Lýðveldið Ísland sakfellt fyrir undirlægjuhátt

05.12.2020 ~ 10 mín

Ég slæ inn „lögregla þurfti að“ og fæ 4.800 niðurstöður.

Lögregla þurfti að beita piparúða.

Lögregla þurfti að beita piparúða og kylfu.

Lögregla þurfti að beita tára­gasi.

Lögregla þurfti að hreinsa hústöku­fólk úr húsi við Vatns­stíg.

Lögregla þurfti að hafa ítrekuð afskipti af skóla­böllum.

Og svo fram­vegis. Ég skrifa „mótmæl­endur þurftu að“ og ég fæ 8 niðurstöður.

Mótmæl­endur þurftu að leita sér aðhlynn­ingar.

Mótmæl­endur þurftu að stilla sér upp til að verja lögregl­una fyrir grjót­kasti.

Þetta er ónákvæm athugun sem ég og fleiri hafa gert áður, en veitir skýra vísbend­ingu: hvort sem við köllum það ríkj­andi gild­is­mat eða hefð­bundna málnotkun, þá er lögregla, samkvæmt íslenskum miðlum, 600 sinnum nauð­beygð til að gera það sem hún gerir fyrir hvert eitt skipti sem nauð­syn rekur mótmæl­endur til að gera nokk­urn hlut.

Ef lögregla lemur mann þurfti hún að lemja mann og þar með mátti hún lemja mann. Þurfti að, neydd­ist til, o.s.frv – þessi fram­setn­ing hefur verið kölluð nauð­háttur. En vegna þess hvernig honum er, hefð­inni samkvæmt, nær eingöngu beitt um þá sem fara með opin­bert vald og beita því, mætti allt eins kalla hann undir­lægju­hátt.

Dómur Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evrópu gegn Íslandi, sem féll þann 1. desem­ber 2020, snýst um þennan undir­lægju­hátt. Í málfræði­legum undir­lægju­hætti birt­ist það viðhorf að hvað sem valdið geri hafi það þar með þurft að gera, athafnir þess rétt­læti sig sjálfar, séu að því leyti hafnar yfir dóm og lög en líka yfir frásagnir, séu á undan­þágu frá tungu­mál­inu eins og við annars beitum því.


Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn sakfellir Hæsta­rétt fyrir undir­lægju­hátt við ráðherra. Þannig hefðu fyrir­sagnir fjöl­miðla þann 1. desem­ber getað hljómað. Dómstóll­inn úti setti saman þriggja þrepa próf, eins og hann kallar það, til að ákvarða hvort lögbrot við skipan dómstóls telj­ist nógu alvar­leg til varða við Mann­rétt­inda­sátt­mál­ann. Fyrri skrefin tvö felast í að athuga hvort um skýrt og bersýni­legt brot á lands­lögum er að ræða og síðan hvort það varðar þá grund­vall­ar­við­mið frekar en einbert tækni­at­riði. Svar dómstóls­ins við báðum þessum spurn­ingum var, í tilfelli Lands­rétt­ar­máls­ins, já. Þriðja skrefið felst loks í athugun þess hvort þartil­bær dómstóll – hér Hæstiréttur – hafi þegar tekið málið til athug­unar og leið­rétt það sem aflaga fór. Það er í þeim lið sem Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn bendir á víta­verðan undir­lægju­hátt Hæsta­réttar. Yfir­deild Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins segist líta svo á að „í þeirri leið sem Hæstiréttur fór að niður­stöðu sinni, og í sérstakri áherslu hans á þá stað­reynd að skipan dómar­anna fimmtán“ hafi „orðið að veru­leika við undir­ritun skip­un­ar­bréfa þeirra“ – þetta síðasta er tekið beint úr úrskurði Hæsta­réttar – að í þess­ari áherslu Hæsta­réttar felist:

„vísbend­ing um samþykki, jafn­vel uppgjöf, af hálfu rétt­ar­ins, við því að hann hafi í reynd ekkert um málið að segja frá því að skip­an­irnar urðu opinberar.“

Þannig varði Hæstiréttur lögbrot dóms­mála­ráð­herra, að eftir undir­ritun forset­ans hafi lögbrotið ekki skipt máli, því frá og með undir­skrift­inni hafi embætt­is­færslan tekið gildi og dómarar Lands­réttar þannig orðið lögmætir í hlut­verkum sínum hvort eð er, óháð því hvað fram fór í aðdrag­anda serem­ón­í­unnar. Samkvæmt þessu viðmiði á þá penni í höndum forseta nokkuð skylt með kylfu í höndum lögreglu­manns. Kannski, hvarflar þá að manni, búa öll prik yfir þessum galdri, ef rétt er með þau farið. Að löggilda jafn­harðan hvað sem er gert með þeim.

