Líklega þegjum við meira, allt í allt, en þegar Rás 2 var stofnuð, fyrir tæpum 40 árum síðan. Töluverður hluti samskipta okkar hafa færst á lyklaborð og skjái. Talfærin eru því mögulega vanrækt á fleiri máta en einn. En af öllum þeim íþróttum sem við áður stunduðum með raddböndunum held ég að opinberar þrætur séu einna verst á sig komnar, svo illa leiknar af yfirvegun, stillingu og góðu skapi að það sé beinlínis hættulegt.1
„Rás 2 er fyrst og fremst íslenskt tónlistarútvarp“ segir í síðuhaus á vef stöðvarinnar. Morgunútvarpið veitir hlustendum svolítið talmál á morgnana, milli sjö og níu. Næstu þrjá tíma fyllir tónlistarþátturinn Morgunverkin. Eftir hádegi hefst tónlistarþátturinn Poppland, sem varir í tvo og hálfan tíma. Síðdegisútvarpið er undantekning, hefst klukkan fjögur og varir í klukkustund, með margvíslegu, lífríku talmáli2. Þessi klukkustund er tíminn sem nú gefst því sem áður var þungamiðja í dagskrá Rásar 2. Að henni lokinni hefst tónlistarþátturinn Eldhúsverkin, þá tekur við tónlistarþátturinn Kvöldvaktin, loks tónlistarþátturinn Plata vikunnar eða tónlistarþátturinn Pressan eða tónlistarþátturinn Rokkland eða tónlistarþátturinn Ólátagarður.
Hefur þá Rás 1 tekið við því talmáli sem var skorið úr dagskrá Rásar 2? Já, að einhverju leyti, sumum viðfangsefnum en nei, ekki að formi. Rás 1 talar ofan frá niður. Hún afhendir ekki almenningi dagskrárvaldið, kryfur ekki fyrst og fremst það sem almennir borgarar eru þegar með hugann við heldur lætur hlustendur vita í hverju tíma þeirra væri betur varið. Og vegna þess að hún er í þeim skilningi menningarlega háleit er hún fyrst af öllu stóísk. Hún talar þaðan sem er nægur tími til að hugsa mál til hlítar áður en maður opnar munninn. Rás 1 er ekki ætluð þeim debatt sem ekki hefur verið leiddur til lykta. Ekki áliti annarra en sérfræðinga. Og henni er alls ekki ætlað að miðla skaphita. Hita leiksins. Þar verður engum svo heitt í hamsi eða tekur svo djúpt í árinni að það þætti óhæfa í kvöldverðarboði, að nokkrum svelgdist á eða stæði upp frá borði. Til þess er Mannlegi þátturinn of krúttlegur og vinalegur, Lestin of menntuð, og svo framvegis. Auðvitað er þar fjallað um átakamál en þá úr þeirri yfirveguðu fjarlægð sem fylgir þokkalegri menntun og tiltölulegum forréttindum. Debattinn birtist þar sem forvitnilegur sýnisgripur, með svipuðu tónfalli og sögulegar minjar. Rás 1 er yfirveguð. Það er ekki galli, út af fyrir sig.
En hitt vantar. Í útsendingum Ríkisútvarpsins hefur rýmið fyrir debatt skroppið verulega saman. Debatt þeirra sem eru stödd í honum og eiga þar eitthvað undir.
Flestar einkastöðvarnar eru tónlistarstöðvar, með örfáum frávikum. Á Bylgjunni heyrist rætt um samfélagsmál. Hver sem talar þar heyrist mér þó að sé alltaf ýmist nýbúinn að skipta um eldhúsinnréttingu eða muni gera það bráðlega. Bylgjan er ekki, á ég við, almannaútvarp, markhópur hennar er takmarkaðri en markhópur Rásar 2. Þáttastjórnendur, viðmælendur og áheyrendur eru sammála um ákveðin grunnhnit í tilverunni sem setja öllum ágreiningi þar nokkuð afgerandi skorður. Öðru fremur liggja samtöl á Bylgjunni þó undir oki góða skapsins, kröfu um stemningu sem mikilvægt þykir að raska ekki. Harmageddon á X‑inu var hugsanlega síðasti vettvangur opinnar þrætu um samfélagsmál á einkastöðvunum, það er samræðu sem ekki er leidd til lykta áður en hún hefst. Sá þáttur er ekki lengur á dagskrá.
