Líf spila­pen­ings um borð í rúss­íbana – gífur­dagur 658

30.12.2021 ~ 4 mín

Þekkt­asta bók Íslands­vin­ar­ins Timot­hys Morton heitir Hyperobj­ects: Philosophy and Ecology After the End of the World. Fyrsta orðið í þessum titli er lykil­hug­takið sem hann sjálfur er þekkt­astur fyrir, hyperobj­ect. Orðið rak á ný á fjörur okkar Dísu þegar hún tók eftir því að fram­leiðslu­fyr­ir­tækið að baki Netflix-mynd­inni Don’t Look Up nefn­ist Hyperobj­ect Industries. Í bíltúr veltum við fyrir okkur hvernig hyper væri þýtt á íslensku og að kannski hefur það enn ekki verið gert, í það minnsta mundum við ekkert forskeyti sem hefði komist í umferð og mætti nota kerf­is­bundið á sama hátt. Spurn­ingin vakn­aði í Grafar­vogi. Ofur- er yfir­leitt notað til þýðingar á super- og það væri gott að geta aðgreint þarna á milli. Og á leið­inni yfir Gull­in­brú datt mér í hug gífur. Hyperobj­ects væru þá gífurhlutir.

Nú hef ég bókina ekki undir höndum og geri ekki ráð fyrir að lesa hana aftur á næst­unni, en kynn­ing­ar­texti útgef­anda má duga sem flýtiskil­rein­ing, og má þá þýða sem svo:

„Hnatt­hlýnun er kannski átak­an­leg­asta dæmið um það sem Timothy Morton kallar „gífur­hluti“ – einingar af slíku gríð­ar­legu umfangi í tíma og rúmi að þær ganga fram af hefð­bundnum hugmyndum okkar um hvað hlutir eru, yfirleitt“.

Bókin kom út sjö árum fyrir heims­far­ald­ur­inn, sem annars myndi áreið­an­lega kepp­ast á við hnatt­hlýnun, í kápu­text­anum, sem skóla­bók­ar­dæmi um gífurhlut.


Miðað við varúð­ar­orð fjölda sérfræð­inga, og hvernig þeir virð­ast nú allir fylgj­ast af ákefð með nýjustu tölum um sjúkra­húss­inn­lagnir og dauðs­föll hvar sem Omíkron hefur stigið niður fæti, þá blasir við að sú stefna að láta sýking­una breiða úr sér, eins og hér er gert, er ekki byggð á full­vissu um að vel fari, heldur á veðmáli. Trú, von eða upplýstur grunur – hverjar sem forsendur veðmáls­ins eru, þá erum við sjálf pókerpeningarnir.

Á twitter í dag, miðviku­dag, sagð­ist forstjóri Veiru­fræði­stofn­unar Charité-háskóla­sjúkra­húss­ins í Berlín, Christian Drosten, vilja takast á við sumar af þeim skæð­ustu rang­hug­myndum sem nú væru í umferð. Hann hóf þá herferð með þess­ari leiðréttingu:

„Hver sem heldur að hann geti þjálfað ónæmis­kerfið með sýkingu hlýtur um leið að trúa að hann geti þjálfað melt­ing­ar­veg­inn með steik“.

Í næsta tísti bætti hann við:

„Í alvöru: ónæmisvið­bragð er gagn­vart „sterku ónæmis­kerfi“ eins og lærdómur gagn­vart greind. Ég get lært ljóð utan­bókar en þar með er ég ekki orðinn greind­ari. Ég get staðið af mér sýkingu en þar með hef ég ekki „styrkt ónæmis­kerfi mitt“.“

Þetta er þá eitt innlegg hans í umræð­una um hvort það hafi hugs­an­lega einhverja kosti að smit­ast af Omíkron-afbrigði kóróna­veirunnar. Nú hef ég ekki forsendur til að full­yrða að Drosten hafi rétt fyrir sér, eða sá fjöldi annarra vísinda­manna sem á undan­liðnum, dögum, vikum, mánuðum, bráðum árum hefur tekið í sama streng. En ég veit að Prof. Dr. Christian Drosten er mark­tækur á svið­inu. Þegar prófessor í vagnhjóla‑, teina- og tívolífræðum varar mig við að setj­ast í rúss­íban­ann fyrir framan mig, enda hafi heldur margir dottið úr honum nýverið, þá staldra ég við. Jafn­vel þegar rúss­íbana­ráð­herr­ann segir mér að sigr­ast á kvíð­anum, setj­ast um borð, tækið sé fínt, flott, ekkert annað í boði, eina leiðin heim liggi í þennan hring.


Meðal þess óheið­ar­leg­asta sem heyr­ist í umræð­unni hér, og þarf ekki sérfræði­þekk­ingu til að bera kennsl á, er þegar fjöldi andláta af völdum farald­urs­ins er nefndur til að gera lítið úr mann­tjón­inu, annars vegar, og láta um leið eins og ávinn­ing­inn af sótt­vörnum megi meta út frá dauðs­föll­unum sem hafa orðið þrátt fyrir aðgerð­irnar. Hér telj­ast 37 manns hafa látist úr Covid-19 þegar þetta er skrifað. Í Banda­ríkj­unum er talan 820 þúsund. Ef Íslandi hefði tekist jafn illa til við sótt­varnir og Banda­ríkj­unum má því ætla, miðað við íbúa­fjölda, að hér hefðu 912 manns þegar fallið í faraldr­inum. Það er 875 mann­eskjum fleiri en raunin er. Útkoman hefði auðvitað getað orðið enn verri, en þetta er þó nothæft viðmið, raun­veru­leg reynsla frá tilteknu landi sem Ísland á nokkuð náið samneyti við. Sótt­varnir hér snúast um, að minnsta kosti, 875 mann­eskjur sem eru á lífi en væru það annars ekki. Yppti hver öxlum sem vill.


Í dag voru tíu ár frá því við Dísa létum full­trúa sýslu­manns færa það til bókar að við værum hjón. Ég ætla ekki að segja orð um það hér hvað ég hef miklar mætur á henni. Það er ekki við hæfi, þetta er dagbók, ekki nammi­poki, fáið ykkur herbergi, rúsínur eiga ekkert erindi í grjóna­graut, og svo framvegis.