Hugmyndafræði síðkapítalismans heitir nýfrjálshyggja en aðferðafræði hans heitir LEAN. Á íslensku hefur hún verið nefnd „straumlínustjórnun“. Upp til hópa vilja stjórnendur fyrirtækja auðvitað lágmarka kostnað og hámarka ávinning, það er hvorki nýtt né sérviskulegt. Akkúrat sú nálgun sem nefnist LEAN, þessi tiltekna, kerfisbundna útfærsla innan stærri rekstrareininga, á sér aftur á móti afmarkaðri sögu, sem hefst innan TOYOTA verksmiðjanna á 4. áratug síðustu aldar, það er í Japan á keisaratímanum. Ákveðin grundvallaratriði í rekstri bílaverksmiðjanna héldu velli gegnum stríðið og á 9. áratugnum tóku bandarískir stjórnendur að gefa þeim gaum. John Krafcik, nú forstjóri innan Google-samsteypunnar, var liðlega tvítugur þegar hann gaf TOYOTA-leiðinni, eins og hún nefndist fram að því, þetta heiti, LEAN. Það var þó ekki hann sem stuðlaði helst að útbreiðslu hugmyndarinnar heldur höfundur að nafni James Womack. Womack nam stjórnmálafræði við Chicago-háskóla, lauk doktorsnámi við MIT og samdi síðan bók sem kom út árið 1990 og færði þetta fyrirbæri, LEAN, inn í allar viðskiptafræðideildir heimsins.
Vélin sem breytti heiminum
The Machine that Changed the World hét bókin. Ég veit ekki hvort titillinn var sannleikanum samkvæmur þegar hún kom út, en hægt og bítandi hefur hann orðið það. Hún hefur farið um eins og – stormsveipur? Nei, þetta var hægara. Lúmskara. Eins og loftslagsbreytingar, kannski. Þessi hugtakarammi er enn að breiða úr sér, með áhrifum á vinnustaði sem virðast svo víðtækar, þó ekki væri annað, að þeim mætti helst jafna við menningarbyltingu. Hver sem tekur við rekstri fyrirtækis og segist ætla að innleiða þar umbætur, auka hagkvæmni og minnka sóun hefur undanliðinn aldarfjórðung stuðst við og/eða vísað til LEAN. Háskólinn í Reykjavík kennir LEAN, Háskóli Íslands kennir LEAN, innlendir ráðgjafar mæla með LEAN, erlendir ráðgjafar mæla með LEAN, McKinsey byggir skýrslur og úttektir á LEAN – ráðgjafarfyrirtæki halda námskeið í LEAN, þýða og gefa út bækur um LEAN á meðan stjórnendur innleiða LEAN og láta undirmenn sína þjálfa undirmenn þeirra í LEAN. Icelandic LEAN Institute á aðild að LEAN Global Network, og í samstarfi við Samtök atvinnulífsins heldur LEAN Ísland ehf. árlega LEAN Ísland ráðstefnu.
En þegar LEAN hefur verið innleitt í hverja einustu deild hvers einasta einkafyrirtækis landsins, hvað á þá að gera við allt þetta hugvit, alla þessa menntun og þjálfun? Undanliðinn áratug hefur fyrirbærið tekið að seilast út fyrir viðskiptalífið inn á gólf opinberra stofnana. Meira eða minna allt sem heitir umbætur á þeim vettvangi fer nú fram, semsagt, undir formerkjum LEAN. Það er að segja, á forsendum TOYOTA-verksmiðjanna eins og þær birtust ungum Bandaríkjamönnum um það leyti sem Charlie Sheen lék í Wall Street.
Marie Kondo og fitulögin
Þannig að – ha? Hvað er þetta? Þessi aðferð, þetta hugtak – hvað voru þeir að gera þarna í Japan sem strákarnir frá Chicago hrifust svona af? Margir þekkja Netflix-þættina Tidying Up with Marie Kondo. Þar veitir lífsstílsráðgjafinn Marie Kondo aftur og aftur sama ráðið um heimilishald: að fólk taki sér í hendur hvern einasta hlut á heimilinu, einn af öðrum, og spyrji sig: færir þessi hlutur mér gleði? Ef svarið er já má setja hlutinn á sinn stað. En ef svarið er nei, ef hluturinn færir eigandanum ekki gleði, þá er best, samkvæmt Kondo, að losa sig við hann. Gefa hann, farga honum, bara tryggja að hann hverfi. Hlut fyrir hlut eykst þá skilvirkni heimilisins – með því að straumlínulaga dvalarstaðinn eykurðu ánægju þína, af því meiri skilvirkni sem þú sóar minna plássi í allt sem ekki þjónar því markmiði.
