Lögreglumenn við tilraunaflug dróna á lóð lögreglu­stöðvarinnar við Hlemm, föstudaginn 19. júní 2020.

Þriðju­dag­inn 25. júní 2019 fól Alþingi Ríkis­lög­reglu­stjóra að reka leyni­þjón­ustu (sem tókst svo dæma­laust vel að þingið sjálft varð þess varla vart og þú ekki heldur)

19.6.2020 ~ 12 mín

TL;DR

Með Lögum um vinnslu persónu­upp­lýs­inga í löggæslu­til­gangi, sem Alþingi samþykkti sumarið 2019, var yfir­völdum veitt heim­ild til að „skrá og varð­veita persónu­upp­lýs­ingar að því marki sem nauð­syn­legt er í löggæslu­til­gangi“. Þessi heim­ild var útfærð nánar í reglu­gerð frá Dóms­mála­ráðu­neyt­inu nú í maí, með tilmælum til Ríkis­lög­reglu­stjóra um að skrá þess háttar persónu­upp­lýs­ingar í gagna­grunn um „einstak­linga, hópa, félög, fyrir­tæki eða annað“ sem „tengj­ast“ ákveðnum brota­flokkum. Meðal upptal­inna brota­flokka eru „ólög­mætir flutn­ingar fólks“. Árið 2019 virð­ist því hafa verið stofnuð leyni­þjón­usta í land­inu og henni falið, árið 2020, að fylgj­ast með rétt­inda­bar­áttu flótta­fólks, meðal annars. Forvirkar rann­sókn­ar­heim­ildir hét þetta á laga­máli framan af síðasta áratug, á meðan um það var þrætt, en sín á milli kallar flest fólk svona starf­semi einfald­lega njósnir. Þegar þessi starf­semi var nú loks færð í lög var þó hvor­ugt orðið notað enda hvergi um málið rætt —það virð­ist hafa farið fram hjá fjöl­miðlum, jafn­vel þing­mönnum sjálfum.

Óvænt reglu­gerð

Ég var ekki beint á ráfi um dimman skóg en nú undir miðjan júní, 2020, sat ég þó og fletti gegnum nýút­gefnar reglu­gerðir á vefnum reglugerd.is, Tilefnið voru fréttir þar sem haft var eftir yfir­lög­reglu­þjóni að lögreglan hefði fengið heim­ild til að vísa hverjum þeim komufar­þega frá landa­mær­unum sem henni virð­ist ekki „líklegur til að fylgja sótt­varn­ar­ráð­stöf­unum“. Þessi heim­ild hljóm­aði svolítið óvenju­lega, enda hafa próf­steinar lögreglu á þennan trúverð­ug­leika fólks ekki verið birtir. Matið virð­ist því huglægt, sem eftir­lætur starfs­fólki eða embætt­is­mönnum við landa­mærin umtals­vert og nýstár­legt vald. Ég ætlaði að fletta upp reglu­gerð­inni að baki þess­ari heim­ild, gá hvort þar leynd­ust nánari upplýs­ingar en ég fann hana ekki.

Í því garfi rakst ég hins vegar á allt aðra, nýlega reglu­gerð frá Dóms­mála­ráðu­neyt­inu, útgefna 27. maí 2020. Sú heitir Reglu­gerð um skrár lögreglu og vinnslu persónu­upp­lýs­inga í löggæslu­til­gangi. Og þar gætir nokk­urra nýmæla. Í annarri grein hinnar nýju reglu­gerðar eru taldir upp þeir flokkar persóna sem lögreglan geymir gögn um: fyrst fólk sem teng­ist kærum, síðan fólk sem teng­ist erindum til lögreglu, þá hand­teknir menn. Það virð­ist allt, fljótt á litið, í svip­uðum farvegi og áður. En þá bætist við fjórði liður­inn, sem mér sýnist vera alveg nýr af nálinni: Ríkis­lög­reglu­stjóri heldur, samkvæmt þessum lið:

„Gagna­grunn þar sem skráðar eru upplýs­ingar um einstak­linga, hópa, félög, fyrir­tæki eða annað sem teng­ist eftir­far­andi brota­flokkum: a. fíkni­efnum, b. barnaklámi, c. peninga­þvætti, d. hryðju­verkum, e. fjár­mögnun skipu­lagðrar glæp­a­starf­semi, f. ólög­mætum flutn­ingi fólks.“

