Hver er ekki sokk­inn kostn­aður? – hagræð­ing­ar­dagur 666

06.1.2022 ~ 5 mín

Í gær, miðviku­dag, vildi ég ganga úr skugga um hvernig sunk cost og sunk cost fallacy er þýtt á íslensku. „Óaft­ur­kræfur kostn­aður“ var fyrsta þýðingin sem ég fann, sem virð­ist nákvæm en alls ekki jafn mynd­ræn. Mér þótti ég hafa heyrt „sokk­inn kostn­aður“ líka, og vildi átta mig hvort það væri viðtekin þýðing og viður­kennd eða þætti leti­legt fúsk, svo ég geri það sem ég geri stundum þegar kemur að hugtökum innan fræða, ég takmark­aði google-leit við vefinn skemman.is, sem hýsir loka­rit­gerðir við íslenska háskóla. Ég sló inn site:skemman.is “sokk­inn kostn­aður”. Og ég nefni það hér til að gera ljóst að ég var hreint ekki að leita að því sem ég fann.1

Fyrsta ritgerðin sem kom upp heitir Meðferðir við lífs­lok og dánar­að­stoð á Íslandi: Kostn­að­ar­grein­ing. Þetta er BS-ritgerð til 12 eininga, skilað við Hagfræði­deild HÍ. Full námsönn telst 30 einingar. 12 eininga ritgerð telst þá 1–2 mánaða vinna. Þar sem hún var samþykkt 13. maí 2020 má því ætla að hún hafi verið skrifuð í fyrstu bylgju Covid-19 farald­urs­ins. Hvort það hefur haft einhver áhrif á andblæ hennar veit ég auðvitað ekki.

Ég ætla ekki að nefna höfund­inn á nafn og ekki leið­bein­and­ann heldur, sem í þessu tilfelli ber þó hugs­an­lega meiri ábyrgð á nálg­un­inni. Báðar er auðvelt að finna ef einhver vill, en mér þykja persónur þeirra skipta minna máli hér og nú en að þessi texti sé yfir­leitt til. Ég myndi jafn­vel tala um tímanna tákn ef ég ætti ekki sjálfur bágt með að trúa því að við lifum í reynd jafn kaldrifjaða tíma og text­inn gefur til kynna.

Í útdrætti við upphaf ritgerð­ar­innar kemur fram að markmið hennar sé að „bera saman kostnað núver­andi meðferð­ar­úr­ræða við lífs­lok og kostnað dánar­að­stoðar yrði hún leyfð“. Það er að segja: hversu mikið mætti spara, í heil­brigðis­kerf­inu, með því að drepa þá sjúk­linga sem liggja fyrir dauð­anum hvort eð er, frekar en líkna þeim. Sparn­að­ur­inn væri víst tölu­verður: „Niður­stöður grein­ing­ar­innar benda til þess að mikill munur sé á kostn­aði við dánar­að­stoð saman­borið við núver­andi meðferð­ar­úr­ræði. Þar sem núver­andi meðferðar úrræði eru um 32,6 m.kr. kostn­að­ar­sam­ari á mann að meðal­tali.“ Höfundur segir „vert að taka til greina þennan viðbót­ar­kostnað með tilliti til ríkj­andi fjár­magns­skorts í heil­brigðis­kerf­inu“. Það er: þann vanda sem hingað til hefur verið talað um sem fjár­skort heil­brigðis­kerf­is­ins mætti að einhverju leyti leysa með því að drepa fólk.

Kostn­að­ar­grein­ingin sem fylgir er nokkuð ítar­leg. Fyrst er athugað hversu lengi er að jafn­aði annast um eldri borg­ara og sjúk­linga fram að andláti á ólíkum stofn­unum, og hvað felst í þeirri umönnun. Síðan hvaða kostn­aður væri af því að drepa þá heldur. Til þess er aðferð­inni lýst, svohljóðandi:

