Orðið eugenics birtist nú oftar og oftar á twitter – það er á epitwitter eins og þátttakendur í þeim tiltekna afkima kalla sig stundum, í twitter-færslum þeirra sem hafa menntun í faraldsfræðum. Eugenics – um það er oftar rætt sem sögulegt fyrirbæri frá því að vondu kallarnir réðu Þýskalandi en sem viðfangsefni stjórnmála í samtímanum. Þetta er heiti þeirrar stefnu að stjórnvöldum beri að ákveða hverjir lifa og hverjir deyja út frá eiginleikum sem þau telja æskilegt eða óæskilegt að viðhalda í stofninum. Að umgangast mannfólk og mannslíf þannig á sömu forsendum og bóndi umgengst skepnurnar sínar.
Ég mundi ekki í svipinn hvað þetta heitir á íslensku og fletti því upp í íðorðabanka Árnastofnunar. Þá fattaði ég hvers vegna það var svona stolið úr mér. Íslensku þýðingarnar eru allar svo ósennilegar. Öll íslensku orðin yfir þetta fyrirbæri eru jákvætt gildishlaðin, fela í sér bót eða bætur: arfbætur, mannbætur, kynbætur, mannakynbætur, kynbótafræði, kynbótastefna – góðkynjun kemur fyrir. Í orðasafni Uppeldis- og sálarfræði má meira að segja lesa þessa skýringu: „viðleitni til að bæta áskapaða eiginleika kynþáttar eða þjóðar“. Eins og ekki hafi þótt tilefni til að endurskoða þennan orðaforða frá því á fjórða áratug síðustu aldar.
Kannski er og verður þess vegna vonlaust að tala um þetta viðfangsefni á íslensku yfirleitt. Kannski þykir almennt ekkert athugavert, innan þessa tungumáls, hvað þá skilyrðislaust fordæmanlegt, við þá hugmynd að stundum sé rétt að láta hópa fólks hverfa. Deyja. Helst möglunarlaust. Þegar ráðamenn tala á tyllidögum um hvað harðneskjan í landinu, gegnum aldirnar, hafi gert okkur sem eftir stöndum sterk, þá meina þeir það hugsanlega fullum fetum, aðhyllast ekki aðeins úrvalshyggju um liðna tíð heldur sem leiðarvísi áfram veginn. Víðast utan þessa lands myndi slíkt þó aldrei heyrast berum orðum nema í jaðri jaðars hins ysta pólitíska hægris. Meðal verstu kallanna. Og jafnvel þeir reyna helst að fjarlægja sig orðunum á meðan þeir láta þau frá sér, með tröllahlátri eða hvaða skyldu ummerkjum sem komast gegnum lyklaborð og skjá.
Hvernig sem þetta er þá allt dæmt til að glatast í þýðingu finnst mér þó vert að hafa orð á þessu, hvernig enska orðið dúkkar nú upp kollinum. Það birtist einkum sem mönun til þeirra sem vilja nú fella niður sóttvarnir og láta pestina geisa: segið það þá berum orðum, eggja varkárari vísindamenn þá sem gerast áhættusæknastir fyrir annarra hönd, segið hvað það þýðir, segið að milljónir muni deyja, segið upphátt að þið eruð í raun að kalla eftir eugenics.
Á meðal þeirra sem benda nú á þá kynbótastefnu sem felst í því að láta faraldurinn geisa er Karl Knights, verðlaunahöfundur á þrítugsaldri. Í twitter-haus hans kemur fram að hann er hinsegin, einhverfur og tekst á við ADHD og CP-heilalömun. Nú á mánudag skrifaði hann:
„Í dag, í þriðja sinn á þessu ári, birtast fréttir um að heimilislæknar bjóði enn fötluðu fólki DNR-skilmála við reglubundnar læknisskoðanir. Ég get staðfest að heimilislæknirinn minn hringdi í mig tvisvar á þessu ári til að bjóða mér DNR. Ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram að segja ykkur að líf fatlaðra skipta máli.“
DNR stendur í þessu samhengi fyrir Do not resuscitate, það eru fyrirmæli innan heilbrigðiskerfisins um að ekki skuli reyna að bjarga viðkomandi sjúklingi eða endurlífga ef hann lendir til dæmis í hjartastoppi. Þegar ég leita að hugtakinu í lokaritgerðum á skemman.is sýnist mér að á íslensku sé talað um meðferðartakmarkanir í þessu samhengi. Eins og það er útskýrt í einni ritgerð: „Takmörkun er þá sett á tilgreinda meðferð (til dæmis endurlífgunartilraun, gjörgæsluinnlögn, sýklalyfjagjöf eða næringu í æð) að ósk sjúklings, aðstandenda eða að ráðleggingum læknis þar sem meðferðin er ekki talin gagnast sjúklingnum“. En líkt og samstaða virðist um að íslensk þýðing orðsins eugenics skuli ekki hafa á sér of neikvæðan blæ virðist höfundur ritgerðarinnar helst ekki vilja tala um takmarkanir í þessu samhengi heldur, og bætir við: „Í ritgerðinni er leitast við að nota frekar orðið meðferðarmarkmið þegar við á, þar sem orðið meðferðartakmarkanir hefur neikvæða merkingu“. Hafi höfundi lánast þessi aðgerð, þessi mildun orðsins, þá er enska hugtakið, sem mætti beinþýða með orðunum „ekki endurlífga“, nú þýtt á íslensku sem meðferðarmarkmið. Og í Bretlandi virðist það vera tilfellið, að heimilislæknar hvetja fólk með fötlun, í faraldrinum, til að fallast á það meðferðarmarkmið að lendi þau í lífsháska verði þeim ekki bjargað.
Knights bætti við færsluna að ofan:
„Fólk heldur að ég sé að ýkja þegar ég segi að kynbótastefna hafi gengið berserksgang í faraldrinum. 60% dauðsfalla af völdum Covid í Bretlandi hafa verið meðal fatlaðra, og bæði fjölmiðlar og stjórnvöld réttlæta dauðsföllin með því tala um „undirliggjandi sjúkdóma“.“
Það er í Bretlandi. Frá og með gærdeginum spilar Ísland víst í sömu deild, svo ég þykist tala sama mál og heilbrigðisráðherra. Talið í fjölda smita, álagi á kerfið, og viðbragðsleysi stjórnvalda, samanber línuritið sem fylgir þessari færslu. Ef ég væri fjölmiðill þætti mér tímabært að spyrja ótal embættismenn ótal ónotalegra spurninga.