Tvö skjöl

02.6.2020 ~ 11 mín

Tvö plögg birt­ust í dag, 2. júní 2020, til grund­vallar ákvörðun stjórn­valda um sótt­varnir á landa­mærum á næst­unni. Annað er hagrænt mat fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins, hitt er minn­is­blað Sóttvarnalæknis.

Fjár­mála­ráðu­neytið virð­ist bæði uggandi og hikandi en leggur í mati sínu nokkra áherslu á nauð­syn launa­lækk­ana í ferða­iðn­aði, óháð áformum stjórn­valda um tilhögun sótt­varna á landamærunum.

Sótt­varna­læknir virð­ist hress­ari. Í minn­is­blaði hans sýnist mér einkum þrennt kalla á athygli, umfram það sem ég hef þegar séð fjallað um.

  • Í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að þeir sem sýnt geta fram á að hafa sýkst af Covid-19 og að liðnir séu a.m.k. 14 dagar frá veik­indum, séu þar með frjálsir ferða sinna án frek­ari takmark­ana. Verði þetta almennt viðmið á landa­mærum ríkja má sjá fram á veru­leg skil milli ferða­frelsis þeirra sem hafa veikst og annarra.
  • Í öðru lagi kemur fram að deCode Genetics hafi sett skil­yrði fyrir því að veita stjórn­völdum aðstoð við fram­kvæmd skimunar við landa­mærin, en ekki kemur fram hver þessi skil­yrði eru. Mögu­legt er að það skýrist á næstu dögum.
  • Loks, í þriðja lagi, vekur athygli að í minn­is­blaði Sótt­varna­læknis er engin rök að finna fyrir veiru­skimun meðal einkenna­lausra ferða­manna. Í minn­is­blað­inu koma fram mótrök gegn þeirri tilhögun, upplýs­ingar um hve takmark­aðar upplýs­ingar slík skimun veitir, enda sé næmi prófs­ins 0% beint í kjöl­far smits, en mest 80–90% þegar einkenni birt­ast, það er meðal þeirra sem mælst er gegn að ferð­ist hvort eð er. Þá er kostn­aður við fram­kvæmd­ina sagður veru­legur. Rök með áformunum birt­ast aftur á móti ekki í skjal­inu, aðeins sú niður­staða Sótt­varna­læknis að slík skimun skuli fari fram og telj­ast til sóttvarna.

Að engin rök birt­ist fyrir skimun­inni virð­ist mér sjálfum svo ósenni­legt að ég hvet ykkur til að gá að því sjálf, hvort mér yfir­sáust þau. Ég hef gáð nokkrum sinnum, einhvers staðar hljóta þau að leyn­ast. Ef Sótt­varna­lækni láðist að geta röksemd­anna í skjal­inu væri ef til vill ráð að inna hann eftir þeim.

Að því sögðu fylgir hér á eftir saman­tekt á efni þess­ara skjala. Annars vegar er saman­tektin áreið­an­lega svolítið þurr, hins vegar mun einhverjum þó fyrir­sjá­an­lega finn­ast áherslur hennar einkenn­ast af nokkrum sótt­kvíða. Ég held að það geti varla skaðað, brestir fólks og breysk­leikar séu ágæt forsenda verka­skipt­ingar á fordæma­lausum tímum og kvíða­sjúk­lingar tilvaldir til að gegnum­lýsa opin­ber gögn. Þið hin kvíða­lausu getið þá leitt hugann að öðru og/eða andað því rólegar sem við hin nötrandi verjum fleiri tómstundum í að skima eftir glufum og gloppum.1

Grein­ar­gerð Fjármálaráðuneytis

Fyrir­varar Fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins við efna­hags­lega ábat­ann af opnun eru veru­legir: Það þarf „að meta kostnað vegna farald­urs­ins og sótt­varna­að­gerða á heilsu, líf og lífs­gæði“ segja höfundar grein­ar­gerð­ar­innar og bæta við að það reyn­ist oft átaka­efni enda ábat­inn þekkt­ari. Í mati ólíkra valkosta segir að „mun minni líkur yrðu á annarri bylgju farald­urs­ins í bráð“ ef land­inu yrði haldið lokuðu. „Hætta á að smit berist til lands­ins og faraldur blossi upp að nýju eykst hins vegar með komu hvers ferða­manns,“ segir á öðrum stað, og er bent á að „efna­hags­leg áhrif þess geta orðið veru­leg“. Það gæti „valdið gríð­ar­legum kostn­aði fyrir ferða­þjón­ust­una og hagkerfið allt ef nauð­syn­legt væri að setja ferða­tak­mark­anir á að nýju eftir að þær hafa verið losaðar“, þá ekki aðeins vegna „hins beina kostn­aðar sem í því felst, heldur einnig vegna þess að það myndi aftur stöðva komu ferða­langa til lands­ins og hugs­an­lega skaða orðspor Íslands sem trausts áfanga­staðar næsta árið/árin“ sem myndi, að mati ráðu­neyt­is­ins, „grafa veru­lega undan þeim trúverð­ug­leika sem byggður hefur verið upp á undan­förnum vikum“. Að auki er bent á að slæmt sé að veikj­ast og deyja, eða með orðum ráðu­neyt­is­ins: „Þessu til viðbótar er veru­legur efna­hags­legur kostn­aður fólg­inn í veik­indum, dauðs­föllum og ýmsum samfé­lags­legum kostn­aði sem felst í frek­ari hópsýk­ingum eða ótta við þær.“

