Ég sá orðið necrocapitalism á twitter í dag. Ég ætla að þýða það sem dauðvald, nema betri tillaga komi fram. Orðið birtist í eftirfarandi þriggja tísta þræði frá Bree Newsome:
Álagið sem ég ber á hverjum degi um öryggi barnsins míns í þessum aðstæðum, á meðan ég reyni að vera til staðar og einbeita mér að einhverju öðru en því, það er eitthvað sem ég get ekki einu dvalið við mjög lengi. Þessi dýnamík er ósjálfbær fyrir þetta land.
Ég er að því komin að loka á allt nema að verja barnið mitt og minnka álagið eins mikið og hægt er. Ég veit í einlægni ekki hvernig ég hélt taktinum sem ég gerði árið 2021 en ég held að ég megni ekki að halda því áfram þetta ár. Dauðvaldsharkið meikar engan sens.1
Erfitt að halda áfram að sinna því hversdagslega. Tölvupóstur, vinnudagatalið, símtöl … ég er að reyna en úff. Ég get ekki einu sinni einbeitt mér, því ég er að reyna að halda hversdagslegri getu venjulegs vinnudags og hugsunum um að þrauka á sama tíma. Kemur í ljós að heilinn hneigist til að forgangsraða því sem varðar að lifa af.
Jordan Stancil svarar:
Ég get ekki sagt neinum hvað er best að gera. Ég veit bara að þau reiða sig á að þið gefist upp.
Og Newsome svarar honum:
Ég held að þau reiði sig á að við vinnum okkur öll í gröfina í þágu hagkerfisins og þá muni þau bara skipta um okkur og halda áfram.
Til frekari útskýringar bætti hún svo við:
Ég er ekki að segja að ég vilji gefast upp á að þrauka eða á frelsisbaráttu. Ég er að segja að ég er tilbúin að hætta öllu kjaftæði um að halda áfram eins allt sé eðlilegt. Ég vil komast af hamstrahjólinu sem á engan áfangastað.
Ef tilfellið er að við getum ekki gert ráð fyrir að stjórnvöld grípi inn í fyrir okkar hönd héðan af, þá sérstaklega væri fáránlegt að halda áfram eins og venjulega.
Orðið necrocapitalism virðist fyrst hafa verið sett saman og birst á prenti í kringum fjármálakreppuna 2008/2009.
Að því er ég kemst næst er höfundur hugtaksins Subhabrata Bobby Banerjee, prófessor í stjórnunarfræðum við Bayes viðskiptaskólann, sem tilheyrir City University of London. Greinin „Necrocapitalism“ eftir hann birtist 1. desember 2008 í ritinu Organization Studies. Ég rétt skima yfir hana núna og sé að greinin hefst á tilvitnun í stjórnanda Austur-Indíafélagsins frá árinu 1775, sem gefur greiningunni rætur í sögu nýlenduvæðingar. „Í þessari ritgerð þróa ég hugtakið dauðvald,“ segir Banerjee í útdrætti, „skilgreint sem samtímaform þeirrar skipulögðu auðsöfnunar sem felur í sér eignanám og undirokun lífs undir valdi dauðans.“
↑1 | Þetta sem ég þýði hér sem dauðvaldshark er necrocapitalist grind á frummálinu. |
---|