Lög um sótt­varnir krefja kenn­ara um að fella niður skólahald

26.1.2022 ~ 3 mín

„Þúsundir losna úr sótt­kví á miðnætti“ segir fyrir­sögn RÚV nú á þriðju­dag, og vísar til ákvörð­unar sem stjórn­völd tilkynntu þann morgun. Þær þúsundir sem losna úr sótt­kví eru víst ekki síst skóla­börn og kenn­arar, sem verður þá frjálst að snúa aftur í skóla­stofur og draga andann hvort úr öðru marga klukku­tíma á dag. Önnur frétt bar sama dag fyrir­sögn­ina „Skóla­fólk taki þátt í að ná hjarð­ónæmi“ og vísaði til samtals við sviðs­stjóra fræðslu­sviðs á Norð­ur­landi, sem virð­ist líta á það sem spurn­ingu um stolt eða ábyrgð starfs­stétt­ar­innar að verða fyrir veiru­smiti. Þriðja frétt sama miðils, sama dag, bar fyrir­sögn­ina „Býst við fjölgun smita í skólum og hjá barna­fjöl­skyldum“. Þar er vísað til sótt­varna­læknis, sem í minn­is­blaði að baki þessum breyt­ingum hvetur kenn­ara lands­ins „til að gæta vel að sótt­vörnum, nota veiru­heldar grímur og andlits­hlífar sérstak­lega ef þeir hafa ekki fengið örvunarskammt“.

Ekkert stjórn­mála­afl finnur fyrir því í næstu kosn­ingum hvaða afleið­ingar ákvarð­anir þess gætu haft eftir tíu eða tutt­ugu ár. Í skoð­ana­könn­unum og símtölum er jafn­vel ólík­legt að beri mikið á mögu­legum afleið­ingum til lengri tíma en næstu ferða­manna­ver­tíðar. Því er póli­tískur hvati til að umgang­ast farald­ur­inn af ítrustu varkárni ekki til staðar. Og þó að ekkert raun­hag­kerfi njóti góðs af því að lang­veikum fjölgi veru­lega, þá væri glóru­laust að ætla einka­fyr­ir­tækjum að taka meira tillit til almanna­hags en stjórn­völd reyn­ast fær um. Ef ríkis­stjórnir vilja það ekki og mark­að­ur­inn getur það ekki, hvað er þá eftir? Jú, lögin.

Á mánu­dag sagði fjár­mála­ráð­herra „að lögin kveði á um að okkur beri að aflétta þessum takmörk­unum“. Það varð líka að fyrir­sögn. Og svona má að minnsta kosti túlka Sótt­varna­lög, að þau krefj­ist þess­ara aflétt­inga. Svona má túlka þau, vegna ákvæðis sem síðasta ríkis­stjórn ráðherr­ans bætti við lögin, vorið 2021: „Opin­berum sótt­varna­ráð­stöf­unum skal aflétta svo fljótt sem verða má“ er einn nýju fyrir­var­anna sem var þá komið þar fyrir. Opin­berum sótt­vörnum má nú „ekki beita nema brýn nauð­syn krefji til verndar heilsu og lífi manna“, við beit­ingu þeirra „skal gæta meðal­hófs og jafn­ræðis“ og ekki „stöðva atvinnu­rekstur nema að því marki sem starf­semin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar“. Ekkert af þessu hljómar út af fyrir sig illa – jafn­ræði og meðal­hóf skipta máli og hver vill vera læstur inni? – þar til hið raun­veru­lega nota­gildi nýmæl­anna birt­ist í því að ráðherra getur stefnt öllum eldri kenn­urum lands­ins í lífs­hættu og fríað sig um leið ábyrgð á því, hendur hans séu bundnar, lögin krefji hann um þetta.

Á sama tíma og nýir fyrir­varar laganna lágmarka þannig svig­rúmið sem gefst til sameig­in­legra sótt­varna, þá er almenn­ingi í land­inu hins vegar lögð óskil­yrt krafa á herðar. Hvert og eitt okkar ber, samkvæmt lögunum, takmarka­lausa ábyrgð á að koma í veg fyrir útbreiðslu smit­sjúk­dóma. Eða ég veit ekki hvernig ætti öðru­vísi að skilja fyrstu setn­ingu þess kafla laganna sem snýst um skyldur einstak­linga. „Það er almenn skylda,“ segir þar „að gjalda sem mesta varúð við smit­sjúk­dómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem fram­kvæm­an­legt er.“

Skyldur stjórn­valda eru þannig takmark­aðar og skil­yrtar við hags­muni fyrir­tækja en skyldur einstak­linga takmarka­lausar og algerar. Stjórn­völdum er skylt að stefna kenn­urum í umtals­verða hættu, segir ráðherra, en kenn­urum er á móti skylt, segja lögin, að verj­ast þeirri hættu með öllum tiltækum ráðum. Allir eru löngu orðnir leiðir á að heyra orðið nýfrjáls­hyggja en þessi tilfærsla laga­legrar ábyrgðar, í miðjum heims­far­aldri, er eitt­hvert myrk­asta múv þeirrar seig­hrynj­andi hugmyndafræði.

Eins og fugl­inn söng er þó glufa í öllu, þar skín ljósið inn. Líka hér.

Ég sé ekki hvernig kenn­arar geta uppfyllt þá laga­legu skyldu „að gjalda sem mesta varúð við smit­sjúk­dómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra“ öðru­vísi en að skrópa í skól­ann. Og ég held í fullri alvöru að þeir ættu að fara í verk­fall. Eitt er að forrétt­inda­stéttir lands­ins fyrir­líti þig, það er sjálf­gefið. En ekki innbyrða fyrir­litn­ing­una þannig að þú sjáir um að fram­kvæma hana fyrir þeirra hönd. Heilsu þinni er ekki fórn­andi fyrir rútu­dekk. Ef launa­hækk­anir eru þess virði að berj­ast fyrir þeim, þá hlýtur líf þitt og heilsa, forsenda þess að njóta nokk­urra kjara yfir­leitt, að vera það líka.