Tvö plögg birtust í dag, 2. júní 2020, til grundvallar ákvörðun stjórnvalda um sóttvarnir á landamærum á næstunni. Annað er hagrænt mat fjármálaráðuneytisins, hitt er minnisblað Sóttvarnalæknis.
Fjármálaráðuneytið virðist bæði uggandi og hikandi en leggur í mati sínu nokkra áherslu á nauðsyn launalækkana í ferðaiðnaði, óháð áformum stjórnvalda um tilhögun sóttvarna á landamærunum.
Sóttvarnalæknir virðist hressari. Í minnisblaði hans sýnist mér einkum þrennt kalla á athygli, umfram það sem ég hef þegar séð fjallað um.
- Í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að þeir sem sýnt geta fram á að hafa sýkst af Covid-19 og að liðnir séu a.m.k. 14 dagar frá veikindum, séu þar með frjálsir ferða sinna án frekari takmarkana. Verði þetta almennt viðmið á landamærum ríkja má sjá fram á veruleg skil milli ferðafrelsis þeirra sem hafa veikst og annarra.
- Í öðru lagi kemur fram að deCode Genetics hafi sett skilyrði fyrir því að veita stjórnvöldum aðstoð við framkvæmd skimunar við landamærin, en ekki kemur fram hver þessi skilyrði eru. Mögulegt er að það skýrist á næstu dögum.
- Loks, í þriðja lagi, vekur athygli að í minnisblaði Sóttvarnalæknis er engin rök að finna fyrir veiruskimun meðal einkennalausra ferðamanna. Í minnisblaðinu koma fram mótrök gegn þeirri tilhögun, upplýsingar um hve takmarkaðar upplýsingar slík skimun veitir, enda sé næmi prófsins 0% beint í kjölfar smits, en mest 80–90% þegar einkenni birtast, það er meðal þeirra sem mælst er gegn að ferðist hvort eð er. Þá er kostnaður við framkvæmdina sagður verulegur. Rök með áformunum birtast aftur á móti ekki í skjalinu, aðeins sú niðurstaða Sóttvarnalæknis að slík skimun skuli fari fram og teljast til sóttvarna.
Að engin rök birtist fyrir skimuninni virðist mér sjálfum svo ósennilegt að ég hvet ykkur til að gá að því sjálf, hvort mér yfirsáust þau. Ég hef gáð nokkrum sinnum, einhvers staðar hljóta þau að leynast. Ef Sóttvarnalækni láðist að geta röksemdanna í skjalinu væri ef til vill ráð að inna hann eftir þeim.
Að því sögðu fylgir hér á eftir samantekt á efni þessara skjala. Annars vegar er samantektin áreiðanlega svolítið þurr, hins vegar mun einhverjum þó fyrirsjáanlega finnast áherslur hennar einkennast af nokkrum sóttkvíða. Ég held að það geti varla skaðað, brestir fólks og breyskleikar séu ágæt forsenda verkaskiptingar á fordæmalausum tímum og kvíðasjúklingar tilvaldir til að gegnumlýsa opinber gögn. Þið hin kvíðalausu getið þá leitt hugann að öðru og/eða andað því rólegar sem við hin nötrandi verjum fleiri tómstundum í að skima eftir glufum og gloppum.1
Greinargerð Fjármálaráðuneytis
Fyrirvarar Fjármálaráðuneytisins við efnahagslega ábatann af opnun eru verulegir: Það þarf „að meta kostnað vegna faraldursins og sóttvarnaaðgerða á heilsu, líf og lífsgæði“ segja höfundar greinargerðarinnar og bæta við að það reynist oft átakaefni enda ábatinn þekktari. Í mati ólíkra valkosta segir að „mun minni líkur yrðu á annarri bylgju faraldursins í bráð“ ef landinu yrði haldið lokuðu. „Hætta á að smit berist til landsins og faraldur blossi upp að nýju eykst hins vegar með komu hvers ferðamanns,“ segir á öðrum stað, og er bent á að „efnahagsleg áhrif þess geta orðið veruleg“. Það gæti „valdið gríðarlegum kostnaði fyrir ferðaþjónustuna og hagkerfið allt ef nauðsynlegt væri að setja ferðatakmarkanir á að nýju eftir að þær hafa verið losaðar“, þá ekki aðeins vegna „hins beina kostnaðar sem í því felst, heldur einnig vegna þess að það myndi aftur stöðva komu ferðalanga til landsins og hugsanlega skaða orðspor Íslands sem trausts áfangastaðar næsta árið/árin“ sem myndi, að mati ráðuneytisins, „grafa verulega undan þeim trúverðugleika sem byggður hefur verið upp á undanförnum vikum“. Að auki er bent á að slæmt sé að veikjast og deyja, eða með orðum ráðuneytisins: „Þessu til viðbótar er verulegur efnahagslegur kostnaður fólginn í veikindum, dauðsföllum og ýmsum samfélagslegum kostnaði sem felst í frekari hópsýkingum eða ótta við þær.“
Að þessum fyrirvörum gefnum kemst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að:
„draga úr ferðatakmörkunum en þó með þeim sóttvarnaraðgerðum sem þar til bærir sérfræðingar telja að dragi nægilega úr hættu á víðtækum smitum og að grípa þurfi til víðtækra samfélagslegra takmarkana að nýju“.
