TL;DR
Með Lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sem Alþingi samþykkti sumarið 2019, var yfirvöldum veitt heimild til að „skrá og varðveita persónuupplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er í löggæslutilgangi“. Þessi heimild var útfærð nánar í reglugerð frá Dómsmálaráðuneytinu nú í maí, með tilmælum til Ríkislögreglustjóra um að skrá þess háttar persónuupplýsingar í gagnagrunn um „einstaklinga, hópa, félög, fyrirtæki eða annað“ sem „tengjast“ ákveðnum brotaflokkum. Meðal upptalinna brotaflokka eru „ólögmætir flutningar fólks“. Árið 2019 virðist því hafa verið stofnuð leyniþjónusta í landinu og henni falið, árið 2020, að fylgjast með réttindabaráttu flóttafólks, meðal annars. Forvirkar rannsóknarheimildir hét þetta á lagamáli framan af síðasta áratug, á meðan um það var þrætt, en sín á milli kallar flest fólk svona starfsemi einfaldlega njósnir. Þegar þessi starfsemi var nú loks færð í lög var þó hvorugt orðið notað enda hvergi um málið rætt —það virðist hafa farið fram hjá fjölmiðlum, jafnvel þingmönnum sjálfum.
Óvænt reglugerð
Ég var ekki beint á ráfi um dimman skóg en nú undir miðjan júní, 2020, sat ég þó og fletti gegnum nýútgefnar reglugerðir á vefnum reglugerd.is, Tilefnið voru fréttir þar sem haft var eftir yfirlögregluþjóni að lögreglan hefði fengið heimild til að vísa hverjum þeim komufarþega frá landamærunum sem henni virðist ekki „líklegur til að fylgja sóttvarnarráðstöfunum“. Þessi heimild hljómaði svolítið óvenjulega, enda hafa prófsteinar lögreglu á þennan trúverðugleika fólks ekki verið birtir. Matið virðist því huglægt, sem eftirlætur starfsfólki eða embættismönnum við landamærin umtalsvert og nýstárlegt vald. Ég ætlaði að fletta upp reglugerðinni að baki þessari heimild, gá hvort þar leyndust nánari upplýsingar en ég fann hana ekki.
Í því garfi rakst ég hins vegar á allt aðra, nýlega reglugerð frá Dómsmálaráðuneytinu, útgefna 27. maí 2020. Sú heitir Reglugerð um skrár lögreglu og vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Og þar gætir nokkurra nýmæla. Í annarri grein hinnar nýju reglugerðar eru taldir upp þeir flokkar persóna sem lögreglan geymir gögn um: fyrst fólk sem tengist kærum, síðan fólk sem tengist erindum til lögreglu, þá handteknir menn. Það virðist allt, fljótt á litið, í svipuðum farvegi og áður. En þá bætist við fjórði liðurinn, sem mér sýnist vera alveg nýr af nálinni: Ríkislögreglustjóri heldur, samkvæmt þessum lið:
„Gagnagrunn þar sem skráðar eru upplýsingar um einstaklinga, hópa, félög, fyrirtæki eða annað sem tengist eftirfarandi brotaflokkum: a. fíkniefnum, b. barnaklámi, c. peningaþvætti, d. hryðjuverkum, e. fjármögnun skipulagðrar glæpastarfsemi, f. ólögmætum flutningi fólks.“
Fólk og félög sem „tengjast“ brotaflokkum eru hér hrein viðbót við handtekna, kærða og það fólk, almennt, sem tengist nokkrum tilteknum erindum á borði lögreglu. Að Ríkislögreglustjóra sé falið að halda skrá yfir fólk og félög án slíks tilefnis eru umtalsverð nýmæli. Að þeir brotaflokkar sem þar eru tilgreindir innihaldi „ólögmæta flutninga fólks“ eru önnur.
