Þessi barbaríis gullöld

28.7.2020 ~ 3 mín

Árið 1836, fyrir nær tveimur öldum síðan, stóð í frétta­rit­inu Sunn­an­póst­ur­inn:

„Þegar vér með athygli lesum forn­sögur Íslend­inga, er hörmu­legt að heyra hversu forfeður vorir létu, margir hverjir, hefnd­argirni sína drepa niður allri föður­lands ást; þeir víluðu ekki fyrir sér, til að fram­koma mann­hefndum, að drepa dugandis bændur, húsfeður frá konu og börnum, og fram­kvæma ýmsar óhæfur, sem vekja mega skelf­ingu og viðbjóð hjá öllum siðuðum mönnum, svo ei er heldur fagurt að líta á afla­brögð þeirra sem mestir voru menn­irnir, þar sem þeir fóru til annarra landa og lágu úti heil miss­eri til ráns og grip­deilda; en þar þetta var samkvæmt þáver­andi aldar­hætti, má ei kasta of þungum steini á þá, þó þeir fylgdu honum; við sem nú lifum ættum miklu heldur að láta þeirra víti verða oss að varn­aði, og þeirra dæmi standa oss svo lifandi fyrir augum, að við aldrei af hefndar- og ábatagirni látum lög og lands­rétt, frið og sátt­girni, tapast.“1

Stundum er fortíð­ar­róm­an­tísku stagli þessa tíma gert hærra undir höfði – en þetta brot er ágæt áminn­ing um að það er ekki beint ný hugmynd að líta ósiði fortíðar horn­auga og vilja heldur vaxa upp úr þeim. Hún er ekki einu sinni ný á Íslandi.

Höfundur grein­ar­innar var sýslu­maður að nafni Eiríkur Sverris­son. Fimm árum síðar minnt­ist Jón Sigurðs­son á fortíð­ar­róm­an­tík vina sinna og upphafn­ingu þjóð­veld­is­tím­ans, í sendi­bréfi sem síðar kom út á bók:

„Þessi barbaríis gull­öld er nú einu sinni liðin, og kemur aldrei aftur, og að vilja repródúsera hana er fásinna mesta og ómögu­legt, en hún á að vera til saman­burðar og viðvörunar“

Auðvitað þarf ekki fram­liðna embætt­is­menn til að segja okkur þetta, íslenska eða aðra. Það væri sama fásinna að hefja kúgun og ofbeldi liðinna alda gagn­rýni­laust upp á stall þó að þessir tilteknu menn hefðu ekki gert sér grein fyrir því. Nóg létu þeir báðir frá sér sem væri fásinna að taka undir í dag. En mér finnst forvitni­legt að fyrir nær tveimur öldum síðan blasti einmitt það við þeim sem vildu, jafn­vel nokkuð einörðum þjóð­ern­is­sinnum í heldur einangr­uðu landi: að liðin tíð er liðin tíð, að við lítum hana óhjá­kvæmi­lega öðrum augum en þau sem lifðu hana, að það hvaða augum við lítum hana skiptir máli, og að galið væri að umgang­ast valda kafla eða persónur sögunnar sem heil­agar kýr.

Nú er okkur ljóst – eða má vera ljóst – að samtími þess­ara höfunda var önnur barbaríis gull­öld: nýlendu­tím­inn var tími þræla­halds. Það á líka við um Norð­ur­lönd: um hundrað þúsund manns, tæpt 1 prósent alls þess fólks sem flutt var í hlekkjum til þræla­halds í Amer­íku, var flutt þangað á dönskum kaup­skipum, ýmist undir vernd eða bein­línis á vegum dönsku krún­unnar. Það er margt fólk. Þegar Eiríkur og Jón rita línurnar hér að ofan var það þræla­hald enn við lýði.

Einn fyrr­ver­andi forsæt­is­ráð­herra skrif­aði nýverið grein í dagblað sem er ritstýrt af öðrum fyrr­ver­andi forsæt­is­ráð­herra, og virð­ist báðum nokkuð umhugað um að við leiðum hugann ekki mikið að hugs­an­legri þýðingu þess­arar sögu í samtím­anum. Greinin er ágæt áminn­ing um það hversu mikil­vægt er að halda sögu­legum verð­mætum til haga, í þessu tilfelli einu einasta orði. Í sama bréfi og ég vitn­aði í að ofan notar Jón Sigurðs­son orðið standaprumpur um danskan embætt­is­mann: sá sé servíl­is­maður, „servíl aftur í rass“ og standaprumpur.

Ekki vera standaprumpur.

References
1 Staf­setn­ing og grein­ar­merkja­setn­ing tilvitn­ana hér færð í nútíma­legri mynd, annars orðrétt eftir haft.