Fyrirtæki mega nú kalla starfsfólk til vinnu þó að það hafi orðið útsett fyrir smiti og hætti þannig á að smita aðra, að því gefnu að það hafi verið bólusett þrisvar eða sjálft fengið covid eftir tvær bólusetningar. Þetta kom fram í frétt RÚV á laugardag, undir fyrirsögninni „Breyta varð reglum um sóttkví til að verja þjóðfélagið“.
Er þetta stefnubreyting, spyr þá fréttamaður. Heilbrigðisráðherra svarar hvorki já né nei en segir stöðuna breytta vegna hins „nýja óvinar“, ómikron-afbrigðisins: „Nú er útbreiðsla smita bara orðin það mikil að það er ýmislegt sem er farið að hökta og við ætlum ekki að láta þessa veiru leggja okkur. Við ætlum að gera það sem við þurfum að gera, en þó alltaf með sóttvarnarök að baki.“
Að ýmislegt er í reynd farið að hökta staðfestir önnur frétt sama dag: „Hækka þurfi viðbúnaðarstig á landsvísu og herða samkomutakmarkanir“ sagði fyrirsögn á Vísi. Þar er rætt við Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, forstjóra Landspítalans. Hún segir að sjúkrahúsið muni ekki ráða við álagið ef svartsýnustu spár ganga eftir. „Það þarf að hægja á samfélaginu til að draga úr smitum og við vitum hvernig það gengur fyrir sig,“ segir hún. „Ég held að það sé okkar eina leið.“
En þetta er ekki höktið sem ráðherrann hefur í huga. Höktið sem hann á við heyrist þegar RÚV leitar álits Samtaka atvinnulífsins á ákvörðun hans. Fulltrúi samtakanna segir skjólstæðinga sína fara á mis við tíu til tólf milljarða króna á þessum ársfjórðungi, verði heilsu fólks ekki stefnt í frekari voða. „En auðvitað eftir fréttir gærdagsins,“ bætir hún við, og vísar þar til ákvörðunar ráðherrans, „verður kostnaðurinn eitthvað lítillega lægri“.
Ráðherrann ákvað með öðrum orðum að skerða rétt almennings til sóttvarna og auka álagið á heilbrigðiskerfið til að verja hluthafana sem hann kallar „þjóðfélagið“. Það er ekki óvænt. En hann nefndi sóttvarnarök: „Við ætlum að gera það sem við þurfum að gera, en þó alltaf með sóttvarnarök að baki“. Hver eru sóttvarnarökin? Fela þau í sér að þessi ákvörðun breyti miklu um áhættu annarra, litlu, engu?
Eins konar svar við því birtist í pistli sóttvarnalæknis sama dag. „Faglegar ástæður,“ skrifar hann, „fyrir þessum nýju reglum eru þær, að nýleg rannsókn í New England Journal of Medicine sem birt var 5. janúar sl. sýnir, að tvíbólusettir eru bæði ólíklegri til að taka smit og smita aðra. Hér var um að ræða smit af völdum alfa og delta afbrigðis kórónaveirunnar en líklegt að það sama gildi um ómícron afbrigðið sérstaklega hjá þríbólusettum.“
Einhver gæti sagt þetta heldur langt seilst í að láta veiruna njóta vafans – en gott og vel, þetta sem ráðherra kallar þjóðfélagið er í húfi. Hvað er það þá sem þessi rannsókn leiddi í ljós?