Fólk og félög sem „tengj­ast“ brota­flokkum eru hér hrein viðbót við hand­tekna, kærða og það fólk, almennt, sem teng­ist nokkrum tilteknum erindum á borði lögreglu. Að Ríkis­lög­reglu­stjóra sé falið að halda skrá yfir fólk og félög án slíks tilefnis eru umtals­verð nýmæli. Að þeir brota­flokkar sem þar eru tilgreindir inni­haldi „ólög­mæta flutn­inga fólks“ eru önnur.

Með Útlend­inga­lögum sem samþykkt voru árið 2016 var það gert saknæmt eða mögu­lega saknæmt að hjálpa papp­írs­lausum að komast leiðar sinnar: í tveimur liðum 116. greinar er það sagt varða sektum eða fang­elsi ef maður „aðstoðar útlend­ing við að dvelj­ast ólög­lega hér á landi eða í öðru ríki“ eða „aðstoðar útlend­ing við að koma ólög­lega hingað til lands eða til annars ríkis“.1

Með reglu­gerð­inni frá því nú í maí virð­ist Ríkis­lög­reglu­stjóri hafa fengið heim­ild til að halda skrá með persónu­upp­lýs­ingum um þau sem embætt­inu sýnist líkleg til að veita slíka aðstoð eða „tengj­ast“ henni. Þar á meðal má trúlega telja þá presta sem reynt hafa að forða flótta­fólki frá brott­vísun, meðal annars með því að veita tveimur ungum mönnum kirkju­grið í Laug­ar­nes­kirkju sumarið 2016. Prest­arnir eru þó annars vegar sýni­legir við iðju sína, hins vegar er senni­legt að þeir njóti einhvers skjóls af embætti og stöðu. Reglu­gerðin skeytir ekki um hvort mann­eskja sem í hlut á hefur sýni­lega og sann­an­lega aðstoðað fólk í þess­ari berskjöld­uðu stöðu, þ.e. veitt fólki í lífs­hættu skjól til að komast hjá brott­vísun, heldur virð­ist nóg, skv. reglu­gerð­inni, að lögregla láti hvarfla að sér að svo gæti verið til að afla gagna um þá persónu, þann hóp, hvern sem tengst gæti hinu mögu­lega athæfi.

Reglu­gerðin virð­ist, með öðrum orðum, veita stjórn­völdum heim­ild til njósna um þátt­tak­endur í rétt­inda­bar­áttu flótta­fólks. Lögreglan virð­ist þar með hafa fengið þær forvirku rann­sókn­ar­heim­ildir sem hún sótt­ist eftir árum saman, flestir virt­ust mótfallnir, mikið var deilt um.

Ólesin lög

Eitt er að stjórn­völd stofni til njósn­a­starf­semi innan­lands, annað að það geri ráðherra án aðkomu þings­ins. Enda var það ekki svo, þegar nánar er að gáð. Í reglu­gerð­inni er vísað til laga nr. 75/2019. Það eru Lög um vinnslu persónu­upp­lýs­inga í löggæslu­til­gangi, samþykkt á Alþingi í júní 2019. Ein nýmæli laganna birt­ast þegar í heiti þeirra, þar sem orðið „löggæslu­til­gangur“ sést í fyrsta sinn í íslenskum lögum. Í 2. grein laganna er hugtakið skilgreint:

„Löggæslu­til­gangur: Sá tilgangur að koma í veg fyrir, rann­saka, koma upp um eða saksækja fyrir refsi­verð brot eða full­nægja refsi­við­ur­lögum, þ.m.t. að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi“.

Fyrsti og síðasti sagn­liður skil­grein­ing­ar­innar er hér lykil­at­riði: að koma í veg fyrir. Lögin, og heim­ild­irnar sem þar eru veittar til gagna­öfl­unar, snúast þar með ekki aðeins um framin heldur, ekki síður, óframin brot, hluti sem ekki hafa gerst. Þar með getur heldur fjölgað því fólki sem lögregla lætur sig varða og safnar gögnum um.