Marie Kondo er þá eins konar heimilis-LEAN. Einföld útgáfa, já, en í rekstri fyrirtækja virðist grunnpælingin þó ekki mikið flóknari. Árið 2004 mátti lesa stutta grein í Morgunblaðinu þar sem rekstrarráðgjafi kynnir hugmyndina: „Sóun er í LEAN skilgreind sem sérhver aðgerð starfsmanna sem ekki skapar virði fyrir viðskiptavini,“ skrifaði hann. Það er kjarnahugmynd LEAN, þessi ákveðna hugmynd um sóun, og allt heila apparatið felst í þróun ferla til að sporna gegn þeirri sóun, aftra því að fyrirtæki sói plássi eða tíma í óþarfa. Óþörf handtök og skref, langa fundi, langar kaffipásur, stóran lager. Allt það. „Skilgreindir eru þrír mismunandi flokkar aðgerða,“ útskýrði rekstrarráðgjafinn í Mogganum:
„aðgerðir sem skapa virði, aðgerðir sem skapa ekki virði en eru óhjákvæmilegar og aðgerðir sem skapa ekki virði og eru óþarfar. Fjarlægja á allar þær aðgerðir sem ekki eru virðisskapandi.“
Í þessu samhengi hefur stundum verið talað um að skera burt fitulag. Og þar glittir í innra samræmi tíðarandans, hvernig ríkjandi hugmyndafræði hefur tilhneigingu til að gegnsýra sem flest svið mannlífsins í einu: að hér erum við einmitt, á árinu þegar eigendur líkamsræktarstöðva um allan heim hafa ítrekað lýst vandlætingu, fyrir hönd kúnna sinna, á því að heilbrigðisyfirvöld trufli hinn taktfasta fituskurð, eins þegar hann skapar hættu á alvarlegu heilsutjóni. Fitan skal burt – af sömu festu og augað sem Jesús ráðlagði þér að rífa úr tóftinni og kasta á eld ef það skyldi annars leiða þig í freistni. Að breyttu breytanda. Ef það eykur ekki virði, skaltu fleygja því.
Aðgerðir sem skapa virði
Árið 2011 hófst innleiðing LEAN á Landspítalanum. Hún fer nú fram í samstarfi við bandaríska ráðgjafarfyrirtækið McKinsey, meðal annars, og Karolinska sjúkrahúsið í Svíþjóð. Í kynningartexta Landspítalans sjálfs segir:
„Hjartað í umbótastarfi Landspítala slær á verkefnastofu spítalans, en hún beitir einkum aðferðafræði straumlínustjórnunar sem nefnist “lean”.“
Nokkrum árum eftir að þetta fitusog sjúkrahússins hófst tóku að heyrast ný hugtök í fréttum um heilbrigðiskerfið, orð á við fráflæðisvanda, sem í fyrstu virtust einmitt frekar eiga heima á færibandi í bílaverksmiðju en á sjúkrastofum. Þar til semsagt, nú í nóvember 2020, eftir níu ára innleiðingu viðvarandi niðurskurðar sem stefnu í umbótum spítalans að í bráðabirgðaskýrslu um útbreiðslu farsóttar innan hans má lesa: „Það er ekki loftræsting á sjúkrastofum á Landakoti“.
Það er ekki loftræsting á sjúkrastofum á Landakoti.
Það virðist ekki hafa komið til tals fyrr en það varð fólki – mögulega – að aldurtila. Að það er ekki loftræsting á sjúkrastofunum á Landakoti.
