Vinnu­til­gát­urnar. Bilun­ar­dagur 660

31.12.2021 ~ 5 mín

„Ég held að delta-afbrigðið verði mest smit­andi afbrigði sem við munum sjá. Við ættum ekki að hafa áhyggjur af því að kórónu­veiran eigi eftir að stökk­breyt­ast og þróast í enn meira smit­andi afbrigði en það.“

Ef virtur vísinda­maður sagði þetta í sjón­varps­við­tali sem birt­ist 18. sept­em­ber 2021, fyrir rétt rúmum þremur mánuðum síðan, þá er það ekki áhuga­vert fyrir það að hann hafi haft rangt fyrir sér. Þaðan af síður er það hlægi­legt, ekki einu sinni þó að hann hafi á undra­skömmum tíma reynst hafa stór­kost­lega rangt fyrir sér. Það er hvorki áhuga­vert né hlægi­legt að vísinda­maður spái fyrir um eitt­hvað sem reyn­ist rangt, heldur er það lykil­þáttur í fram­vindu vísinda­starfs: að setja fram tilgátu og sjá hvort hún stenst. Tilgátum einum fylgir því lítil ábyrgð og alls engin þegar þær grund­vall­ast á tilfinn­ingu og innsæi einum saman. Að þessi tiltekna tilgáta myndi reyn­ast röng var allt eins líklegt um leið og hún kom fram. Það sem er að minnsta kosti svolítið áhuga­vert er því að vísinda­mað­ur­inn hafi borið hana fram á opin­berum vett­vangi en ekki geymt hana innan rann­sókn­ar­stof­unnar þar til hún yrði sannreynd.

Það sem er virki­lega áhuga­vert er aftur á móti að þremur mánuðum síðar skuli fjöl­miðlar bregð­ast við því hvernig spáin brást með því að leita eftir fleiri sams konar spám frá sama vísinda­manni. Hvers vegna skyldu fjöl­miðlar gera það? Hvers konar fjöl­miðlar? Og hvers vegna verður vísinda­mað­ur­inn fúslega við þeim erindum?

Það væri allt efni í forvitni­lega rann­sókn. Ef eftir því er leitað skal ég fúslega leggja til vinnu­til­gátur sem eru að minnsta kosti jafn mikils virði og sú að ofan. Ekki að fjöl­miðl­arnir hafi eða fóðri það sem á ensku heitir daddy issues, sálrænu þætt­irnir er auka­at­riði. Að baki þeim liggja hagsmunir.


Vinur minn og ég mæltum okkur mót í dag, á vinnu­stof­unni hans. Hann stakk upp á að við tækjum fyrst hvor sitt sjálfs­próf. Vel til fundið, ég andaði að minnsta kosti léttar fyrir vikið. Og það var allt afskap­lega gott. Bjart hangs og gott.

Undir kvöld­mat ætluðum við Dísa síðan að versla í matinn fyrir gaml­árs – ég leit­aði að afskekkt­ustu Bónus­búð borg­ar­innar og sýnd­ist ég hafa fundið hana, í grennd við Elliða­vatn. En það höfðu þá fleiri. Þar var heldur mikið að gera. Við ákváðum þá að athuga hvernig ástandið væri í annarri verslun, þar sem reynd­ist líka heldur mikið að gera. Þá stól­uðum við á þriðju búðina, lengst hinu megin í bænum, að þar yrði rólegra, en sáum á leið­inni hvers lítil bílaum­ferð var við þá fjórðu, sem við höfðum annars ekki leitt hugann að. Þar beygðum við inn. Og það reynd­ist rétt, þar var rólegt. Hvernig myndi maður mæla það? Tutt­ugu fermetrar af gólf­fleti á hvern kúnna? Einn hill­u­gangur á hvert par? Nóg.