Komi til skimunar á landamærum er það mat Fjármálaráðuneytisins að farþegar skuli sjálfir bera kostnað af þeim, meðal annars vegna þess að „að öðrum kosti gætu myndast hvatar fyrir ferðalög til þess eins að fá próf sem virðast af skornum skammti víða erlendis“. Þá telur ráðuneytið einnig að með greiðslu ferðamanna fyrir prófið megi „þó stuðla að því að þeir sem sækja landið heim séu efnameiri ferðamenn sem eyði meiru og dvelji lengur, enda yrði greiðslan fyrir prófið hin sama óháð dvalarlengd“.
Launalækkanir
Óháð útfærslu sóttvarnaaðgerða eða opnun landamæra er það loks mat Fjármálaráðuneytisins – og tvítekið í skýrslunni – að laun í ferðaþjónustu þurfi að lækka, enda muni framleiðni starfa í geiranum minnka með fækkun farþega. Ferðamenn verði fáir fram á næsta ár, sama hvað, „hætt við að ferðaþjónustan verði ekki svipur hjá sjón á meðan ferðavilji er lítill alþjóðlega“ og því spáð „að flugsamgöngur nái ekki fyrri styrk fyrr en að nokkrum árum liðnum“. Í allra hæsta lagi er það mat ráðuneytisins að 350.000 ferðamenn gætu komið til landsins á þessu ári, falli ferðaþjónustunni allt í vil, en líklegt að fjöldinn verði umtalsvert minni. Í lokaorðum skýrslunnar virðist hvatt nokkuð eindregið til launalækkana:
„Þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna hefur fjárhagsstaða greinarinnar versnað og kjarasamningar vorið 2019, sem þóttu hóflegir í sögulegu tilliti, reyndust henni þungir. Störf í greininni voru verðlögð of hátt og í kjölfarið fækkaði þeim markvert auk þess sem gjaldþrot og vanskil fóru vaxandi. Allt átti þetta sér stað áður en COVID-19 breiddist út. … Hætt er hins vegar við því að verðmæti starfanna verði enn lægra en áður þar sem stærðarhagkvæmninnar nýtur ekki lengur við.“
Minnisblað Sóttvarnalæknis
Sóttvarnalæknir nefnir sömu fyrirvara um smithættu og fjármálaráðuneytið gerir, en vitaskuld með öðrum orðum – og framsetning hans, sem augljóslega má ætla að byggi á viðameiri þekkingu á innviðum heilbrigðiskerfisins, má segja að einkennist af meiri bjartsýni. Óþarft er að rekja mat hans á afleiðingum þess að landamæri yrðu opnuð án takmarkana eða lokað algjörlega, þar sem hvorugur kosturinn kemur til álita.
Gegn
- Sóttvarnalæknir mælir ekki heldur með tvíhliða samkomulagi við aðrar þjóðir um afléttingu ferðabanns, fyrirkomulagi sem flest önnur Evrópuríki stefna nú að. Hann segir slíkt hljóma vel á yfirborðinu en þó ekki vera vænlegan kost þar sem erfitt sé „að treysta upplýsingum um raunverulega útbreiðslu veirunnar í öðrum löndum vegna mismunandi greiningaraðferða“, auk þess sem erfitt sé „að ákveða hversu mikil/lítil útbreiðsla smits þarf að vera til að fullyrða um áhættu á útbreiðslu hingað til lands.“
- Sóttvarnalæknir mælir ekki með hitamælingum og líkamsskoðunum við landamærin sem kosti mikið og skili litlu.
