Rauðar línur – trölla­dagur 667

07.1.2022 ~ 6 mín

Blogg er auðvitað ekki þess háttar vett­vangur að það sem þar birt­ist þurfi að hafa neitt upp á sig. Ég gæti þess vegna birt eintóm grein­ar­merki hér næsta árið án þess að þurfa að svara fyrir það. Nema þá að ég færi sjálfur að undr­ast það og krefja mig skýr­inga. Sem hæfir kannski ágæt­lega á föstu­degi: Hvað er ég að gera þegar ég skrifa hér hverja færsl­una á fætur annarri um smit­sjúk­dóm? Hvað held ég að það hafi upp á sig?

Kost­ur­inn við að skrifa frekar en tala bara, hvað þá hugsa í hljóði, er að þá eru minni líkur á að maður hlaupi bara í hringi um sama þrástefið. Þegar vel lætur, í öllu falli. Teoretískt.

Að því sögðu er hér auðvitað þrástef. Það er þetta: að við gætum verið að tækla farald­ur­inn allt öðru­vísi. „Gætum“ felur hér ekki í sér eintóma hugmynd, heldur raun­veru­legt val, sem birt­ist í öðrum löndum. Kína, Nýja Sjáland, Hong Kong, Tævan – í þessum löndum, meðal annarra, hefur fjöldi dauðs­falla verið lægri en á Íslandi, miðað við íbúa­fjölda. Þar er smitum nú haldið nálægt núlli, sem þýðir að í flestu tilliti getur flest fólk þar frekar um frjálst höfuð strokið en hér.

Ekki svo að skilja að hingað til hafa dauðs­föll verið einna fæst á Íslandi, meðal Vest­ur­landa. Við erum í fremstu röð í riðl­inum. Enda snýr mögu­leg krítík ekki að þessu tiltekna landi, einu sér, heldur heims­hlut­anum og ríkj­andi hugmynda­fræði, eins og það hefur stundum verið kallað: safn og kerfi þeirra hugmynda sem hafa skotið svo föstum rótum að þær koma okkur ekki lengur fyrir sjónir sem hugmyndir heldur eitt­hvað sjálf­gefið, nálægt nátt­úru­lög­máli. Þyngd­araflið er ekki háð hugmyndum okkar. Ef þú sleppur þungum hlut dettur hann niður. En flestu öðru ráðum við.

Þar á meðal faraldr­inum. Ef ekki væri fyrir ríkin sem fást við hann á annan veg mætti efast um það. Ef öll ríki heims beittu sömu aðferð í þágu sama mark­miðs þá kæmi það okkur ef til vill fyrir sjónir sem óhjá­kvæmi­legt. En vegna þess að þau gera það ekki þá blasir við að þó að allt hafi þetta byrjað sem einhvers konar nátt­úru­hörm­ungar þá er farald­ur­inn í dag, í fimmtu bylgju hans í okkar heims­hluta, nær því að vera hrein­ræktuð menn­ing­ar­af­urð. Afsprengi ákvarð­ana, stefnu og mistaka. Hann er gerður úr brestum okkar og vönt­unum. Ríkj­andi hugmynda­fræði holdi tekin (ef hold má kalla, veirur eru svo smáar að allar SARS-CoV‑2 veirur heims­ins kæmust víst fyrir í nokkrum bónuspokum).

Eitt grund­vall­ar­at­riði í ríkj­andi hugmynda­fræði hér er hugmyndin um mælan­leika, að öllum viðfangs­efnum sé best að mæta sem mælan­legum og útreikn­an­legum. Frá þeim sjón­ar­hóli birt­ast allar rauðar línur og afdrátt­ar­leysi sem eitt­hvað vanstillt, sem öfgar. Þannig þykir til marks um yfir­veg­aða dómgreind að reikna út hversu mörg dauðs­föll samfé­lag getur fall­ist á af völdum farald­urs, á móti öðrum kostn­aði. Þokka­legur, notaður bíll getur kostað á við tíu þúsund epli. Innan sama ramma getur eins manns dauði jafn­ast á við óþæg­indi tíu þúsund manns af því að ganga með grímu eða komast ekki á tónleika.

Ég hef það þá fyrir vinnu­til­gátu að samfé­lag sem byggir á mælan­leik­anum einum feli í sér alvar­lega bresti, að sumt sé og eigi að vera ósam­mæl­an­legt og því sé bæði vit í og þörf fyrir afdrátt­ar­lausar, rauðar línur. Ég held að farald­ur­inn sé veiga­mesta tilefni sem lengi hefur komið upp til að athuga það.

