Fíll­inn er í stof­unni því það er svo kalt úti – dagur 665

05.1.2022 ~ 5 mín

Á mánu­dag birt­ust tvær greinar, í tveimur miðlum, þar sem tveir höfundar tala um „fílinn í stof­unni“, eitt­hvað sem þeir segja að blasi við öllum en enginn þori að tala um. Og í báðum greinum er sagt að þetta sem blasi við öllum og enginn þori að tala um, nema þeir tveir, það sé óbólu­sett fólk. Önnur greinin hefst á þessum orðum:

„Óbólu­sett fólk er aðalástæðan fyrir núver­andi álagi á heil­brigðis­kerfið, sem síðan leiðir til harka­legra smit­varna og tilheyr­andi tekjutaps í mörgum atvinnu­greinum. Að ekki sé talað um stór­fellt rask í lífi tugþús­unda einstaklinga.“

Í hinni grein­inni eru bæði myndin og hópur­inn þrengd frekar, fíll­inn er sagður bleikur og táknar ekki allt óbólu­sett fólk heldur óbólu­setta útlendinga:

„Nú fjölgar á gjör­gæslu og það sem enginn þorir að nefna, en þarf samt að gera, er að flestir þeirra sem veikj­ast alvar­lega núna, eru útlend­ingar sem vinna hér og hafa íslenska kenni­tölu, en gera annars lítt eða ekkert með sótt­varna­ráð­staf­anir okkar samfé­lags; neita að fá bólu­setn­ingar og leggja því meira á heil­brigðis­kerfið okkar og eigin heilsu en ástæða væri til.“

Þetta er þá nýjasta tilraunin til að aðgreina þau sem eru í lífs­hættu vegna farald­urs­ins frá þeim sem eru það ekki út frá undir­liggj­andi hugmynd um einhvers konar verð­skuldun. Mjög snemma, um það leyti sem Almanna­varnir tryggðu sér netfangið covid.is, birt­ust viðtöl við lækna sem ráðlögðu fólki að hætta að reykja, enda hlyti tóbaksneysla að vera áhættu­þáttur fyrir lungna­sjúk­dóm. Þegar rann­sóknir leiddu í ljós að svo væri í þessu tilfelli ekki var lögð áhersla á að í mestri hættu væri gamalt fólk, sem sumir bættu við í hljóði en aðrir upphátt að ættu ekki langt eftir hvort eð er. Þegar bólu­setn­ingar fækk­uðu dauðs­föllum í þeim hópi varð orða­lagið „undir­liggj­andi sjúk­dómar“ tíðara: það væri helst fólk með undir­liggj­andi sjúk­dóma sem væri í veru­legri hættu. Enn var undir­skilið: ekki venju­legt fólk, ekki þú, ekki ég. Um hríð var sjónum beint að feitum, það væri helst feitt fólk sem staf­aði hætta af pest­inni, og gegndi sama hlut­verki. En auðvitað er það þægi­leg­ast ef aðeins óbólu­settir eru í hættu, hvað þá óbólu­settir útlend­ingar: fólk sem hefur þá bæði kallað hætt­una yfir sig, með eigin ákvörð­unum, og er auðvelt að hunsa.

Ef bilið milli berskjald­aðra og öruggra væri einföld lína lægi hún ekki eftir ríkisfangi.

Hitt er rétt að óbólu­settir eru um þessar mundir í meiri hættu að veikj­ast alvar­lega en full­bólu­settir. Full­bólu­settir eru í meiri hættu en þeir sem hafa fengið örvun­ar­bólu­setn­ingu og áður en líður á löngu verða þeir sem hafa aðeins fengið eina örvun­ar­bólu­setn­ingu í meiri hættu en þeir sem hafa fengið tvær. Hættan er kvarði og hann er á hreyfingu.