Nei, sagði yfir­deild Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins með 1. des-dómnum. Það gera prik ekki.


„Á undan­liðnum áratugum hefur lagaum­gjörð Íslands um skipan dómara tekið mikil­vægum breyt­ingum sem stefnt hafa að því að takmarka heim­ildir ráðherra til afskipta af skip­ana­ferl­inu og styrkja þarmeð sjálf­stæði dómstólanna“.

Svo segir í 1. des-dómnum. Þær breyt­ingar sem þarna er vísað til hófust undir 1990. Árið 1983 skrif­aði Þorgeir Þorgeir­son, rithöf­undur og blaða­maður, tvær blaða­greinar um lögreglu­of­beldi. Grein­arnar byggðu á viðtölum Þorgeirs við þolendur ofbeld­is­ins, sem hann tók mark á og vitn­aði í. Eins og hann skýrði síðar í rétt­ar­sal leit hann á þetta sem skyldu sína sem rithöf­undar – skýrði í rétt­ar­sal, því fyrir skrifin var hann ákærður og dreg­inn fyrir Saka­dóm Reykja­víkur, sem þá hét.

„Það er sársuka­full reynsla,“ sagði Þorgeir um það allt síðar:

„að vera altíeinu staddur andspænis þeirri stað­reynd að rétt­indi sem menn telja sig borna til séu óvirt af dómsvald­inu. Þetta verður ógn persónu­legt alltsaman því vegar­nestið úr skóla­kerfi og öðru lýðræð­is­blaðri samtím­ans fylgir manni alla­leið í dómsal­inn þarsem hrollur veru­leik­ans dynur síðan yfir. Engu er þá líkara en maður hafi altíeinu ekki neina jörð að ganga á.“

Árið 1986 var Þorgeir dæmdur fyrir meið­yrði, vegna þess­ara greina. Ári síðar stað­festi Hæstiréttur dóminn. Í kjöl­farið sótti Þorgeir um að flytja mál gegn íslenska ríkinu við Mann­rétt­inda­dóm­stól Evrópu. Honum til ráðgjafar var Tómas Gunn­ars­son, hæsta­rétt­ar­lög­maður, sem „stóð alla tíð á bak við mig“ að sögn Þorgeirs, „og leið­rétti barna­legar hugmyndir mínar um rétt­vís­ina, án þess að drepa niður kraft naívist­ans í mér.“ Dómstóll­inn tók málið fyrir, Þorgeir flutti það, og árið 1992 birt­ist loks úrskurður: Já, íslenska ríkið braut á rétti Þorgeirs til tján­ing­ar­frelsis, 10. grein Mannréttindasáttmálans.


Þorgeiri þótti þó ekki aðeins þessa hlið máls­ins bogin heldur einnig máls­með­ferðin. „Hvar er saksókn­ari ríkis­ins?“ sagð­ist hann hafa spurt fyrir Saka­dómi. „Hann mætir ekki í þessu máli,“ svar­aði dómar­inn. „Hver fer þá með ákæru­valdið hér?“ spurði Þorgeir. Og aftur svar­aði dómar­inn, undan­bragða­laust: „Það geri ég“. Samkvæmt hefð, á þeim tíma.

Það fyrir­komu­lag, óljós mörk milli valdsviða í íslenskum dómstólum, varð viðfangs­efni annars máls fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stólnum. Maður að nafni Jón Krist­ins­son var dæmdur á Akur­eyri, árið 1985, fyrir of hraðan akstur árið 1984. Meðal þeirra sem rann­sök­uðu hraðakst­ur­inn, þá sem lögreglu­maður, var sá sem úrskurð­aði síðan í málinu, sem dómari. Lögfræð­ingur Jóns, Eiríkur Tómas­son, kærði þetta tvíeðli embætt­anna til Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins. Dómstóll­inn úrskurð­aði í því máli árið 1989. Já, sagði líka þar, Ísland braut á rétti Jóns til rétt­látrar máls­með­ferðar fyrir óvil­höllum dómstól.

Ef það blasir nú við flestum hér að þessir tveir úrskurðir Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins hafi verið réttir, ef okkur þykja þeir sjálf­sagðir og sýnist augljóst að lýðveldið hafi beitt þá báða órétti, Þorgeir og Jón, ásamt ótöldum fjölda annarra fram að því, þá er það meðal annars, og kannski ekki síst, vegna þeirra breyt­inga sem urðu á land­inu í kjöl­far þess­ara dóma. Efst á blað má setja þrennt: Í fyrsta lagi var íslenskum meið­yrða­lögum breytt á þann veg að síðan hefur mátt gagn­rýna íslenska embætt­is­menn og störf þeirra opin­ber­lega. Í öðru lagi var Mann­rétt­inda­sátt­máli Evrópu lögfestur á Íslandi. Í þriðja lagi voru gerðar umfangs­miklar breyt­ingar á lögum um dómstóla, til að tryggja sjálf­stæði þeirra. Engum embætt­is­manni er til dæmis lengur falið að rann­saka, sækja og dæma í einu og sama málinu.