Ég hef það líka fyrir vinnu­til­gátu að við búum undir oki mynda. Nánar til tekið mynda af hinu góða lífi. Að hugmyndir okkar um hið góða líf – breitt svið, sem nær frá sund­ferðum, sólar­ströndum, til lista­sýn­inga, tónleika, kaffi­húsa­ferða og víðar – að myndin af því sem maður nýtur og gefur lífi manns gildi geti á stundum reynst sterk­ara afl en sú spurn­ing hvort maður njóti þess og hvort það gefur lífi manns gildi. Mynd­irnar geti jafn­vel reynst sterk­ara afl en það lykil­inn­sæi lífver­unnar að forð­ast lífs­hættu. Strengja­kvart­ett­inn sem sagt er að hafi haldið áfram að spila um borð í Titanic á meðan skipið sökk ber með sér ákveðna fegurð og einhverjum finnst kannski nógu mikið til daglegs lífs á Vest­ur­löndum koma til að líta forgangs­röðun hvers­dags­ins í því fagur­fræði­lega ljósi, en sjálfur hneig­ist ég heldur til að líta á hana sem lífs­hættu­lega þráhyggju.

Þriðja vinnu­til­gátan snýst um hreina efnis­lega hags­muni. Fjár­hags­legir hags­munir allra sem eiga yfir­leitt nokk­urra fjár­hags­legra hags­muna að gæta felast í því, á undan öllu öðru, að lífið gangi sinn vana­gang. Að launa­fólk mæti til vinnu og skapi arð, að lántak­endur greiði af lánum, leigj­endur greiði leigu, og svo fram­vegis. Þessi reglu­bundni taktur, án hans stand­ast engir útreikn­ingar. Og hann hvílir á nokkrum lykil­stoðum. Foreldrar komast ekki til vinnu, til dæmis, nema börn þeirra komist í skóla. Jafn­vel skamm­sýn­ustu hags­muna­hafar í þessu hagkerfi sjá mikil­vægi takt­fest­unnar. Vinnu­til­gátan er þá sú að áhrif þess­ara hags­muna á alla umfjöllun og upplýs­inga­miðlun séu veru­leg, fjöldi hags­muna­að­ila rói öllum árum að því að beina athygli frá hverju því sem gæti sett daglegt líf úr skorðum. Ef tveir vísinda­menn tala sama daginn, annar segir að fólki sé óhætt að anda rólega og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, hinn að rétt­ast væri að loka allri starf­semi í þrjár vikur til að binda enda á farald­ur­inn, sé eigin­lega óhugs­andi að sá seinni njóti sömu áheyrnar og sá fyrri.

Fjórða vinnu­til­gátan er loks eigin­lega alls engin vinnu­til­gáta, enda hefði mig ekki órað fyrir henni fyrir­fram. Hún er heldur hnoðuð úr álykt­unum af athug­unum: að þegar nógu lengi hafi verið látið undan vilj­anum til að láta eins og ekkert sé öðlist hann sjálf­stætt líf og fari langt fram úr upphaf­lega tilefn­inu. Hann gangi lengra en þörf krefur til að standa vörð um mynd­ina af hinu góða lífi, fari fram úr fjár­hags­legum stund­ar­hags­munum, hvað þá lang­tíma­hags­munum, losni alfarið frá verð­mati lífs og heilsu, tröll sem kann bara að hlæja og segja nei og hafnar jafn­vel einföldum hugmyndum um litlar tilfærslur sem varnað gætu tölu­verðu tjóni. Tröllið þrákelkni er þannig mótfallið ýmsu sem gæti þó komið skjól­stæð­ingum þess til góða. Það er mótfallið því að huga að loftræst­ingu bygg­inga, þó að hún gæti lækkað smittíðni og auðveldað fyrir­tækjum að starfa í faraldr­inum, það er mótfallið því að ræða hvers konar grímur veita betri vörn en aðrar. Það er mótfallið umræðu um annað tjón en dauðs­föll, hvað veiru­sýk­ingar geta þýtt til langs tíma, um afleið­ingar þess að veiran komist í taugar og heila, hvort heilarýrnun er algeng, hvort hún er varan­leg, og svo fram­vegis. Líklega er það ótta­slegið, kannski eftir fyrstu lokanir, hrætt um að rann­sóknir, samtal, stað­reyndir gætu valdið viðlíka raski aftur. Hvað sem veldur leggur það sig fram um að eyða öllu slíku tali og dreifa athygl­inni heldur hvert sem er, bein­línis hvert sem er, annað. Í krafti óttans við smávægi­legar hliðr­anir í dag hættir það á umtals­vert meira rask á morgun og hinn. Og hinn og hinn og hinn.

Að hugsa um farald­ur­inn er þá að máta hann við þrjár vinnu­til­gátur og eitt tröll. Gegnum eitt og eitt dæmi í einu. Að baki, yfir­vinnu­til­gátan eina, alltaf hreint: að eina leiðin til að vita hvar maður er staddur sé að hafa einhverja hugmynd um hvar maður er ekki.