Blogg er auðvitað ekki þess háttar vettvangur að það sem þar birtist þurfi að hafa neitt upp á sig. Ég gæti þess vegna birt eintóm greinarmerki hér næsta árið án þess að þurfa að svara fyrir það. Nema þá að ég færi sjálfur að undrast það og krefja mig skýringa. Sem hæfir kannski ágætlega á föstudegi: Hvað er ég að gera þegar ég skrifa hér hverja færsluna á fætur annarri um smitsjúkdóm? Hvað held ég að það hafi upp á sig?
Kosturinn við að skrifa frekar en tala bara, hvað þá hugsa í hljóði, er að þá eru minni líkur á að maður hlaupi bara í hringi um sama þrástefið. Þegar vel lætur, í öllu falli. Teoretískt.
Að því sögðu er hér auðvitað þrástef. Það er þetta: að við gætum verið að tækla faraldurinn allt öðruvísi. „Gætum“ felur hér ekki í sér eintóma hugmynd, heldur raunverulegt val, sem birtist í öðrum löndum. Kína, Nýja Sjáland, Hong Kong, Tævan – í þessum löndum, meðal annarra, hefur fjöldi dauðsfalla verið lægri en á Íslandi, miðað við íbúafjölda. Þar er smitum nú haldið nálægt núlli, sem þýðir að í flestu tilliti getur flest fólk þar frekar um frjálst höfuð strokið en hér.
Ekki svo að skilja að hingað til hafa dauðsföll verið einna fæst á Íslandi, meðal Vesturlanda. Við erum í fremstu röð í riðlinum. Enda snýr möguleg krítík ekki að þessu tiltekna landi, einu sér, heldur heimshlutanum og ríkjandi hugmyndafræði, eins og það hefur stundum verið kallað: safn og kerfi þeirra hugmynda sem hafa skotið svo föstum rótum að þær koma okkur ekki lengur fyrir sjónir sem hugmyndir heldur eitthvað sjálfgefið, nálægt náttúrulögmáli. Þyngdaraflið er ekki háð hugmyndum okkar. Ef þú sleppur þungum hlut dettur hann niður. En flestu öðru ráðum við.
Þar á meðal faraldrinum. Ef ekki væri fyrir ríkin sem fást við hann á annan veg mætti efast um það. Ef öll ríki heims beittu sömu aðferð í þágu sama markmiðs þá kæmi það okkur ef til vill fyrir sjónir sem óhjákvæmilegt. En vegna þess að þau gera það ekki þá blasir við að þó að allt hafi þetta byrjað sem einhvers konar náttúruhörmungar þá er faraldurinn í dag, í fimmtu bylgju hans í okkar heimshluta, nær því að vera hreinræktuð menningarafurð. Afsprengi ákvarðana, stefnu og mistaka. Hann er gerður úr brestum okkar og vöntunum. Ríkjandi hugmyndafræði holdi tekin (ef hold má kalla, veirur eru svo smáar að allar SARS-CoV‑2 veirur heimsins kæmust víst fyrir í nokkrum bónuspokum).
Eitt grundvallaratriði í ríkjandi hugmyndafræði hér er hugmyndin um mælanleika, að öllum viðfangsefnum sé best að mæta sem mælanlegum og útreiknanlegum. Frá þeim sjónarhóli birtast allar rauðar línur og afdráttarleysi sem eitthvað vanstillt, sem öfgar. Þannig þykir til marks um yfirvegaða dómgreind að reikna út hversu mörg dauðsföll samfélag getur fallist á af völdum faraldurs, á móti öðrum kostnaði. Þokkalegur, notaður bíll getur kostað á við tíu þúsund epli. Innan sama ramma getur eins manns dauði jafnast á við óþægindi tíu þúsund manns af því að ganga með grímu eða komast ekki á tónleika.
Ég hef það þá fyrir vinnutilgátu að samfélag sem byggir á mælanleikanum einum feli í sér alvarlega bresti, að sumt sé og eigi að vera ósammælanlegt og því sé bæði vit í og þörf fyrir afdráttarlausar, rauðar línur. Ég held að faraldurinn sé veigamesta tilefni sem lengi hefur komið upp til að athuga það.