- Sóttvarnalæknir mælir ekki með að stuðst verði við mótefnamælingar ferðamanna á þessum tímapunkti, þar sem þær séu enn sem komið er áreiðanlegar. Það gæti þó breyst á næstu vikum og mánuðum, tekur hann fram, og yrði þá hægt að greina með áreiðanlegum hætti hvort manneskja hafi áður veikst af Covid-19, án þess að greining hafi átt sér stað á meðan á veikindunum stóð.
Með
- Sóttvarnalæknir mælir hins vegar með að ferðamenn leggi ekki upp í ferðalag ef þeir eru veikir, þ.e. „með sjúkdómseinkenni sem benda til COVID-19 eða ef þeir hafa verið útsettir fyrir COVID-19 sýktum einstaklingum á undangengnum 14 dögum“.
- Eins og fram hefur komið mælir embættið einnig með að 14 daga sóttkví standi almennum ferðamönnum áfram til boða, ásamt hinni léttari „sóttkví B“ fyrir þá sem koma til landsins til að „sinna ákveðnum verkefnum“, eins og vitað er að fagfólk í kvikmyndageiranum hefur þegar notið, til dæmis, ásamt blaðamanni tímaritsins New Yorker.
- Hafi ferðamaður greinst með veikindi af völdum veirunnar og að minnsta kosti 14 dagar eru liðnir frá veikindunum, segir Sóttvarnalæknir mega líta svo á að viðkomandi sé „ónæmur fyrir endursýkingu og beri ekki með sér smit. Engar ferðahömlur þarf því að setja á slíka einstaklinga.“ Því mælir hann með að ferðamönnum verði boðið upp á „að sýna vottorð um yfirstaðin veikindi af völdum COVID-19“. Slíkt vottorð myndi „undanskilja þá frá frekari takmörkunum á landamærum Íslands“.
- Sóttvarnalæknir mælir einnig með, eins og fram hefur komið, að ferðamaður með „trúverðugt vottorð“ um PCR-greiningarpróf frá sínu heimalandi, ekki eldra en 4 daga gamalt, sem sýni engin merki um smit, verði „undanþeginn frekari takmörkunum við komuna til landsins“.
- Loks er síðasta atriði minnisblaðsins, það sem heita má höfuðatriðið í áformunum: að Sóttvarnalæknir mælir með PCR-mælingu „hjá öllum sem koma hingað til lands og geta ekki framvísað vottorði um nýlega PCR mælingu, geta ekki sýnt fram á yfirstaðna sýkingu af völdum COVID-19 og vilja ekki fara í sóttkví“.
Skimun án röksemda
Þetta, PCR-mælingin, er sú skimun við landamærin sem mest hefur verið rætt um og ekki verið alfarið óumdeild meðal lækna. Til dæmis sagði Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum í viðtali við Reykjavík síðdegis þann 29. maí að skimun sem þessi, meðal einkennalausra ferðamanna, væru „ekki góð vísindi“, hlutfall falskra neikvæðra sýna væri hátt, af þessu verði lítill ávinningur fyrir mikinn tilkostnað. Hún lagði áherslu á að lítið þurfi til að „Landspítalinn sé settur aftur á ákveðið viðbúnaðarstig og jafnvel neyðarstig“ og þá sitji önnur heilbrigðisþjónusta á hakanum. „Mér finnst mikilvægt,“ sagði hún, „að fólk átti sig á því að þessi staða gæti komið upp aftur.“
Í meðmælum Sóttvarnalæknis kemur einnig fram að PCR-greiningarpróf séu ekki óyggjandi. PCR-mæling lágmarki áhættuna á að smitaður ferðamaður komist inn í landið en komi „ekki algerlega í veg fyrir slíkt“. Sóttvarnalæknir segir næmi slíkra prófana skást hjá einstaklingum sem eru með einkenni, en á þeim tímapunkti sé næmið um 80–90%. Þetta er þó sá hópur sem Sóttvarnalæknir mælir með að leggist ekki í ferðalög yfirleitt. Í minnisblaðinu segir að næmi prófsins sé aftur á móti nánast ekkert, „nánast 0%“, beint í kjölfar smits og því geti „einkennalaus einstaklingur á fyrstu 0–4 dögum eftir smit greinst með neikvætt próf jafnvel þó hann sé smitaður“. Þá tilgreinir Sóttvarnalæknir einnig að setja þurfi sýkta ferðamenn í einangrun og útsetta í sóttkví og sé aðferðin „nokkuð dýr í framkvæmd“.