Í 7. grein njósna­lag­anna má finna þá víðtæku heim­ild sem liggur til grund­vallar gagna­grunni yfir­valda, sem hefur nú verið nánar útfærður í reglugerð:

„Þá er lögbærum yfir­völdum heim­ilt að skrá og varð­veita persónu­upp­lýs­ingar að því marki sem nauð­syn­legt er í löggæslu­til­gangi og í samræmi við önnur ákvæði laga þessara.“

Um leið var ákvæðum um að það væri embætti Ríkis­lög­reglu­stjóra sem skyldi annast þessa gagna­öflun stungið í undir­liði í þeim Lögreglu­lögum sem fyrir voru. Í reglu­gerð­inni er vísað til i‑liðar 1. máls­greinar 5. greinar Lögreglu­laga, um þetta hlut­verk Ríkis­lög­reglu­stjóra. Hlut­verk embætt­is­ins er, samkvæmt þessum nýja lið, að halda ýmsar hefð­bundar skrár – og loks:

„aðrar skrár sem nauð­syn­legar eru í þágu löggæslu­hags­muna til að afstýra yfir­vof­andi hættu eða sporna við afbrotum“.

Sumarið 2019 samþykkti Alþingi með öðrum orðum lög sem heim­ila yfir­völdum að skrá og varð­veita persónu­upp­lýs­ingar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, afstýra eða sporna við afbrotum og ógnum. Nýir liðir í Lögreglu­lögum brúa bilið milli afar almennrar heim­ildar yfir­valda í þessum efnum, að þeim tiltekna gagna­grunni sem Ríkis­lög­reglu­stjóri má nú halda yfir fólk og félög sem tengj­ast rétt­inda­bar­áttu flóttafólks.

Sex mínútur á Alþingi

Ég minnt­ist þess ekki að hafa séð fjallað um reglu­gerð­ina í fjöl­miðlum og fann enga umfjöllun við leit – en gott og vel, ráðherra gaf hana út nú í maí, beint í kjöl­far fyrstu lotu farald­urs­ins, fólk var með hugann við annað. Um lögin hlýtur þó að hafa verið fjallað, hugs­aði ég þá, eins þó að það hafi farið fram hjá mér. Og ég leit­aði. En fann ekki. Ekki neina umfjöllun. Enga. Um nýju, íslensku njósna­lögin virð­ist ekki verið fjallað á neinum vettvangi.

Þingið hlýtur þó að hafa vandað sig við umræðu um þau, hvarfl­aði þá að mér. Og ég gáði að því líka. Sigríður Á. Ander­sen, þá dóms­mála­ráð­herra, lagði frum­varpið fyrir Alþingi þann 18. febrúar 2019. Í upphafi grein­ar­gerðar til þings­ins sagði hún lögin, meðal annars, varða „vinnslu lögbærra yfir­valda á persónu­upp­lýs­ingum í tengslum við að koma í veg fyrir … refsi­verð brot“. Hér er aftur þessi lykil­sögn, að koma í veg fyrir. Vissu­lega taldi ráðherr­ann upp fleira, „rann­saka, koma upp um eða saksækja fyrir“, en að koma í veg fyrir er fyrsti liður­inn í upptaln­ingu hennar, rétt eins og í skil­grein­ingu laganna sjálfra á hugtak­inu löggæslu­til­gangur. Þing­menn hljóta að hafa tekið eftir því að þarna fóru nokkur nýmæli, hugs­aði ég.

Fyrsta umræða þings­ins um frum­varpið fór fram þremur dögum eftir kynn­ingu þess. Hún varði í sex mínútur. Það er að segja, dóms­mála­ráð­herra talaði. Að því loknu samþykkti þingið að næsta umræða um efnið færi fram innan Alls­herjar- og mennta­mála­nefndar. Nefndin taldi málið afgreitt, fyrir sitt leyti, seinna þetta vor, kl. 09:03 að morgni föstu­dags­ins 31. maí 2019. Frum­varpið barst þá aftur til þings­ins, með nefndaráliti, og var tekið til þriðju umræðu þann 11. júní. Sú umræða varði í alls tvær mínútur. Það var Páll Magnús­son sem talaði og lagði til tvær breyt­ingar, fyrir hönd nefnd­ar­innar, til að „tryggja samræmi við orða­lag“. Fyrri breyt­ingin sem þing­mað­ur­inn lagði til var að „á eftir orðinu „nema“ í fyrri málslið 2. mgr. 18. gr. komi: og“.

