Sýni­legur hryll­ingur og ósýni­legur – ekki­dagur 657

28.12.2021 ~ 9 mín

150 smit koma upp í borg­inni Xian í Kína. Þar er brugð­ist við með tveggja vikna ströngu lockdowni, skimun, auðvitað, sótt­hreinsun með úðun, jafn­vel utan­dyra, og fleiri snörpum aðgerðum, til að koma í veg fyrir frek­ari útbreiðslu. Myndir birt­ast af aðgerð­unum í fréttum og fjöldi fólks fyll­ist sama hryll­ingi og yfir hlið­stæðum myndum við upphaf ársins 2020. Meiri hryll­ingi, jafn­vel – eða beinni, líkam­legri, og tafar­laus­ari – en við fyrir­sagnir á við að 800 þúsund manns hafi nú látist úr pest­inni í Banda­ríkj­unum. Enda sáum við þau ekki deyja. Við sjáum sótt­varn­ar­að­gerð­irnar og þær virð­ast hrylli­legar, við sjáum ekki dauðs­föllin og þau snerta okkur minna. Eins þó að við vitum vel að í reynd er því öfugt farið, að í reynd er kvala­fullur dauð­dagi í einangr­un­ar­plasti hrylli­legri en bíll sem úðar vökva um götur. Jafn­vel hrylli­legri en tveggja vikna lockdown. Við vitum það vel. En við sjáum það ekki. Vald mynd­miðla er mikið. Ég er ekki frá því að blaða­ljós­myndun sem fag sé að bregð­ast okkur í þessum faraldri.


Ég hef ánetj­ast því svolítið í heimsend­inum að fylgj­ast með sérfræð­ingum deila um fram­vindu hans og bestu viðbrögð. Það gera þeir til dæmis á Twitter. Vegna þess hvað tíst eru óhjá­kvæmi­lega stutt og snörp veitir vett­vang­ur­inn deil­unni form sem svipar svolítið til bardag­aí­þrótta. Auðvitað úir og grúir af slíku efni, allir að slást – reyndar er það botn­laust og einmitt þess vegna nothæft sem fíkni­efni. Af þeim þráðum sem mér hafa birst í dag kemst einn nær því en aðrir að fanga stöðu deil­unnar þessa stund­ina, ekki bara víglín­una sem liggur nú um Vest­ur­lönd heldur þreytu allra sem standa á henni. Þar takast á menn að nafni Balloux og Leonardi.

Leon­ardi er einn hinna varkáru vísinda­manna sem ég hef nokkrar mætur á, einn þeirra sem þykir það óðs manns æði að reyna ekki að kveða pest­ina í kútinn. Hann er ónæm­is­fræð­ingur, lauk doktors­gráðu á því sviði við King­ston háskóla í London og Krabba­meins­stofnun Banda­ríkj­anna (Nati­onal Cancer Institute), og bætir nú við sig námi í lýðheilsu­fræðum, aka faralds­fræðum, við John Hopk­ins háskóla­sjúkra­húsið. Andstæð­ingur hans í þessum tiltekna þræði, Francois Balloux, er prófessor í tölvu­líf­fræði við Erfða­vís­inda­stofnun University Coll­ege London (UCL Genetics Institute). Miðlar á við Sky News, BBC og The Guar­dian leita gjarna álits hans á stöðu farald­urs­ins. Stöðu sinni innan fræða­heims­ins skarta þeir hvor um sig í síðu­haus sínum á Twitter. Eins og slíkt virð­ist undir venju­legum kring­um­stæðum hégóm­legt og skrítið á almanna­færi, þá getur virst gagn af því þegar tekist er á um fínlegri þætt­ina í heimsendi. Þá má að minnsta kosti vona að þessar vott­anir séu skil­virk leið til að greina málflutn­ing kunn­áttu­manna frá öðrum.

