Afi minn hefði orðið níræður nú síðsumars en er fallinn frá. Hann hét Einar Magnús Guðmundsson, fæddist og ólst upp í Reykjavík, unglingur þegar heimsstyrjöldinni lauk, kommúnisti, kennari, vélstjóri og leikari, gefinn fyrir skáldskap, frekar kíminn en stríðinn, með spurult glott sem ég ímynda mér að hafi lítið breyst frá því hann var barn á viðburðaríku heimili við Framnesveg. Dró seiminn þegar hann ræddi stjórnmál, var félagi í Amnesty International, keypti Þjóðviljann og Newsweek og kunni Einræður Starkaðar utanbókar, ef ekki allan Einar Ben, glás og gommu af lengri og skemmri ljóðum sem ruddu sér til rúms í samræðum eftir tilefni. Sjálfur orti hann ótal vísur á ótal miða og í litlar bækur sem lágu út um allt hús heima hjá þeim ömmu, það var eins og hluti af göngulagi hans, að pára hjá sér kviðlinga gegnum daginn, fara með þá ef honum þótti takast þolanlega til. Hann gerði sitt með hægð en af einurð – á meðan hann hlustaði á hádegisfréttirnar tuggði hann mat af meiri einurð en ég hef annars séð mat tugginn, hrökkbrauð með hvítlauksrifjum sem hann kreisti ofan á brauðið og þótti í frásögur færandi þegar hvítlaukur var enn svolítið nýstárleg fæða hérlendis og þótti ekki lykta vel. Þetta var meðvituð hvítlauksneysla, til að styrkja ónæmiskerfið, afi bar sig eftir þess háttar nokkru áður en allir gerðu það. Það gerðu líklega fleiri lesendur Þjóðviljans, efnishyggjumenn í þeirri fyrri, marxísku merkingu orðsins að gera ekki endilega ráð fyrir að í tilverunni leynist fleiri deildir en þessi hér, við moldin, og rétt að gera gott úr því. Gera gott úr moldinni, enda leyni hún á sér. Afi ræktaði grænmeti í garðinum þeirra ömmu, steytti hnefann að unglingum sem styttu sér leið gegnum garðinn og yfir reitina en hafði blíðlega orð á því við aðra viðstadda, um leið og hann hvarf úr glugganum, að unglingar væru besta fólk.
Afi var hrifnæmur og táraðist yfir vísukornum. Og hann var þrjóskur, heitir það, stundum sjálfum sér til óbóta, stundum öðrum. En veröldin er líka þrjósk og hún er misþyrmingasöm. Við, afkomendur afa, vitum eða megum vita sitthvað um afleiðingar þess alls. Guðmundur Axel Björnsson, faðir Einars og langafi minn, tók þátt í stofnun Verkalýðsfélags Keflavíkur. Í janúar 1932 leiddi hann, sem formaður félagsins, verkfallsaðgerðir hafnarverkamanna í bænum. Hann var þá varaður við því að fara til dyra ef ókunnugir menn skyldu banka upp á hjá honum. Forkólfar útgerðarinnar sáu við því og fengu félaga Axels, sem hann treysti, til að knýja dyra hjá honum klukkan þrjú að nóttu. Axel opnaði fyrir félaga sínum – og mætti þar í dyrunum sveit 20–30 manna sem voru komnir til að taka hinn liðlega þrítuga formann höndum. Þeir færðu hann nauðugan um borð í bát, sigldu á haf út og töluðu þar um að drekkja honum. Að endingu skiluðu þeir Axel í land í Reykjavík, á lífi, en gerðu honum ljóst að kæmi hann aftur til Keflavíkur hlyti hann verra af.
Þá var afi tveggja ára. Sagan segir að faðir hans hafi ekki borið sitt barr eftir þetta atvik, orðið skrítinn, stundum hafi hann ekki heilsað börnum sínum á götu – og hver veit hvað. Nú eru þau horfin frá sem voru til frásagnar um það. Við sitjum uppi með að púsla saman mynd af þessari fortíð úr brotum.
Hinu megin við miðja öldina, árið 1959, steig Einar sjálfur, nú tæplega þrítugur faðir fjögurra barna, sín fyrstu skref sem nýútskrifaður leikari og fékk glimrandi dóma hvarvetna. Í leikdómi Morgunblaðsins um gamanleikinn Frjálsir fiskar, eftir Stefán Jónsson, má lesa: „Þá kem ég að spútnik þeim, sem einhver skaut á loft upp ekki alls fyrir löngu, og snýst nú með vaxandi krafti kringum hausinn á Þalíu. Hann heitir nú bara á íslenzku Einar Guðmundsson, og hefur bara fjóra útlimi þrátt fyrir óvenjulega hæfileika. Hann er án efa mesta grínleikara-efni er komið hefur fram í mörg herrans ár.“ Aðrar umsagnir voru eftir þessu. Samferðamenn Einars í leikhúsinu vöruðu hann hins vegar við að hann skyldi ekki flíka stjórnmálaskoðunum sínum óhóflega. Annar leikari ráðlagði honum að taka niður barmmerkið sem hann bar, ef hann vildi fá ráðningu. Sem afi gerði ekki. Ráðgjafinn átti langan starfsaldur fyrir höndum í leikhúsunum, en afi sneri sér að vélsmíði.