Með Útlendingalögum sem samþykkt voru árið 2016 var það gert saknæmt eða mögulega saknæmt að hjálpa pappírslausum að komast leiðar sinnar: í tveimur liðum 116. greinar er það sagt varða sektum eða fangelsi ef maður „aðstoðar útlending við að dveljast ólöglega hér á landi eða í öðru ríki“ eða „aðstoðar útlending við að koma ólöglega hingað til lands eða til annars ríkis“.1
Með reglugerðinni frá því nú í maí virðist Ríkislögreglustjóri hafa fengið heimild til að halda skrá með persónuupplýsingum um þau sem embættinu sýnist líkleg til að veita slíka aðstoð eða „tengjast“ henni. Þar á meðal má trúlega telja þá presta sem reynt hafa að forða flóttafólki frá brottvísun, meðal annars með því að veita tveimur ungum mönnum kirkjugrið í Laugarneskirkju sumarið 2016. Prestarnir eru þó annars vegar sýnilegir við iðju sína, hins vegar er sennilegt að þeir njóti einhvers skjóls af embætti og stöðu. Reglugerðin skeytir ekki um hvort manneskja sem í hlut á hefur sýnilega og sannanlega aðstoðað fólk í þessari berskjölduðu stöðu, þ.e. veitt fólki í lífshættu skjól til að komast hjá brottvísun, heldur virðist nóg, skv. reglugerðinni, að lögregla láti hvarfla að sér að svo gæti verið til að afla gagna um þá persónu, þann hóp, hvern sem tengst gæti hinu mögulega athæfi.
Reglugerðin virðist, með öðrum orðum, veita stjórnvöldum heimild til njósna um þátttakendur í réttindabaráttu flóttafólks. Lögreglan virðist þar með hafa fengið þær forvirku rannsóknarheimildir sem hún sóttist eftir árum saman, flestir virtust mótfallnir, mikið var deilt um.
Ólesin lög
Eitt er að stjórnvöld stofni til njósnastarfsemi innanlands, annað að það geri ráðherra án aðkomu þingsins. Enda var það ekki svo, þegar nánar er að gáð. Í reglugerðinni er vísað til laga nr. 75/2019. Það eru Lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, samþykkt á Alþingi í júní 2019. Ein nýmæli laganna birtast þegar í heiti þeirra, þar sem orðið „löggæslutilgangur“ sést í fyrsta sinn í íslenskum lögum. Í 2. grein laganna er hugtakið skilgreint:
„Löggæslutilgangur: Sá tilgangur að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum, þ.m.t. að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi“.
Fyrsti og síðasti sagnliður skilgreiningarinnar er hér lykilatriði: að koma í veg fyrir. Lögin, og heimildirnar sem þar eru veittar til gagnaöflunar, snúast þar með ekki aðeins um framin heldur, ekki síður, óframin brot, hluti sem ekki hafa gerst. Þar með getur heldur fjölgað því fólki sem lögregla lætur sig varða og safnar gögnum um.
Í 7. grein njósnalaganna má finna þá víðtæku heimild sem liggur til grundvallar gagnagrunni yfirvalda, sem hefur nú verið nánar útfærður í reglugerð:
„Þá er lögbærum yfirvöldum heimilt að skrá og varðveita persónuupplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er í löggæslutilgangi og í samræmi við önnur ákvæði laga þessara.“
Um leið var ákvæðum um að það væri embætti Ríkislögreglustjóra sem skyldi annast þessa gagnaöflun stungið í undirliði í þeim Lögreglulögum sem fyrir voru. Í reglugerðinni er vísað til i‑liðar 1. málsgreinar 5. greinar Lögreglulaga, um þetta hlutverk Ríkislögreglustjóra. Hlutverk embættisins er, samkvæmt þessum nýja lið, að halda ýmsar hefðbundar skrár – og loks:
„aðrar skrár sem nauðsynlegar eru í þágu löggæsluhagsmuna til að afstýra yfirvofandi hættu eða sporna við afbrotum“.
Sumarið 2019 samþykkti Alþingi með öðrum orðum lög sem heimila yfirvöldum að skrá og varðveita persónuupplýsingar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, afstýra eða sporna við afbrotum og ógnum. Nýir liðir í Lögreglulögum brúa bilið milli afar almennrar heimildar yfirvalda í þessum efnum, að þeim tiltekna gagnagrunni sem Ríkislögreglustjóri má nú halda yfir fólk og félög sem tengjast réttindabaráttu flóttafólks.
Sex mínútur á Alþingi
Ég minntist þess ekki að hafa séð fjallað um reglugerðina í fjölmiðlum og fann enga umfjöllun við leit – en gott og vel, ráðherra gaf hana út nú í maí, beint í kjölfar fyrstu lotu faraldursins, fólk var með hugann við annað. Um lögin hlýtur þó að hafa verið fjallað, hugsaði ég þá, eins þó að það hafi farið fram hjá mér. Og ég leitaði. En fann ekki. Ekki neina umfjöllun. Enga. Um nýju, íslensku njósnalögin virðist ekki verið fjallað á neinum vettvangi.