Sjálfur er ég ekki bara hlynntur bólu­setn­ingum heldur vegsama þær eins og ég vegsama trefla, hús, opnan­lega glugga, eldaðan mat og salt­aðan, sápu, skolplagnir og annað sem mann­kyn hefur fundið upp til að verj­ast pestum og lengja lífið. Sokkar, skór, húfur, niðursuða, pensillín, C‑vítamín, hita­veita, þvotta­vélar, sturtur, matvæla­eft­ir­lit, eftir­lit með rafseg­ul­mengun, bann við kjarna­vopnum, hraða­hindr­anir í íbúða­hverfi. Ég tek það allt, takk. Þar sem það útheimtir vinnu og skipu­lag að haga tilveru okkar þannig að við séum ekki öll í stöð­ugri, bráðri lífs­hættu og því mætti jafn­vel halda fram að menn­ing sé fyrst og fremst það að gera dyggð úr þess­ari neyð, gera leik úr því að klæða sig og nautn úr því að borða, þegar vöntun á hvoru sem er væri ávísun á bráðan dauða – þar sem því mætti halda fram að við gerum varla annað en að bjarga lífi okkar, frá degi til dags, um leið og við reynum að gera það þannig að okkur leið­ist það sem minnst og tökum stundum varla eftir því – þá er það aftur á móti einkenni­legt að gera að óreyndu ráð fyrir að andspænis nýrri, áður óþekktri ógn úr ríki nátt­úr­unnar, hljóti eitt ráð að reyn­ast nóg. Að setja allt sitt traust á bólu­setn­ingu er einkenni­legt eins og: Nei, ég þvæ mér ekki um hend­urnar enda salt­aði ég matinn. Eða: Ég borða þennan kjúk­ling hráan enda er ég með trefil um hálsinn.

Veirur hafa aldrei undir­ritað sátt­mála. Veirur hafa ekki sett sér siða­reglur. Veirur eru ekki tillits­samar, þær eru ekki sann­gjarnar, og þær hafa ekki allar áform um að breyt­ast í kvef.

Veirur eru hins vegar háðar takmörk­unum efnis­heims­ins. Frá því að farald­ur­inn hófst hefur tvisvar sinnum lánast að kveða hann niður hér á landi. Alveg. Núll smit. Það var ekki einu sinni erfitt enda þarf veiran loft­brú til að smit­ast og það ferða­lag hennar má hindra. Andlits­grímur, fjar­lægðir, fjölda­tak­mark­anir. Það er næstum nóg. Skimun, sótt­kví og einangrun klára rest. Það vissum við ekki áður en við vitum það núna því við próf­uðum það og það heppn­að­ist. Tvisvar. Ef ekki væri fyrir þrýsti­hóp­ana sem lögðu lagt allt kapp á að hleypa faraldr­inum jafn­fljótt af stað aftur, þá hefði mátt ræða um Covid-19-farald­ur­inn á Íslandi í þátíð allt frá upphafi sumars­ins 2020. Þá væru hér færri ferða­menn, við hefðum fundið upp á einhverju öðru að gera við hús og hendur. Það væri tíma­frek­ara að ferð­ast til og frá land­inu. En af því hefði ekki stafað skortur, engin neyð, engin lífs­hætta. Bubbi þyrfti ekki undan­þágu til að fylla Hörp­una, löggan skipti sér ekki af dansi­böllum. Foreldrar hefðu ekki áhyggjur af því að hleypa börnum í skól­ann. Og einhverjir væru á lífi sem eru það ekki.

Þó ber lítið á þeirri gagn­rýni á ferða­iðn­að­inn að honum sé leyft að „setja þjóð­fé­lagið á hliðina“.

Ég sé ekki að stofufíla­grein­arnar geti þjónað nema einum tilgangi: að skella nægri skömm á tiltekna hópa til að veik­indi eða dauðs­föll í þeirra röðum telj­ist ekki með. Verði þá ekki rútu­fyr­ir­tækj­unum að kenna, brösk­ur­unum, ársreikn­ing­unum, hlut­höf­unum, tals­mönn­unum og ráðherrunum.

Kalt úti. Þvo sér um hendurnar.