Undir oki yfir­veg­unar – bjart­sýn­is­dagur 663

03.1.2022 ~ 6 mín

Líklega þegjum við meira, allt í allt, en þegar Rás 2 var stofnuð, fyrir tæpum 40 árum síðan. Tölu­verður hluti samskipta okkar hafa færst á lykla­borð og skjái. Talfærin eru því mögu­lega vanrækt á fleiri máta en einn. En af öllum þeim íþróttum sem við áður stund­uðum með radd­bönd­unum held ég að opin­berar þrætur séu einna verst á sig komnar, svo illa leiknar af yfir­vegun, still­ingu og góðu skapi að það sé bein­línis hættu­legt.1

„Rás 2 er fyrst og fremst íslenskt tónlistar­út­varp“ segir í síðu­haus á vef stöðv­ar­innar. Morg­unút­varpið veitir hlust­endum svolítið talmál á morgn­ana, milli sjö og níu. Næstu þrjá tíma fyllir tónlist­ar­þátt­ur­inn Morg­un­verkin. Eftir hádegi hefst tónlist­ar­þátt­ur­inn Popp­land, sem varir í tvo og hálfan tíma. Síðdeg­isút­varpið er undan­tekn­ing, hefst klukkan fjögur og varir í klukku­stund, með marg­vís­legu, lífríku talmáli2. Þessi klukku­stund er tíminn sem nú gefst því sem áður var þunga­miðja í dagskrá Rásar 2. Að henni lokinni hefst tónlist­ar­þátt­ur­inn Eldhús­verkin, þá tekur við tónlist­ar­þátt­ur­inn Kvöld­vaktin, loks tónlist­ar­þátt­ur­inn Plata vikunnar eða tónlist­ar­þátt­ur­inn Pressan eða tónlist­ar­þátt­ur­inn Rokk­land eða tónlist­ar­þátt­ur­inn Óláta­garður.

Hefur þá Rás 1 tekið við því talmáli sem var skorið úr dagskrá Rásar 2? Já, að einhverju leyti, sumum viðfangs­efnum en nei, ekki að formi. Rás 1 talar ofan frá niður. Hún afhendir ekki almenn­ingi dagskrár­valdið, kryfur ekki fyrst og fremst það sem almennir borg­arar eru þegar með hugann við heldur lætur hlust­endur vita í hverju tíma þeirra væri betur varið. Og vegna þess að hún er í þeim skiln­ingi menn­ing­ar­lega háleit er hún fyrst af öllu stóísk. Hún talar þaðan sem er nægur tími til að hugsa mál til hlítar áður en maður opnar munn­inn. Rás 1 er ekki ætluð þeim debatt sem ekki hefur verið leiddur til lykta. Ekki áliti annarra en sérfræð­inga. Og henni er alls ekki ætlað að miðla skap­hita. Hita leiks­ins. Þar verður engum svo heitt í hamsi eða tekur svo djúpt í árinni að það þætti óhæfa í kvöld­verð­ar­boði, að nokkrum svelgd­ist á eða stæði upp frá borði. Til þess er Mann­legi þátt­ur­inn of krútt­legur og vina­legur, Lestin of menntuð, og svo fram­vegis. Auðvitað er þar fjallað um átaka­mál en þá úr þeirri yfir­veg­uðu fjar­lægð sem fylgir þokka­legri menntun og tiltölu­legum forrétt­indum. Debatt­inn birt­ist þar sem forvitni­legur sýnis­gripur, með svip­uðu tónfalli og sögu­legar minjar. Rás 1 er yfir­veguð. Það er ekki galli, út af fyrir sig.

En hitt vantar. Í útsend­ingum Ríkis­út­varps­ins hefur rýmið fyrir debatt skroppið veru­lega saman. Debatt þeirra sem eru stödd í honum og eiga þar eitt­hvað undir.

Flestar einka­stöðv­arnar eru tónlist­ar­stöðvar, með örfáum frávikum. Á Bylgj­unni heyr­ist rætt um samfé­lags­mál. Hver sem talar þar heyr­ist mér þó að sé alltaf ýmist nýbú­inn að skipta um eldhús­inn­rétt­ingu eða muni gera það bráð­lega. Bylgjan er ekki, á ég við, almanna­út­varp, mark­hópur hennar er takmark­aðri en mark­hópur Rásar 2. Þátta­stjórn­endur, viðmæl­endur og áheyr­endur eru sammála um ákveðin grunn­hnit í tilver­unni sem setja öllum ágrein­ingi þar nokkuð afger­andi skorður. Öðru fremur liggja samtöl á Bylgj­unni þó undir oki góða skaps­ins, kröfu um stemn­ingu sem mikil­vægt þykir að raska ekki. Harma­geddon á X‑inu var hugs­an­lega síðasti vett­vangur opinnar þrætu um samfé­lags­mál á einka­stöðv­unum, það er samræðu sem ekki er leidd til lykta áður en hún hefst. Sá þáttur er ekki lengur á dagskrá.

