Mánudagsmorguninn 16. nóvember 2020 fengum við Dísa far með mömmu að húsi Landsréttar í Kópavogi. Þar voru örfáir komnir á undan okkur og annað eins bættist síðan við, til að fylgjast með framhaldi Samstöðumálsins, sem svo hefur verið nefnt: máli ríkisvaldsins gegn Ragnheiði Freyju Kristínardóttur og Jórunni Eddu Helgadóttur, systur minni.
Tilefni málsins er að vorið 2016 stóðu Jórunn og Ragnheiður upp um borð í kyrrstæðri flugvél á malbikinu við Leifsstöð og vildu helst ekki setjast fyrr en fallið yrði frá brottvísun manns sem sat þá nauðugur um borð í vélinni. Þremur árum síðar komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að þetta hátterni þeirra varðaði ekki við 168. grein hegningarlaga, þær hefðu ekki „raskað öryggi loftfars“, enda var flugvélin sem fyrr segir kyrrstæð, dyr hennar enn opnar. Þær voru hins vegar sakfelldar í veigaminni ákæruliðum, fyrir að valda töf á brottför vélarinnar og fyrir að hafa ekki hlýtt flugfreyjum „um góða hegðun og reglu í loftfari“. Í samráði við lögmenn sína, Ragnar Aðalsteinsson og Sigurð Örn Hilmarsson, áfrýjuðu Ragnheiður og Jórunn þessari niðurstöðu. Og nú, vel rúmum fjórum árum eftir að þær ollu á að giska korters töf á leið nokkurra ferðalanga úr landi, komst málið loks á dagskrá Landsréttar.
Hús Landsréttar stendur eiginlega niðri í fjöru. Frá bílastæðinu dómstólsins gefst sérstakt útsýni yfir Reykjavík, frá kyrrstæðu flugvélunum á vellinum í Vatnsmýri, yfir að sjúkrahúsinu í Fossvogi. Fyrir miðri þessari mynd stendur Öskjuhlíð, skógurinn svo ræktarlegur, dimmgrænn og þéttur þarna í húminu að stálgráu fletirnir innanum og ofaná fara allir hjá sér. Og þetta útsýni af bílastæðinu skiptir máli fyrir þá sem hafa í hyggju að fylgjast með störfum dómstóla þessa dagana: vegna drepsóttarinnar var aðeins einum gesti hleypt í Dómssal 1 við Landsrétt þennan morgun. „Dómþing skal háð í heyranda hljóði,“ segir 70. grein stjórnarskrárinnar. Er þá mynd- eða hljóðstreymi úr salnum, þó ekki væri nema innanhúss? Nei. Mætti opna dyrnar og fylgjast með úr dyragættinni? Nei. En gesturinn eini gæti þá kannski streymt efni úr sinni tölvu – nei greip dómsvörður fram í, gestinum eina er ekki heimilt að streyma frá réttarhaldinu. Fyrir utan málsaðila og dómara verður því um ókomna tíð ein einasta manneskja til frásagnar um það sem fram fór bakvið þessar kyrfilega luktu dyr. Kannski má til sanns vegar færa að þannig uppfylli dómstóllinn stjórnarskrárákvæðið í strangasta og bókstaflega skilningi: Dómþing skal háð í heyranda hljóði, segir þar. Og ekki um að villast, orðið er í eintölu.
Í máli ríkisvaldsins gegn Ragnheiði og Jórunni, sem var semsagt flutt í heyranda hljóði þarna við fjöruborðið, þennan mánudagsmorgun í nóvember, er tekist á um grundvallaratriði: réttinn til tjáningar og mótmæla. Héraðsdómur lét sig þann rétt ekki varða. Þar var hverri skírskotun til þessa höfuðatriðis vísað á bug með eftirfarandi setningu í dómsorði: „Þá sæta tjáningar- og fundafrelsi ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu“. Þrátt fyrir víðtæka leit hefur enginn rökstuðningur fundist í þessari setningu. Hvergi umleikis hana, hvorki á undan setningunni né eftir, er þess getið hvers konar takmörkunum tjáningar- og fundafrelsið sæti eða hvað það er við háttsemi ákærðu sem ekki beri að líta í ljósi þess frelsis. Það er veigamesta spurningin sem tekist er á um í þessu máli og liggur nú fyrir Landsrétti, hvaða vægi rétturinn til tjáningar hefur – hvort ákvæði stjórnarskrár og alþjóðasáttmála um mannréttindi eru í reynd svo léttvæg að mótmæli þyki aðeins boðleg ef þau valda áreiðanlega engu ónæði.
Ekkert afdráttarlaust dómafordæmi er til – niðurstaða þessa máls mun veita fordæmi í þeim sem síðar koma. Málflutningi er lokið. Í heyranda hljóði. Og úrskurðar er að vænta innan fjögurra vikna.