Ég hef það líka fyrir vinnutilgátu að við búum undir oki mynda. Nánar til tekið mynda af hinu góða lífi. Að hugmyndir okkar um hið góða líf – breitt svið, sem nær frá sundferðum, sólarströndum, til listasýninga, tónleika, kaffihúsaferða og víðar – að myndin af því sem maður nýtur og gefur lífi manns gildi geti á stundum reynst sterkara afl en sú spurning hvort maður njóti þess og hvort það gefur lífi manns gildi. Myndirnar geti jafnvel reynst sterkara afl en það lykilinnsæi lífverunnar að forðast lífshættu. Strengjakvartettinn sem sagt er að hafi haldið áfram að spila um borð í Titanic á meðan skipið sökk ber með sér ákveðna fegurð og einhverjum finnst kannski nógu mikið til daglegs lífs á Vesturlöndum koma til að líta forgangsröðun hversdagsins í því fagurfræðilega ljósi, en sjálfur hneigist ég heldur til að líta á hana sem lífshættulega þráhyggju.
Þriðja vinnutilgátan snýst um hreina efnislega hagsmuni. Fjárhagslegir hagsmunir allra sem eiga yfirleitt nokkurra fjárhagslegra hagsmuna að gæta felast í því, á undan öllu öðru, að lífið gangi sinn vanagang. Að launafólk mæti til vinnu og skapi arð, að lántakendur greiði af lánum, leigjendur greiði leigu, og svo framvegis. Þessi reglubundni taktur, án hans standast engir útreikningar. Og hann hvílir á nokkrum lykilstoðum. Foreldrar komast ekki til vinnu, til dæmis, nema börn þeirra komist í skóla. Jafnvel skammsýnustu hagsmunahafar í þessu hagkerfi sjá mikilvægi taktfestunnar. Vinnutilgátan er þá sú að áhrif þessara hagsmuna á alla umfjöllun og upplýsingamiðlun séu veruleg, fjöldi hagsmunaaðila rói öllum árum að því að beina athygli frá hverju því sem gæti sett daglegt líf úr skorðum. Ef tveir vísindamenn tala sama daginn, annar segir að fólki sé óhætt að anda rólega og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, hinn að réttast væri að loka allri starfsemi í þrjár vikur til að binda enda á faraldurinn, sé eiginlega óhugsandi að sá seinni njóti sömu áheyrnar og sá fyrri.
Fjórða vinnutilgátan er loks eiginlega alls engin vinnutilgáta, enda hefði mig ekki órað fyrir henni fyrirfram. Hún er heldur hnoðuð úr ályktunum af athugunum: að þegar nógu lengi hafi verið látið undan viljanum til að láta eins og ekkert sé öðlist hann sjálfstætt líf og fari langt fram úr upphaflega tilefninu. Hann gangi lengra en þörf krefur til að standa vörð um myndina af hinu góða lífi, fari fram úr fjárhagslegum stundarhagsmunum, hvað þá langtímahagsmunum, losni alfarið frá verðmati lífs og heilsu, tröll sem kann bara að hlæja og segja nei og hafnar jafnvel einföldum hugmyndum um litlar tilfærslur sem varnað gætu töluverðu tjóni. Tröllið þrákelkni er þannig mótfallið ýmsu sem gæti þó komið skjólstæðingum þess til góða. Það er mótfallið því að huga að loftræstingu bygginga, þó að hún gæti lækkað smittíðni og auðveldað fyrirtækjum að starfa í faraldrinum, það er mótfallið því að ræða hvers konar grímur veita betri vörn en aðrar. Það er mótfallið umræðu um annað tjón en dauðsföll, hvað veirusýkingar geta þýtt til langs tíma, um afleiðingar þess að veiran komist í taugar og heila, hvort heilarýrnun er algeng, hvort hún er varanleg, og svo framvegis. Líklega er það óttaslegið, kannski eftir fyrstu lokanir, hrætt um að rannsóknir, samtal, staðreyndir gætu valdið viðlíka raski aftur. Hvað sem veldur leggur það sig fram um að eyða öllu slíku tali og dreifa athyglinni heldur hvert sem er, beinlínis hvert sem er, annað. Í krafti óttans við smávægilegar hliðranir í dag hættir það á umtalsvert meira rask á morgun og hinn. Og hinn og hinn og hinn.
Að hugsa um faraldurinn er þá að máta hann við þrjár vinnutilgátur og eitt tröll. Gegnum eitt og eitt dæmi í einu. Að baki, yfirvinnutilgátan eina, alltaf hreint: að eina leiðin til að vita hvar maður er staddur sé að hafa einhverja hugmynd um hvar maður er ekki.