Þekktasta bók Íslandsvinarins Timothys Morton heitir Hyperobjects: Philosophy and Ecology After the End of the World. Fyrsta orðið í þessum titli er lykilhugtakið sem hann sjálfur er þekktastur fyrir, hyperobject. Orðið rak á ný á fjörur okkar Dísu þegar hún tók eftir því að framleiðslufyrirtækið að baki Netflix-myndinni Don’t Look Up nefnist Hyperobject Industries. Í bíltúr veltum við fyrir okkur hvernig hyper væri þýtt á íslensku og að kannski hefur það enn ekki verið gert, í það minnsta mundum við ekkert forskeyti sem hefði komist í umferð og mætti nota kerfisbundið á sama hátt. Spurningin vaknaði í Grafarvogi. Ofur- er yfirleitt notað til þýðingar á super- og það væri gott að geta aðgreint þarna á milli. Og á leiðinni yfir Gullinbrú datt mér í hug gífur. Hyperobjects væru þá gífurhlutir.
Nú hef ég bókina ekki undir höndum og geri ekki ráð fyrir að lesa hana aftur á næstunni, en kynningartexti útgefanda má duga sem flýtiskilreining, og má þá þýða sem svo:
„Hnatthlýnun er kannski átakanlegasta dæmið um það sem Timothy Morton kallar „gífurhluti“ – einingar af slíku gríðarlegu umfangi í tíma og rúmi að þær ganga fram af hefðbundnum hugmyndum okkar um hvað hlutir eru, yfirleitt“.
Bókin kom út sjö árum fyrir heimsfaraldurinn, sem annars myndi áreiðanlega keppast á við hnatthlýnun, í káputextanum, sem skólabókardæmi um gífurhlut.
Miðað við varúðarorð fjölda sérfræðinga, og hvernig þeir virðast nú allir fylgjast af ákefð með nýjustu tölum um sjúkrahússinnlagnir og dauðsföll hvar sem Omíkron hefur stigið niður fæti, þá blasir við að sú stefna að láta sýkinguna breiða úr sér, eins og hér er gert, er ekki byggð á fullvissu um að vel fari, heldur á veðmáli. Trú, von eða upplýstur grunur – hverjar sem forsendur veðmálsins eru, þá erum við sjálf pókerpeningarnir.
Á twitter í dag, miðvikudag, sagðist forstjóri Veirufræðistofnunar Charité-háskólasjúkrahússins í Berlín, Christian Drosten, vilja takast á við sumar af þeim skæðustu ranghugmyndum sem nú væru í umferð. Hann hóf þá herferð með þessari leiðréttingu:
„Hver sem heldur að hann geti þjálfað ónæmiskerfið með sýkingu hlýtur um leið að trúa að hann geti þjálfað meltingarveginn með steik“.
Í næsta tísti bætti hann við:
„Í alvöru: ónæmisviðbragð er gagnvart „sterku ónæmiskerfi“ eins og lærdómur gagnvart greind. Ég get lært ljóð utanbókar en þar með er ég ekki orðinn greindari. Ég get staðið af mér sýkingu en þar með hef ég ekki „styrkt ónæmiskerfi mitt“.“
Þetta er þá eitt innlegg hans í umræðuna um hvort það hafi hugsanlega einhverja kosti að smitast af Omíkron-afbrigði kórónaveirunnar. Nú hef ég ekki forsendur til að fullyrða að Drosten hafi rétt fyrir sér, eða sá fjöldi annarra vísindamanna sem á undanliðnum, dögum, vikum, mánuðum, bráðum árum hefur tekið í sama streng. En ég veit að Prof. Dr. Christian Drosten er marktækur á sviðinu. Þegar prófessor í vagnhjóla‑, teina- og tívolífræðum varar mig við að setjast í rússíbanann fyrir framan mig, enda hafi heldur margir dottið úr honum nýverið, þá staldra ég við. Jafnvel þegar rússíbanaráðherrann segir mér að sigrast á kvíðanum, setjast um borð, tækið sé fínt, flott, ekkert annað í boði, eina leiðin heim liggi í þennan hring.
Meðal þess óheiðarlegasta sem heyrist í umræðunni hér, og þarf ekki sérfræðiþekkingu til að bera kennsl á, er þegar fjöldi andláta af völdum faraldursins er nefndur til að gera lítið úr manntjóninu, annars vegar, og láta um leið eins og ávinninginn af sóttvörnum megi meta út frá dauðsföllunum sem hafa orðið þrátt fyrir aðgerðirnar. Hér teljast 37 manns hafa látist úr Covid-19 þegar þetta er skrifað. Í Bandaríkjunum er talan 820 þúsund. Ef Íslandi hefði tekist jafn illa til við sóttvarnir og Bandaríkjunum má því ætla, miðað við íbúafjölda, að hér hefðu 912 manns þegar fallið í faraldrinum. Það er 875 manneskjum fleiri en raunin er. Útkoman hefði auðvitað getað orðið enn verri, en þetta er þó nothæft viðmið, raunveruleg reynsla frá tilteknu landi sem Ísland á nokkuð náið samneyti við. Sóttvarnir hér snúast um, að minnsta kosti, 875 manneskjur sem eru á lífi en væru það annars ekki. Yppti hver öxlum sem vill.
Í dag voru tíu ár frá því við Dísa létum fulltrúa sýslumanns færa það til bókar að við værum hjón. Ég ætla ekki að segja orð um það hér hvað ég hef miklar mætur á henni. Það er ekki við hæfi, þetta er dagbók, ekki nammipoki, fáið ykkur herbergi, rúsínur eiga ekkert erindi í grjónagraut, og svo framvegis.