Dagur 655 í lúpp­unni. Jól 2.

26.12.2021 ~ 4 mín

Gleði­leg jól.

Aðfanga­dags­kvöld, frábært.

Jóla­dagur: hor í nös, óþæg­indi í hálsi, slen. Nennti ekki: í test. Hringdi frekar og tilkynnti forföll. Skróp­aði. Við bæði. Sorrí, erum bara, það væri ekki … það var leitt. Besta boð. Besta fólk. Seinni part: nennti loks­ins. Eða þorði loks­ins. Lét mig hafa það. Létum okkur hafa það, ekki að mæta á Suður­lands­braut, þar sem var löngu búið að loka, heldur stinga pinn­anum í nösina á okkur sjálf, hvort fyrir sig. Heima­próf. Ótrú­legt að þetta sé til, safi og pappír sem veit, eða hefur í það minnsta rökstuddan grun um, hvort maður er með tiltekna veiru eða ekki. Tilrauna­stofa í pappa­öskju. Leið­bein­ingar í ellefu liðum. Safi í glas, pinni í nös, strokan í safann, blandan á papp­ír­inn eða hvað sem leyn­ist undir holunni þarna á plastrenn­ingnum. Bíða í 15–20 mínútur. Við gáfum því fullar tutt­ugu. Engin veira. Eða í það minnsta enginn rökstuddur grunur um veiru. Það má borða pipar­kök­urnar sem við bökuðum. Eða: Það er að öllum líkindum óhætt að borða pipar­kök­urnar sem við bökuðum. Það eru litlar líkur á að þær drepi neinn, ósenni­legt að þær valdi einu sinni ótíma­bærri heilarýrnun og elliglöpum.

Svo það var, þegar upp var staðið, líka frábært.

Jóla­bíó: Don’t look up. Ný á Netflix. Ekki slæm. Stór­fín, jafn­vel. Stór­fín Covid-jóla­mynd. Um vanda vísinda­manna sem reyna að miðla upplýs­ingum um yfir­vof­andi ógn til stjórn­valda og almenn­ings. En það var samt þessi Netflix-fnykur af henni, í bland – ég naut hennar, er jafn­vel svolítið skot­inn í henni, en það var samt þessi Netflix-áferð, hvað á að kalla það, tilfinn­ing fyrir öðru fram­leiðslu­ferli, að aðrir kraftar togi verkið til en maður á að venj­ast í kvik­myndum sem eru gerðar fyrir kvik­mynda­hús. Losara­leg fagur­fræði. Kvik­mynd sem hundrað milljón doll­ara blogg­færsla … nei, það væri orðum aukið. En samt, minna ljóð, meira blogg. Til að nefna einstök atriði eða einkenni sem ýttu undir þessa tilfinn­ingu: innskot á skjá­inn í upphafi myndar um að tiltekin orð tiltek­ins karakt­ers í sögunni væru sann­leik­anum samkvæm, óþarf­lega langt söng­atriði einhverrar stjörnu á tónleikum í seinni hluta sögunnar, og eftir­öpun á The Big Lebowski, með dans­at­riði hluta í bláend­ann … það er ekkert að þessum tilteknu þáttum, einum sér, og það er ekki heldur endi­lega neitt að því að setja eitt verk saman úr sarpi ólíkra frásagn­artrixa sem ekki virð­ast bundnir einu lögmáli, þarna heppn­að­ist það jafn­vel betur en stundum – en samt fylgdi því þessi tilfinn­ing, sem mér finnst ónota­leg, að enginn hugur stæði af ásetn­ingi að baki verk­inu í heild. Ég myndi ekki þora að full­yrða að einn leik­stjóri eða einn klipp­ari hefði horft á það í heild, frá upphafi til enda, og kvittað fyrir það sem sitt eigið, áður en það var gefið út. Ég veit ekki nákvæm­lega hvað veldur því að þetta er svona algengt með kvik­myndir sem Netflix fram­leiðir, en þetta er regla frekar en undan­tekn­ing, og ég held að það sé ekki bara í hausnum á mér heldur viðloð­andi verkin sjálf.

Að því sögðu: hress­andi saga. Dóms­dags­mynd – kómedía, framan af, um vanda vísinda­fólks við að koma þýðingu þess til skila að nokkuð vegleg hala­stjarna stefni lóðbeint á jörðu. Ég veit ekki hvort hún er upphaf­lega skrifuð sem paródía um lofts­lags­vand­ann eða farald­ur­inn, en mér sýnd­ist hún samræm­ast nokkuð vel upplifun þeirra vísinda­manna sem ég hef séð reyna að miðla upplýs­ingum í faraldr­inum. Og sé nú að ein þeirra, Jóhanna Jakobs­dóttir, lektor í líftöl­fræði við HÍ, mælir með mynd­inni á Twitter, sem mig grunar að megi líta á sem stað­fest­ingu þess.

Kannski var helsta dæmið um ofan­nefndan galla á verk­inu hvernig það rasaði á milli þess að vera, að mínum smekk, í akkúrat hæfi­legri fjar­lægð frá raun­veru­leik­anum, og að falla helst til fast að honum. Það var þá helst þegar gestir á pepp­sam­komu Banda­ríkja­for­seta fyrir komandi kosn­ingar kyrja slag­orðið „Don’t look up“ í sama takti og kjós­endur síðasta forseta köll­uðu „Lock her up!“ – fram að því var ég að horfa á verk sem mætti segja við hæfi allra áhorf­enda­hópa, en þaðan í frá var ég klár­lega að horfa á bíómynd sem var aðeins ætluð helm­ingi banda­rískra kjós­enda. Og leið þaðan í frá, hálft í hvoru, eins og ég væri að greiða banda­ríska Demó­krata­flokknum atkvæði í hvert sinn sem ég hló. Kannski hefði það styrkt verkið að draga áhorf­endur í dilka eftir einmitt þeirri línu frá upphafi. Ég held ekki. En það sem veikir það áreið­an­lega, að minni upplifun, er að vera svona reik­ult í rásinni, að velja sér ekki lögmál og standa við það.

En ég meina. Eftir sem áður. Stór­fínt heimabíó.