Upplifun: að íslenskir fjölmiðlar hneigist til þagnar og að sama eigi að nokkru leyti við um samfélagsmiðla. Kannski er það ríkjandi samskiptamynstur, menningararfur: að um leið og eitthvert viðfangsefni krefur okkur um hlustun, umhugsun og samtal þá einkennist samskiptin af óþolinmóðri eftirvæntingu eftir því að bundinn verði endir á það allt. Því fyrr sem einhver hitti naglann á höfuðið og geri okkur öllum kleift að þagna á ný, því betra. Þá sérstaklega ef um deiluefni eða átakamál er að ræða. Og ekki verra ef hann eða hún segir þá eitthvað fyndið. Virkilega hohohar þetta vesen ofan í kokið á okkur.
Það er erfitt að henda reiður á stemningu og vera viss um að maður sé ekki bara að ímynda sér hana eða ýkja. Að bera kennsl á mörkin milli manns eigin ótta, til dæmis spéhræðslu, og þrýstings að utan. Og þó að þrýstingurinn sé til staðar, einhver krafa komi fram, getur verið vit að spyrja sig: jæja, gott og vel, þarna er þessi krafa, einhvern langar eitthvað, en hvernig yrði henni svosem framfylgt? Hvað er það versta sem gæti gerst? Að einhver hlæi að þér, ertu ekki vaxinn upp úr því að það trufli þig?
Mér sýnist þetta vera það versta sem getur gerst ef maður lærir ekki að slaka á og elska heimsfaraldurinn, til dæmis. Einhver hlær þá bara, gott og vel.
Hughvarf
Það versta sem getur gerst ef við leiðum hjá okkur ákvarðanir stjórnvalda í faraldrinum og krefjum þau ekki um að gera grein fyrir forsendunum að baki þeim er hins vegar að fólk deyr. Það getur verið fátt fólk eða margt, ungt eða gamalt, fleiri eða færri lífár í hættu.1 Almennt sýnist mér sú krafa vera uppi að við gerum okkur svolítið skeytingarlaus um eigið hlutskipti að þessu leyti, hvort sem er okkar eigið persónulega, okkar nánustu, ef við sjálf erum ekki í áhættuhópi, eða samferðafólks okkar yfirleitt.
Og þar upplifi ég aðra kröfu, eða svolítið plássfrekt viðmið: að við lítum á líf okkar og limi frá sama sjónarhóli og yfirvöld, hvort sem er sóttvarnaryfirvöld sérstaklega eða ríkið almennt. Að við hugsum um sjálf okkur tölfræðilega og getum þá varpað öndinni léttar ef aðeins tíu manns látast, óháð því hvort einn af þessum tíu var náinn ættingi, vinur eða þess vegna maður sjálfur. 2 Það tilheyrir þessu viðmiði, þessu þeli, að þegar ríkið hefur komist að niðurstöðu – þegar embættismenn greinir ekki á við stjórnmálamenn og stjórnmálamenn halda sínum þrætum á bakvið einhvern siðsemisskerm, mæla síðan einum rómi – þá sé það varla hlutverk leikmanna að þræta eða efast.3 Og allra síst fjölmiðla.
Mér finnst þetta, í stystu máli, undarlegt andrúmsloft. Mér stendur stuggur af því. Og ég held að megi kalla það hugleysi. Hugleysi er gott orð. Ekki aðeins það að vera hræddur, það verðum við öll, heldur bregðast við óttanum með því að slíta sig frá eigin hugsunum og stöðumati, aftengja sinn eigin hug og láta öðrum eftir allt þess háttar. Á þann hátt er krafan um óttaleysi krafa um hugleysi. Þessi krafa – og undanlátsemin við hana – birtist meðal annars í falskri rósemd og yfirvegun fjölmiðla, viðvarandi svikalogni sem hvílir á viðleitni til að horfast ekki í augu við hvað sem á dynur í veröldinni heldur beina athygli okkar frá því. Í sumum tilfellum með því að segja fréttir alls ekki, en oftar þó með því að ýta þeim til hliðar, gera þær hornreka en einhverju tíðindaleysi hærra undir höfði. Einhvers staðar er alltaf tíðindalaust, einhvers staðar bærast alltaf strá í vindi, og ef viljinn er fyrir hendi má hjúpa hvaða átök sem er í lyftutónlist, grafa þau undir fréttum af fuglalífi, felulita þau með bokeh-effektum og pastellitum. Tóna heiminn niður. Nokkur hluti íslenskra fjölmiðla virðist mér líta svo á að erindi þeirra við lesendur sé það sama og erindi geðdeyfðarlyfs, og það meginhlutverk þeirra að sefa okkur sé því brýnna sem meira er við að fást, þegar mest á dynur megi jafnvel líta á það sem þátt í almannavörnum.4
Það kemur mér á óvart hvað þessi hugleysishyggja virðist geta staðið af sér harðar áskoranir. Ekki aðeins reynast læknar Landspítalans ýmist efins um eða beinlínis mótfallnir útfærslu og tímasetningu stjórnvalda á opnun ferðaiðnaðarins, heldur, frá síðustu viku, hagfræðingar HÍ að auki. Þegar fram koma sannfærandi rök fyrir því, frá þessum sérdeilis málsmetandi aðilum, að einmitt þessi útfærsla og þessi tímasetning sé hvorki æskileg í heilsufarslegu tilliti né hagrænu, þá virðist enginn ætlast til þess af stjórnvöldum að þau rökstyðji sérstaklega hvers vegna þau velja þessa leið og þessa tímasetningu samt.