Réði þetta úrslitum? Barmmerkin, pólitísk útilokun, stéttaátök, þetta sem hét kalda stríðið? Þannig horfði það við afa. Sem barn heyrði ég aðra fjölskyldumeðlimi oftar minnast á bresti hans sjálfs í þessu samhengi. Þrjóskuna og hégómann. Eitthvert rifrildi við leikstjóra. Og drykkjuna. Helvítis drykkjuna. Það er ekki víst að það sé sitt hvor sagan.
Ég veit ekki hvaða aðferðum karlar af kynslóð afa beittu til að greiða úr tilfinningum sínum. Eða hvort um slíkt er yfirleitt vit að tala í fleirtölu. Um það hvernig faðir hans var hrakinn frá Keflavík eða hvernig hann hvarf frá leikhúsinu talaði hann ekki oft svo ég heyrði, fyrr en á allra síðustu árum. Honum þótti hvort tveggja leitt, jafnvel sárt. En þegar það bar á góma, þegar hann sagði mér frá, eða okkur mömmu, þá heyrði ég þar aldrei neitt í ætt við beiskju. Furðu, já. Að svona skyldi þá vera í pottinn búið. En mögulega var það meira tjón fyrir leikhúsgesti að þessi spútnik skyldi ekki hafna á sporbaug, en fyrir hann sjálfan, sem naut annarra starfa.
Þegar Morgunblaðið birti leikdóminn hér að ofan var móðir mín tveggja ára, næstyngst í hópi fjögurra systkina. Nokkrum árum síðar, eftir íbúðabasl í Reykjavík, fluttu þau til Kópavogs, Einar, Hafdís og börnin þeirra fjögur, og höfðust þar við í bílskúr á meðan fjölskyldufaðirinn byggði sjálft húsið við skúrinn. Húsið taldist loks íbúðarhæft um áratug síðar. Og börnin meira eða minna stálpuð. Þessi tíu ár í skúrnum voru flókin. Það er bagalegt að lifa þröngt með manni sem drekkur heldur oft, heldur illa.
Einar afi og Hafdís amma voru gift í 50 ár, allt þar til hún lést, haustið 2001. Þegar hún fór kom í ljós einhver fúi í fjölskylduböndunum og þegar á reyndi slitnuðu þau. En ég var afabarn – ekki barn heldur barnabarn. Og hvað sem líður öðrum skarkala og átökum fullorðna fólksins þá var heimili afa og ömmu einhver allra besti staður sem ég bjó að í bernsku. Ég gekk að því sem vísu, á unglingsárum, að hverfa heim til þeirra í hverju hádegishléi, úr skólanum. Úr þvottahúsinu lá angan af brugginu hans afa, veigamikill hluti af hinni tilteknu, samsettu heimilislykt þessa velgjörðarfólks míns. Öðru ónæði varð ég sjálfur ekki fyrir af þeirri menningarhefð. Ég hámaði í mig bananabrauð og kex og blaðaði í Þjóðviljanum, reyndi að vaxa upp úr myndasögunum, á meðan afi maulaði hrökkbrauð og hvítlauk, með eyrun við hádegisfréttirnar. Það var gott, í mínu lífi var það áreiðanleg gæðastund, á árum þegar margt annað virtist á hverfanda hveli.
Ég hitti afa síðast nú í sumar. Það tók mig drjúga stund, í þeirri heimsókn, að stilla áheyrn mína þannig að ég greindi orða skil – hann talaði lágum rómi og fyrst rann allt saman, sérhljóðar og samhljóðar, eins og gamlir, máðir skrifstafir. En þegar ég náði áttum, tókst að greina orð frá orði, þá reyndist hugur hans ekki aðeins við liðna tíð, bernskuna í Vesturbænum, auðvaldið í Keflavík eða pólitíkina í leikhúsunum, heldur leiddi hann líka talið að Black Lives Matter-hreyfingunni, réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum, í samstöðu sem honum þótti segja sig sjálf. Þegar við kvöddumst bað hann mig fyrir heitan koss til konu minnar og glotti sínu græskulausasta. Það var grallaraglott, skammhlaup beint frá stríðsárunum í húsinu við Framnesveg, iðandi af lífi og hörmungum. Nú horfnum heimi.
Fyrir athvarfið, fyrir opnar dyr, fyrir nærveru sem lét eins og hún væri sjálfsögð, fyrir kímnina, uppnefnin og vísukornin, fyrir jólin öll sem við vörðum saman, fyrir dandíismann, þverslaufurnar, þessar óforskömmuðu sundskýlur í garðinum og garðskálanum, fyrir angan af ódýru sprútti og gömlum bókum, af sólarvörn, hvítlauk, gervileðri og blómum, fyrir þann sérstaka hátt sem afi hafði á að vera annars hugar og þó til staðar, og fyrir kommúnismann í þessu öllu, chapliníska kommúnismann hans afa, er ég þakklátur.