Annar í jólum. Nýheimaprófuð þáðum við boð dagsins. Mig langaði svolítið að taka myndir af okkur, grímuklæddum húsráðendum, grímuklæddum gestum … í hundrað ár hefði þessi sjón virst fjarstæðukennd, ógnvænlegur hugarburður. Því fyrr sem hún verður það á ný, því betra. En ég tók enga mynd. Sumt verður bara að fá að vera minning. Eða gleymska.
Vísir sló upp frétt um grein frá íslenska lækninum við Harvard-háskóla, sem vill að stjórnvöld felli niður allar sóttvarnir. Hann segir stjórnmálamenn þurfa hugrekki til. Það er ekki rétt. Að fórna lífi og heilsu annarra í þágu eigin þæginda krefst ekki hugrekkis. Til þess þarf aðeins skort á úthaldi og ómerkilegan, almennan ræfildóm.
Á Twitter sá ég minnst á the precautionary principle. Það var í færslu frá manni sem er ekki sérfræðingur í sóttvörnum frekar en ég, ekki frekar en hver annar lögfræðingur eða fótboltaþjálfari, en tjáir sig um þær samt. Og vísaði til þessa viðmiðs, sem á íslensku nefnist varúðarreglan. Hann er ekki fær, sagði hann, án verkfræðimenntunar, um að ábyrgjast að brú sé vel byggð og óhætt að aka yfir hana, en áskilur sér dómgreind til að segja ef sér virðist hún að hruni komin, og aka þá ekki yfir hana fyrr en öryggið hafi verið sannreynt. Eða kannski tók hann annað dæmi, líklega, en inntakið var það sama. Varúðarreglan er upprunnin í verkfræði: einmitt við smíð mannvirkja gerir maður frekar meira en minna til að tryggja öryggi þeirra. Notar helst bæði belti og axlabönd.
Ég fletti þá upp sóttvarnalögum til að athuga hvort varúðarreglunnar væri getið þar. Og já, orðið varúð kemur fyrir á einum stað í lögunum, í grein sem snýr að almenningi:
„Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er.“
Að gjalda sem mesta varúð og gera sér allt far um – það er, samkvæmt lögunum, þín skylda og mín. Þegar kemur að sóttvörnum hins opinbera, aftur á móti, er hvergi minnst á varúðarreglu, heldur miðað við meðalhóf (e. proportionality principle). Um sameiginlegar sóttvarnir segja lögin:
„Ráðstöfunum … skal ekki beita nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna. Við beitingu ráðstafana, sem og við afléttingu þeirra, skal gæta meðalhófs og jafnræðis og taka tillit til annarra verndarhagsmuna, einkum þeirra sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að. Ekki skal stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar, svo sem vegna fjölda fólks sem þar kemur saman eða návígis þess eða snertingar.“
Allt paragrafið hér að ofan bættist við lögin með lagabreytingu í febrúar á þessu ári, þegar stjórnvöld töluðu um að skýra þyrfti valdsvið sóttvarnalæknis.
Meðalhófsreglan er jafn mikilvæg réttarfari og varúðarreglan er við brúarsmíð. Auðvitað vill maður að verkfræðingar geri meira en minna til að tryggja að brýr standi. Og auðvitað vill maður að yfirvöld hafi þau minnstu afskipti af fólki sem duga til að ná skilgreindu markmiði. En þessi tvö viðmið, að gera hvað sem þarf til að gulltryggja að ekkert fari úrskeiðis, og gera það minnsta sem gæti dugað til, þau eru svolítið andstæð. Max og min.
Hvort heimfærir maður þá upp á sóttvarnir?
Íslensk lög virðast hafa svarað því svo til að almenningur skuli fylgja varúðarreglunni og gera hvað sem þarf en stjórnvöld fylgi meðalhófsreglu og geri það minnsta sem gæti dugað. Við max, ríkið min.
Sem virðist tilefni til að minnast þriðja lögmálsins, lögmáls sem hvergi er getið í lögum en þarf ekki, enda stendur það nær náttúrulögmálum en lagasetningu manna: lögmál Murphys. Að hvað sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis. Hér þarf aðeins hin þrengsta, takmarkaðasta útfærsla lögmálsins að gilda til leiða til klandurs: Ef maður bregst við alvarlegri krísu, þar sem margföld lífshætta hvílir á ótal óvissuþáttum, með minnsta inngripi sem gæti dugað til, þá er óvíst að krísan leysist. Ef maður heldur fast við þetta sama viðmið þegar eitthvað fer svo úrskeiðis er ekki ósennilegt að fleira fari úrskeiðis. Og þannig koll af kolli í átt að ystu sjónarrönd (seglum þöndum, burt frá ströndum, pakkaði ekki einhver nesti?)
Nokkrum klukkustundum eftir fréttina af lækninum sem vill hvorki belti né axlabönd og er líklega á launaskrá veirunnar birti Vísir aðra frétt af öðrum manni í mjög svipuðum fötum, lögfræðingi sem hefur tekið að sér málshöfðun gegn sóttvarnalækni fyrir hönd fimm manns sem sæta einangrun vegna smits. Mér sýnist líklegt að það sé þá á grundvelli þessa ákvæðis um meðalhóf, sem var stungið í sóttvarnalögin síðasta vetur, sem nú þykir raunhæft að höfða svona mál á hendur stjórnvöldum. Að í krafti þeirrar lagabreytingar hvíli sönnunarbyrðin nú á herðum sóttvarnalæknis, að sýna fram á að minna inngrip hefði áreiðanlega ekki dugað til að hemja pestina. Þar sem fagið allt byggir á líkindareikningi og krísan snýst um veldisvöxt, þá velta sóttvarnir landsins nú, ef mér skjátlast ekki, á talna- og vísindalæsi dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.