Stjórnvöld skulda okkur alltaf svör
Að stjórnvöld séu fær um að standa fyrir svörum og rökstyðja ákvarðanir sínar á opinberum vettvangi er ekki aukaatriði, ekki frekja eða dyntir, heldur munurinn á tilvistargrundvelli lýðræðisins og annarra stjórnarhátta. Lýðræðið er reist á þeirri einu hugmynd að hvert eitt og einasta okkar sé jafn rétthátt í tilverunni og yfirráð eins yfir öðrum sé þess vegna háð upplýstu samþykki þeirra sem er ráðið yfir. Þetta upplýsta samþykki er ýmist staðfest eða dregið til baka með kosningum, en þess á milli er það líka háð viðstöðulausu endurmati, sem er aðeins mögulegt þegar stjórnvöld bæði geta og vilja eiga samtal við okkur hin á jafningjagrundvelli. Stjórnvöld skulda okkur alltaf svör. Það er þess vegna sem stjórnarskrárhöfundurinn Thomas Jefferson sagði að ef hann yrði að velja myndi hann hiklaust heldur vilja búa við fjölmiðla án stjórnvalda en stjórnvöld án fjölmiðla.5
Sannarlega getur hugsast að fyrir því séu frábær rök að opna landamærin og markaðssetja landið til ferðafólks á þann hátt og á þeim tíma sem stjórnvöld hafa valið. En það hafa þau ekki sýnt okkur. Þó er þetta alveg sérdeilis veigamikil ákvörðun. Þrátt fyrir alla óvissuna sem umlykur okkur eru nokkur atriði ljós. Ferðamenn munu bera smit til landsins, um það er enginn ágreiningur. Lífsgæði í landinu munu skerðast í jöfnu hlutfalli við fjölda smita: þá stefnir í að aftur verði það ámælisverð áhættuhegðun að sækja vinnu, fara í búð, faðma vin og heimsækja ömmu sína á einum og sama deginum. Um leið þrengir að mannréttindum í hlutfalli við smitin: fjöldamótmæli við Austurvöll geta fljótt orðið óhugsandi á ný, en það sama á við um hvaða nýtingu ferðafrelsis og fundafrelsis sem við helst kærum okkur um, hvert og eitt. Afmælisveislurnar og brúðkaupin sem Bryndís Sigurðardóttir minntist á í liðinni viku. Síðast en ekki síst fjölgar nokkuð kúlunum í þessari viðvarandi rússnesku rúllettu okkar, ákveðnir hópar verða beinlínis í aukinni lífshættu, aðrir í aukinni hættu á nokkuð fjölskrúðugum veikindum. Svo þrennt það helsta sé þá talið: lífskjör, mannréttindi og það að draga andann yfirleitt.