Þingið hlýtur þó að hafa vandað sig við umræðu um þau, hvarflaði þá að mér. Og ég gáði að því líka. Sigríður Á. Andersen, þá dómsmálaráðherra, lagði frumvarpið fyrir Alþingi þann 18. febrúar 2019. Í upphafi greinargerðar til þingsins sagði hún lögin, meðal annars, varða „vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum í tengslum við að koma í veg fyrir … refsiverð brot“. Hér er aftur þessi lykilsögn, að koma í veg fyrir. Vissulega taldi ráðherrann upp fleira, „rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir“, en að koma í veg fyrir er fyrsti liðurinn í upptalningu hennar, rétt eins og í skilgreiningu laganna sjálfra á hugtakinu löggæslutilgangur. Þingmenn hljóta að hafa tekið eftir því að þarna fóru nokkur nýmæli, hugsaði ég.
Fyrsta umræða þingsins um frumvarpið fór fram þremur dögum eftir kynningu þess. Hún varði í sex mínútur. Það er að segja, dómsmálaráðherra talaði. Að því loknu samþykkti þingið að næsta umræða um efnið færi fram innan Allsherjar- og menntamálanefndar. Nefndin taldi málið afgreitt, fyrir sitt leyti, seinna þetta vor, kl. 09:03 að morgni föstudagsins 31. maí 2019. Frumvarpið barst þá aftur til þingsins, með nefndaráliti, og var tekið til þriðju umræðu þann 11. júní. Sú umræða varði í alls tvær mínútur. Það var Páll Magnússon sem talaði og lagði til tvær breytingar, fyrir hönd nefndarinnar, til að „tryggja samræmi við orðalag“. Fyrri breytingin sem þingmaðurinn lagði til var að „á eftir orðinu „nema“ í fyrri málslið 2. mgr. 18. gr. komi: og“.
Enginn andmælti því.
Enginn tók til máls, yfirleitt.
Atkvæðagreiðsla um lögin tók aðrar tvær mínútur, en það væri ansi rausnarlegt að telja þær til umræðu. Nokkrir stjórnarþingmenn voru fjarverandi en lögin samþykktu allir viðstaddir þingmenn, úr öllum flokkum. Og þar með var því lokið. Málið í höfn.
Umræða Alþingis um njósnalögin 2019 varði með öðrum orðum í sex mínútur.
Umfjöllun í fjölmiðlum tók, að ég best fæ séð, núll mínútur, núll dálksentímetra, núll orð. Varð ekki.
Evrópa sem dulargervi
Hvernig má það vera, spyr kannski einhver. Hvernig samþykkti Alþingi lög um njósnir, sem meðal annars virðist mega beita gegn réttindabaráttu flóttafólks, án þess að það rataði í fréttir? Eitt er kannski að dómsmálaráðherrann sem mælti fyrir frumvarpinu hrökklaðist skömmu síðar úr embætti af öðrum sökum, vegna allt annarrar valdníðslu. Landsréttarmálið hefur þá kannski mátt nýta sem eins konar sjónhverfingu, til að beina athygli okkar að fótaburði ráðherrans á meðan hendurnar fengust við annað. Þá getur verið að það hafi komið að góðum notum að kynna frumvarpið með orðavaðli um Evrópuþingið og Schengen: „Efni frumvarpsins tekur að miklu leyti mið af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins,“ sagði ráðherrann í inngangi að greinargerð sinni til þingsins. Tilskipunin, hélt hún áfram, „telst vera þróun á ákvæðum Schengen-réttarreglnanna í samræmi við samninginn sem ráð Evrópusambandsins gerði við Ísland og Noreg um þátttöku þessara tveggja ríkja í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna …“ o.s.frv.
