Dansukker
Danir báru ábyrgð á hlutskipti um eitt prósent alls þess fólks sem Evrópuríki fluttu í þrældóm frá Afríku til Ameríku: af 10–12 milljónum alls voru 111.000 hlekkjaðir og fluttir milli álfanna í skipum dönsku krúnunnar og danskra fyrirtækja. Stærsti hluti þessa fólks, alls um 86.000 manns, var fluttur á eyjaklasann sem hét þá Dönsku Vestur-Indíur en nefnist nú Bandarísku Jómfrúreyjar, og haldið þar í ánauð. Þetta voru sykurplantekrur, þaðan kom sykurinn í allt sætabrauð Dana. Og þó að Ísland væri líka nýlenda í þessu ríki og líf íslensks alþýðufólks bæri á ýmsan hátt svip þrældóms frekar en frelsis, þá nutu Íslendingar einnig góðs af uppskerunni frá nýlendunum við Karíbahaf. Hér skorti sjaldnast sykur eða brennd vín.
Íbúar Íslands nutu þó ekki aðeins góðs af nauðungarvinnu svartra í Dönsku Vestur-Indíum heldur, ekki síður, af uppreisn þeirra. Þegar að er gáð virðist þrælauppreisnin í Dönsku Vestur-Indíum í júlí 1848 nauðsynlegur hlekkur til að sú atburðarás sem við köllum sjálfstæðisbaráttu Íslendinga gangi upp. Í ritinu Leviathan, sem kom út um miðja 17. öld, staðhæfir Thomas Hobbes að sáttmáli sem gerður er án sverðs sé orðin tóm, megni ekki að tryggja eitt né neitt: „Covenants, without the sword, are but words and of no strength to secure a man at all“. Þetta er hugmyndin á bakvið vopnuðu sveitirnar sem starfa innan ríkja, lögregluliðin, að þeirra sé þörf til að framfylgja lögunum, sem annars væru orðin tóm. Að breyttu breytanda á sama við um heri og handrukkara, en líka verkfallsvörslu og mótmælasamkomur: að krafa sem ekki er framfylgt með líkamlegu afli sé marklaus.
Ef orð eru marklaus án slíkrar veraldlegrar undirstöðu, hvað var þá svona merkilegt við það að nokkrir prúðbúnir, íslenskir herramenn stæðu upp, á fundi við erindreka danska konungsveldisins árið 1851, og segðust allir mótmæla. Mótmæla? Þið og hvaða her? Hvaða veraldlega afl stóð að baki kröfum Jóns Sigurðssonar og félaga og veitti þeim vægi gagnvart nýlenduherrunum? Hvaða sverð? Svarið er – að minnsta kosti að verulegu leyti: aflið að baki orðum Jóns Sigurðssonar voru sveðjur og kyndlar sem hugrakkt fólk bar við Karíbahaf.
Uppreisnirnar 1848 og 1878
Árið 1847 lýstu dönsk stjórnvöld því yfir að þrælarnir í Vestur-Indíum skyldu leystir – en þó ekki fyrr en eftir tólf ár, þau þyrftu að sýna þessa biðlund af tillitssemi við þrælahaldarana og rekstrarforsendur plantekranna. Í blábyrjun júlímánaðar 1848 þraut biðlund hinna hlekkjuðu, þúsundir karla og kvenna gengu fylktu liði að aðsetri valdsins á eynni St. Croix, með kyndla og sveðjur í hönd, tóku völd í virkinu Frederiksted og kröfðust frelsis. Landstjóri Dana varð við kröfunni, lýsti því yfir að þrælahald á dönsku eyjunum þremur væri afnumið og sú ákvörðun tæki þegar í stað gildi. Í kjölfarið átti hann í útistöðum við bæði yfirboðara sína og þrælahaldara á eyjunum. Tæknilega var hann umboðslaus en sögulega ekki. Þannig köstuðu allir ófrjálsir íbúar eyjanna af sér hlekkjunum, á svipstundu og án blóðsúthellinga. Að forminu til. Tíminn átti eftir að leiða í ljós hversu nöturlega nýlenduherrarnir stóðu að afnámi þrælahaldsins: þau sem nú hétu frjáls stóðu uppi eignalaus og réttlítil á eyjum undir sömu yfirráðum og fyrr. Þar voru þau dæmd til að falbjóða vinnu sína „á markaði“ sem var að öllu leyti á forræði fyrrverandi þrælahaldara þeirra. Þau neyddust til að undirrita skuldbindingar við plantekrurnar sem áður litu á þau sem eign sína, með skilmálum sem jafnvel leiddu til meiri örbirgðar en fyrr.