„Áhrif Covid-19 bólusetningar á smit alfa- og delta-afbrigðanna“ er titill hennar1. Niðurstöðukaflinn er að vanda skýr, honum er ætlað að vera aðgengilegur sem flestum. Í þetta sinn er hann einnig stuttur, tvær setningar. Á íslensku er fyrri setningin svohljóðandi:
„Bólusetningu fylgdi minni fækkun smita af delta-afbrigðinu en alfa-afbrigðinu, og áhrif bólusetningarinnar dvínuðu með tíma.“2
Minni fækkun smita. Dvínar með tíma. Er ég að lesa ranga rannsókn? Nei, engin önnur rannsókn um þetta viðfangsefni birtist þennan dag í þessu riti. Þessi skýra meginniðurstaða er ítrekuð og útlistuð örlítið nánar í umræðukafla skýrslunnar:
„Vörn gegn því að bera áfram smit dvínaði á 3ja mánaða tímabilinu eftir seinni bólusetningu. Einhver vörn var enn til staðar gegn alfa-afbrigðinu, en vörnin gegn því að bera áfram smit delta-afbrigðisins tapaðist að miklu leyti“.3
Skrítið, hugsa ég og leita áfram logandi ljósi. Eitthvað hlýtur að mega finna hér sem felur í sér stuðning við ákvörðun ráðherrans. Það sem kemst næst því reynast vera lokaorð skýrslunnar. Aðeins allra síðustu orðin. Síðasta efnisgreinin í heild er svohljóðandi:
„Delta-afbrigðið hefur borist um hnöttinn og valdið endursýkingum jafnvel á svæðum þar sem bólusetningarhlutfall er hátt. Fjölgun smita frá fólki sem sjálft hefur smitast þrátt fyrir bólusetningu á líklega mikilvægan þátt í þessari útbreiðslu. Það átak til örvunarbólusetningar sem nú er athugað og útfært gæti gagnast við að hafa stjórn á smitum ásamt því að hindra fyrir sýkingar.“4
Allra síðasta setningin – að örvunarbólusetning gæti komið að gagni – virðist vera það sem ráðherrann gæti mögulega haldið sér í. Órannsökuð tilgáta í þessum texta, yfirlýsing um von, eiginlega nær því að vera bæn.
Mér er skylt að halda þeim möguleika opnum að ég sé ólæs. Eða þeim nærtækari möguleika að eitthvert afar mikilvægt smáatriði í rannsókninni hafi farið fram hjá mér, í meginmáli hennar leynist eitthvað sem breytir öllu. Ef ég er læs og ef megininntak rannsóknarinnar er það sem höfundar hennar segja að það sé, þá er það að bólusetning sé ekki áreiðanleg vörn gegn því að smita aðra. Og vandséð hvernig hún gæti afdráttarlausar sagt: nei, ráðherra, ekki breyta þessu ákvæði í reglugerðinni.
Ef það er tilfellið, þá hljótum við að lesa pistil sóttvarnalæknis sem hróp á hjálp. Kóða fyrir: „Mér er haldið föngnum í Borgartúni. Ég get aðeins tjáð það með óviðeigandi vísunum til rannsókna, þar sem þau gá aldrei hvað stendur í þeim. Sendið aðstoð!“
↑1 | Á frummálinu: „Effect of Covid-19 Vaccination on Transmission of Alpha and Delta Variants“. |
---|---|
↑2 | Ég sleppi því að þýða seinni setninguna, sem er tæknilegri, en dregur ekki úr vægi þeirrar fyrri. Síðan er þarna ein enn, innan sviga, um bakhjarla rannsóknarinnar, bresk stjórnvöld. Á frummálinu er kaflinn í heild svohljóðandi: „Vaccination was associated with a smaller reduction in transmission of the delta variant than of the alpha variant, and the effects of vaccination decreased over time. PCR Ct values at diagnosis of the index patient only partially explained decreased transmission. (Funded by the U.K. Government Department of Health and Social Care and others.)“ |
↑3 | Á ensku: „Protection against onward transmission waned during the 3‑month period after the second vaccination. Some protection against the alpha variant remained, but much of the protection against onward transmission of the delta variant was lost, particularly with ChAdOx1 nCoV-19.“ |
↑4 | Upphaflega: „The delta variant has spread globally and caused resurgences of infection even in areas with high vaccination coverage. Increased onward transmission from persons who become infected despite vaccination is probably an important reason for this spread. Booster vaccination campaigns that are being considered and implemented may help to control transmission as well as prevent infections.“ |