Gleðileg jól.
Aðfangadagskvöld, frábært.
Jóladagur: hor í nös, óþægindi í hálsi, slen. Nennti ekki: í test. Hringdi frekar og tilkynnti forföll. Skrópaði. Við bæði. Sorrí, erum bara, það væri ekki … það var leitt. Besta boð. Besta fólk. Seinni part: nennti loksins. Eða þorði loksins. Lét mig hafa það. Létum okkur hafa það, ekki að mæta á Suðurlandsbraut, þar sem var löngu búið að loka, heldur stinga pinnanum í nösina á okkur sjálf, hvort fyrir sig. Heimapróf. Ótrúlegt að þetta sé til, safi og pappír sem veit, eða hefur í það minnsta rökstuddan grun um, hvort maður er með tiltekna veiru eða ekki. Tilraunastofa í pappaöskju. Leiðbeiningar í ellefu liðum. Safi í glas, pinni í nös, strokan í safann, blandan á pappírinn eða hvað sem leynist undir holunni þarna á plastrenningnum. Bíða í 15–20 mínútur. Við gáfum því fullar tuttugu. Engin veira. Eða í það minnsta enginn rökstuddur grunur um veiru. Það má borða piparkökurnar sem við bökuðum. Eða: Það er að öllum líkindum óhætt að borða piparkökurnar sem við bökuðum. Það eru litlar líkur á að þær drepi neinn, ósennilegt að þær valdi einu sinni ótímabærri heilarýrnun og elliglöpum.
Svo það var, þegar upp var staðið, líka frábært.
Jólabíó: Don’t look up. Ný á Netflix. Ekki slæm. Stórfín, jafnvel. Stórfín Covid-jólamynd. Um vanda vísindamanna sem reyna að miðla upplýsingum um yfirvofandi ógn til stjórnvalda og almennings. En það var samt þessi Netflix-fnykur af henni, í bland – ég naut hennar, er jafnvel svolítið skotinn í henni, en það var samt þessi Netflix-áferð, hvað á að kalla það, tilfinning fyrir öðru framleiðsluferli, að aðrir kraftar togi verkið til en maður á að venjast í kvikmyndum sem eru gerðar fyrir kvikmyndahús. Losaraleg fagurfræði. Kvikmynd sem hundrað milljón dollara bloggfærsla … nei, það væri orðum aukið. En samt, minna ljóð, meira blogg. Til að nefna einstök atriði eða einkenni sem ýttu undir þessa tilfinningu: innskot á skjáinn í upphafi myndar um að tiltekin orð tiltekins karakters í sögunni væru sannleikanum samkvæm, óþarflega langt söngatriði einhverrar stjörnu á tónleikum í seinni hluta sögunnar, og eftiröpun á The Big Lebowski, með dansatriði hluta í bláendann … það er ekkert að þessum tilteknu þáttum, einum sér, og það er ekki heldur endilega neitt að því að setja eitt verk saman úr sarpi ólíkra frásagnartrixa sem ekki virðast bundnir einu lögmáli, þarna heppnaðist það jafnvel betur en stundum – en samt fylgdi því þessi tilfinning, sem mér finnst ónotaleg, að enginn hugur stæði af ásetningi að baki verkinu í heild. Ég myndi ekki þora að fullyrða að einn leikstjóri eða einn klippari hefði horft á það í heild, frá upphafi til enda, og kvittað fyrir það sem sitt eigið, áður en það var gefið út. Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur því að þetta er svona algengt með kvikmyndir sem Netflix framleiðir, en þetta er regla frekar en undantekning, og ég held að það sé ekki bara í hausnum á mér heldur viðloðandi verkin sjálf.
Að því sögðu: hressandi saga. Dómsdagsmynd – kómedía, framan af, um vanda vísindafólks við að koma þýðingu þess til skila að nokkuð vegleg halastjarna stefni lóðbeint á jörðu. Ég veit ekki hvort hún er upphaflega skrifuð sem paródía um loftslagsvandann eða faraldurinn, en mér sýndist hún samræmast nokkuð vel upplifun þeirra vísindamanna sem ég hef séð reyna að miðla upplýsingum í faraldrinum. Og sé nú að ein þeirra, Jóhanna Jakobsdóttir, lektor í líftölfræði við HÍ, mælir með myndinni á Twitter, sem mig grunar að megi líta á sem staðfestingu þess.
Kannski var helsta dæmið um ofannefndan galla á verkinu hvernig það rasaði á milli þess að vera, að mínum smekk, í akkúrat hæfilegri fjarlægð frá raunveruleikanum, og að falla helst til fast að honum. Það var þá helst þegar gestir á peppsamkomu Bandaríkjaforseta fyrir komandi kosningar kyrja slagorðið „Don’t look up“ í sama takti og kjósendur síðasta forseta kölluðu „Lock her up!“ – fram að því var ég að horfa á verk sem mætti segja við hæfi allra áhorfendahópa, en þaðan í frá var ég klárlega að horfa á bíómynd sem var aðeins ætluð helmingi bandarískra kjósenda. Og leið þaðan í frá, hálft í hvoru, eins og ég væri að greiða bandaríska Demókrataflokknum atkvæði í hvert sinn sem ég hló. Kannski hefði það styrkt verkið að draga áhorfendur í dilka eftir einmitt þeirri línu frá upphafi. Ég held ekki. En það sem veikir það áreiðanlega, að minni upplifun, er að vera svona reikult í rásinni, að velja sér ekki lögmál og standa við það.
En ég meina. Eftir sem áður. Stórfínt heimabíó.