„Þúsundir losna úr sóttkví á miðnætti“ segir fyrirsögn RÚV nú á þriðjudag, og vísar til ákvörðunar sem stjórnvöld tilkynntu þann morgun. Þær þúsundir sem losna úr sóttkví eru víst ekki síst skólabörn og kennarar, sem verður þá frjálst að snúa aftur í skólastofur og draga andann hvort úr öðru marga klukkutíma á dag. Önnur frétt bar sama dag fyrirsögnina „Skólafólk taki þátt í að ná hjarðónæmi“ og vísaði til samtals við sviðsstjóra fræðslusviðs á Norðurlandi, sem virðist líta á það sem spurningu um stolt eða ábyrgð starfsstéttarinnar að verða fyrir veirusmiti. Þriðja frétt sama miðils, sama dag, bar fyrirsögnina „Býst við fjölgun smita í skólum og hjá barnafjölskyldum“. Þar er vísað til sóttvarnalæknis, sem í minnisblaði að baki þessum breytingum hvetur kennara landsins „til að gæta vel að sóttvörnum, nota veiruheldar grímur og andlitshlífar sérstaklega ef þeir hafa ekki fengið örvunarskammt“.
Ekkert stjórnmálaafl finnur fyrir því í næstu kosningum hvaða afleiðingar ákvarðanir þess gætu haft eftir tíu eða tuttugu ár. Í skoðanakönnunum og símtölum er jafnvel ólíklegt að beri mikið á mögulegum afleiðingum til lengri tíma en næstu ferðamannavertíðar. Því er pólitískur hvati til að umgangast faraldurinn af ítrustu varkárni ekki til staðar. Og þó að ekkert raunhagkerfi njóti góðs af því að langveikum fjölgi verulega, þá væri glórulaust að ætla einkafyrirtækjum að taka meira tillit til almannahags en stjórnvöld reynast fær um. Ef ríkisstjórnir vilja það ekki og markaðurinn getur það ekki, hvað er þá eftir? Jú, lögin.
Á mánudag sagði fjármálaráðherra „að lögin kveði á um að okkur beri að aflétta þessum takmörkunum“. Það varð líka að fyrirsögn. Og svona má að minnsta kosti túlka Sóttvarnalög, að þau krefjist þessara afléttinga. Svona má túlka þau, vegna ákvæðis sem síðasta ríkisstjórn ráðherrans bætti við lögin, vorið 2021: „Opinberum sóttvarnaráðstöfunum skal aflétta svo fljótt sem verða má“ er einn nýju fyrirvaranna sem var þá komið þar fyrir. Opinberum sóttvörnum má nú „ekki beita nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna“, við beitingu þeirra „skal gæta meðalhófs og jafnræðis“ og ekki „stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar“. Ekkert af þessu hljómar út af fyrir sig illa – jafnræði og meðalhóf skipta máli og hver vill vera læstur inni? – þar til hið raunverulega notagildi nýmælanna birtist í því að ráðherra getur stefnt öllum eldri kennurum landsins í lífshættu og fríað sig um leið ábyrgð á því, hendur hans séu bundnar, lögin krefji hann um þetta.
Á sama tíma og nýir fyrirvarar laganna lágmarka þannig svigrúmið sem gefst til sameiginlegra sóttvarna, þá er almenningi í landinu hins vegar lögð óskilyrt krafa á herðar. Hvert og eitt okkar ber, samkvæmt lögunum, takmarkalausa ábyrgð á að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma. Eða ég veit ekki hvernig ætti öðruvísi að skilja fyrstu setningu þess kafla laganna sem snýst um skyldur einstaklinga. „Það er almenn skylda,“ segir þar „að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er.“
Skyldur stjórnvalda eru þannig takmarkaðar og skilyrtar við hagsmuni fyrirtækja en skyldur einstaklinga takmarkalausar og algerar. Stjórnvöldum er skylt að stefna kennurum í umtalsverða hættu, segir ráðherra, en kennurum er á móti skylt, segja lögin, að verjast þeirri hættu með öllum tiltækum ráðum. Allir eru löngu orðnir leiðir á að heyra orðið nýfrjálshyggja en þessi tilfærsla lagalegrar ábyrgðar, í miðjum heimsfaraldri, er eitthvert myrkasta múv þeirrar seighrynjandi hugmyndafræði.
Eins og fuglinn söng er þó glufa í öllu, þar skín ljósið inn. Líka hér.
Ég sé ekki hvernig kennarar geta uppfyllt þá lagalegu skyldu „að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra“ öðruvísi en að skrópa í skólann. Og ég held í fullri alvöru að þeir ættu að fara í verkfall. Eitt er að forréttindastéttir landsins fyrirlíti þig, það er sjálfgefið. En ekki innbyrða fyrirlitninguna þannig að þú sjáir um að framkvæma hana fyrir þeirra hönd. Heilsu þinni er ekki fórnandi fyrir rútudekk. Ef launahækkanir eru þess virði að berjast fyrir þeim, þá hlýtur líf þitt og heilsa, forsenda þess að njóta nokkurra kjara yfirleitt, að vera það líka.