Að þessum fyrir­vörum gefnum kemst ráðu­neytið að þeirri niður­stöðu að skyn­sam­legt sé að:

„draga úr ferða­tak­mörk­unum en þó með þeim sótt­varn­ar­að­gerðum sem þar til bærir sérfræð­ingar telja að dragi nægi­lega úr hættu á víðtækum smitum og að grípa þurfi til víðtækra samfé­lags­legra takmark­ana að nýju“.

Komi til skimunar á landa­mærum er það mat Fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins að farþegar skuli sjálfir bera kostnað af þeim, meðal annars vegna þess að „að öðrum kosti gætu mynd­ast hvatar fyrir ferða­lög til þess eins að fá próf sem virð­ast af skornum skammti víða erlendis“. Þá telur ráðu­neytið einnig að með greiðslu ferða­manna fyrir prófið megi „þó stuðla að því að þeir sem sækja landið heim séu efna­meiri ferða­menn sem eyði meiru og dvelji lengur, enda yrði greiðslan fyrir prófið hin sama óháð dvalarlengd“.

Launa­lækk­anir

Óháð útfærslu sótt­varna­að­gerða eða opnun landa­mæra er það loks mat Fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins – og tvítekið í skýrsl­unni – að laun í ferða­þjón­ustu þurfi að lækka, enda muni fram­leiðni starfa í geir­anum minnka með fækkun farþega. Ferða­menn verði fáir fram á næsta ár, sama hvað, „hætt við að ferða­þjón­ustan verði ekki svipur hjá sjón á meðan ferða­vilji er lítill alþjóð­lega“ og því spáð „að flug­sam­göngur nái ekki fyrri styrk fyrr en að nokkrum árum liðnum“. Í allra hæsta lagi er það mat ráðu­neyt­is­ins að 350.000 ferða­menn gætu komið til lands­ins á þessu ári, falli ferða­þjón­ust­unni allt í vil, en líklegt að fjöld­inn verði umtals­vert minni. Í loka­orðum skýrsl­unnar virð­ist hvatt nokkuð eindregið til launalækkana:

„Þrátt fyrir mikinn fjölda ferða­manna hefur fjár­hags­staða grein­ar­innar versnað og kjara­samn­ingar vorið 2019, sem þóttu hóflegir í sögu­legu tilliti, reynd­ust henni þungir. Störf í grein­inni voru verð­lögð of hátt og í kjöl­farið fækk­aði þeim markvert auk þess sem gjald­þrot og vanskil fóru vaxandi. Allt átti þetta sér stað áður en COVID-19 breidd­ist út. … Hætt er hins vegar við því að verð­mæti starf­anna verði enn lægra en áður þar sem stærð­ar­hag­kvæmn­innar nýtur ekki lengur við.“

Minn­is­blað Sóttvarnalæknis

Sótt­varna­læknir nefnir sömu fyrir­vara um smit­hættu og fjár­mála­ráðu­neytið gerir, en vita­skuld með öðrum orðum – og fram­setn­ing hans, sem augljós­lega má ætla að byggi á viða­meiri þekk­ingu á innviðum heil­brigðis­kerf­is­ins, má segja að einkenn­ist af meiri bjart­sýni. Óþarft er að rekja mat hans á afleið­ingum þess að landa­mæri yrðu opnuð án takmark­ana eða lokað algjör­lega, þar sem hvor­ugur kost­ur­inn kemur til álita.

Gegn

  • Sótt­varna­læknir mælir ekki heldur með tvíhliða samkomu­lagi við aðrar þjóðir um aflétt­ingu ferða­banns, fyrir­komu­lagi sem flest önnur Evrópu­ríki stefna nú að. Hann segir slíkt hljóma vel á yfir­borð­inu en þó ekki vera vænlegan kost þar sem erfitt sé „að treysta upplýs­ingum um raun­veru­lega útbreiðslu veirunnar í öðrum löndum vegna mismun­andi grein­ing­ar­að­ferða“, auk þess sem erfitt sé „að ákveða hversu mikil/lítil útbreiðsla smits þarf að vera til að full­yrða um áhættu á útbreiðslu hingað til lands.“
  • Sótt­varna­læknir mælir ekki með hita­mæl­ingum og líkams­skoð­unum við landa­mærin sem kosti mikið og skili litlu.
  • Sótt­varna­læknir mælir ekki með að stuðst verði við mótefna­mæl­ingar ferða­manna á þessum tíma­punkti, þar sem þær séu enn sem komið er áreið­an­legar. Það gæti þó breyst á næstu vikum og mánuðum, tekur hann fram, og yrði þá hægt að greina með áreið­an­legum hætti hvort mann­eskja hafi áður veikst af Covid-19, án þess að grein­ing hafi átt sér stað á meðan á veik­ind­unum stóð.

