leyti, meðal hugsuða heimspekivinstrisins, svo ég segi ekki róttæka vinstrisins eða kommúnismans, að sá fyrri talaði fyrir markvissri valdbeitingu og sá síðari gegn henni. Sem kom engum á óvart, nema hugsanlega þá í upphafi að mörgum virtist Agamben, í því samhengi, heldur skeytingarlaus um þau mannslíf sem voru og eru í húfi. Þeir eiga það hins vegar sameiginlegt að vara við hinum nýju möguleikum kapítalismans til gegnsýringar og yfirráða, eða hröðun á þeim möguleikum sem þegar voru til staðar, með útbreiðslu sóttkvía, nándarmarka – með skipulögðu undanhaldi okkar frá ógninni og þar með heiminum þarna úti, hvert inn í sitt rými, þar sem við verðum háð nettengingum um alla hluti: samskipti, vensl við annað fólk, aðföng, vinnu.
Um tækifærin sem tæknifyrirtækin sjá í því ástandi hefur Naomi Klein líklega skrifað skilmerkilegustu úttektina til þessa. Ef upphafsreitur Zizeks er kommúnisminn og upphafsreitur Agambens er vantraust til ríkisvaldsins kemur ekki heldur á óvart að upphafsreitur Klein sé áfallakenningin, the shock doctrine. Bók Klein frá árinu 2007, The Shock Doctrine: The Rise of Disaster Capitalism, hefur því miður ekki komið út í íslenskri þýðingu en áhrifa hennar gætir þó hér eins og víða. Þar rekur hún sögu nýfrjálshyggjunnar út frá broti í bókinni Capitalism and Freedom, eftir Íslandsvininn Milton Friedman, um hvernig sé best að innleiða nýjar hugmyndir. Krísur gagnast best, segir hann:
„Only a crisis —actual or percieved— produces real change. When the crisis occurs, the actions that are taken depend on the ideas that are lying around. That, I believe, is our basic function: to develop alternatives to existing policies, to keep them alive and available until the politically impossible becomes politically inevitable.“
– Að halda stefnu til haga og á lífi þar til einhver krísa kemur til sögunnar og það sem áður virtist pólitískt ómögulegt verður, í nýju ljósi, óhjákvæmilegt. (Við þessa upprifjun verður mér hugsað til greinar eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, sem birtist í tímariti hans, Frelsið, um „herstjórnarlist í hugmyndabaráttunni“ þar sem hann er á svipuðum slóðum, fjallar reyndar ekki um krísur sérstaklega heldur hagkvæmni og skilvirkni við útbreiðslu hugmynda: að frekar en reyna að tala beint við alla sé mikilvægt að hafa áhrif á hvaða bækur og rit eru innan seilingar fyrir þá sem hann nefnir milliliði, kennara, fjölmiðlafólk og aðra, þegar þeir seilast upp í hillu eftir efni til að deila með öðrum.)
Læt þetta duga, þetta verða slitrur, þarf að díla við daginn, framhald síðar.