„Vér Friðrik hinn fjórði o.s.frv. gerum kunnugt:
Að þar eð vér ógjarna höfum orðið þess áskynja, að vorum kæru og trúu Íslands búum sé misboðið með álögum, bæði af húsbændum þeirra og öðrum sem hafa jarðir vorar að léni …“
– Það er að segja: yfirvöldum barst það til eyrna að eigendur og umsjónarmenn fasteigna á Íslandi misbjóði leigjendum sínum með gjaldtöku umfram það sem réttlátt gæti talist. Þess vegna:
„… þá höfum vér af konunglegri einkanáð, og til að veita téðum þegnum vorum lið og vernd laga og réttar, allra náðugast látið gera um þetta eftirfylgjandi tilskipun öllum hlutaðeigendum til ávísunar og eftirbreytni.“
– voru sett lög:
„1. Er hérmeð alvarlega bannað öllum húsbændum, og þeim sem hafa kynnu umboð yfir nokkru af fasteignum vorum eða jörðum, að leggja á bændur þeirra neinar nýar álögur, framyfir það sem á jörðunum hefir legið frá alda öðli; skulu þeir sem slíkt gera sekir við konung um þriðjung af því sem hinar nýu álögur verða metnar.“
Leigu má ekki hækka. Punktur.
„2. skulu allir húsbændur skyldir að gefa bændum sínum byggingarbréf; skulu þar tilgreindir allir þeir skilmálar sem þeir verða ásáttir um við bóndann, og er bóndi ekki skyldur að gjalda eða gera neitt það, sem ekki er tiltekið í byggingarbréfinu;“
Leigusamningar skulu vera skriflegir og engin gjaldtaka má eiga sér stað sem ekki er getið í samningi.
„3. allir húsbændur skulu gefa bændum sínum skilmerkilegt skrifað kvittunarbréf fyrir eftirgjaldi ábúðarjarða þeirra, í hvert sinn sem þeir gjalda nokkuð eftir þær. Þeir sem sýna undandrátt í þessu eða mótþróa, skulu hafa fyrirgert því sem þeir kynnu að eiga eftirstandandi hjá bóndanum.“
Leigjendur skulu fá kvittun fyrir hverja greiðslu á leigu.
„4. Enginn húsbóndi má héðan af dirfast að taka leigu af dauðum gripum, fremur en lögin leyfa; svo að skilmálar þeir sem stríða gegn þessu og bóndinn kynni að vera þvingaður til með fortölum eða myndugleika, skulu að fullu og öllu ógildir, og skulu húsbændur sjálfir skuldbundnir til að bæta upp kvígildis kýrnar, þegar þær eldast um of, eða deyja af einhverjum þeim tilfellum, sem lögin ekki bjóða leiguliða að ábyrgjast;“
Leigusali skal annast viðhald eignarinnar, án viðbótar gjaldtöku frá leigjanda. Hafi slíks gjalds verið krafist til þessa fellur er innheimta þess óheimil héðan í frá.
„5. Enginn bóndi skal skyldur að flytja leigur lengri veg heim til húsbóndans en 2 dagleiðir;“
Auðvelt skal vera að inna greiðsluna af hendi. Og síðast en ekki síst:
„6. Enginn húsbóndi, hvorki þeir sem yfir vora fasteign eru settir, andlegrar eða veraldlegrar stéttar, má burtrýma nokkrum bónda frá jörðu, sem hann eitt sinni hefir bygt honum, á meðan bóndinn situr hana löglega, og geldur eftir hana það sem frá alda öðli hefur goldið verið og með réttu á að gjalda.“
– Leigusali getur ekki sagt upp samningi við leigjanda eða vísað honum burt úr fasteign svo lengi sem leigjandi stendur í skilum. Leigjandi má annars búa þar sem hann býr, sama hvað.
Þetta var árið 1705. Tilskipunin er dagsett 15. maí það ár, gefin út á dönsku, undir titlinum Forordning om adskillige Misbrugers Afskaffelse udi Island eða Tilskipun um afnám ýmissar misnotkunar á Íslandi. Íslenska þýðingin er frá árinu 1840, úr riti Jóns Jónssonar, dómara í Landsyfirrétti, Hugvekja um þinglýsingar, jarðakaup, veðsetningar og peningabrúkun á Íslandi (bls. 112).
Tæpum 100 árum eftir að tilskipunin kom út skilaði amtmaður greinargerð, frá Íslandi til Kaupmannahafnar, um fylgni við tilskipanir konungs, og segir frá því hvernig eigendur koma sér framhjá þessari tilskipun með vafasömum ákvæðum í samningum. Algengt væri til dæmis að í leiguskilmála væri bætt fyrirvörum á við „svo lengi sem viðkomandi aðilum hentar“. Þannig tryggðu leigusalar sér, þvert á ásetning yfirvalda, svigrúm til geðþóttaákvarðana, á kostnað leigjenda.
Það var danskur amtmaður sem kom þessari athugasemd á framfæri, Ludvig Erichsen, 1802. Fyrsti íslenski amtmaðurinn, Magnús Gíslason, hafði það eitt við tilskipun konungs að athuga, hálfri öld áður, að fyrst leigusalar mættu ekki gera leigjendur sína heimilislausa þegar þeim hentaði skyldu leigjendur ekki heldur mega flytja þegar þeim sýndist.
Þannig berjast Leigjendasamtökin nú fyrir réttindum sem reynt var að festa í sessi fyrir 316 og hálfu ári síðan. Ég veit ekki hver urðu afdrift tilskipunarinnar frá 1705, tæknilega, hvort hún er enn í gildi, hefur verið sópað burt í seinni tíma tiltektum eða hvort það á hreinlega eftir að láta á það reyna fyrir dómi. En fyrst Alþingi virðist hafa kosið að halda aðeins einni einustu grein Norsku laga enn í gildi, það er Norsku laga Kristjáns V, frá árinu 1687, og það er greinin um rétt húseigenda til að kasta óskilvísum leigjendum út, „láta ryðja húsið“, þá virðist ekki galið að vita líka af réttarbótinni sem var gerð, eða reynt að gera, átján árum síðar.