Nú á mánu­dag skrif­aði Balloux fimm tísta þráð um að sér þætti tíma­bært að hætta öllum ráðstöf­unum gegn faraldr­inum. Hann færði ekki bein­línis rök fyrir þeirri niður­stöðu, viðr­aði aðeins ákveðna afstöðu og skap, þreytu jafn­vel. Niður­staða: „Heim­ur­inn er ekki alltaf eins og best yrði á kosið. Ég held að bráðum sé tími til kominn að láta undan. Víða veita bólu­efni nú jafn mikla vernd og þau munu kannski nokkru sinni gera og nú erum við með nokkur þokka­leg lyf. Að láta eins og við höfum enn einhvers konar stjórn á þessu er bara að verða of kostnaðarsamt.“

Tæpri klukku­stund síðar svar­aði Leonardi:

„Þetta sjón­ar­mið er fyrir­lit­legt. Hvers vegna? Þetta er rétt­læt­ingin að baki því að hvatt er gegn grímu­notkun í skólum. Þetta er rétt­læt­ingin að baki PANDATA í Suður-Afríku og Us For Them í Bretlandi“ – það eru samtök sem hafa barist gegn opin­berum, sameig­in­legum sótt­vörnum – „sem leiddu til nýrra afbrigða, Alpha, Beta, Omicron. Staðir sem hröð­uðu sýkingum hafa knúið áfram farald­ur­inn. Þú ættir að bálreið­ast hverjum sem vill að þú og ástvinir þínir sýkist. Það er brjál­æði. Það er illska að vilja að aðrir sýkist. Og það fram­lengir faraldurinn.“

Það bætist ekki margt við þetta efnis­lega. Balloux svarar og það gerir Leon­ardi líka en brot úr samskipt­unum inni­halda: „Fáðu þér blund, maður“ frá Balloux og „Fáðu þér N95 grímu og rænu, Balloux, áður en þú færð Omíkron“ frá Leon­ardi. Enda er Twitter ekki ritrýndur miðill.


Kjarni máls­ins er þessi, svo ég leyfi mér að endur­segja eftir eigin skiln­ingi það sem ég hef pikkað upp frá ónæm­is­fræð­ingnum og koll­egum hans undan­farið. Leon­ardi veit að fái pestin að geisa munu margir deyja, í merk­ing­unni millj­ónir enn. Hann veit að lang­vinnt Covid er sjúk­dóm­ur­inn sjálfur, sem hefst ekki með innlögn og lýkur ekki við útskrift – stórt mengi mögu­legra, alvar­legra afleið­inga sýkingar sem nú þegar er ljóst að heldur áfram að valda tjóni í tauga­vef og heila­vef stórs hluta sjúk­linga mörgum mánuðum eftir að bráða­veik­ind­unum lýkur. Hann veit að það er mögu­legt, sjálfur segir hann raunar að það sé nær öruggt, að slík sýking veiki ónæmis­kerfið til lengri tíma og lækki lífs­líkur fólks, hvaða öðrum veik­indum sem það lendir í síðar um ævina. Hann veit líka að það er jafn senni­legt að ný afbrigði veirunnar komi fram héðan í frá og það hefur reynst hingað til, jafn ófyr­ir­sjá­an­legt hvort þau leiða til meiri eða minni veik­inda, að trúin á að sjúk­dóm­ur­inn hljóti að mild­ast eftir því sem veiran þróast byggir á óskhyggju, til þess þarf þróun­ar­fræði­legan þrýst­ing sem er ekki til staðar nema við sköpum hann, annars gætirðu allt eins keypt þér ljón og beðið þess að það breyt­ist í heim­il­iskött. Leon­ardi veit að tíðni nýrra afbrigða veltur fyrst og fremst á útbreiðslu veirunnar, hversu mörg tæki­færi hún fær á að fjöl­falda sig. Hann veit með öðrum orðum að vand­inn er bæði raun­veru­legur, marg­hliða og afdrifa­ríkur og besta leiðin til að takast á við hann er að takast á við hann. Að auki veit hann fjöl­margt um virkni ónæmis­kerf­is­ins sem ég get ekki borið undir mína eigin dómgreind nema að litlu leyti, aðeins lagt við hlustir. Þegar hann segir veiruna kalla á T‑frumu-viðbragð í heila, sem þýði að líkami okkar bregð­ist við sýking­unni með því að eyða okkar eigin heila­frumum, þá vísar hann til rann­sókna sem virð­ast trúverð­ugar. Þegar hann segir það vera tilefni til varkárni finnst mér það hljóma skynsamlega.