Og einhvern veginn virðist það ríkjandi viðhorf að stefnumótun í málinu hljóti að heppnast því betur sem fleiri þegja um hana. Þetta land er auðvitað stappfullt af tómarúmi, það er víst eitt helsta aðdráttarafl þess, að nánast hvert sem maður teygir sig hérna grípur maður í tómt. En þetta tiltekna sinnuleysi, og þessi tiltekna krafa um sinnuleysi, okkar sjálfra um eigin tilveru, það er þó einhver skrítnasta og, eiginlega, skelfilegasta tómhyggja sem ég hef orðið var við hér til þessa.6

Hagfræðingurinn og hugmyndaflugið
Þegar hagfræðingar og læknar bera fram efasemdir um gagnið af því að haga sóttvörnum eftir þörfum ferðaiðnaðarins, en stjórnvöld halda sínu striki án þess að svara neinu, þá er ekki víst að spilling ráði för. Það er ekki víst að ákvörðunin velti á sérhagsmunum sem einhver ákvað að taka fram yfir heildarhagsmuni, og það sé ástæða þess að stjórnvöld þegi.
Önnur möguleg ástæða er andleg tregða. Ég meina þetta ekki illa, eða að minnsta kosti ekki af mikilli rætni, tregðan hrjáir okkur öll. Margt upplýsandi kom fram á málþingi Háskóla Íslands um faraldurinn í upphafi þessa júnímánaðar. Auk erinda Bryndísar Sigurðardóttur og Gylfa Zoega, sem ég gat um daginn, var Tómas Brynjólfsson meðal mælenda, yfirmaður á skrifstofu efnahagsmála í Fjármálaráðuneytinu. Erindi hans bar yfirskriftina „Hagstjórn í takmörkuðu skyggni“ og hófst með töluverðri gjafmildi, þegar Tómas greindi áheyrendum frá takmarkaðri spágetu sinni og hagfræðinga yfirleitt:
„Ég held að ef einhver hefði sagt mér í byrjun janúar eða í lok janúar að í ár stöndum við frammi fyrir dýpstu kreppu síðan 1920, þá hugsa ég að ég hefði bara hlegið að viðkomandi. Og ég man að í byrjun febrúar var ég boðaður á fund og spurður hvort við gætum gert efnahagslega greiningu á því ef ákveðið væri að loka landamærunum. Mér fannst það svo fáránleg hugmynd að landamærunum yrði lokað að ég hélt því fram að okkar tíma væri betur varið í ýmislegt annað. … Enda hafði ég ekki, ég hafði ekki hugmyndaflug í að ímynda mér að Evrópa myndi lokast eða að Bandaríkin myndu lokast. Og hversu hratt þetta allt saman gerðist.“
Tómas sýndi gröf til að bera saman ólíkar hagspár alþjóðastofnana eftir mánuðum: bein lína upp, jafn og hægfara vöxtur, í öllum spám allt til 12. mars. Fyrst þann 6. apríl birtist hagspá frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þar sem staðan hafði verið endurmetin og stofnunin reiknaði með nokkuð djúpum samdrætti á þessu ári. Staðfest andlát af völdum veirunnar nálguðust 80.000 þegar alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála gáfu það fyrst út, fyrir sitt leyti, að pestin myndi að líkindum setja dæld í hagvöxtinn. Aðrar stofnanir fylgdu, sagði Tómas, og þegar allir höfðu viðurkennt höggið kom að næstu spurningu: hversu langvinn yrði kreppan? Tómas benti á gröfin sem hann sýndi með fyrirlestrinum og sagði:
„Ef þið horfið á þessa mynd, þá datt einum kollega mínum brandari í hug: hvað þarf marga hagfræðinga til að spá fyrir um skamma niðursveiflu og að við taki öflugur hagvöxtur? Það þarf bara einn, síðan fylgja allir hinir á eftir. En hins vegar vandast málið mjög mikið þegar kreppan er ekki skammvinn. Þá breytist hugsunarhátturinn fullkomlega. Það er nefnilega staðreynd að hagfræðingum gengur illa að spá fyrir um svona viðsnúning í hagkerfinu. Hvort sem er að koma kreppa eða viðspyrna. Og þeim gengur sérstaklega illa að spá fyrir um viðspyrnu í kreppum þegar þær eru ekki V‑laga. Og það er vegna þess að í tveimur þriðju hlutum tilfella, þá eru kreppur V‑laga. Það tekur við kröftugur hagvöxtur í kjölfar svona áfalla. En þegar það gerist ekki, þá erum við mjög lengi að innbyrða þá staðreynd.“