Þrjátíu árum síðar, 1878, þegar fyrrverandi þrælar og afkomendur þeirra bjuggu enn við ígildi þrældóms í reynd, fylgdu þau 1848-uppreisninni eftir með annarri uppreisn. Þá brann. Uppreisnin og óeirðirnar 1878 eru nefndar Fireburn. Þá í kjölfarið hófust loks umbætur, þróun í átt að skárra lífi, þýðingarmeira frelsi.1
„Er því atburður þessi með merkilegri tíðindum“
En aftur til ársins 1848. Uppreisnin í Dönsku Vestur-Indíum hafði í það minnsta tvenns konar áhrif á Íslandi. Í fyrsta lagi var þrælauppreisnin Íslendingum innblástur, meðal annars í sjálfstæðisbaráttunni. Þetta er ágætlega skjalfest. Haustið 1848 má lesa í septemberhefti Reykjavíkurpóstsins:
„Á eylandi Dana í Vestur-Indíum, St. Croix, gjörðu Blökkumenn uppreist og heimtuðu þegar í stað fullt frelsi, en að öðrum kosti kváðust þeir mundi beita ofbeldi og eyða öllu sem fyrir yrði. Sá landstjórinn, Scholten, sér þá ekki annað fært enn að gángast undir það, sem Blökkumenn fóru fram á, og lýsti því hátíðlega yfir þann 3. júlí, að allir Blökkumenn á eylöndum Dana í Vestur-Indíum upp frá þeim deigi væru frjálsir menn, og voru það fljót umskipti. Við þetta sefaðist uppreistin að miklu leyti, en þó gjörðu Blökkumenn eftir það töluverðar óspektir og hervirki, og varð að því mikið tjón mörgum manni, en þó tókst að sefa óróann með liðstyrk Enskra, sem láu þar á herskipum við eyarnar. Stjórnin hefur síðan lagt samþykki sitt á það, sem landstjórinn gjörði, enda var þá orðið úr vöndu að ráða, en skipað hefur hún annan til yfirstjórnar þar á eyunum og hnígur það að því, að henni hafi ekki að öllu geðjast að því er gjörst hafði, en búinn var landstjóri Scholten, að vísu um stundarsakir, að seigja af sér stjórninni vegna heilsu lasleika.
Þessi umskipti þar á eyunni hljóta að hafa mikilvægar afleiðingar, bæði hvað stjórn og atvinnuveigi þar snertir, og er því atburður þessi með merkilegri tíðindum.“
Þó að málfar þessarar 172 ára gömlu fréttar beri keim sinnar aldar, í landi sem þá var sannarlega á jaðri veraldar, gætir í fréttatextanum ekki bersýnilegra fordóma í garð uppreisnarfólksins. Orðið „Blökkumenn“ ber hér stóran staf eins og þjóðaheiti. Í niðurlagi fréttarinnar er lagt mat á atburðina, þar fari merkileg tíðindi með mikilvægar afleiðingar „hvað stjórn og atvinnuveigi þar snertir“ – þarna gætir virðingar. Orðfærið gæti allt eins átt við um frétt frá Þýskalandi eða úr Húnavatnssýslu. Fljótt á litið gefur textinn ekki til kynna að höfundur hans líti uppreisnarfólkið í Vestur-Indíum öðrum augum en fólk almennt.