Enginn andmælti því.

Enginn tók til máls, yfirleitt.

Atkvæða­greiðsla um lögin tók aðrar tvær mínútur, en það væri ansi rausn­ar­legt að telja þær til umræðu. Nokkrir stjórn­ar­þing­menn voru fjar­ver­andi en lögin samþykktu allir viðstaddir þing­menn, úr öllum flokkum. Og þar með var því lokið. Málið í höfn.

Umræða Alþingis um njósna­lögin 2019 varði með öðrum orðum í sex mínútur.

Umfjöllun í fjöl­miðlum tók, að ég best fæ séð, núll mínútur, núll dálk­sentí­metra, núll orð. Varð ekki.

Evrópa sem dulargervi

Hvernig má það vera, spyr kannski einhver. Hvernig samþykkti Alþingi lög um njósnir, sem meðal annars virð­ist mega beita gegn rétt­inda­bar­áttu flótta­fólks, án þess að það rataði í fréttir? Eitt er kannski að dóms­mála­ráð­herr­ann sem mælti fyrir frum­varp­inu hrökkl­að­ist skömmu síðar úr embætti af öðrum sökum, vegna allt annarrar valdníðslu. Lands­rétt­ar­málið hefur þá kannski mátt nýta sem eins konar sjón­hverf­ingu, til að beina athygli okkar að fóta­burði ráðherr­ans á meðan hend­urnar feng­ust við annað. Þá getur verið að það hafi komið að góðum notum að kynna frum­varpið með orða­vaðli um Evrópu­þingið og Schengen: „Efni frum­varps­ins tekur að miklu leyti mið af tilskipun Evrópu­þings­ins og ráðs­ins,“ sagði ráðherr­ann í inngangi að grein­ar­gerð sinni til þings­ins. Tilskip­unin, hélt hún áfram, „telst vera þróun á ákvæðum Schengen-rétt­ar­regln­anna í samræmi við samn­ing­inn sem ráð Evrópu­sam­bands­ins gerði við Ísland og Noreg um þátt­töku þess­ara tveggja ríkja í fram­kvæmd, beit­ingu og þróun Schengen-gerð­anna …“ o.s.frv.

Kannski má beita skír­skot­unum til evrópskra stofn­ana sem svefn­lyfi á þingið, enda álykti þing­menn að málið sé utan þeirra seil­ingar um leið og þessar stofn­anir ber á góma, þingið gegni þá bara afgreiðslu­hlut­verki. Eins og fram kom í áliti Alls­herjar- og mennta­mála­nefndar um frum­varpið er það þó alls ekki raunin hér:

„Meiri hlut­inn bendir á að ekki er um að ræða eigin­lega EES-innleið­ingu heldur er um að ræða lögfest­ingu ákvæðis umræddrar tilskip­unar í samræmi við skuld­bind­ingar Íslands á grund­velli Schengen-samstarfs­ins. Meiri hlut­inn leggur þess vegna til að ákvæðið falli brott þar sem slíkt innleið­ing­ar­á­kvæði á ekki við nema um sé að ræða gerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.“

Þannig hljóð­aði athuga­semd nefnd­ar­innar við 35. grein frum­varps­ins. Alþingi tók ekki tillit til hennar, greinin stendur óbreytt í lögunum og gefur enn til kynna að allt sé þetta upprunnið einhvers staðar allt annars staðar, hjá direktøren for det hele, en ekki á lille bitte Alþingi.