Hver sem vill heyra átök um brenn­andi viðfangs­efni í raun­tíma situr því uppi með Útvarp Sögu. Ég opna vefsíðu Útvarps Sögu og rekst strax á mynda­text­ann: „Móður­sýki sósí­al­ist­anna í alþjóða­stofn­unum eins og WHO virð­ist eiga fá takmörk“. Útvarp Saga er að veru­legu leyti heimsku­legur áróð­ursmið­ill með þunga slag­síðu til popúlíska hægrisins.

Þeim hefur líklega fækkað sem sækja menntun um mögu­leika talfæra sinna í dagskrá útvarps­stöðva. Ég er þó ekki viss um að annað hafi bein­línis komið í stað­inn. Hlað­vörp eru til en njóta ekki viðlíka hlust­unar. Ef ég væri ungur og áhrifa­gjarn hlust­andi í dag held ég útvarps­dag­skráin gerði mér ljóst að það væri eftir­sókn­ar­vert að standa utan við debatt, sýna honum í mesta lagi mann­fræði­legan áhuga, eins og fram­andi siðum fyrri tíma. Að taka beinan þátt í honum myndi mér skilj­ast að væri fyrir neðan virð­ingu almenni­legs fólks, enda þræti almenni­legt fólk ekki, heldur hlusti þar til það veit og opni þá fyrst munn­inn. Ég yrði þess áskynja, held ég, að þrætur séu til marks um þekk­ing­ar­skort, mögu­lega skað­legar lýðræð­inu, og fari auk þess alltaf fram í sama þreyt­andi tónfall­inu. (Ef ég hlustaði vel yrði ég jafn­vel óviss um að þrætur væru raun­veru­lega til, að ágrein­ingur geti átt sér stað í samtali. Jafn­vel á talmáls­stöð­inni einu er í reynd lítið þrætt nema við fjar­ver­andi andstæð­inga. Hversu hátt sem þátta­stjórn­endum og viðmæl­endum þeirra liggur rómur eru þau oftast á einu máli, andstæð­ing­ur­inn einhvers staðar allt annars staðar.) Að þrætur geti verið hvort tveggja í senn, vand­aðar og skap­heitar, harðar og upplýs­andi, jafn­vel dóna­legar og göfg­andi, ég sé ekki hvers vegna það ætti nokkru sinni að hvarfla að mér.

Ég myndi líklega álykta að um allt sem mestu máli skiptir sé almenni­legt fólk sammála. Að vera svo ósam­mála í einhverju máli að manni geti orðið heitt í hamsi – og hvað þá á almanna­færi – sé til marks um vanstill­ingu, svolítið eins og að vera með sósu­blett á skyrt­unni sinni, og það beri að forðast.

Ég ætla ekki að kenna útvarp­inu um þetta undar­lega ástand, yfir­veg­un­ina og góða skapið. Dagskráin er stjórn­tæki en hún er þó senni­lega einkenni frekar en hinsta orsök. En hvar sem öll þessi yfir­vegun er sprottin er hún ekki mein­laus. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri spurn­ingu hversu mikil veik­indi og hve mörg dauðs­föll okkur þykja ásætt­an­legur fórn­ar­kostn­aður fyrir hagkerfið og þetta sem við höldum áfram að kalla „eðli­legt líf“ á meðan við gleymum hvað það var og um hvað það sner­ist. Ef til er nokkur veiga­mikil spurn­ing sem varðar alla meðlimi samfé­lags jafnt, þá er það þessi. Ég geri ráð fyrir að fjöldi foreldra sé nú á nálum yfir þeirri tilhugsun að senda börnin sín í skóla til að sópa upp veiru­sýk­ingum. Ég geri ráð fyrir að sama eigi við um þúsundir lang­veikra og aðstand­enda þeirra, yfir þeirri stefnu að draga þessa viðvar­andi lífs­hættu á lang­inn. Ég veit að daglegt líf hvers sem starfar við umönnun er umlukið suðandi ótta, bæði í og utan vinnu, um þær áður hvers­dags­legu athafnir sem nú geta kostað skjól­stæð­inga þeirra lífið. Raddir þess­ara hópa eru meðal þeirra sem heyr­ast varla á opin­berum vett­vangi. Sann­ar­lega ekki jafn oft og heyr­ist í tónleika­höld­urum eða tals­mönnum rútu­fyr­ir­tækja. Ég held að það sé einkenni á sama ástandi og útvarps­dag­skráin, kröf­unni um yfir­vegun og gott skap, sem liggur yfir land­inu eins og mara, heldur niðri gagn­rýni, sljóvgar dómgreind­ina, getur verið banvæn.

References
1 Ég hef editerað text­ann lítil­lega eftir birt­ingu, án þess þó að breyta neinum megin­at­riðum, held ég.
2 Innan stjórn­sýsl­unnar teld­ist ég vanhæfur til að mæra Síðdeg­isút­varpið, vegna tengsla sem ég ætla þó ekki einu sinni að tíunda og hvað þá láta þau aftra mér hér, á akri míns óaka­demíska frelsis.