„En vér, sem biðjum frelsis, megum bíða“
Fréttin af þessari uppreisn verður skömmu síðar, í annars konar texta, að mönun til Íslendinga. Ólafur E. Johnsen hét prestur á Reykjanesi, mágur Jóns Sigurðssonar. Í kjölfar þessara tíðinda skrifar hann, og lætur prenta, dreifirit sem hann nefnir Ávarp til Íslendinga. Dreifiritið fór nokkuð víða, og ávarpið enn víðar í janúar 1849, þegar það endurprentað í Nýjum félagsritum, tímariti Jóns og co. Þá er rétt hálft ár liðið frá atburðinum í Vestur-Indíum. Í ávarpinu hvetur presturinn landsmenn til að sýna ekki dönskum valdhöfum óhóflega þolinmæði á meðan umbætur tefjist í regluverki konungsríkisins, láta ekki draga sig á asnaeyrunum. Til stuðnings þeirri mönun skírskotar hann til uppreisnarinnar í vestri:
„Blökkumenn á Vestureyjum fengu frelsi sitt allt í einu, þegar þeir höfðu gjört upphlaup og þóttu hafa unnið til dráps, og þar voru engar undanfærslur, engar fyrirspurnir, engar „mikilvægar ítarlegar rannsóknir“, sem aldrei taka enda; en vér, sem biðjum frelsis, og sýnum með rökum að vér bæði eigum það og þurfum þess við, sýnum það með hógværð og stillingu, berum fram ósk vora samhuga, og skirrumst jafnvel við að ítreka hana, til að styggja ekki stjórnina, vér megum bíða fjögur ár, og það ervið og þúngbær ár, án þess að njóta nokkurrar áheyrnar, það er ekki án orsaka þó vér segðum: bænir vorar eru undir fótum troðnar og að engu hafðar, þær eru minna metnar en þó þær hefði komið frá herteknu landi Blökkumanna, sem engan rétt þætti eiga á að fá bæn sína nema fyrir sérlega, fáheyrða náð … Það mætti því vera yður fullljóst, Íslendingar! að bænarskrár eintómar muni eigi einhlítar til að sannfæra Dani um réttindi vor.“
Á fyrstu síðu þessa ávarps, eins og það birtist í Nýjum félagsritum, fylgir neðanmálsgrein, sem gera má ráð fyrir að Jón Sigurðsson hafi skrifað. Með þessum orðum fylgir hann ávarpinu úr hlaði:
„Þessi ritlingur hefir oss verið sendur utan af Íslandi, og þykir oss vert að leiða hann fyrir almennings sjónir, því oss virðist allir hljóta að vera höfundinum samdóma í aðalefninu að minnsta kosti, og er þá gott að það sýni sig hvað andlegt afl meðal þjóðarinnar sé mikið og hverju það fái áorkað. Menn sjá, að höf. hefir einkum hugsað til þess þings sem nú fer í hönd, en oss virðist hugmynd hans vera þess verð, að hún mætti vel eiga sér lengri aldur.“
Hvaða hugmynd er það sem Jóni styttu finnst verðskulda svona langan aldur? Megininntak ávarpsins: að það dugi ekki að biðja um frelsi og bíða, bænaskrár einar valdi engum breytingum, þeim þurfi að fylgja þrýstingur, einhvers konar ógn. Þessi sannindi enska raunsæismannsins Hobbes lærðu Íslendingar af uppreisninni í nýlendum Dana við Karíbahaf, sem þannig varð hreyfiafl í sjálfstæðisbaráttu eyjaskeggjanna í norðri.
Byssupúður út, púðursykur inn
Framantalin eru þá ummerki um áhrifin sem uppreisnin hafði meðal Íslendinga. Í öðru lagi, hins vegar, hafði uppreisnin líka sitt að segja um sýn danskra stjórnvalda á óróa í öllum nýlendunum – og þar með um viðbrögð danskra stjórnvalda við kröfum Íslendinga. Skjöl benda til að ein höfuðástæða þess að danskir embættismenn óttuðust afleiðingarnar ef ekki yrði látið undan kröfum Íslendinga hafi verið atburðarásin við Karíbahaf.2 Þess vegna, segir sagan, var danskt herskip sent til landsins, síðsumars 1851, að beiðni stiftamtmannsins Jørgen Ditlev Trampe, í tilefni af þjóðfundinum sem þá lá fyrir dyrum, fundinum þar sem Jón og co. segjast allir mótmæla og ganga svo á dyr. Danir óttuðust að á Íslandi færi allt í bál og brand – ekki vegna þess að Jón hafi gert sig líklegan til að ganga berserksgang, heldur vegna hinna nýliðnu atburða við Karíbahaf. Danir voru ekki hræddir við Jón. Þeir voru hræddir við þrælauppreisnir. Alþýðuuppreisnir. Þeim stóð ekki á sama um kröfur Íslendinga því þeir óttuðust, í ljósi þess sem gerst hafði í vestri, að á bakvið Jón stæði kúguð alþýða í uppreisnarhug og til alls vís.
