Blogg. Til að halda sönsum í gegnum þetta, hverfa ekki inn í eigin kvíðaþoku fyrir fullt og allt.
Kvíðaþoku – það er ekki bara faraldurinn. Ef það að tilheyra fjölskyldu eða samfélagi er svolítið eins og að vera skráður í herinn þá eru jólin styrjaldarástand, sá árvissi viðburður þegar okkur er öllum skipað á víglínuna.1 Ég lá í nótt sem leið með tölvuna í fanginu og las um pestina á meðan þrívíddarprentari annaðist jólaundirbúning fyrir mína hönd, suðandi á bakvið mig eins og tannlæknabor með eigin ásetning, ekki bara sköpunarmátt heldur vilja og getu til að nöldra, þegar sófinn tók að titra. Það var kunnuglegur titringur en alltaf opnast fyrst þessi sekúnda sem það tekur mig að rifja upp hvaðan, þar til ég man: alveg rétt, jarðskjálfti! Það má segja prentaranum til hróss að hann hélt sínu striki, stóð jarðskjálftana af sér án þess að fipast. Fjögurra stiga skjálftinn reif rækilega í sjálfan mig, en prentaranálin fór ekki af sporinu.
Ég er enginn þrívíddarprentari, ég er bara maður. Og pestin væri auðvitað nóg. Pestin og fótboltaþjálfarinn sem hefur nú tekið að sér það vandasama hlutverk að stýra aðgerðum gegn henni. Aðgerðum og undanþágum. „Ég hef ekki fengið svona svakalegan pakka síðan ég fékk byssurnar frá móðurfjölskyldu minni í Danmörku 1964“ sagði tónlistarmaður sem fékk væna sneið af undanþágu. Spot-on.
Eftirlætis ónæmisfræðingurinn minn – þetta er dæmi um einfaldan frasa sem ég bjóst ekki við að ég myndi nokkurn tíma láta frá mér fram að árinu 2020 – eftirlætis ónæmisfræðingurinn minn svaraði í dag spurningu um áhrif ónæmisfruma á heilavef með ljóði eftir Emily Dickinson. Ég er ekki viss um að það hafi verið hjálplegt fyrir spyrjandann en það var töff og kannski svolítið hollt. Nöturlegir brandarar eru betri en engir brandarar, bera vott um andlegt lífsmark.
Ég sá annan mann – nú man ég ekki hver það var eða hvaða menntun hann hefur að baki – tala um Gullbrársvæðið sem þessi veira okkar hefur fundið, Gullbrársvæðið eins og í Gullbrá og björnunum þremur, óboðni gesturinn sem vildi ekki of heitan graut, ekki of kaldan graut, heldur passlega heitan, volgan graut. Ef veiran dræpi 10% þeirra sem veikjast en ekki 1% hefði verið gripið harðar inn í og henni hvergi leyft að þrífast, sagði hann, en hún fann akkúrat dánartíðnina sem fær okkur, enn sem komið er, til að veita henni umtalsvert svigrúm. Ekkert nýtt þarna, efnislega, bara hugtakið, heimsfaraldurinn Gullbrá.
Klók veira, segir ónæmisfræðingurinn stundum. Hún er snillingur, þessi veira! hrópaði hann einu sinni. Á Twitter, auðvitað, ég kann bara engar sagnir sem greina yrðingar í Twitter betur frá mæltu máli. Kannski mætti aðgreina það að hrópa með raddböndunum frá upphrópunarmerki í texta með því að segja hann hafa upphrópað. Hann upphrópaði þetta. Hann er svo reffilegur ónæmisfræðingur að þegar hann var spurður um hvaða áhrif T‑frumur geta haft á heilann, nú í dag, svaraði hann með ljóði eftir Emily Dickinson. Ekki að það sé beinlínis gagnlegt en það var sannarlega töff.2
Faraldsfræðingur nokkur heldur fast við sinn keip að tala um hvað veiran vill, þrátt fyrir fjölda af mótbárum frá minna skóluðu fólki, sem ítrekað reynir að kenna honum það grundvallaratriði að veirur vilji ekki nokkurn hlut, heldur séu bara svona. Hann hlær að þeim, og stendur vörð um sjálfræði sitt í verufræðilegum efnum.
Svona eru jólin.
↑1 | Ekki svo að skilja að ég hafi nokkurn hlut upp á fjölskyldumeðlimi mína að klaga, sem eru yndisleg, hvert og eitt – það er formið sem veldur mér þessari angist, ekki fólkið. Jólin fela í sér ákveðna forskrift, að vissu leyti sveigjanlega en forskrift þó, um rétta breytni, hvað ber að gera, að maður sinni ákveðnum undirbúningi í ákveðinn tíma, mæti tilbúinn – sem svo afhjúpast allt í einu vetfangi, hversu vel maður stóð sig, hvort maður fann nýja flík, valdi góðar gjafir, lánaðist að brenna ekki grautinn. Jólin valda mér prófkvíða. Er til grimmari goðsagnavera en Jólakötturinn? |
---|---|
↑2 | Fáið ykkur FFP2-grímur. Gefið hvert öðru FFP2-grímur. Það er betra að vera með veiruna á heilanum en fá hana í heilann, eins og gerist víst. |