150 smit koma upp í borginni Xian í Kína. Þar er brugðist við með tveggja vikna ströngu lockdowni, skimun, auðvitað, sótthreinsun með úðun, jafnvel utandyra, og fleiri snörpum aðgerðum, til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Myndir birtast af aðgerðunum í fréttum og fjöldi fólks fyllist sama hryllingi og yfir hliðstæðum myndum við upphaf ársins 2020. Meiri hryllingi, jafnvel – eða beinni, líkamlegri, og tafarlausari – en við fyrirsagnir á við að 800 þúsund manns hafi nú látist úr pestinni í Bandaríkjunum. Enda sáum við þau ekki deyja. Við sjáum sóttvarnaraðgerðirnar og þær virðast hryllilegar, við sjáum ekki dauðsföllin og þau snerta okkur minna. Eins þó að við vitum vel að í reynd er því öfugt farið, að í reynd er kvalafullur dauðdagi í einangrunarplasti hryllilegri en bíll sem úðar vökva um götur. Jafnvel hryllilegri en tveggja vikna lockdown. Við vitum það vel. En við sjáum það ekki. Vald myndmiðla er mikið. Ég er ekki frá því að blaðaljósmyndun sem fag sé að bregðast okkur í þessum faraldri.
Ég hef ánetjast því svolítið í heimsendinum að fylgjast með sérfræðingum deila um framvindu hans og bestu viðbrögð. Það gera þeir til dæmis á Twitter. Vegna þess hvað tíst eru óhjákvæmilega stutt og snörp veitir vettvangurinn deilunni form sem svipar svolítið til bardagaíþrótta. Auðvitað úir og grúir af slíku efni, allir að slást – reyndar er það botnlaust og einmitt þess vegna nothæft sem fíkniefni. Af þeim þráðum sem mér hafa birst í dag kemst einn nær því en aðrir að fanga stöðu deilunnar þessa stundina, ekki bara víglínuna sem liggur nú um Vesturlönd heldur þreytu allra sem standa á henni. Þar takast á menn að nafni Balloux og Leonardi.
Leonardi er einn hinna varkáru vísindamanna sem ég hef nokkrar mætur á, einn þeirra sem þykir það óðs manns æði að reyna ekki að kveða pestina í kútinn. Hann er ónæmisfræðingur, lauk doktorsgráðu á því sviði við Kingston háskóla í London og Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna (National Cancer Institute), og bætir nú við sig námi í lýðheilsufræðum, aka faraldsfræðum, við John Hopkins háskólasjúkrahúsið. Andstæðingur hans í þessum tiltekna þræði, Francois Balloux, er prófessor í tölvulíffræði við Erfðavísindastofnun University College London (UCL Genetics Institute). Miðlar á við Sky News, BBC og The Guardian leita gjarna álits hans á stöðu faraldursins. Stöðu sinni innan fræðaheimsins skarta þeir hvor um sig í síðuhaus sínum á Twitter. Eins og slíkt virðist undir venjulegum kringumstæðum hégómlegt og skrítið á almannafæri, þá getur virst gagn af því þegar tekist er á um fínlegri þættina í heimsendi. Þá má að minnsta kosti vona að þessar vottanir séu skilvirk leið til að greina málflutning kunnáttumanna frá öðrum.