Rétt­indi sem kamúflas

Skipti þetta sköpum? Var þessi Evrópu­þvæla taktískt lykil­at­riði? Eða kannski var það hitt, að dóms­mála­ráð­herra skreytti grein­ar­gerð sína fyrir frum­varp­inu með orðum á við rétt­indi og rétt­ar­bætur. Hún talaði ekki einfald­lega um „vinnslu lögbærra yfir­valda á persónu­upp­lýs­ingum“ heldur um „vernd einstak­linga að því er varðar vinnslu lögbærra yfir­valda á persónu­upp­lýs­ingum“. Þess­ari vernd einstak­linga pakk­aði ráðherr­ann síðan inn í Evrópu­þvæl­una, „tilskipun Evrópu­þings­ins og ráðs­ins nr. 2016/680 frá 27. apríl 2016 um vernd einstak­linga að því er varðar vinnslu lögbærra yfir­valda á persónu­upp­lýs­ingum“, og dúðaði það knippi loks í fulla fötu af lopa, þar til úr verður eftir­far­andi setn­ing, í heild, sem aðeins hefur birst í brotum hér að ofan:

„Efni frum­varps­ins tekur að miklu leyti mið af tilskipun Evrópu­þings­ins og ráðs­ins nr. 2016/680 frá 27. apríl 2016 um vernd einstak­linga að því er varðar vinnslu lögbærra yfir­valda á persónu­upp­lýs­ingum í tengslum við að koma í veg fyrir, rann­saka, koma upp um eða saksækja fyrir refsi­verð brot eða full­nægja refsi­við­ur­lögum og frjálsa miðlun slíkra upplýs­inga og um niður­fell­ingu ramm­a­ákvörð­unar ráðs­ins nr. 2008/977/DIM (löggæslu­til­skip­unin).“

Þess­ari setn­ingu er ekki ætlað að nokkur komist vakandi í gegnum hana. Ég geri ráð fyrir að þing­mönnum sé ráðið frá því að aka bifreið eftir að lesa svona skjöl.

Hvað sem olli, Evrópu­þvælan, rétt­inda­þvælan, Lands­rétt­ar­hneykslið eða eitt­hvað allt annað, þá runnu njósna­lögin gegnum þingið, athuga­semda­laust. Alls­herjar- og mennta­mála­nefnd „fjall­aði einna helst um skil­grein­ingu lögbærra yfir­valda og miðlun þess­ara yfir­valda á persónu­upp­lýs­ingum til annarra opin­berra aðila eða einka­að­ila“ eins og það er orðað í áliti nefnd­ar­innar sjálfrar. Það er, nefndin villt­ist í tækni­at­riðum og henni láðist að taka til skoð­unar hvort þingið kærði sig um að lögfesta njósn­a­starf­semi í land­inu yfir­leitt.2

Hvernig sem það atvik­að­ist, þá er það ekki lengur leynd­ar­mál, ekkert sem Ríkis­lög­reglu­stjóri þarf að pukrast með, að þar er njósnað. Embætt­inu hafa verið veittar fullar, opin­skáar heim­ildir til njósn­a­starf­semi sem það virð­ist, meðal annars, mega beina gegn þeim sem berj­ast fyrir rétt­indum flótta­fólks. Ekki vegna gruns um tiltekið brot, heldur til að koma í veg fyrir, afstýra og sporna við.

Ef ég starf­aði við fjöl­miðil myndi ég nefna þetta við ritstjóra, held ég. Þó seint sé. Þetta þarna með forvirku rann­sókn­ar­heim­ild­irnar, sem allir hættu að þræta um. Að það virð­ist þá vera vegna þess að málið var afgreitt. Fumlaust. Hljóðalaust.

References
1 Með 110. grein Útlend­ingalag­anna frá 2016 var lögreglu einnig veitt heim­ild til að gera húsleit og líkams­leit á útlend­ingum sem grun­aðir eru um að leyna stjórn­völd upplýs­ingum og meðal „aðila sem rökstuddur grunur er um að aðstoði útlend­ing við að halda slíkum gögnum leyndum“.
2 Og þrátt fyrir að hafa augun á miðlun gagn­anna, frekar en hvort þeirra skyldi yfir­leitt aflað, þá skildu nefndin og þingið eftir nóg svig­rúm í lögunum fyrir afar sérkenni­legar útfærslur á því sviði líka. Í reglu­gerð­inni er lögreglu m.a. veitt heim­ild til að miðla persónu­upp­lýs­ingum „til stjórn­ar­með­lims eða lögmanns hús­félags … að því gefnu að upplýs­ing­arnar séu félag­inu nauð­syn­legar til að gæta mikil­vægra lögvar­inna hags­muna þess.“ Það er ekki lítil ábyrgð að sitja í stjórn húsfélags.