Með

  • Sótt­varna­læknir mælir hins vegar með að ferða­menn leggi ekki upp í ferða­lag ef þeir eru veikir, þ.e. „með sjúk­dóms­ein­kenni sem benda til COVID-19 eða ef þeir hafa verið útsettir fyrir COVID-19 sýktum einstak­lingum á undan­gengnum 14 dögum“.
  • Eins og fram hefur komið mælir embættið einnig með að 14 daga sótt­kví standi almennum ferða­mönnum áfram til boða, ásamt hinni létt­ari „sótt­kví B“ fyrir þá sem koma til lands­ins til að „sinna ákveðnum verk­efnum“, eins og vitað er að fagfólk í kvik­mynda­geir­anum hefur þegar notið, til dæmis, ásamt blaða­manni tíma­rits­ins New Yorker.
  • Hafi ferða­maður greinst með veik­indi af völdum veirunnar og að minnsta kosti 14 dagar eru liðnir frá veik­ind­unum, segir Sótt­varna­læknir mega líta svo á að viðkom­andi sé „ónæmur fyrir endur­sýk­ingu og beri ekki með sér smit. Engar ferða­hömlur þarf því að setja á slíka einstak­linga.“ Því mælir hann með að ferða­mönnum verði boðið upp á „að sýna vott­orð um yfir­staðin veik­indi af völdum COVID-19“. Slíkt vott­orð myndi „undan­skilja þá frá frek­ari takmörk­unum á landa­mærum Íslands“.
  • Sótt­varna­læknir mælir einnig með, eins og fram hefur komið, að ferða­maður með „trúverð­ugt vott­orð“ um PCR-grein­ingar­próf frá sínu heimalandi, ekki eldra en 4 daga gamalt, sem sýni engin merki um smit, verði „undan­þeg­inn frek­ari takmörk­unum við komuna til landsins“.
  • Loks er síðasta atriði minn­is­blaðs­ins, það sem heita má höfuð­at­riðið í áformunum: að Sótt­varna­læknir mælir með PCR-mælingu „hjá öllum sem koma hingað til lands og geta ekki fram­vísað vott­orði um nýlega PCR mælingu, geta ekki sýnt fram á yfir­staðna sýkingu af völdum COVID-19 og vilja ekki fara í sóttkví“.

Skimun án röksemda

Þetta, PCR-mælingin, er sú skimun við landa­mærin sem mest hefur verið rætt um og ekki verið alfarið óumdeild meðal lækna. Til dæmis sagði Bryn­dís Sigurð­ar­dóttir, smit­sjúk­dóma­læknir á Land­spít­al­anum í viðtali við Reykja­vík síðdegis þann 29. maí að skimun sem þessi, meðal einkenna­lausra ferða­manna, væru „ekki góð vísindi“, hlut­fall falskra neikvæðra sýna væri hátt, af þessu verði lítill ávinn­ingur fyrir mikinn tilkostnað. Hún lagði áherslu á að lítið þurfi til að „Land­spít­al­inn sé settur aftur á ákveðið viðbún­að­ar­stig og jafn­vel neyð­arstig“ og þá sitji önnur heil­brigð­is­þjón­usta á hakanum. „Mér finnst mikil­vægt,“ sagði hún, „að fólk átti sig á því að þessi staða gæti komið upp aftur.“

Í meðmælum Sótt­varna­læknis kemur einnig fram að PCR-grein­ingar­próf séu ekki óyggj­andi. PCR-mæling lágmarki áhætt­una á að smit­aður ferða­maður komist inn í landið en komi „ekki alger­lega í veg fyrir slíkt“. Sótt­varna­læknir segir næmi slíkra próf­ana skást hjá einstak­lingum sem eru með einkenni, en á þeim tíma­punkti sé næmið um 80–90%. Þetta er þó sá hópur sem Sótt­varna­læknir mælir með að legg­ist ekki í ferða­lög yfir­leitt. Í minn­is­blað­inu segir að næmi prófs­ins sé aftur á móti nánast ekkert, „nánast 0%“, beint í kjöl­far smits og því geti „einkenna­laus einstak­lingur á fyrstu 0–4 dögum eftir smit greinst með neikvætt próf jafn­vel þó hann sé smit­aður“. Þá tilgreinir Sótt­varna­læknir einnig að setja þurfi sýkta ferða­menn í einangrun og útsetta í sótt­kví og sé aðferðin „nokkuð dýr í framkvæmd“.