Nú á mánudag skrifaði Balloux fimm tísta þráð um að sér þætti tímabært að hætta öllum ráðstöfunum gegn faraldrinum. Hann færði ekki beinlínis rök fyrir þeirri niðurstöðu, viðraði aðeins ákveðna afstöðu og skap, þreytu jafnvel. Niðurstaða: „Heimurinn er ekki alltaf eins og best yrði á kosið. Ég held að bráðum sé tími til kominn að láta undan. Víða veita bóluefni nú jafn mikla vernd og þau munu kannski nokkru sinni gera og nú erum við með nokkur þokkaleg lyf. Að láta eins og við höfum enn einhvers konar stjórn á þessu er bara að verða of kostnaðarsamt.“
Tæpri klukkustund síðar svaraði Leonardi:
„Þetta sjónarmið er fyrirlitlegt. Hvers vegna? Þetta er réttlætingin að baki því að hvatt er gegn grímunotkun í skólum. Þetta er réttlætingin að baki PANDATA í Suður-Afríku og Us For Them í Bretlandi“ – það eru samtök sem hafa barist gegn opinberum, sameiginlegum sóttvörnum – „sem leiddu til nýrra afbrigða, Alpha, Beta, Omicron. Staðir sem hröðuðu sýkingum hafa knúið áfram faraldurinn. Þú ættir að bálreiðast hverjum sem vill að þú og ástvinir þínir sýkist. Það er brjálæði. Það er illska að vilja að aðrir sýkist. Og það framlengir faraldurinn.“
Það bætist ekki margt við þetta efnislega. Balloux svarar og það gerir Leonardi líka en brot úr samskiptunum innihalda: „Fáðu þér blund, maður“ frá Balloux og „Fáðu þér N95 grímu og rænu, Balloux, áður en þú færð Omíkron“ frá Leonardi. Enda er Twitter ekki ritrýndur miðill.
Kjarni málsins er þessi, svo ég leyfi mér að endursegja eftir eigin skilningi það sem ég hef pikkað upp frá ónæmisfræðingnum og kollegum hans undanfarið. Leonardi veit að fái pestin að geisa munu margir deyja, í merkingunni milljónir enn. Hann veit að langvinnt Covid er sjúkdómurinn sjálfur, sem hefst ekki með innlögn og lýkur ekki við útskrift – stórt mengi mögulegra, alvarlegra afleiðinga sýkingar sem nú þegar er ljóst að heldur áfram að valda tjóni í taugavef og heilavef stórs hluta sjúklinga mörgum mánuðum eftir að bráðaveikindunum lýkur. Hann veit að það er mögulegt, sjálfur segir hann raunar að það sé nær öruggt, að slík sýking veiki ónæmiskerfið til lengri tíma og lækki lífslíkur fólks, hvaða öðrum veikindum sem það lendir í síðar um ævina. Hann veit líka að það er jafn sennilegt að ný afbrigði veirunnar komi fram héðan í frá og það hefur reynst hingað til, jafn ófyrirsjáanlegt hvort þau leiða til meiri eða minni veikinda, að trúin á að sjúkdómurinn hljóti að mildast eftir því sem veiran þróast byggir á óskhyggju, til þess þarf þróunarfræðilegan þrýsting sem er ekki til staðar nema við sköpum hann, annars gætirðu allt eins keypt þér ljón og beðið þess að það breytist í heimiliskött. Leonardi veit að tíðni nýrra afbrigða veltur fyrst og fremst á útbreiðslu veirunnar, hversu mörg tækifæri hún fær á að fjölfalda sig. Hann veit með öðrum orðum að vandinn er bæði raunverulegur, marghliða og afdrifaríkur og besta leiðin til að takast á við hann er að takast á við hann. Að auki veit hann fjölmargt um virkni ónæmiskerfisins sem ég get ekki borið undir mína eigin dómgreind nema að litlu leyti, aðeins lagt við hlustir. Þegar hann segir veiruna kalla á T‑frumu-viðbragð í heila, sem þýði að líkami okkar bregðist við sýkingunni með því að eyða okkar eigin heilafrumum, þá vísar hann til rannsókna sem virðast trúverðugar. Þegar hann segir það vera tilefni til varkárni finnst mér það hljóma skynsamlega.
Sósíalistinn Bernie Sanders er sama sinnis enda veit hann að forréttindastéttir heimsins myndu aldrei taka þá áhættu sjálfar sem þær leggja á aðra. Fólk sem á einbýlishús, garð og sumarbústað til að halda sig fjarri öðrum að vild er, upp til hópa, ekki fólk í illa launuðum framlínustörfum. Hugsanlega óttast Bernie líka að nýja Covid-lyfið frá Pfizer, sem sagt er að geti skipt sköpum, sé enn fágætt og dýrt og tryggari lækning því í boði fyrir forréttindahópa en íbúa veraldar almennt. Það óttast að minnsta kosti sumir. Þokkalega áreiðanlegar grímur, þó ekki væri annað, kosta pening. Sanders hvetur í öllu falli bandarísk stjórnvöld til að efla sóttvarnir frekar en draga úr þeim, til dæmis með því að senda öllum heimilum grímur af gerðinni N95 eða FFP2 án endurgjalds.
