… og krefst að skrúfað verði fyrir, þar til sýnt hefur verið að mark­miðum slökkvi­starfs­ins verði ekki náð með minna vatni. Dagur 656.

27.12.2021 ~ 4 mín

Annar í jólum. Nýheima­prófuð þáðum við boð dags­ins. Mig lang­aði svolítið að taka myndir af okkur, grímu­klæddum húsráð­endum, grímu­klæddum gestum … í hundrað ár hefði þessi sjón virst fjar­stæðu­kennd, ógnvæn­legur hugar­burður. Því fyrr sem hún verður það á ný, því betra. En ég tók enga mynd. Sumt verður bara að fá að vera minn­ing. Eða gleymska.

Vísir sló upp frétt um grein frá íslenska lækn­inum við Harvard-háskóla, sem vill að stjórn­völd felli niður allar sótt­varnir. Hann segir stjórn­mála­menn þurfa hugrekki til. Það er ekki rétt. Að fórna lífi og heilsu annarra í þágu eigin þæginda krefst ekki hugrekkis. Til þess þarf aðeins skort á úthaldi og ómerki­legan, almennan ræfildóm.

Á Twitter sá ég minnst á the precauti­on­ary principle. Það var í færslu frá manni sem er ekki sérfræð­ingur í sótt­vörnum frekar en ég, ekki frekar en hver annar lögfræð­ingur eða fótbolta­þjálf­ari, en tjáir sig um þær samt. Og vísaði til þessa viðmiðs, sem á íslensku nefn­ist varúð­ar­reglan. Hann er ekki fær, sagði hann, án verk­fræði­mennt­unar, um að ábyrgj­ast að brú sé vel byggð og óhætt að aka yfir hana, en áskilur sér dómgreind til að segja ef sér virð­ist hún að hruni komin, og aka þá ekki yfir hana fyrr en öryggið hafi verið sann­reynt. Eða kannski tók hann annað dæmi, líklega, en inntakið var það sama. Varúð­ar­reglan er upprunnin í verk­fræði: einmitt við smíð mann­virkja gerir maður frekar meira en minna til að tryggja öryggi þeirra. Notar helst bæði belti og axlabönd.

Ég fletti þá upp sótt­varna­lögum til að athuga hvort varúð­ar­regl­unnar væri getið þar. Og já, orðið varúð kemur fyrir á einum stað í lögunum, í grein sem snýr að almenningi:

„Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smit­sjúk­dómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem fram­kvæm­an­legt er.“

Að gjalda sem mesta varúð og gera sér allt far um – það er, samkvæmt lögunum, þín skylda og mín. Þegar kemur að sótt­vörnum hins opin­bera, aftur á móti, er hvergi minnst á varúð­ar­reglu, heldur miðað við meðal­hóf (e. proporti­ona­lity principle). Um sameig­in­legar sótt­varnir segja lögin:

„Ráðstöf­unum … skal ekki beita nema brýn nauð­syn krefji til verndar heilsu og lífi manna. Við beit­ingu ráðstaf­ana, sem og við aflétt­ingu þeirra, skal gæta meðal­hófs og jafn­ræðis og taka tillit til annarra vernd­ar­hags­muna, einkum þeirra sem njóta verndar stjórn­ar­skrár­innar og mann­rétt­inda­samn­inga sem Ísland er aðili að. Ekki skal stöðva atvinnu­rekstur nema að því marki sem starf­semin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar, svo sem vegna fjölda fólks sem þar kemur saman eða návígis þess eða snertingar.“

Allt para­grafið hér að ofan bætt­ist við lögin með laga­breyt­ingu í febrúar á þessu ári, þegar stjórn­völd töluðu um að skýra þyrfti valdsvið sóttvarnalæknis.

Meðal­hófs­reglan er jafn mikil­væg réttar­fari og varúð­ar­reglan er við brúar­smíð. Auðvitað vill maður að verk­fræð­ingar geri meira en minna til að tryggja að brýr standi. Og auðvitað vill maður að yfir­völd hafi þau minnstu afskipti af fólki sem duga til að ná skil­greindu mark­miði. En þessi tvö viðmið, að gera hvað sem þarf til að gull­tryggja að ekkert fari úrskeiðis, og gera það minnsta sem gæti dugað til, þau eru svolítið andstæð. Max og min.

Hvort heim­færir maður þá upp á sóttvarnir?

Íslensk lög virð­ast hafa svarað því svo til að almenn­ingur skuli fylgja varúð­ar­regl­unni og gera hvað sem þarf en stjórn­völd fylgi meðal­hófs­reglu og geri það minnsta sem gæti dugað. Við max, ríkið min.

Sem virð­ist tilefni til að minn­ast þriðja lögmáls­ins, lögmáls sem hvergi er getið í lögum en þarf ekki, enda stendur það nær nátt­úru­lög­málum en laga­setn­ingu manna: lögmál Murp­hys. Að hvað sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis. Hér þarf aðeins hin þrengsta, takmark­að­asta útfærsla lögmáls­ins að gilda til leiða til kland­urs: Ef maður bregst við alvar­legri krísu, þar sem marg­föld lífs­hætta hvílir á ótal óvissu­þáttum, með minnsta inngripi sem gæti dugað til, þá er óvíst að krísan leys­ist. Ef maður heldur fast við þetta sama viðmið þegar eitt­hvað fer svo úrskeiðis er ekki ósenni­legt að fleira fari úrskeiðis. Og þannig koll af kolli í átt að ystu sjón­arrönd (seglum þöndum, burt frá ströndum, pakk­aði ekki einhver nesti?)

Nokkrum klukku­stundum eftir frétt­ina af lækn­inum sem vill hvorki belti né axla­bönd og er líklega á launa­skrá veirunnar birti Vísir aðra frétt af öðrum manni í mjög svip­uðum fötum, lögfræð­ingi sem hefur tekið að sér máls­höfðun gegn sótt­varna­lækni fyrir hönd fimm manns sem sæta einangrun vegna smits. Mér sýnist líklegt að það sé þá á grund­velli þessa ákvæðis um meðal­hóf, sem var stungið í sótt­varna­lögin síðasta vetur, sem nú þykir raun­hæft að höfða svona mál á hendur stjórn­völdum. Að í krafti þeirrar laga­breyt­ingar hvíli sönn­un­ar­byrðin nú á herðum sótt­varna­læknis, að sýna fram á að minna inngrip hefði áreið­an­lega ekki dugað til að hemja pest­ina. Þar sem fagið allt byggir á líkinda­reikn­ingi og krísan snýst um veld­is­vöxt, þá velta sótt­varnir lands­ins nú, ef mér skjátl­ast ekki, á talna- og vísinda­læsi dómara við Héraðs­dóm Reykjavíkur.