Þetta er sannarlega viðkvæmt mál. En því brýnna að við megnum að ræða það. Það er ekki til að fórna höndum yfir tilteknu starfsfólki, embættismönnum, sérfræðingum eða stjórnendum, sem öll vita – auðvitað – margfalt meira um sitt svið en við sem stöndum utan þeirra. Og bera ábyrgð sem enginn getur öfundað þau af. En á meðal forsendanna að baki störfum þeirra og ákvörðunum eru hugmyndafræðilegar forsendur, þær sem ráða því hvað virðist sjálfsagt, hvað jafnvel fremstu sérfræðingum virðist sjálfsagt, á tilteknum stað og tilteknum tíma. Við berum sameiginlega ábyrgð á þeim og við berum sameiginlega ábyrgð á að gaumgæfa þær.
Við vitum ekki hvað loftræsting hefði forðað mörgum smitum. En við vitum að það var fleira. Það er fleira í skýrslunni, fleira á Landakoti en líka fleira sem við hin hefðum getað gert, utan sjúkrahússins, en gerðum ekki – eða gerum núna, loksins, en tókum ekki í mál að gera fyrr en í fulla hnefana. Sóttvörnum, þar með talið hindrunum við landamærin, var aflétt hratt síðasta sumar. Það reyndist ekki óhætt. Tveir metrar urðu að einum – eins og metrar séu af skornum skammti í þessu landi. Metri reyndist ekki nóg. Sóttvarnaryfirvöld mæltu ekki með grímum, réðu fólki eiginlega frá því að bera grímur, þangað til fullsýnt þótti og áreiðanlegt að þær gætu varnað smiti. Þannig hefur á stundum verið eins og varkárni stjórnvalda í faraldrinum snúi öll öfugt, þau vilji gæta þess af mestri varkárni að við förum fyrir alla muni ekki of varlega, gerum áreiðanlega ekki meira en nóg.
Með plastflautu í brjóstvasanum
Og það er ekki aðeins á Íslandi. Víða á Vesturlöndum virðast stjórnvöld hafa lagt sig fram um það, framan af faraldrinum, að beita í hverju fótmáli minnsta inngripi sem gæti dugað. Í ljósi þess hve mikið er í húfi vaknar að minnsta kosti sú spurning hvort einmitt í heimsfaraldri, þegar um líf og limi er að tefla í ástandi sem einkennist af mikilli óvissu, sé mest raunsæi fólgið í þeim viðmiðum sem draumóramennirnir í Chicago grófu upp í bílaverksmiðjum keisarans í Japan.
Þegar óvissa er mikil er ekkert til sem heitir passlegt. Í óvissuástandi er allt viðbragð ýmist of eða van. Og LEAN segir van. Að gera aldrei meira en lágmarkið, hafa aldrei of mikið meðferðis. Eins og við séum aldrei heima hjá okkur, heldur alltaf að pakka fyrir fjallgöngu eða geimferð. Séum öll í hernum og mest ríði á að tálga farangurinn. Á hverjum degi. Grenna okkur. Grenna heimili, grenna fyrirtæki, grenna stofnanir og grenna spítala. Á móti þessum megrunarórum bílaverksmiðjanna virðist full ástæða til að tefla fram raunsæisviðmiði flugiðnaðarins, lögmáli Murphys: að ef eitthvað getur farið úrskeiðis mun það fara úrskeiðis. Til að forða flugslysum eftir allra fremsta megni þykir rétt að fara frekar of varlega en hafa aðeins þann minnsta viðbúnað sem gæti dugað. Mér skilst að enn séu engin dæmi þess að björgunarvestin um borð í farþegaflugvélum hafi bjargað nokkurri manneskju frá drukknun. Hvað þá litla plastflautan í brjóstvasanum. LEAN myndi segja okkur að sleppa vestunum. Murphy ekki.
Vestrænir ráðgjafar hafa sumir furðað sig á því að einmitt í Japan hafa viðmið LEAN ekki verið innleidd að ráði á heilbrigðissviði. Þegar þetta er ritað hafa fjórfalt færri látið lífið í Japan, af völdum Covid-19, miðað við höfðatölu, en á Íslandi. Verksmiðja er verksmiðja. Sjúkrahús er sjúkrahús. Og titill þessarar greinar er vísvitandi þvættingur.