Forskot viðvaninganna
Með öðrum orðum er hugmyndaflug, eða skortur á því, takmarkandi þáttur í starfi hagfræðinga eins og annarra. Og það hljómar sennilega, eins og skrifstofustjórinn segir, að sá skortur verði alvarlegastur frammi fyrir stórum, óvæntum uppákomum. Það hljómar ekki einu sinni fjarstæðukennt að undir þeim kringumstæðum, á slíkum augnablikum, geti ólærðir viðvaningar í einhverjum tilfellum verið sneggri að átta sig, af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa ekki jafn miklu að tapa: hagfræðingur við opinbera stofnun hefur hugsanlega lagt margra mánaða vinnu í sína allra vönduðustu hagspá þegar fáránleg, ófyrirsjáanleg breyta ryður sér til rúms og þessir mánuðir verða sokkinn kostnaður. Hagfræðingurinn þarf ekki aðeins að horfast í augu við breyttar aðstæður heldur að hann sjálfur hefði allt eins getað setið heima hjá sér og spilað Tetris þetta misseri. Viðvaningurinn, hins vegar, gaf sér aldrei neitt, hélt aldrei neitt, gerði ekki ráð fyrir neinu. Þess vegna skjátlaðist honum ekki um neitt. Hann þarf ekki að reiða fram skýringu, kenningu eða módel – í samanburði við sérfræðinginn kostar það hann ekki neitt að horfast í augu við staðreyndina þegar hún blasir við. Hann þarf ekki einu sinni að hrista á sér hausinn, eða í öllu falli ekki mjög harkalega.7 Og þó að hann viti þá varla neitt gæti hann þó mögulega verið sneggri að bera kennsl á það sem blasir við. Það er hughreystandi að skrifstofu efnahagsmála í Fjármálaráðuneytinu sé stýrt af manni sem horfist þó í augu við þetta tregðulögmál og deilir því ærlega með öðrum.
Ef ærlegasti efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar afþakkaði pent, í febrúar, að meta afleiðingar þess að landamæri ríkja myndu lokast, og ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði ekki ráð fyrir kreppu fyrr en í apríl, þá virðist ekki fráleitt að ímynda sér að óbreyttir stjórnmálamenn gætu bundið vonir sínar við mildari fjarstæður eins og tveimur mánuðum lengur. Það er ekki fráleit tilhugsun að tregðulögmál skilningsins hafi á einhverjum tímapunkti eitthvert skýringargildi um einhverjar hliðar á einhverjum ákvörðunum stjórnvalda.
Á þessari tilteknu, enn órökstuddu ákvörðun, að fella niður skyldusóttkví allra komufarþega þann 15. júní og bjóða í staðinn upp á sýnatöku og greiningu með nokkuð hátt hlutfall af fölskum niðurstöðum, hef ég þá nefnt tvær mögulegar skýringar: spillingu, sem er óþarft að kynna í löngu máli hér og nú, og óskhyggju, eða tregðulögmál embætta og sérþekkingar. Loks er mögulegt að eitthvað allt annað ráði úrslitum, forsenda sem ríkisstjórnin telur enn óþarft að færa í orð. Kannski er í reynd ekki gert ráð fyrir að neinir ferðamenn komi hvort eð er. Kannski er leikurinn aðeins til þess gerður að eigendur ferðaþjónustufyrirtækja verði þá að beina reiði sinni að öðrum en ráðherrunum. En hvað veit ég, þetta eru ágiskanir út í bláinn. Vegna þess að enginn hefur svarað. Enda virðist enginn hafa spurt:
Hvaða veigamiklu, ítarlegu og ígrunduðu rök hafið þið fram að færa, sem hrekja gagnrýni lækna og hagfræðinga, og sannfæra okkur, viðvaningana sem þið starfið fyrir, án mælskubragða eða undanbragða, um að 15. júní-planið meiki sens?