Báðir hafa þeir víst áreiðanlega tekið eftir því að fyrirsagnir um að Omíkron afbrigðið væri svo milt að best væri kannski að allir smituðust af því fóru af stað strax daginn eftir að hlutabréfamarkaðir brugðust við fyrstu fréttum um afbrigðið með skarpri dýfu. Markaðirnir réttu úr sér eftir því sem vonir okkar voru glæddar. Þeir binda allar vonir sínar við það, markaðirnir, að við kippum okkur ekki upp við að lifa við þessa bjargbrún, færum okkur ekki frá henni þó að stundum falli einhver fram af. Þó að stundum falli fullt af fólki fram af. Og haldi svo áfram að falla fram af – þó að einhver sé alltaf að falla fram af, þá eiga markaðirnir allt sitt undir því að við færum okkur ekki frá henni, látum okkur ekki bregða við það, höfum hugann við aðra hluti.
Hvað sem ég hef reynt að gera mér grein fyrir rökunum gegn sameiginlegum sóttvörnum finn ég aðeins tvennt, þegar upp er staðið: að þær séu kostnaðarsamar og að þær séu leiðinlegar. Sem oftast fellur saman í tjáningarmáta sem þarf ekki að vera setning, er jafnvel oftar einföld upphrópun eða táknmál á við að ranghvolfa augunum. Eiginlega bara: Ég neeeenni ekki!
„Nú, ókei, þú nennir ekki. Auðvitað, þú hefðir átt að segja það fyrr. Við drepum bara ömmu.“
Eftir að Sovétríkin féllu var algengt viðkvæði í vestri að kommúnisminn væri vissulega falleg hugmynd en hún bara virki ekki. Þannig var eins og Vestrið – þeir sem töluðu á þessa leið voru nógu margir til að óhætt virðist að einfalda það svona, að þar hafi Vestrið sjálft opnað á sér munninn – og það var eins og Vestrið féllist á að það sjálft byggði kannski ekki á sérlega fallegri hugmynd, en það hefði þó þetta sér til ágætis, sem skipti þá meira máli þegar upp var staðið: að virka. Síðan þá hefur hugmyndin ekki mikið breyst, hin vestræna hugmynd. Markaðir og það allt. En virknin … ef það skiptir einhverju máli fyrir samfélag hvort milljónir meðlima þess deyja óþarflega snemma, þá blasir ekki beint við, hér og nú, að vestrið skari fram úr í því að virka. Í Bandaríkjunum hafa nú yfir 800 þúsund manns dáið af völdum faraldursins. Í Kína: 4.636.1 Ef til er samfélag þar sem annað eins skiptir ekki máli, þá hljómar það ekki mjög fúnskjónal heldur. Vestrið kemur ekki kokhraust út úr þessari krísu.
Það gæti hins vegar komið út úr henni við skárri heilsu en ella ef blaðaljósmyndarar þess gerðust aðeins óforskammaðri. Og ritstjórnirnar að baki þeim. Ef við sæjum betur. Þá gætum við hugsanlega krafist skárri ákvarðana.
↑1 | Þetta eru í báðum tilfellum opinberar tölur og í báðum tilfellum eru sannfærandi rök um að raunverulega mannfallið sé líklega hærra. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til að þar skeiki svo mikið að samanburðurinn yrði annar. í Kína hefur að mestu tekist að halda faraldrinum í skefjum. Á Vesturlöndum er það ekki einu sinni ætlunin. Hér á Íslandi virtist það jafnvel koma stjórnvöldum í opna skjöldu þegar farsóttin var kveðin í kútinn – tvisvar. Og í bæði skiptin var það leiðrétt, pestin endurheimt. |
---|