„Mission Accomplished“-dagur 666

06.1.2022 ~ 3 mín

Ég las Plág­una eftir Camus. Eða las, þetta er voða loðið … augu mín runnu yfir öll orðin í réttri röð, með hléum, sumt meðtók ég af nokk­urri árvekni, annað ekki. Einbeit­ing ekki í hámarki. En fyrst ég byrj­aði á byrj­un­inni og hætti ekki fyrr en við endann, þá hef ég eftir sem áður unnið mér inn rétt­inn til að segja það svona: ég las Plág­una.1

Sagan í stuttu máli: borg á stærð við Reykja­vík um miðja 20. öld. Sjúk­dómur brýst út – reyn­ist vera Plágan. Borgin sett í sótt­kví sem varir í marga mánuði. Margir deyja. Svo líður farald­ur­inn undir lok, dauðs­föll­unum linnir, stjórn­völd afnema sótt­kvína, þau sem lifðu af og gengu ekki af göfl­unum hitta ástvini sína aftur.

Þetta er ein af þessum bókum sem mér skilst að maður eigi að vera löngu búinn að lesa – sem mér skild­ist raunar þegar fyrir löngu að ég ætti að vera löngu búinn að lesa.

Á meðan ég las var eitt og annað sem vakti áhuga minn fyrir hvað það var kunn­ug­legt. Eftir lest­ur­inn er það fyrsta sem situr í mér hins vegar regin­munur á þeirri sögu sem sögð er í bókinni og þeirri sem við lifum um þessar mundir: sögunni í bókinni lýkur. Þó að sögu­mað­ur­inn minn­ist á að hann viti það sem aðrir gætu vitað ef þeir flettu því upp, að Plág­unni lýkur aldrei fyrir fullt og allt, heldur liggur í leyni og sætir færis að stinga upp koll­inum aftur, þá lýkur þó þessum tiltekna faraldri, þessu tiltekna ástandi, ekki aðeins sótt­kvínni og ekki aðeins óttanum heldur tilefni þeirra. Því lýkur öllu í senn og þar með er bókinni líka lokið.

Enginn er óbreyttur en lífið heldur áfram.

Að því leyti er ekki óhugs­andi að öfunda sögu­per­sónur Plág­unnar.

Ég er víst ekki einn um að hafa nýlega orðið hugsað til augna­bliks­ins þegar George W. Bush, þá Banda­ríkja­for­seti, lýsti yfir sigri í Íraks­stríð­inu, 1. maí 2003, rúmum mánuði eftir að innrásin hófst. Í reynd voru þá átta ár eftir af átök­unum, sem stóðu til ársins 2011, um 80 sinnum lengur en hafði liðið þegar hinn vongóði forseti lýsti yfir að það mission væri accomplis­hed.

Nú virð­ast Vest­ur­lönd hafa ákveðið, hérumbil í samein­ingu, að skyn­sam­leg­ast sé að leyfa veirunni að fara sem víðast um fram að vori – að fulln­að­ar­sigur okkar náist með því að eftir­láta andstæð­ingnum eina almenni­lega leift­ur­sókn. Það er í öllu falli nýstár­leg strategía. Þeir sérfræð­ingar sem mér sýnast mark­tækir segja hana ekki aðeins siðferði­lega óverj­andi vegna fyrir­sjá­an­legs mann­falls og heilsutjóns, heldur vafa­samt að nokkur ávinn­ingur verði af flóð­bylgj­unni enda sé hjarð­ónæmi óskhyggja. Það sem drepur þig ekki gerir þig ekki endi­lega sterk­ari, segja þau, vísbend­ingar séu um að hver sýking sé meira í ætt við drop­ann sem holar steininn.

Einhver verður þá að minnsta kosti reynsl­unni ríkari. Vest­ur­lönd reynd­ust ekki tilbúin að fórna rútu­fyr­ir­tækjum til að bjarga manns­lífum. En þau voru fús að leggja sjálf sig að veði í þess­ari viða­miklu saman­burð­ar­tilraun, kasta sér á eldinn í þágu vísind­anna. Það er eitthvað.

References
1 Ég ætti að hafa orð á þessu með dagana og taln­ing­una í titl­inum: ég hef tekið mið af 11. mars 2020, deginum þegar Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­unin lýsti yfir heims­far­aldri. Það vill þá svona til, þegar þetta er skrifað, að við höfum nú lifað 666 daga í því ástandi.