↑1 | Frá því að Jeremy Bentham og John Stuart Mill lögðu drögin að nytjahyggju sem grundvelli siðrænna ákvarðana, það er þeirri hugmynd að góðar gjörðir séu þær sem leiði til mestrar heildarhamingju og lágmarki heildarsársauka í heiminum, var ein mótbáran við þetta viðmið að engin mælistika yrði fullnægjandi forsenda þessara hamingjureikninga. Önnur mótbára var sú að því nákvæmari sem mælistikan þó yrði, því meiri vinna hefði augljóslega farið í að setja hana saman og beita henni, iðja sem væri ekki, út af fyrir sig, hamslaus gleði; að endingu gæti hver sem vildi hámarka hamingju sína og annarra þannig sólundað ævinni í að reikna út hvert sitt skref áður en hann tæki það og óðar en hann kæmist hænufet í rétta átt væri hann dauður. Ég endursegi þetta víst ekki af mikilli nákvæmni hér, en það kemur mér til hugar þegar ég rakst á orðfæri fagsins sem nú heitir heilsuhagfræði, sem grundvallast einmitt á svona mælistikum og býr að umtalsverðri upplausn ef marka má orðaforðann: kostnaðarnytjagreining, kostnaðarvirknigreining og kostnaðarábatagreining eru aðeins þrjú orð af ótal yfir líkanasmíð til að deila í lífslíkur og gleði eins með vinnuframlagi og kvölum annarra og sjá hvað borgar sig yfirleitt að gera í því að fólk veikist. Heilsuhagfræðin miðar þá ekki aðeins við unnin lífár heldur lífsgæðavegin lífár, skammstafað QALY: „Health states must be valued on a scale where the value of being dead must be 0, because the absence of life is considered to be worth 0 QALYs. By convention, the upper end of the scale is defined as perfect health, with a value of 1.“ Svona hljómar táradalurinn sem excel-skjal, og ótal sannfærandi rök fyrir því að svona þurfi hann að hljóma, þessara útreikninga sé þörf, við séum í reynd alltaf að stunda þá, á einn veg eða annan – „ekki hættum við að aka bílum þó að fólk deyi í bílslysum“ – en eftir sem áður ætla ég ekki að skilyrða það að fólk deyr af Covid-19 með viðkvæðinu „um aldur fram“, eða „fyrr en ella“ eða draga úr tjóninu með orðalagi sem við beitum annars almennt ekki þegar ákvörðun eins leiðir til dauða annars. Það þykir slæmt, jafnvel fordæmanlegt, að draga fólk til dauða, óháð því að viðkomandi hefði vissulega, í hverju einasta tilfelli, einn daginn dáið hvort eð er, jafnvel ekki búið við lífsgæði upp á heilt QALY þangað til. |
---|---|
↑2 | Að hugsa til yfirvofandi lífshættu á tölfræðilegum forsendum, er það ekki bara rétt hótinu siðprúðari útfærsla á sama hugarfari og þegar Donald Trump segir að George Floyd hljóti að fagna því, frá himnum, að atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum fara nú lækkandi? Ég veit að þetta er ekki til fyrirmyndar hjá mér, að smætta sjónarmið niður í Trump fer að verða no-no, eins og að smætta þau niður í Hitler – en samt. |
↑3 | Ég segi leikmanna, meina borgara, en hvers vegna gerir íslenska engan greinarmun á hugtökunum civil og bourgeois? Er það af sömu ástæðu og jafnvel forsætisráðherra talar um þegna, í lýðveldi þar sem enginn þegn er þó til, aðeins ríkisborgarar? |
↑4 | Kannski á þetta við um miklu fleira en fjölmiðla og samfélagsumræðu: þegar tíðindi gera vart við sig á skrifstofum þessara miðla hlýtur þeim að líða svolítið eins og námsmanni sem á erindi við skrifstofu LÍN. Hann hélt að skrifstofan væru rekin hans vegna en áttar sig á því, strax í móttökunni, að starfsfólkinu þykir ónæði af honum og þætti betra að hann léti þau í friði. |
↑5 | „The basis of our governments being the opinion of the people, the very first object should be to keep that right; and were it left to me to decide whether we should have a government without newspapers or newspapers without a government, I should not hesitate a moment to prefer the latter.“ — Úr einkabréfi, 1787, gúglast prýðilega. |
↑6 | Stjórnvöld skulda okkur alltaf svör. Á sama tíma og lífið liggur við að okkur lánist að gera ráð fyrir því og bera fram sjálfsagða kröfu í krafti þess, þá virðast fjölmiðlar að verulegu leyti mannaðir fólki sem hneigist heldur til að gysast að því að þingmaður dirfist að beina spurningum til opinberra stofnana. Hundrað spurningar – hvað haldið þið að þær kosti? Stofnununum er þó, að lögum, skylt að svara að svara þingmanninum. Er furða að í þessu andrúmslofti séu óbreyttir borgarar tregir til að bera fram efasemdir? |
↑7 | Um einmitt þetta, hinn sokkna sálræna kostnað þess að viðurkenna að maður hafi haft rangt fyrir sér, er auðvitað til saga af klæðlausum keisara. |