Hver sem vill heyra átök um brennandi viðfangsefni í rauntíma situr því uppi með Útvarp Sögu. Ég opna vefsíðu Útvarps Sögu og rekst strax á myndatextann: „Móðursýki sósíalistanna í alþjóðastofnunum eins og WHO virðist eiga fá takmörk“. Útvarp Saga er að verulegu leyti heimskulegur áróðursmiðill með þunga slagsíðu til popúlíska hægrisins.
Þeim hefur líklega fækkað sem sækja menntun um möguleika talfæra sinna í dagskrá útvarpsstöðva. Ég er þó ekki viss um að annað hafi beinlínis komið í staðinn. Hlaðvörp eru til en njóta ekki viðlíka hlustunar. Ef ég væri ungur og áhrifagjarn hlustandi í dag held ég útvarpsdagskráin gerði mér ljóst að það væri eftirsóknarvert að standa utan við debatt, sýna honum í mesta lagi mannfræðilegan áhuga, eins og framandi siðum fyrri tíma. Að taka beinan þátt í honum myndi mér skiljast að væri fyrir neðan virðingu almennilegs fólks, enda þræti almennilegt fólk ekki, heldur hlusti þar til það veit og opni þá fyrst munninn. Ég yrði þess áskynja, held ég, að þrætur séu til marks um þekkingarskort, mögulega skaðlegar lýðræðinu, og fari auk þess alltaf fram í sama þreytandi tónfallinu. (Ef ég hlustaði vel yrði ég jafnvel óviss um að þrætur væru raunverulega til, að ágreiningur geti átt sér stað í samtali. Jafnvel á talmálsstöðinni einu er í reynd lítið þrætt nema við fjarverandi andstæðinga. Hversu hátt sem þáttastjórnendum og viðmælendum þeirra liggur rómur eru þau oftast á einu máli, andstæðingurinn einhvers staðar allt annars staðar.) Að þrætur geti verið hvort tveggja í senn, vandaðar og skapheitar, harðar og upplýsandi, jafnvel dónalegar og göfgandi, ég sé ekki hvers vegna það ætti nokkru sinni að hvarfla að mér.
Ég myndi líklega álykta að um allt sem mestu máli skiptir sé almennilegt fólk sammála. Að vera svo ósammála í einhverju máli að manni geti orðið heitt í hamsi – og hvað þá á almannafæri – sé til marks um vanstillingu, svolítið eins og að vera með sósublett á skyrtunni sinni, og það beri að forðast.
Ég ætla ekki að kenna útvarpinu um þetta undarlega ástand, yfirvegunina og góða skapið. Dagskráin er stjórntæki en hún er þó sennilega einkenni frekar en hinsta orsök. En hvar sem öll þessi yfirvegun er sprottin er hún ekki meinlaus. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hversu mikil veikindi og hve mörg dauðsföll okkur þykja ásættanlegur fórnarkostnaður fyrir hagkerfið og þetta sem við höldum áfram að kalla „eðlilegt líf“ á meðan við gleymum hvað það var og um hvað það snerist. Ef til er nokkur veigamikil spurning sem varðar alla meðlimi samfélags jafnt, þá er það þessi. Ég geri ráð fyrir að fjöldi foreldra sé nú á nálum yfir þeirri tilhugsun að senda börnin sín í skóla til að sópa upp veirusýkingum. Ég geri ráð fyrir að sama eigi við um þúsundir langveikra og aðstandenda þeirra, yfir þeirri stefnu að draga þessa viðvarandi lífshættu á langinn. Ég veit að daglegt líf hvers sem starfar við umönnun er umlukið suðandi ótta, bæði í og utan vinnu, um þær áður hversdagslegu athafnir sem nú geta kostað skjólstæðinga þeirra lífið. Raddir þessara hópa eru meðal þeirra sem heyrast varla á opinberum vettvangi. Sannarlega ekki jafn oft og heyrist í tónleikahöldurum eða talsmönnum rútufyrirtækja. Ég held að það sé einkenni á sama ástandi og útvarpsdagskráin, kröfunni um yfirvegun og gott skap, sem liggur yfir landinu eins og mara, heldur niðri gagnrýni, sljóvgar dómgreindina, getur verið banvæn.
↑1 | Ég hef editerað textann lítillega eftir birtingu, án þess þó að breyta neinum meginatriðum, held ég. |
---|---|
↑2 | Innan stjórnsýslunnar teldist ég vanhæfur til að mæra Síðdegisútvarpið, vegna tengsla sem ég ætla þó ekki einu sinni að tíunda og hvað þá láta þau aftra mér hér, á akri míns óakademíska frelsis. |