Við réðumst nokkuð skipu­lega til atlögu með sama innkaupal­ista í báðum símum, til að staldra ekki lengur í búðinni en nauð­syn krefði. Leið­ang­ur­inn hófst með tiltölu­legri yfir­vegun. Asalausri skil­virkni. En eftir því sem tíminn leið og áhættu­kvóti vikunnar tætt­ist upp var eins og gang­arnir þrengd­ust og styttra yrði í næsta mann. Annað fólk. Í hverju fótmáli, annað fólk. Í græn­metiskæl­inum sá ég loks ungan mann taka af sér grím­una til að hnerra og setja hana svo upp aftur. Hversu oft hefur dómgreindin brugð­ist manni sem á þessum tíma­punkti í sögu pest­ar­innar tekur af sér grímu, í fjöl­menni, til að hnerra? Hversu margar slæmar ákvarð­anir hafði hann þegar tekið þann sama dag? Hvaða sýni­legu ummerki hafði ég um að honum væri treyst­andi fyrir loft­inu sem ég drægi ofan í mig? Ég lædd­ist burt frá honum eins og frá villi­dýri, forð­að­ist augna­ráð, gerði allt til að styggja ekki þessa óútreikn­an­legu furðu­skepnu. Frið­ur­inn var úti, við drifum rest­ina af.


Annað hvort var ég skyn­sami maður­inn í þessum aðstæðum eða sá geggjaði.

Það má umorða svona:

Annað hvort eru nýjustu gögn um sjúkra­húss­inn­lagnir í London mark­tæk eða Samtökum atvinnu­lífs­ins er treyst­andi fyrir stjórn heilbrigðismála.

Ég veit ekki hvort er tilfellið en ég veit hvort ég læt heldur njóta vafans. Hvort ég hef heldur fyrir vinnutilgátu.


Miðað við þá áhættu sem Samtökin og ráðherrar þeirra virð­ast tilbúin að taka með líf og heilsu annars fólks mætti ætla að þau væru á vonar­völ, virki­lega aðfram­komin í kjöl­far sárrar kreppu, eða hver myndi annars grípa til annarra eins örþrifa­ráða? En nei. Á fimmtu­dag birt­ist frétt um árangur fyrir­tækja í Kaup­höll­inni á árinu: „Útlit er fyrir að arðgreiðslur og kaup íslenskra fyrir­tækja í Kaup­höll­inni á eigin bréfum á næsta ári verði sögu­lega háar og geti saman­lagt nálg­ast hátt í 200 millj­arða króna,“ segir þar. Og sama dag birti sami miðill frétt um uppgjör sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­is­ins Samherja: „Samstæðan Samherji Hold­ing ehf. hagn­að­ist um 27,4 millj­ónir evra á sein­asta ári eða sem nemur um 4,04 millj­örðum króna. Hagn­aður nam 1,4 millj­ónum evra árið 2019.“ Þá hefur komið fram að afkoma bank­anna er með besta móti, og svo framvegis.

Allt er það bersýni­legt áfram­hald á því sem Yanis Varoufa­kis, á sínum tíma kynþokka­fyllsti fjár­mála­ráð­herra evrópska vinst­ris­ins, hefur nú talað um í fyrir­lestrum, greinum – ég hélt líka bók, en sýnist það ekki vera tilfellið: að flugið sem fjár­mála­mark­aðir fóru á strax í upphafi pest­ar­innar vorið 2020 megi hafa til marks um að þeir séu nú alfarið aftengdir afdrifum efnis­heims­ins, þeir séu ekki einu sinni hagn­að­ar­drifnir lengur, í hefð­bundnum skiln­ingi, og óhætt að tala um enda­lok kapí­tal­ism­ans í því samhengi: lexían sem fjár­mála­mark­aðir drógu af efna­hags­hrun­inu 2008 sé að reiða sig á innspýt­ingu og stuðn­ing frá hinu opin­bera hvenær sem gefur á bátinn, það sé ekki lengur rétt­nefndur kapí­tal­ismi heldur lénsveldi – tæknilénsveldi. Hugtaka­smíðin þykir mér að minnsta kosti forvitnileg.