Þetta eru ekki bara breyt­ingar á lögum heldur ákveðnum grund­vallar­for­sendum og samfé­lags­gerð. Og þær mætti taka saman í enn styttra máli, afleið­ingar þess­ara tveggja dóma: að þá námu land á Íslandi tján­ing­ar­frelsi, þrískipt­ing ríkis­valds­ins og hugmyndin um mann­rétt­indi, almennt.

Þetta er það sem hangir á spýt­unni þegar yfir­deild Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins nefnir „mikil­vægar breyt­ingar“ síðustu áratuga. Ákveðin lykil­skref í átt að lýðræð­is­legu réttarríki.


Sú sögu­skoðun er útbreidd að um þetta leyti, þegar Berlín­ar­múr­inn féll og Sovét­ríkin hrundu og það allt, þá hafi það helst dregið til tíðinda á þess­ari sérlund­uðu eyju að löggjaf­inn hafi loks leyft fólki að drekka bjór. Þar sem engin stytta hefur enn verið gerð af Þorgeiri, Jóni og Tómös­unum tveimur, til að minna á hin veiga­meiri tíma­mót, gæti einhver freist­ast til að halda að þau hafi kannski ekki verið ýkja merki­leg, að lög hefðu þróast í þessa átt hvort eð er, almenn­ingi áskotn­ast þessi réttur eins þó að enginn hefði kraf­ist hans eða beitt vogarafli alþjóða­stofn­ana til að sækja hann. Þá er gagn­legt að grípa niður í ræðu sem Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra, flutti á málþingi íslenskra lögfræð­inga um Mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu árið 2003. Ég hef vitnað í þessa ræðu áður. Ég stenst aldrei freist­ing­una, í hvert sinn sem ég lít aftur á text­ann þykir mér ráðherr­ann svo furðu gjaf­mildur, svo undar­lega bersög­ull. Björn sagði:

„Þegar Íslend­ingar full­giltu mann­rétt­inda­sátt­mál­ann, voru ekki gerðar neinar breyt­ingar á íslenskum lögum. Bjarni Bene­dikts­son, þáver­andi dóms­mála­ráð­herra, lét þau orð falla í þingum­ræðum um full­gild­ing­una haustið 1951, að rétt­indin í sátt­mál­anum væru í öllu því sem nokkru máli skipti þá þegar veitt borg­ur­unum berum orðum í íslenskri löggjöf og að nokkru leyti í stjórn­ar­skránni. Þessi ummæli sýna ótví­rætt, að ekki var talið, að með sátt­mál­anum væri verið að veita Íslend­ingum ný rétt­indi heldur stað­festa með alþjóða­samn­ingi þau, sem þeir þegar nutu.

Var þannig frá upphafi talið, að íslensk löggjöf samræmd­ist í hvívetna ákvæðum mann­rétt­inda­sátt­mála Evrópu. Full­gild­ing hans leiddi til þjóð­rétt­ar­legrar skuld­bind­ingar á rétt­indum, sem þegar voru talin vera fyrir hendi. Er þessi skoðun í samræmi við almennt viðhorf Íslend­inga á 19. og 20. öld. Þeir töldu lýðrétt­indin, sem þá voru að ryðja sér rúms, í raun sama eðlis og réttur Íslend­inga á þjóð­veldis­öld til að leysa mál í krafti laga og réttar með virð­ingu fyrir einstak­lingnum og án fram­kvæmda­valds, sem deildi og drottnaði.“

Þetta má endur­taka með hægð, orð fyrir orð:

Þeir töldu lýðrétt­indin, sem þá voru að ryðja sér rúms, í raun sama eðlis og réttur Íslend­inga á þjóðveldisöld.

Þeir lásu, með öðrum orðum, ekki skjalið. Þeim var alveg sama hvað í því stóð. Þeir skrif­uðu undir bara til að komast í klúbbinn.


Mikið ofsa­lega var hann þá vel heppnuð gildra, þessi Mannréttindasáttmáli.

Eftir lögfest­ingu sátt­mál­ans, í kjöl­far dóms­mála Jóns og Þorgeirs, er það nú hægt og bítandi farið að gerast að íslenskir dómstólar taka mann­rétt­inda­ákvæði til greina í úrskurðum sínum. Bítandi. Hægt og bítandi öðlast þau vægi.

Því kann hið feyskna vald í land­inu auðvitað illa. Mann­rétt­indin samræm­ast undir­lægju­hætt­inum illa.