Niðurstaða Sóttvarnalæknis er eftir sem áður, eins og fram hefur komið, sú að þessari aðferð verði beitt, að skimun með PCR-prófum á landamærum landsins verði skilgreind sem sóttvarnaráðstöfun og hefjist 15. júní.
DeCode Genetics setur skilyrði
Fram kemur, í minnisblaði Sóttvarnalæknis, að veirufræðideild Landspítalans geti, eins og fram hefur komið, að óbreyttu sinnt að hámarki 500 sýnum á dag. Sóttvarnalæknir mælir með að aðstaða sjúkrahússins til slíkra greininga verði verulega bætt, og segir að með haustinu gæti afkastagetan þá náð 4.000 sýnum á sólarhring. Í millitíðinni sé bandaríska fyrirtækið deCode Genetics tilbúið að aðstoða við greiningu, „að uppfylltum ákveðnum skilyrðum“. Ekki kemur fram í minnisblaðinu hver þessi skilyrði eru.
Eftir ofangreind meðmæli hefst skáletraður lokakafli minnisblaðsins. Fyrst er þar brýnt að „mikilvægt“ sé að leitað verði til deCode Genetics „um aðstoð við greiningu sýna og upplýsingatæknimála strax frá upphafi“.
Lokaorð um valdsvið
Þá vísar Sóttvarnalæknir til Sóttvarnalaga og vinnslusamnings embættisins við Landspítala, til að gera grein fyrir skyldu sjúkrahússins og rannsóknarstofa þess til að „stunda skimun fyrir smitsjúkdómum og sjúkdómsvöldum sem hafi þýðingu fyrir almannaheill, samkvæmt nánari fyrirmælum sóttvarnalæknis“. Loks segir:
„Það er því ljóst að sýkla- og veirufræðideild LSH hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sóttvörnum á Íslandi skv. fyrirmælum sóttvarnalæknis og því mikilvægt að hún sé útbúin til að sinna því hlutverki“.
Hvort þessi brýning á skyldum sjúkrahússins er einkum til komin vegna þess ágreinings sem birst hefur milli sérfræðinga sjúkrahússins og Sóttvarnalæknis um skynsamlegustu tilhögun sóttvarna á næstunni, og beinist þá að yfirmönnum og sérfræðingum sjúkrahússins, eða hvort brýningin er fyrst og fremst ætluð stjórnvöldum og snýst þá um nauðsyn þess að bæta aðstöðu til smitgreininga á sjúkrahúsinu, virðist háð túlkun. Það myndi styðja fyrri túlkunina að Sóttvarnalæknir mælir með að skimunin verði skilgreind sem sóttvarnaráðstöfun, en þar með yrðu virkjuð þau ákvæði Sóttvarnalaga og reglugerðar um sóttvarnaráðstafanir sem veita embætti Sóttvarnalæknis vald til að gefa deildum Landspítala bein fyrirmæli.
Í lokaorðum minnisblaðsins endurtekur Sóttvarnalæknir meðmæli með smitgreiningu einkennalausra við landamærin. Þar má finna röksemd, ekki fyrir ráðstöfuninni sem slíkri, en fyrir tímasetningu hennar:
„Ég tel mikilvægt að skimun á landamærastöðvum verði hrint í framkvæmd eigi síðar en 15. júní því mikilvægt er fá reynslu af skimuninni á meðan alþjóðlegur ferðamannastraumur er ekki mikill.“
↑1 | Til frekara gagnsæis er sjálfsagt að nefna það berum orðum að sjálfur les ég gögn sem þessi einkum í leit að vísbendingum um, annars vegar, hvort ákvarðanir stjórnvalda einkennast af undanlátssemi við fjármálaöfl og, hins vegar, hvort þær takmarkast sýnilega af ríkjandi hugmyndafræði, sem valdi þá mögulega blindu á valkosti sem annars væru í boði. Engin slík greining fylgir hér, en þessi sjónarhóll hefur áreiðanlega áhrif á það úrval sem allur lestur felur óhjákvæmilega í sér. |
---|