Niður­staða Sótt­varna­læknis er eftir sem áður, eins og fram hefur komið, sú að þess­ari aðferð verði beitt, að skimun með PCR-prófum á landa­mærum lands­ins verði skil­greind sem sótt­varna­ráð­stöfun og hefj­ist 15. júní.

DeCode Genetics setur skilyrði

Fram kemur, í minn­is­blaði Sótt­varna­læknis, að veiru­fræði­deild Land­spít­al­ans geti, eins og fram hefur komið, að óbreyttu sinnt að hámarki 500 sýnum á dag. Sótt­varna­læknir mælir með að aðstaða sjúkra­húss­ins til slíkra grein­inga verði veru­lega bætt, og segir að með haust­inu gæti afkasta­getan þá náð 4.000 sýnum á sólar­hring. Í milli­tíð­inni sé banda­ríska fyrir­tækið deCode Genetics tilbúið að aðstoða við grein­ingu, „að uppfylltum ákveðnum skil­yrðum“. Ekki kemur fram í minn­is­blað­inu hver þessi skil­yrði eru.

Eftir ofan­greind meðmæli hefst skáletr­aður lokakafli minn­is­blaðs­ins. Fyrst er þar brýnt að „mikil­vægt“ sé að leitað verði til deCode Genetics „um aðstoð við grein­ingu sýna og upplýs­inga­tækni­mála strax frá upphafi“.

Loka­orð um valdsvið

Þá vísar Sótt­varna­læknir til Sótt­varna­laga og vinnslu­samn­ings embætt­is­ins við Land­spít­ala, til að gera grein fyrir skyldu sjúkra­húss­ins og rann­sókn­ar­stofa þess til að „stunda skimun fyrir smit­sjúk­dómum og sjúk­dóm­svöldum sem hafi þýðingu fyrir almanna­heill, samkvæmt nánari fyrir­mælum sótt­varna­læknis“. Loks segir:

„Það er því ljóst að sýkla- og veiru­fræði­deild LSH hefur mikil­vægu hlut­verki að gegna í sótt­vörnum á Íslandi skv. fyrir­mælum sótt­varna­læknis og því mikil­vægt að hún sé útbúin til að sinna því hlutverki“.

Hvort þessi brýn­ing á skyldum sjúkra­húss­ins er einkum til komin vegna þess ágrein­ings sem birst hefur milli sérfræð­inga sjúkra­húss­ins og Sótt­varna­læknis um skyn­sam­leg­ustu tilhögun sótt­varna á næst­unni, og bein­ist þá að yfir­mönnum og sérfræð­ingum sjúkra­húss­ins, eða hvort brýn­ingin er fyrst og fremst ætluð stjórn­völdum og snýst þá um nauð­syn þess að bæta aðstöðu til smit­grein­inga á sjúkra­hús­inu, virð­ist háð túlkun. Það myndi styðja fyrri túlk­un­ina að Sótt­varna­læknir mælir með að skimunin verði skil­greind sem sótt­varna­ráð­stöfun, en þar með yrðu virkjuð þau ákvæði Sótt­varna­laga og reglu­gerðar um sótt­varna­ráð­staf­anir sem veita embætti Sótt­varna­læknis vald til að gefa deildum Land­spít­ala bein fyrirmæli.

Í loka­orðum minn­is­blaðs­ins endur­tekur Sótt­varna­læknir meðmæli með smit­grein­ingu einkenna­lausra við landa­mærin. Þar má finna röksemd, ekki fyrir ráðstöf­un­inni sem slíkri, en fyrir tíma­setn­ingu hennar:

„Ég tel mikil­vægt að skimun á landa­mæra­stöðvum verði hrint í fram­kvæmd eigi síðar en 15. júní því mikil­vægt er fá reynslu af skimun­inni á meðan alþjóð­legur ferða­manna­straumur er ekki mikill.“

References
1 Til frek­ara gagn­sæis er sjálfsagt að nefna það berum orðum að sjálfur les ég gögn sem þessi einkum í leit að vísbend­ingum um, annars vegar, hvort ákvarð­anir stjórn­valda einkenn­ast af undan­láts­semi við fjár­mála­öfl og, hins vegar, hvort þær takmark­ast sýni­lega af ríkj­andi hugmynda­fræði, sem valdi þá mögu­lega blindu á valkosti sem annars væru í boði. Engin slík grein­ing fylgir hér, en þessi sjón­ar­hóll hefur áreið­an­lega áhrif á það úrval sem allur lestur felur óhjá­kvæmi­lega í sér.