Í gær, miðvikudag, vildi ég ganga úr skugga um hvernig sunk cost og sunk cost fallacy er þýtt á íslensku. „Óafturkræfur kostnaður“ var fyrsta þýðingin sem ég fann, sem virðist nákvæm en alls ekki jafn myndræn. Mér þótti ég hafa heyrt „sokkinn kostnaður“ líka, og vildi átta mig hvort það væri viðtekin þýðing og viðurkennd eða þætti letilegt fúsk, svo ég geri það sem ég geri stundum þegar kemur að hugtökum innan fræða, ég takmarkaði google-leit við vefinn skemman.is, sem hýsir lokaritgerðir við íslenska háskóla. Ég sló inn site:skemman.is “sokkinn kostnaður”. Og ég nefni það hér til að gera ljóst að ég var hreint ekki að leita að því sem ég fann.1
Fyrsta ritgerðin sem kom upp heitir Meðferðir við lífslok og dánaraðstoð á Íslandi: Kostnaðargreining. Þetta er BS-ritgerð til 12 eininga, skilað við Hagfræðideild HÍ. Full námsönn telst 30 einingar. 12 eininga ritgerð telst þá 1–2 mánaða vinna. Þar sem hún var samþykkt 13. maí 2020 má því ætla að hún hafi verið skrifuð í fyrstu bylgju Covid-19 faraldursins. Hvort það hefur haft einhver áhrif á andblæ hennar veit ég auðvitað ekki.
Ég ætla ekki að nefna höfundinn á nafn og ekki leiðbeinandann heldur, sem í þessu tilfelli ber þó hugsanlega meiri ábyrgð á nálguninni. Báðar er auðvelt að finna ef einhver vill, en mér þykja persónur þeirra skipta minna máli hér og nú en að þessi texti sé yfirleitt til. Ég myndi jafnvel tala um tímanna tákn ef ég ætti ekki sjálfur bágt með að trúa því að við lifum í reynd jafn kaldrifjaða tíma og textinn gefur til kynna.
Í útdrætti við upphaf ritgerðarinnar kemur fram að markmið hennar sé að „bera saman kostnað núverandi meðferðarúrræða við lífslok og kostnað dánaraðstoðar yrði hún leyfð“. Það er að segja: hversu mikið mætti spara, í heilbrigðiskerfinu, með því að drepa þá sjúklinga sem liggja fyrir dauðanum hvort eð er, frekar en líkna þeim. Sparnaðurinn væri víst töluverður: „Niðurstöður greiningarinnar benda til þess að mikill munur sé á kostnaði við dánaraðstoð samanborið við núverandi meðferðarúrræði. Þar sem núverandi meðferðar úrræði eru um 32,6 m.kr. kostnaðarsamari á mann að meðaltali.“ Höfundur segir „vert að taka til greina þennan viðbótarkostnað með tilliti til ríkjandi fjármagnsskorts í heilbrigðiskerfinu“. Það er: þann vanda sem hingað til hefur verið talað um sem fjárskort heilbrigðiskerfisins mætti að einhverju leyti leysa með því að drepa fólk.
Kostnaðargreiningin sem fylgir er nokkuð ítarleg. Fyrst er athugað hversu lengi er að jafnaði annast um eldri borgara og sjúklinga fram að andláti á ólíkum stofnunum, og hvað felst í þeirri umönnun. Síðan hvaða kostnaður væri af því að drepa þá heldur. Til þess er aðferðinni lýst, svohljóðandi:
„Degi áður en dánaraðstoð er veitt er sett upp innrennslisnál og hún skoluð með 5 ml af 0,9% natríumklóríð (e. sodium chloride), þetta er gert til þess að koma í veg fyrir vandamál og töf við framkvæmd á dánardeginum sjálfum. Áður en dánaraðstoð er veitt þarf fyrst að koma einstaklingnum í dá. Gengið verður út frá því að hérlendis yrði gefið 1000 mg af propofol í æð til framköllunar á dái. Þar sem að sú lyfjagjöf getur verið sársaukafull er nauðsynlegt að gefa 2 ml af 1% lidocaine fyrir fram til deyfingar. Því næst þarf að tryggja að allur skammturinn af propofol hafi verið gefinn með því að veita einstaklingnum 10 ml af 0,9% natríumklóríð. Að lokum er gefið tauga- og vöðvamótahindrandi lyf (e. neuromuscular blocker) sem veldur því að vöðvar líkamans lamast að undanskildu hjartanu. Veldur þetta öndunarstoppi sem síðan leiðir af sér hjartastopp. Lyfið sem er oftast notað við þennan hluta ferlisins er 150 mg af rocuronium bromide. Þá er aftur notast við 10 ml af 0,9% natríumklóríð sem leysi til að tryggja að skammtur hafi verið veittur til fullnustu. Þegar þessu ferli hefur verið lokið ætti ekki að vera nokkur vafi um það að einstaklingurinn sé látinn.“
Ef þetta væri ekki lokaritgerð í hagfræði þá myndi þessi samantekt líklega hringja viðvörunarbjöllum innan lögreglunnar, sem væri líklega – og vonandi – jafnharðan mætt á heimili höfundar með handjárn og búnað til efnagreiningar. En þetta er lokaritgerð í hagfræði og samantektinni fylgir ekki sírenuvæl heldur kostnaðarmat. Natríumklóríð: 13.931 kr. Propofol: 127.356 kr. Lidocaine: 13.645 kr. Rocuronium bromide: 229.320 kr. Alls 384.252 krónur. Í annarri töflu er tekinn saman launakostnaður, alls um 130.428 kr á hvert andlát.
Í ljós kemur að lyfjakostnaður er ekki svo ólíkur eftir því hvor leiðin er valin, að líkna sjúklingi eða drepa hann. Helsti kostnaðurinn við „núverandi meðferðarúrræði“ felst í fjölda legudaga. Ávinningurinn af dánaraðstoð fælist að sama skapi í fækkun legudaga. Lokaorð ritgerðarinnar eru þessi:
„Dánaraðstoð gæti því ýtt undir betri nýtingu fjármuna innan heilbrigðiskerfisins og minna álags vegna skorts á rýmum þar sem legudögum fækkar. Í ljósi umræðna um hvort grundvöllur sé fyrir lögleiðingu á dánaraðstoð hérlendis er vert að taka slíkt til greina, þó vissulega séu önnur sjónarmið en þau hagfræðilegu sem einnig yrði litið til.“
Og það er gott, auðvitað, að hagfræðingarnir skuli nefna þetta, að tilefni sé til að heyra fleiri sjónarmið en þau hagrænu, þegar kemur að sveigjanleika fimmta boðorðsins. Brecht, til dæmis. Ég held það gæti verið ágætt að heyra aðeins í Brecht.
Sokkinn kostnaður reyndist aukaatriði í ritgerðinni, hugtakið birtist aðeins þegar þess var getið að nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnsýslu yrðu ekki teknar með í reikninginn heldur afgreiddar sem „sokkinn kostnaður“. Og ég gleymdi satt að segja hvað ég ætlaði að gera við þetta hugtak hvort eð er.
↑1 | Önnur færsla dagsins og aftur tilefni til að nefna þetta með talninguna: ég hef tekið mið af 11. mars 2020, deginum þegar Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti yfir heimsfaraldri. Og það vill svona til, þegar þetta er skrifað, að ástandið hefur varað í 666 daga. |
---|