Ég las Pláguna eftir Camus. Eða las, þetta er voða loðið … augu mín runnu yfir öll orðin í réttri röð, með hléum, sumt meðtók ég af nokkurri árvekni, annað ekki. Einbeiting ekki í hámarki. En fyrst ég byrjaði á byrjuninni og hætti ekki fyrr en við endann, þá hef ég eftir sem áður unnið mér inn réttinn til að segja það svona: ég las Pláguna.1
Sagan í stuttu máli: borg á stærð við Reykjavík um miðja 20. öld. Sjúkdómur brýst út – reynist vera Plágan. Borgin sett í sóttkví sem varir í marga mánuði. Margir deyja. Svo líður faraldurinn undir lok, dauðsföllunum linnir, stjórnvöld afnema sóttkvína, þau sem lifðu af og gengu ekki af göflunum hitta ástvini sína aftur.
Þetta er ein af þessum bókum sem mér skilst að maður eigi að vera löngu búinn að lesa – sem mér skildist raunar þegar fyrir löngu að ég ætti að vera löngu búinn að lesa.
Á meðan ég las var eitt og annað sem vakti áhuga minn fyrir hvað það var kunnuglegt. Eftir lesturinn er það fyrsta sem situr í mér hins vegar reginmunur á þeirri sögu sem sögð er í bókinni og þeirri sem við lifum um þessar mundir: sögunni í bókinni lýkur. Þó að sögumaðurinn minnist á að hann viti það sem aðrir gætu vitað ef þeir flettu því upp, að Plágunni lýkur aldrei fyrir fullt og allt, heldur liggur í leyni og sætir færis að stinga upp kollinum aftur, þá lýkur þó þessum tiltekna faraldri, þessu tiltekna ástandi, ekki aðeins sóttkvínni og ekki aðeins óttanum heldur tilefni þeirra. Því lýkur öllu í senn og þar með er bókinni líka lokið.
Enginn er óbreyttur en lífið heldur áfram.
Að því leyti er ekki óhugsandi að öfunda sögupersónur Plágunnar.
Ég er víst ekki einn um að hafa nýlega orðið hugsað til augnabliksins þegar George W. Bush, þá Bandaríkjaforseti, lýsti yfir sigri í Íraksstríðinu, 1. maí 2003, rúmum mánuði eftir að innrásin hófst. Í reynd voru þá átta ár eftir af átökunum, sem stóðu til ársins 2011, um 80 sinnum lengur en hafði liðið þegar hinn vongóði forseti lýsti yfir að það mission væri accomplished.
Nú virðast Vesturlönd hafa ákveðið, hérumbil í sameiningu, að skynsamlegast sé að leyfa veirunni að fara sem víðast um fram að vori – að fullnaðarsigur okkar náist með því að eftirláta andstæðingnum eina almennilega leiftursókn. Það er í öllu falli nýstárleg strategía. Þeir sérfræðingar sem mér sýnast marktækir segja hana ekki aðeins siðferðilega óverjandi vegna fyrirsjáanlegs mannfalls og heilsutjóns, heldur vafasamt að nokkur ávinningur verði af flóðbylgjunni enda sé hjarðónæmi óskhyggja. Það sem drepur þig ekki gerir þig ekki endilega sterkari, segja þau, vísbendingar séu um að hver sýking sé meira í ætt við dropann sem holar steininn.
Einhver verður þá að minnsta kosti reynslunni ríkari. Vesturlönd reyndust ekki tilbúin að fórna rútufyrirtækjum til að bjarga mannslífum. En þau voru fús að leggja sjálf sig að veði í þessari viðamiklu samanburðartilraun, kasta sér á eldinn í þágu vísindanna. Það er eitthvað.
↑1 | Ég ætti að hafa orð á þessu með dagana og talninguna í titlinum: ég hef tekið mið af 11. mars 2020, deginum þegar Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti yfir heimsfaraldri. Það vill þá svona til, þegar þetta er skrifað, að við höfum nú lifað 666 daga í því ástandi. |
---|