Árið 1836, fyrir nær tveimur öldum síðan, stóð í fréttaritinu Sunnanpósturinn:
„Þegar vér með athygli lesum fornsögur Íslendinga, er hörmulegt að heyra hversu forfeður vorir létu, margir hverjir, hefndargirni sína drepa niður allri föðurlands ást; þeir víluðu ekki fyrir sér, til að framkoma mannhefndum, að drepa dugandis bændur, húsfeður frá konu og börnum, og framkvæma ýmsar óhæfur, sem vekja mega skelfingu og viðbjóð hjá öllum siðuðum mönnum, svo ei er heldur fagurt að líta á aflabrögð þeirra sem mestir voru mennirnir, þar sem þeir fóru til annarra landa og lágu úti heil misseri til ráns og gripdeilda; en þar þetta var samkvæmt þáverandi aldarhætti, má ei kasta of þungum steini á þá, þó þeir fylgdu honum; við sem nú lifum ættum miklu heldur að láta þeirra víti verða oss að varnaði, og þeirra dæmi standa oss svo lifandi fyrir augum, að við aldrei af hefndar- og ábatagirni látum lög og landsrétt, frið og sáttgirni, tapast.“1
Stundum er fortíðarrómantísku stagli þessa tíma gert hærra undir höfði – en þetta brot er ágæt áminning um að það er ekki beint ný hugmynd að líta ósiði fortíðar hornauga og vilja heldur vaxa upp úr þeim. Hún er ekki einu sinni ný á Íslandi.
Höfundur greinarinnar var sýslumaður að nafni Eiríkur Sverrisson. Fimm árum síðar minntist Jón Sigurðsson á fortíðarrómantík vina sinna og upphafningu þjóðveldistímans, í sendibréfi sem síðar kom út á bók:
„Þessi barbaríis gullöld er nú einu sinni liðin, og kemur aldrei aftur, og að vilja repródúsera hana er fásinna mesta og ómögulegt, en hún á að vera til samanburðar og viðvörunar“
Auðvitað þarf ekki framliðna embættismenn til að segja okkur þetta, íslenska eða aðra. Það væri sama fásinna að hefja kúgun og ofbeldi liðinna alda gagnrýnilaust upp á stall þó að þessir tilteknu menn hefðu ekki gert sér grein fyrir því. Nóg létu þeir báðir frá sér sem væri fásinna að taka undir í dag. En mér finnst forvitnilegt að fyrir nær tveimur öldum síðan blasti einmitt það við þeim sem vildu, jafnvel nokkuð einörðum þjóðernissinnum í heldur einangruðu landi: að liðin tíð er liðin tíð, að við lítum hana óhjákvæmilega öðrum augum en þau sem lifðu hana, að það hvaða augum við lítum hana skiptir máli, og að galið væri að umgangast valda kafla eða persónur sögunnar sem heilagar kýr.
Nú er okkur ljóst – eða má vera ljóst – að samtími þessara höfunda var önnur barbaríis gullöld: nýlendutíminn var tími þrælahalds. Það á líka við um Norðurlönd: um hundrað þúsund manns, tæpt 1 prósent alls þess fólks sem flutt var í hlekkjum til þrælahalds í Ameríku, var flutt þangað á dönskum kaupskipum, ýmist undir vernd eða beinlínis á vegum dönsku krúnunnar. Það er margt fólk. Þegar Eiríkur og Jón rita línurnar hér að ofan var það þrælahald enn við lýði.
Einn fyrrverandi forsætisráðherra skrifaði nýverið grein í dagblað sem er ritstýrt af öðrum fyrrverandi forsætisráðherra, og virðist báðum nokkuð umhugað um að við leiðum hugann ekki mikið að hugsanlegri þýðingu þessarar sögu í samtímanum. Greinin er ágæt áminning um það hversu mikilvægt er að halda sögulegum verðmætum til haga, í þessu tilfelli einu einasta orði. Í sama bréfi og ég vitnaði í að ofan notar Jón Sigurðsson orðið standaprumpur um danskan embættismann: sá sé servílismaður, „servíl aftur í rass“ og standaprumpur.
Ekki vera standaprumpur.
↑1 | Stafsetning og greinarmerkjasetning tilvitnana hér færð í nútímalegri mynd, annars orðrétt eftir haft. |
---|