Enn einu sinni stöndum við frammi fyrir því að íslenska ríkið telst brot­legt við ákvæði Mann­rétt­inda­sátt­mál­ans um rétt­láta máls­með­ferð. Dóms­mála­ráð­herra braut á „mikil­vægri örygg­is­ráð­stöfun sem er ætlað að koma í veg fyrir að hún aðhaf­ist í þágu póli­tískra eða annarra annar­legra sjón­ar­miða,“ segir í 1. des-dómnum. Að óbreyttu, segir líka, myndi hún þannig „endur­heimta þær heim­ildir til afskipta við skipan dómara sem áður fylgdu embætti hennar“. Það er ekki klaufa­leg tækni­villa. Það er sögu­legt ásetn­ings­brot. En mann­rétt­inda­broti veldur ekki stakur embætt­is­maður, ekki einu sinni ráðherra, heldur kerfi. Úrskurður Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins snýst því ekki síður um undir­lægju­hátt hinna: Hæsta­réttar, já, en líka Alþingis, jafn­vel forsetans.


Dómstóll­inn talar á sinn hátt um allt þetta, á sín orð. Hann fer reyndar nær því að tala svokallað manna­mál en gert er í íslenskum lögum – en á útlensku. Enn hefur ekki birst, sýnist mér, íslensk þýðing dóms­ins sjálfs. Á meðan leika vald­hafar og vinir þeirra hér lausum hala, sveifla prik­unum sínum, og freista þess að túlka dóminn burt. Þau halda til streitu því sjón­ar­miði Hæsta­réttar að lögbrot ráðherra skipti ekki máli fyrst forseti lýðveld­is­ins á penna. Þau segja að dómur­inn snúist í raun alls ekki um Ísland, heldur sé hann ætlaður allt öðrum löndum, lönd­unum þar sem stjórn­völd fremja alvöru mann­rétt­inda­brot. Og nú bætist við full­kom­lega fyrir­sjá­an­leg þvæla um full­veldið: „Þegar dómstóll­inn ytra kemst að svona niður­stöðu er hann að brjóta frek­lega gegn full­veldi Íslands“ skrifar einn. „Sjálf­stætt og full­valda ríki lætur ekki bjóða sér slíkt“.

Þetta er frum­stæð þvæla en að baki býr líka frum­stæður draumur um undir­lægju­hátt, að hann seitli frá embætt­unum um sem flestar glufur samfé­lags­ins, frá dómurum til fjöl­miðla til þeirra lesenda og viðmæl­enda sem lögreglan gæti annars, einn daginn, þurft að berja til með priki.


Árið 2018 fögn­uðu íslensk stjórn­völd, með viða­mik­illi dagskrá, 100 ára afmæli konungs­ríkis sem er ekki lengur til.

Þing­maður þurfti að flytja mjög langar ræður.

Árið 2019 bar, í saman­burði, afar lítið á 75 ára afmæli lýðveld­is­ins sem þó er sagt að standi hér enn.

Ráðherra þurfti að svara fyrir skattaskjólið.

Ég man reyndar ekki eftir að heyra neinn minn­ast á lýðveldisaf­mælið nema Mike Pence, vara­for­seta Banda­ríkj­anna, í sinni vand­ræða­legu heim­sókn. Hann reyndi, í beinni útsend­ingu, að óska forsæt­is­ráð­herra til hamingju með afmælið en hún tók ekki eftir því eða vissi ekki hvað hún ætti að gera við það. Svo hann reyndi aftur og hún huns­aði það í annað sinn. Eins og það væri ekki nógu vand­ræða­legt fyrir, talið um herinn og það allt.

Forset­inn brákaði á sér nefið þegar leið yfir hann eftir bað. Forset­inn þurfti að leita til slysa­deildar í kjölfarið.

Við þurfum að eiga orð. Ekki orð valds­ins heldur okkar eigin orð. Og við þurfum að eiga samtal. Við þurfum að bera kennsl á hvað er í húfi.

Allt tal um full­veldi, andspænis Mann­rétt­inda­dóm­stólnum, hefur aðeins eitt inntak: draum­inn um að ekkert fái stöðvað prikið manns, um undir­lægju­hátt sem samfélagsgerð.

Dómari þurfti að biðja menn um að stilla sig.

Hugmyndin um mann­rétt­indi sprettur af öðrum draumi, andstæðum draumi, um samfé­lag óbeygðra. Þaðan er líka komin hugmyndin um lýðveldi. Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn færir þeim draumi nokk­urt vogarafl. En úrskurðir hans eru ekki nóg.

Þing­menn þurftu að flýja sökum myglu­svepps. Forset­inn þurfti að vera annars­staðar einmitt um þessar mundir. Ráðherrar þurftu að ganga í gegnum fjöl­mennan hóp mótmæl­enda. Dómarar þurftu að þagga niður í lögmönnum.

Einir sér eru þeir bara ljós­rit­un­ar­pappír, fjúka burt.