Sósí­alist­inn Bernie Sand­ers er sama sinnis enda veit hann að forrétt­inda­stéttir heims­ins myndu aldrei taka þá áhættu sjálfar sem þær leggja á aðra. Fólk sem á einbýl­is­hús, garð og sumar­bú­stað til að halda sig fjarri öðrum að vild er, upp til hópa, ekki fólk í illa laun­uðum fram­línu­störfum. Hugs­an­lega óttast Bernie líka að nýja Covid-lyfið frá Pfizer, sem sagt er að geti skipt sköpum, sé enn fágætt og dýrt og trygg­ari lækn­ing því í boði fyrir forrétt­inda­hópa en íbúa veraldar almennt. Það óttast að minnsta kosti sumir. Þokka­lega áreið­an­legar grímur, þó ekki væri annað, kosta pening. Sand­ers hvetur í öllu falli banda­rísk stjórn­völd til að efla sótt­varnir frekar en draga úr þeim, til dæmis með því að senda öllum heim­ilum grímur af gerð­inni N95 eða FFP2 án endurgjalds.

Báðir hafa þeir víst áreið­an­lega tekið eftir því að fyrir­sagnir um að Omíkron afbrigðið væri svo milt að best væri kannski að allir smit­uð­ust af því fóru af stað strax daginn eftir að hluta­bréfa­mark­aðir brugð­ust við fyrstu fréttum um afbrigðið með skarpri dýfu. Mark­að­irnir réttu úr sér eftir því sem vonir okkar voru glæddar. Þeir binda allar vonir sínar við það, mark­að­irnir, að við kippum okkur ekki upp við að lifa við þessa bjarg­brún, færum okkur ekki frá henni þó að stundum falli einhver fram af. Þó að stundum falli fullt af fólki fram af. Og haldi svo áfram að falla fram af – þó að einhver sé alltaf að falla fram af, þá eiga mark­að­irnir allt sitt undir því að við færum okkur ekki frá henni, látum okkur ekki bregða við það, höfum hugann við aðra hluti.

Hvað sem ég hef reynt að gera mér grein fyrir rökunum gegn sameig­in­legum sótt­vörnum finn ég aðeins tvennt, þegar upp er staðið: að þær séu kostn­að­ar­samar og að þær séu leið­in­legar. Sem oftast fellur saman í tján­ing­ar­máta sem þarf ekki að vera setn­ing, er jafn­vel oftar einföld upphrópun eða tákn­mál á við að rang­hvolfa augunum. Eigin­lega bara: Ég neeeenni ekki!


„Nú, ókei, þú nennir ekki. Auðvitað, þú hefðir átt að segja það fyrr. Við drepum bara ömmu.“


Eftir að Sovét­ríkin féllu var algengt viðkvæði í vestri að komm­ún­ism­inn væri vissu­lega falleg hugmynd en hún bara virki ekki. Þannig var eins og Vestrið – þeir sem töluðu á þessa leið voru nógu margir til að óhætt virð­ist að einfalda það svona, að þar hafi Vestrið sjálft opnað á sér munn­inn – og það var eins og Vestrið féll­ist á að það sjálft byggði kannski ekki á sérlega fallegri hugmynd, en það hefði þó þetta sér til ágætis, sem skipti þá meira máli þegar upp var staðið: að virka. Síðan þá hefur hugmyndin ekki mikið breyst, hin vest­ræna hugmynd. Mark­aðir og það allt. En virknin … ef það skiptir einhverju máli fyrir samfé­lag hvort millj­ónir meðlima þess deyja óþarf­lega snemma, þá blasir ekki beint við, hér og nú, að vestrið skari fram úr í því að virka. Í Banda­ríkj­unum hafa nú yfir 800 þúsund manns dáið af völdum farald­urs­ins. Í Kína: 4.636.1 Ef til er samfé­lag þar sem annað eins skiptir ekki máli, þá hljómar það ekki mjög fúnskjónal heldur. Vestrið kemur ekki kokhraust út úr þess­ari krísu.

Það gæti hins vegar komið út úr henni við skárri heilsu en ella ef blaða­ljós­mynd­arar þess gerð­ust aðeins óforskamm­aðri. Og ritstjórn­irnar að baki þeim. Ef við sæjum betur. Þá gætum við hugs­an­lega kraf­ist skárri ákvarðana.

References
1 Þetta eru í báðum tilfellum opin­berar tölur og í báðum tilfellum eru sann­fær­andi rök um að raun­veru­lega mann­fallið sé líklega hærra. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til að þar skeiki svo mikið að saman­burð­ur­inn yrði annar. í Kína hefur að mestu tekist að halda faraldr­inum í skefjum. Á Vest­ur­löndum er það ekki einu sinni ætlunin. Hér á Íslandi virt­ist það jafn­vel koma stjórn­völdum í opna skjöldu þegar farsóttin var kveðin í kútinn – tvisvar. Og í bæði skiptin var það leið­rétt, pestin endurheimt.