„Ekki endur­lífga“ hljómar illa. Hvað með „meðferð­ar­markmið“? Ónota­dagur 657

28.12.2021 ~ 4 mín

Orðið eugenics birt­ist nú oftar og oftar á twitter – það er á epitwitter eins og þátt­tak­endur í þeim tiltekna afkima kalla sig stundum, í twitter-færslum þeirra sem hafa menntun í faralds­fræðum. Eugenics – um það er oftar rætt sem sögu­legt fyrir­bæri frá því að vondu kall­arnir réðu Þýskalandi en sem viðfangs­efni stjórn­mála í samtím­anum. Þetta er heiti þeirrar stefnu að stjórn­völdum beri að ákveða hverjir lifa og hverjir deyja út frá eigin­leikum sem þau telja æski­legt eða óæski­legt að viðhalda í stofn­inum. Að umgang­ast mann­fólk og manns­líf þannig á sömu forsendum og bóndi umgengst skepn­urnar sínar.

Ég mundi ekki í svip­inn hvað þetta heitir á íslensku og fletti því upp í íðorða­banka Árna­stofn­unar. Þá fatt­aði ég hvers vegna það var svona stolið úr mér. Íslensku þýðing­arnar eru allar svo ósenni­legar. Öll íslensku orðin yfir þetta fyrir­bæri eru jákvætt gild­is­hlaðin, fela í sér bót eða bætur: arfbætur, mann­bætur, kynbætur, manna­kyn­bætur, kynbóta­fræði, kynbóta­stefnagóðkynjun kemur fyrir. Í orða­safni Uppeldis- og sálar­fræði má meira að segja lesa þessa skýr­ingu: „viðleitni til að bæta áskap­aða eigin­leika kynþáttar eða þjóðar“. Eins og ekki hafi þótt tilefni til að endur­skoða þennan orða­forða frá því á fjórða áratug síðustu aldar.

Kannski er og verður þess vegna vonlaust að tala um þetta viðfangs­efni á íslensku yfir­leitt. Kannski þykir almennt ekkert athuga­vert, innan þessa tungu­máls, hvað þá skil­yrð­is­laust fordæm­an­legt, við þá hugmynd að stundum sé rétt að láta hópa fólks hverfa. Deyja. Helst mögl­un­ar­laust. Þegar ráða­menn tala á tylli­dögum um hvað harð­neskjan í land­inu, gegnum aldirnar, hafi gert okkur sem eftir stöndum sterk, þá meina þeir það hugs­an­lega fullum fetum, aðhyll­ast ekki aðeins úrvals­hyggju um liðna tíð heldur sem leið­ar­vísi áfram veginn. Víðast utan þessa lands myndi slíkt þó aldrei heyr­ast berum orðum nema í jaðri jaðars hins ysta póli­tíska hægris. Meðal verstu kall­anna. Og jafn­vel þeir reyna helst að fjar­lægja sig orðunum á meðan þeir láta þau frá sér, með trölla­hlátri eða hvaða skyldu ummerkjum sem komast gegnum lykla­borð og skjá.

Hvernig sem þetta er þá allt dæmt til að glat­ast í þýðingu finnst mér þó vert að hafa orð á þessu, hvernig enska orðið dúkkar nú upp koll­inum. Það birt­ist einkum sem mönun til þeirra sem vilja nú fella niður sótt­varnir og láta pest­ina geisa: segið það þá berum orðum, eggja varkár­ari vísinda­menn þá sem gerast áhættu­sækn­astir fyrir annarra hönd, segið hvað það þýðir, segið að millj­ónir muni deyja, segið upphátt að þið eruð í raun að kalla eftir eugenics.

Á meðal þeirra sem benda nú á þá kynbóta­stefnu sem felst í því að láta farald­ur­inn geisa er Karl Knig­hts, verð­launa­höf­undur á þrítugs­aldri. Í twitter-haus hans kemur fram að hann er hinsegin, einhverfur og tekst á við ADHD og CP-heila­lömun. Nú á mánu­dag skrif­aði hann:

„Í dag, í þriðja sinn á þessu ári, birt­ast fréttir um að heim­il­is­læknar bjóði enn fötl­uðu fólki DNR-skil­mála við reglu­bundnar lækn­is­skoð­anir. Ég get stað­fest að heim­il­is­lækn­ir­inn minn hringdi í mig tvisvar á þessu ári til að bjóða mér DNR. Ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram að segja ykkur að líf fatl­aðra skipta máli.“

DNR stendur í þessu samhengi fyrir Do not resuscitate, það eru fyrir­mæli innan heil­brigðis­kerf­is­ins um að ekki skuli reyna að bjarga viðkom­andi sjúk­lingi eða endur­lífga ef hann lendir til dæmis í hjarta­stoppi. Þegar ég leita að hugtak­inu í loka­rit­gerðum á skemman.is sýnist mér að á íslensku sé talað um meðferð­ar­tak­mark­anir í þessu samhengi. Eins og það er útskýrt í einni ritgerð: „Takmörkun er þá sett á tilgreinda meðferð (til dæmis endur­lífg­un­ar­tilraun, gjör­gæslu­inn­lögn, sýkla­lyfja­gjöf eða næringu í æð) að ósk sjúk­lings, aðstand­enda eða að ráðlegg­ingum læknis þar sem meðferðin er ekki talin gagn­ast sjúk­lingnum“. En líkt og samstaða virð­ist um að íslensk þýðing orðs­ins eugenics skuli ekki hafa á sér of neikvæðan blæ virð­ist höfundur ritgerð­ar­innar helst ekki vilja tala um takmark­anir í þessu samhengi heldur, og bætir við: „Í ritgerð­inni er leit­ast við að nota frekar orðið meðferð­ar­markmið þegar við á, þar sem orðið meðferð­ar­tak­mark­anir hefur neikvæða merk­ingu“. Hafi höfundi lánast þessi aðgerð, þessi mildun orðs­ins, þá er enska hugtakið, sem mætti bein­þýða með orðunum „ekki endur­lífga“, nú þýtt á íslensku sem meðferð­ar­markmið. Og í Bretlandi virð­ist það vera tilfellið, að heim­il­is­læknar hvetja fólk með fötlun, í faraldr­inum, til að fall­ast á það meðferð­ar­markmið að lendi þau í lífs­háska verði þeim ekki bjargað.

Knig­hts bætti við færsl­una að ofan:

„Fólk heldur að ég sé að ýkja þegar ég segi að kynbóta­stefna hafi gengið berserks­gang í faraldr­inum. 60% dauðs­falla af völdum Covid í Bretlandi hafa verið meðal fatl­aðra, og bæði fjöl­miðlar og stjórn­völd rétt­læta dauðs­föllin með því tala um „undir­liggj­andi sjúkdóma“.“

Það er í Bretlandi. Frá og með gærdeg­inum spilar Ísland víst í sömu deild, svo ég þykist tala sama mál og heil­brigð­is­ráð­herra. Talið í fjölda smita, álagi á kerfið, og viðbragðs­leysi stjórn­valda, saman­ber línu­ritið sem fylgir þess­ari færslu. Ef ég væri fjöl­mið­ill þætti mér tíma­bært að spyrja ótal embætt­is­menn ótal ónota­legra spurninga.