Kannski má beita skírskotunum til evrópskra stofnana sem svefnlyfi á þingið, enda álykti þingmenn að málið sé utan þeirra seilingar um leið og þessar stofnanir ber á góma, þingið gegni þá bara afgreiðsluhlutverki. Eins og fram kom í áliti Allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarpið er það þó alls ekki raunin hér:
„Meiri hlutinn bendir á að ekki er um að ræða eiginlega EES-innleiðingu heldur er um að ræða lögfestingu ákvæðis umræddrar tilskipunar í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli Schengen-samstarfsins. Meiri hlutinn leggur þess vegna til að ákvæðið falli brott þar sem slíkt innleiðingarákvæði á ekki við nema um sé að ræða gerðir sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.“
Þannig hljóðaði athugasemd nefndarinnar við 35. grein frumvarpsins. Alþingi tók ekki tillit til hennar, greinin stendur óbreytt í lögunum og gefur enn til kynna að allt sé þetta upprunnið einhvers staðar allt annars staðar, hjá direktøren for det hele, en ekki á lille bitte Alþingi.
Réttindi sem kamúflas
Skipti þetta sköpum? Var þessi Evrópuþvæla taktískt lykilatriði? Eða kannski var það hitt, að dómsmálaráðherra skreytti greinargerð sína fyrir frumvarpinu með orðum á við réttindi og réttarbætur. Hún talaði ekki einfaldlega um „vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum“ heldur um „vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum“. Þessari vernd einstaklinga pakkaði ráðherrann síðan inn í Evrópuþvæluna, „tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/680 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum“, og dúðaði það knippi loks í fulla fötu af lopa, þar til úr verður eftirfarandi setning, í heild, sem aðeins hefur birst í brotum hér að ofan:
„Efni frumvarpsins tekur að miklu leyti mið af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/680 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum í tengslum við að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og um niðurfellingu rammaákvörðunar ráðsins nr. 2008/977/DIM (löggæslutilskipunin).“
Þessari setningu er ekki ætlað að nokkur komist vakandi í gegnum hana. Ég geri ráð fyrir að þingmönnum sé ráðið frá því að aka bifreið eftir að lesa svona skjöl.
Hvað sem olli, Evrópuþvælan, réttindaþvælan, Landsréttarhneykslið eða eitthvað allt annað, þá runnu njósnalögin gegnum þingið, athugasemdalaust. Allsherjar- og menntamálanefnd „fjallaði einna helst um skilgreiningu lögbærra yfirvalda og miðlun þessara yfirvalda á persónuupplýsingum til annarra opinberra aðila eða einkaaðila“ eins og það er orðað í áliti nefndarinnar sjálfrar. Það er, nefndin villtist í tækniatriðum og henni láðist að taka til skoðunar hvort þingið kærði sig um að lögfesta njósnastarfsemi í landinu yfirleitt.2
Hvernig sem það atvikaðist, þá er það ekki lengur leyndarmál, ekkert sem Ríkislögreglustjóri þarf að pukrast með, að þar er njósnað. Embættinu hafa verið veittar fullar, opinskáar heimildir til njósnastarfsemi sem það virðist, meðal annars, mega beina gegn þeim sem berjast fyrir réttindum flóttafólks. Ekki vegna gruns um tiltekið brot, heldur til að koma í veg fyrir, afstýra og sporna við.
Ef ég starfaði við fjölmiðil myndi ég nefna þetta við ritstjóra, held ég. Þó seint sé. Þetta þarna með forvirku rannsóknarheimildirnar, sem allir hættu að þræta um. Að það virðist þá vera vegna þess að málið var afgreitt. Fumlaust. Hljóðalaust.
↑1 | Með 110. grein Útlendingalaganna frá 2016 var lögreglu einnig veitt heimild til að gera húsleit og líkamsleit á útlendingum sem grunaðir eru um að leyna stjórnvöld upplýsingum og meðal „aðila sem rökstuddur grunur er um að aðstoði útlending við að halda slíkum gögnum leyndum“. |
---|---|
↑2 | Og þrátt fyrir að hafa augun á miðlun gagnanna, frekar en hvort þeirra skyldi yfirleitt aflað, þá skildu nefndin og þingið eftir nóg svigrúm í lögunum fyrir afar sérkennilegar útfærslur á því sviði líka. Í reglugerðinni er lögreglu m.a. veitt heimild til að miðla persónuupplýsingum „til stjórnarmeðlims eða lögmanns húsfélags … að því gefnu að upplýsingarnar séu félaginu nauðsynlegar til að gæta mikilvægra lögvarinna hagsmuna þess.“ Það er ekki lítil ábyrgð að sitja í stjórn húsfélags. |