Ég leit á safn með vini mínum. Nú þegar ég reyni að gera mér mynd af gestunum á safninu, þá get ég ekki fullyrt að þau hafi verið með grímur. Eða jú, ég get fullyrt það því ég veit að almennt og yfirleitt gengur fólk með grímur í svona rýmum þessa dagana, þess er krafist og það er skynsamlegt en fyrst og fremst er það staðreynd, orðinn hlutur, staða mála. Maður tekur eftir frávikunum – ég hefði tekið eftir því ef þau hefðu ekki verið með grímur. Þannig veit ég eiginlega að allir gestirnir voru grímuklæddir, en ég man það ekki – ég hef enga mynd af fólkinu með grímurnar því ég leit ekki framan í það. Eða varla. Rétt svo. Eiginlega ekki. Það er orðið venjulegt, þegar ég fer um rými, í grímuskyldunni, og ég geri ráð fyrir að það eigi við um fleiri. Útlendingum hefur lengi þótt einkennilegt hvað Íslendingar horfa mikið á andlit annars fólks í almannarými, sem er sjálfsagt smábæjarvani, að gá hvort þar er á ferð einhver sem maður þekkir. Ekki núna, ekki lengur, eina andlitið sem ég tek eftir er andlit hvers sem ég mæli mér mót við og fer samferða.
Til viðbótar við hið efnislega rými, húsakynnin, í þessu tilfelli salinn sem við vorum öll stödd í, fimmtán, tuttugu manns, ferðuðumst við eftir öðru rými, félagslegu eða lógísku, eins konar rökrásum. Það er auðveldara að sjá það fyrir sér sem rökrásir núna, eða bara pípulagnir, en það var fyrir pestina: við vorum bara tveir í því rými, vinur minn og ég, þrátt fyrir alla hina gesti safnsins. Nú krefst svolítillar viðhafnar að fjarlægja skilrúmin milli þessara rýma eða rása. Við tveir værum ekki í sama rými og annað fólk þarna inni fyrr en einhver hefði borið kennsl á einhvern og heilsað – það gerði enginn. Líklega þekkti ég ekkert af þessu fólki hvort eð er, en í sjálfu sér hef ég ekki hugmynd um það.
Á ferð um þessar rökrásir, þar sem ósýnilegir en nokkuð afdráttarlausir veggir liggja milli deilda, hreyfum við okkur eins og við erum annars bara vön að gera í bílum, í umferð, samkvæmt umferðarreglum. Í verslunarmiðstöðvum, til dæmis, staðnæmist fólk í hæfilegri fjarlægð hvert frá öðru, við gangamót, hleypir hinum fram hjá áður en það tekur af stað aftur. Einhvers konar samkomulag hefur orðið til, meginreglurnar eru líklega að stofnbrautirnar, breiðu gangarnir, hafi forgang yfir þá mjórri, þar sem ríkir þá biðskylda – reglurnar eru þó óljósar, alveg óorðaðar, og enn í mótun. Við semjum þær og semjum um þær jafnóðum, spinnum reglur með hreyfingum og hiki, en við vitum samt þegar einhver svínar á okkur við mjólkurkælinn, notar færið sem gefst, tveggja metra bilið milli okkar sem stöndum átekta, og stingur sér fram fyrir.
Endist þetta nógu lengi, þetta ástand, til að breyta umgengni okkar hvert við annað í umferð, í þessum skilningi, verður það varanlegt eða er þetta tímabundið frávik og varir bara á meðan grímurnar skyggja á okkur? Spurningin brennur ekki beinlínis á neinum, held ég, nóg er nú samt, svarið við henni kemur, óhjákvæmilega, í ljós.