„Það kom mér á óvart hvað kom mikið af undanþágubeiðnum frá atvinnulífinu. Það virðist vera að erlent vinnuafl skipti mjög miklu máli fyrir bara alla starfsemi hér innanlands. Fiskiðnaðinn, útgerð, iðnað, stóriðju, nefndu það. Og þetta byggir allt á því að það komi hérna fólk inn, erlendis frá, til að gera ákveðna hluti. … Ef við lokum og setjum alla í sóttkví, þá stendur eftir sem áður að það verður mjög mikið af beiðnum um undanþágur, vegna þess að mikil starfsemi hér innanlands byggir á erlendu vinnuafli af mörgum toga. Mér sýnist eiginlega allt – það eru náttúrlega aðilar sem vita það betur en ég en mér sýnist mörg starfsemi byggja á því“
– sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í viðtali á Bylgjunni mánudaginn 9. ágúst 2020. Á honum mátti skilja að erlenda vinnuaflið sem íslenskt hagkerfi stólar á sé helsta ástæða þess að hann taki ekki undir með Kára Stefánssyni um að best sé að „loka landinu“ um hríð, skylda alla komufarþega í sóttkví, til dæmis, til að kveða faraldurinn aftur í kútinn innanlands. Erlent vinnuafl verði að komast til og frá, helst stöðugt og tafarlaust. En hvernig getur það verið, að svona margt starfsfólk sé á leið til landsins í miðjum samdrætti? Sennilegasta skýringin virðist sú að íslensk atvinnuleyfi eru alltaf tímabundin. Alltaf – frasinn „tímabundið atvinnuleyfi“ birtist 38 sinnum í lögunum en „ótímabundið atvinnuleyfi“ aldrei.
Íbúar EES-landanna þurfa ekki sérstakt atvinnuleyfi til starfa á Íslandi, samkvæmt Lögum um atvinnuréttindi útlendinga frá árinu 2002. Það þurfa hins vegar ríkisborgarar allra annarra landa. Þegar almennt verkafólk á í hlut, sem ekki er ráðið vegna sérfræðiþekkingar heldur vegna „skorts á starfsfólki“, eru leyfin „eigi veitt til lengri tíma en eins árs“. Þessi eins árs leyfi má framlengja um eitt ár í senn, en ef leyfið rennur út þarf viðkomandi að dvelja utan landsins í tvö ár áður en henni er heimilt að sækja um leyfi á nýjan leik.
Kerfið virðist með öðrum orðum hannað til að rótera fólki, koma í veg fyrir að þau sem ferðast um lengstan veg til starfa á Íslandi festi þar rætur. Hvað gekk löggjafanum til með því? Í greinargerðinni með frumvarpinu að þessum lögum er það ekki tíundað, og því aðeins hægt að geta sér til um ástæðurnar.
Ein vísbending leynist mögulega í 7. grein laganna, sem krefur atvinnurekendur um að ábyrgjast „greiðslu á heimflutningi útlendings að starfstíma loknum, ef … útlendingur verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slysa“. Þannig virðist tryggt að hvorki íslenska ríkið né íslenskt atvinnulíf taki ábyrgð á framfærslu erlends verkafólks sem gengur sér til húðar við störf á landinu.
Tímabundin atvinnuleyfi gera hagkerfinu, með öðrum orðum, kleift að fara með verkafólk sem einnota.
Hvort það er rétt mat hjá sóttvarnalækni að tíðar ferðir erlends vinnuafls yfir landamærin séu veigamikill áhættuþáttur í heimsfaraldrinum, það veltur á stærðum sem ég þekki ekki, til dæmis því hversu margt fólk er rekið úr landi á hverju ári í þessum hnattrænu hreppaflutningum. En ef það stenst að draga megi verulega úr smithættu með því að hætta að reka verkafólk úr landi, þá er spurning hvort stjórnvöld vilja kannski skoða þann möguleika? Byrja á þeirri einföldu lagabreytingu að gera atvinnuleyfi almennt ótímabundin. Leyfa fólki að vera.