„Árið 2021 er fimmta árið í röð án þess að það verði banaslys á sjó hér við Ísland.“ Á þessum orðum hefst grein sem Vísir birti á fimmtudag. Henni fylgir súlurit þar sem sjá má hvernig banaslysum á sjó hefur fækkað markvisst frá því upp úr 1970, þegar þau voru 30 til 65 á ári, í eitt til níu um aldamót, niður í núll til fjögur undanliðinn áratug. Og þar af ekkert, eins og greinarhöfundur segir, síðustu fimm ár. Það er magnað.
Það er meðal annars magnað vegna þess að frá hreinu hagrænu sjónarmiði er sennilegt að síðustu metrarnir í baráttunni skili ekki ávinningi. Lífsgæðavegin lífár heitir mælieiningin í heilsuhagfræðinni, faginu sem verðleggur okkur. Fyrstu aðgerðirnar hafa bjargað mörgum með tiltölulega litlum tilkostnaði. Síðustu skrefin hafa bjargað fáum til viðbótar með miklum kostnaði. Það er mjög ólíklegt að til sé reiknilíkan þar sem þessi síðustu skref svara kostnaði. Og samt hefur það verið gert. Sem þýðir að einhver hefur smyglað öðru viðmiði inn í kerfið.
„Við erum komin með nýja björgunarbáta, það er talstöð um borð, gps-tæki, neyðarblys og kex, þyrlan er í góðu standi, flugmennirnir í góðri þjálfun, sjómennirnir syndir, vaktirnar hafa styst, hvíldartímarnir lengst, hlífðarfötin eru heil, allir skór vel sólaðir. Við settum upp þetta handrið hérna eftir síðustu skoðun og við förum gegnum þennan tékklista þeirra á hverri vakt, á nú í alvöru að senda allt liðið aftur á skyndihjálparnámskeið?“ – hefur einhver einhvern tíma spurt. „Er ekki komið nóg? Hvað með andlega álagið af þessum viðbúnaði öllum? Við þurfum að endurheimta eðlilegt líf, það er kominn tími til að við lærum að lifa með brælunni!“
Og einhver hefur svarað: „Djöfuls rugl er þetta, auðvitað fara þau á námskeiðið.“
Einhver hefur þannig sýnt meira vit og hugrekki en nú þykir við hæfi andspænis heimsfaraldrinum.
Og þess vegna er um þessar mundir hættulegra að kenna börnum dönsku í grunnskóla en að veiða þorsk á togara. Hættulegra í þeim skilningi að valda frekar alvarlegu heilsutjóni og dauða.
Nei, veröldin var ekki hættulaus þar til pestin kom til sögunnar. Og kapítalismanum var ekki annt um fólk. Að manneskjum sé kastað í ruslið í þágu ársreikninga er jafn hversdagslegt og hvert annað afbrot. En eins og hvert annað afbrot er það líka oftast einhvern veginn falið. Haldið í fjarska, haldið utan fjölmiðla, haldið neitanlegu. Því hvenær sem það verður alveg sýnilegt þykir það hneisa. Og það sem þykir hneisa, það er dýrt.
Að gera afbrotið að opinskáu, opinberu viðmiði. Ekki bara láta fólk deyja að því marki sem þykir hagkvæmt, heldur að segja það upphátt: já, við látum fólk deyja að því marki sem það er hagkvæmt. Að segja það upphátt, að gera ráð fyrir að því verði ekki andmælt, og að það reynist rétt. Einhvers konar keðjuverkandi siðferðisþrot. Að heilt samfélag fallist á þetta viðmið, samfélög, heimshluti. Einhver nýr staður, ný forherðing, nýtt þrep í … hverju? Samfélagslegri sjálfsfyrirlitningu?
Jafnvel áður en orðið vinnuvernd hafði nokkurn tíma heyrst í íslenskum sjávarútvegi hefðu eigendur útgerðanna ekki getað sagt þetta svona. „Menn sögðu einfaldlega að sjómennskan væri hættulegt starf og sjómenn ættu að fara varlega,“ rifjar Svanur Guðmundsson upp í greininni á Vísi. „Lítið væri við þessu að gera.“
Menn sögðu ekki: við gætum gert eitthvað í þessu en það myndi ekki svara kostnaði.
Að okkur eigi nú að vera svona tamt að reikna sjálf okkur og hvert annað burt. Að okkur reynist það svona létt. Að við föllumst á þá skyldu að brosa á meðan. Kannski tíðkaðist það hér í barbaríinu fyrir tíma mannréttindayfirlýsingarinnar og velferðarríkjanna. Kannski. En í heimi okkar sem nú lifum er þetta nýtt af nálinni. Nýtt, ömurlegt, og alls ekki ljóst hvað ætti að vera á því byggjandi.