Að hugsa sér enda­lok heims­ins, dagur 652

23.12.2021 ~ 4 mín

Blogg. Til að halda sönsum í gegnum þetta, hverfa ekki inn í eigin kvíða­þoku fyrir fullt og allt.

Kvíða­þoku – það er ekki bara farald­ur­inn. Ef það að tilheyra fjöl­skyldu eða samfé­lagi er svolítið eins og að vera skráður í herinn þá eru jólin styrj­ald­ar­ástand, sá árvissi viðburður þegar okkur er öllum skipað á víglín­una.1 Ég lá í nótt sem leið með tölv­una í fang­inu og las um pest­ina á meðan þrívídd­ar­prent­ari annað­ist jólaund­ir­bún­ing fyrir mína hönd, suðandi á bakvið mig eins og tann­lækna­bor með eigin ásetn­ing, ekki bara sköp­un­ar­mátt heldur vilja og getu til að nöldra, þegar sófinn tók að titra. Það var kunn­ug­legur titr­ingur en alltaf opnast fyrst þessi sekúnda sem það tekur mig að rifja upp hvaðan, þar til ég man: alveg rétt, jarð­skjálfti! Það má segja prent­ar­anum til hróss að hann hélt sínu striki, stóð jarð­skjálft­ana af sér án þess að fipast. Fjög­urra stiga skjálft­inn reif ræki­lega í sjálfan mig, en prent­ara­nálin fór ekki af sporinu.

Ég er enginn þrívídd­ar­prent­ari, ég er bara maður. Og pestin væri auðvitað nóg. Pestin og fótbolta­þjálf­ar­inn sem hefur nú tekið að sér það vanda­sama hlut­verk að stýra aðgerðum gegn henni. Aðgerðum og undan­þágum. „Ég hef ekki fengið svona svaka­legan pakka síðan ég fékk byss­urnar frá móður­fjöl­skyldu minni í Danmörku 1964“ sagði tónlist­ar­maður sem fékk væna sneið af undan­þágu. Spot-on.

Eftir­lætis ónæm­is­fræð­ing­ur­inn minn – þetta er dæmi um einfaldan frasa sem ég bjóst ekki við að ég myndi nokk­urn tíma láta frá mér fram að árinu 2020 – eftir­lætis ónæm­is­fræð­ing­ur­inn minn svar­aði í dag spurn­ingu um áhrif ónæm­is­fruma á heila­vef með ljóði eftir Emily Dickin­son. Ég er ekki viss um að það hafi verið hjálp­legt fyrir spyrj­and­ann en það var töff og kannski svolítið hollt. Nötur­legir brand­arar eru betri en engir brand­arar, bera vott um andlegt lífsmark.

Ég sá annan mann – nú man ég ekki hver það var eða hvaða menntun hann hefur að baki – tala um Gull­brár­svæðið sem þessi veira okkar hefur fundið, Gull­brár­svæðið eins og í Gull­brá og björn­unum þremur, óboðni gest­ur­inn sem vildi ekki of heitan graut, ekki of kaldan graut, heldur pass­lega heitan, volgan graut. Ef veiran dræpi 10% þeirra sem veikj­ast en ekki 1% hefði verið gripið harðar inn í og henni hvergi leyft að þríf­ast, sagði hann, en hún fann akkúrat dánar­tíðn­ina sem fær okkur, enn sem komið er, til að veita henni umtals­vert svig­rúm. Ekkert nýtt þarna, efnis­lega, bara hugtakið, heims­far­ald­ur­inn Gullbrá.

Klók veira, segir ónæm­is­fræð­ing­ur­inn stundum. Hún er snill­ingur, þessi veira! hróp­aði hann einu sinni. Á Twitter, auðvitað, ég kann bara engar sagnir sem greina yrðingar í Twitter betur frá mæltu máli. Kannski mætti aðgreina það að hrópa með radd­bönd­unum frá upphróp­un­ar­merki í texta með því að segja hann hafa upphrópað. Hann upphróp­aði þetta. Hann er svo reffi­legur ónæm­is­fræð­ingur að þegar hann var spurður um hvaða áhrif T‑frumur geta haft á heil­ann, nú í dag, svar­aði hann með ljóði eftir Emily Dickin­son. Ekki að það sé bein­línis gagn­legt en það var sann­ar­lega töff.2

Faralds­fræð­ingur nokkur heldur fast við sinn keip að tala um hvað veiran vill, þrátt fyrir fjölda af mótbárum frá minna skól­uðu fólki, sem ítrekað reynir að kenna honum það grund­vall­ar­at­riði að veirur vilji ekki nokk­urn hlut, heldur séu bara svona. Hann hlær að þeim, og stendur vörð um sjálfræði sitt í veru­fræði­legum efnum.

Svona eru jólin.

References
1 Ekki svo að skilja að ég hafi nokk­urn hlut upp á fjöl­skyldu­með­limi mína að klaga, sem eru yndis­leg, hvert og eitt – það er formið sem veldur mér þess­ari angist, ekki fólkið. Jólin fela í sér ákveðna forskrift, að vissu leyti sveigj­an­lega en forskrift þó, um rétta breytni, hvað ber að gera, að maður sinni ákveðnum undir­bún­ingi í ákveð­inn tíma, mæti tilbú­inn – sem svo afhjúp­ast allt í einu vetfangi, hversu vel maður stóð sig, hvort maður fann nýja flík, valdi góðar gjafir, lánað­ist að brenna ekki graut­inn. Jólin valda mér próf­kvíða. Er til grimm­ari goðsagna­vera en Jólakötturinn?
2 Fáið ykkur FFP2-grímur. Gefið hvert öðru FFP2-grímur. Það er betra að vera með veiruna á heil­anum en fá hana í heil­ann, eins og gerist víst.