Heimurinn stendur enn einu sinni frammi fyrir arfi þrælaverslunar og þrælahalds, þeirrar kúgunar og fyrirlitningar sem nýlenduherrar og plantekrueigendur beittu til að viðhalda viðskiptamódeli andskotans í Ameríku. Mannréttindabrot í Bandaríkjunum myndu varða okkur þó að sagan að baki þeim hefði enga sérstaka snertingu við sögu Íslands. En það er ekki svo. Þetta er okkar saga. Ísland tilheyrði einu þeirra evrópsku konungsríkja sem skaffaði þegnum sínum aukin lífsgæði með þrælahaldi í Ameríku. Þaðan kom blóðbragðið af kanelsnúðunum og vínarbrauðinu. Ef Íslendingar líta enn á það sem heillaskref, verðmæti, jafnvel einhvers konar sigur, að hafa sagt sig úr þessu konungsríki og tekist það á hendur að stofna og starfrækja lýðveldi á þessum mosagróna þyrluflugpalli okkar, þá stöndum við, sögulega, í nokkurri þakkarskuld við þær þúsundir sem brutu af sér hlekkina fyrst, hinu megin í heimsveldinu. Vegna þess að þau risu upp gegn kvölurum sínum, gripu til vopna og lögðu sjálf lífið að veði, dugði íslenskum embættismönnum að skrifa bréf, mæta á fund, stoppa stutt, segjast mótmæla, ganga á dyr. Sjálfsagt höstuglega. Og þiggja þó sykur í kaffið.3
↑1 | Þar er þó um langan veg að fara. Árið 1917 seldi Danmörk Bandaríkjunum eyjarnar, sem síðan nefnast U.S. Virgin Islands, Bandarísku Jómfrúreyjar. Ákvörðun um söluna var tekin með þjóðaratkvæðagreiðslu – í Danmörku. Íbúar eyjanna sjálfra fengu ekki hlutdeild í þeirri ákvörðun. Enn í dag teljast þær til óskráðra yfirráðasvæða Bandaríkjanna, eða hvernig sem þýða skal unincorporated territories. Þar gildir stjórnarskrá Bandaríkjanna aðeins að hluta. Um 100.000 íbúar eyjanna, að meirihluta svartir afkomendur plantekruþræla Dana, njóta enn ekki kosningaréttar í forsetakosningum, eini þingmaður þeirra er án atkvæðisréttar og svo framvegis. |
---|---|
↑2 | Eftir birtingu var mér réttilega bent á að vanmeta ekki áhrifin af óróanum í Evrópu á sama tíma, sérstaklega átökunum um Slésvík-Holtsetaland. Áhrifin í þessum óróa lágu þvers og kruss, og hér mætti líka fylla í eyðu með atburði sem hefur verið nefndur fyrstu fjöldamótmæli Íslandssögunnar, Norðurreið Skagfirðinga, sögð innblásin af uppreisninni í Vestur-Indíum. Sagt er að amtmanninum sem sú aðför beindist að hafi orðið svo um og ó að hann hafi hrokkið upp af, hreinlega dáið úr mótmælum. Allur þessi titringur, þá t.a.m. að óbreyttir bændur skyldu hópast saman um kröfugerð utan allrar háttvísi og formlegra ferla, kom yfirvöldum í opna skjöldu, sem virðast fyrir vikið hafa talið Íslendinga til alls líklega. Þessi endursögn mín er heldur ónákvæm og heimildaskorturinn allt að því galgopalegur, en ég læt hana þó standa, þá jafnvel í veikri von um að almennilegum, vandvirkum sagnfræðingi þyki í því áskorun einn daginn, að staðfesta þessar breiðu strokur eða hrekja. |
↑3 | Í vikunni var mér boðið til Rauða borðsins, á Samstöðinni. Þetta var daginn eftir fjölsótt samstöðumótmæli gegn rasisma, á Austurvelli. Í þættinum spurði Gunnar Smári um áhrif pólitískra viðburða í Ameríku, hvort þau berast óhjákvæmilega til Íslands. Ég rétt minntist á þetta samhengi, sem sat síðan í mér að mætti gera aðeins betri skil. Ég hóf þessa frásögn áður hér á blogginu en gafst ekki tóm til að ljúka við hana þá. Og lýk ekki við eitt né neitt hér heldur – þetta er umfangsmikið viðfangsefni sem verðskuldar, held ég, almennilegar rannsóknir. Hér birtast aðeins nokkrir þræðir, í allra grófustu dráttum. Það sem kom mér á sporið var rannsóknarvinna sem Dísa vann, við undirbúning verks fyrir sýninguna Cycle í Kópavogi, haustið 2018. Innsetning hennar á sýningunni hét Af vopnum. Í henni birtust fleiri og fínlegri þræðir sem tengja saman þessa fjarlægu jaðra danska nýlenduveldisins. Einn slíkur þráður liggur um hráefnin: brennisteinn var verðmæt útflutningsvara frá Íslandi. Íslenskan brennistein nýttu Danir til púðurgerðar fyrir vopnin sem þeir beittu síðan við þrælaviðskiptin – bæði sem vopnum og sem kaupvarningi. Byssupúður út og púðursykur inn, eitthvað á þá leið var viðskiptajöfnuðurinn. Afkomendur þrælanna sem sáu okkur fyrir sykri og sjálfstæði hafa enn ekki kosningarétt í landinu sem þau nú tilheyra. Og þó að ég hafi ekki forsendur til viðamikillar rannsóknar á efninu þykir mér tilefni til að taka mér stöðu í grennd við Dísu og verk hennar, veifa og spyrja: hey, er þessi saga ekki svolítið vanrækt? |