„Degi áður en dánar­að­stoð er veitt er sett upp innrennslis­nál og hún skoluð með 5 ml af 0,9% natríum­klóríð (e. sodium chloride), þetta er gert til þess að koma í veg fyrir vanda­mál og töf við fram­kvæmd á dánar­deg­inum sjálfum. Áður en dánar­að­stoð er veitt þarf fyrst að koma einstak­lingnum í dá. Gengið verður út frá því að hérlendis yrði gefið 1000 mg af propofol í æð til fram­köll­unar á dái. Þar sem að sú lyfja­gjöf getur verið sárs­auka­full er nauð­syn­legt að gefa 2 ml af 1% lidocaine fyrir fram til deyf­ingar. Því næst þarf að tryggja að allur skammt­ur­inn af propofol hafi verið gefinn með því að veita einstak­lingnum 10 ml af 0,9% natríum­klóríð. Að lokum er gefið tauga- og vöðva­móta­hindr­andi lyf (e. neuromuscular blocker) sem veldur því að vöðvar líkam­ans lamast að undan­skildu hjart­anu. Veldur þetta öndun­ar­stoppi sem síðan leiðir af sér hjarta­stopp. Lyfið sem er oftast notað við þennan hluta ferl­is­ins er 150 mg af rocuronium bromide. Þá er aftur notast við 10 ml af 0,9% natríum­klóríð sem leysi til að tryggja að skammtur hafi verið veittur til fulln­ustu. Þegar þessu ferli hefur verið lokið ætti ekki að vera nokkur vafi um það að einstak­ling­ur­inn sé látinn.“

Ef þetta væri ekki loka­rit­gerð í hagfræði þá myndi þessi saman­tekt líklega hringja viðvör­un­ar­bjöllum innan lögregl­unnar, sem væri líklega – og vonandi – jafn­harðan mætt á heim­ili höfundar með hand­járn og búnað til efna­grein­ingar. En þetta er loka­rit­gerð í hagfræði og saman­tekt­inni fylgir ekki sírenu­væl heldur kostn­að­ar­mat. Natríum­klóríð: 13.931 kr. Propofol: 127.356 kr. Lidocaine: 13.645 kr. Rocuronium bromide: 229.320 kr. Alls 384.252 krónur. Í annarri töflu er tekinn saman launa­kostn­aður, alls um 130.428 kr á hvert andlát.

Í ljós kemur að lyfja­kostn­aður er ekki svo ólíkur eftir því hvor leiðin er valin, að líkna sjúk­lingi eða drepa hann. Helsti kostn­að­ur­inn við „núver­andi meðferð­ar­úr­ræði“ felst í fjölda legu­daga. Ávinn­ing­ur­inn af dánar­að­stoð fælist að sama skapi í fækkun legu­daga. Loka­orð ritgerð­ar­innar eru þessi:

„Dánar­að­stoð gæti því ýtt undir betri nýtingu fjár­muna innan heil­brigðis­kerf­is­ins og minna álags vegna skorts á rýmum þar sem legu­dögum fækkar. Í ljósi umræðna um hvort grund­völlur sé fyrir lögleið­ingu á dánar­að­stoð hérlendis er vert að taka slíkt til greina, þó vissu­lega séu önnur sjón­ar­mið en þau hagfræði­legu sem einnig yrði litið til.“

Og það er gott, auðvitað, að hagfræð­ing­arnir skuli nefna þetta, að tilefni sé til að heyra fleiri sjón­ar­mið en þau hagrænu, þegar kemur að sveigj­an­leika fimmta boðorðs­ins. Brecht, til dæmis. Ég held það gæti verið ágætt að heyra aðeins í Brecht.

Sokk­inn kostn­aður reynd­ist auka­at­riði í ritgerð­inni, hugtakið birt­ist aðeins þegar þess var getið að nauð­syn­legar breyt­ingar á lögum og stjórn­sýslu yrðu ekki teknar með í reikn­ing­inn heldur afgreiddar sem „sokk­inn kostn­aður“. Og ég gleymdi satt að segja hvað ég ætlaði að gera við þetta hugtak hvort eð er.

References
1 Önnur færsla dags­ins og aftur tilefni til að nefna þetta með taln­ing­una: ég hef tekið mið af 11. mars 2020, deginum þegar Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­unin lýsti yfir heims­far­aldri. Og það vill svona til, þegar þetta er skrifað, að ástandið hefur varað í 666 daga.